Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.1. bls. 4-5
  • Sjálfsvígsfaraldur unga fólksins

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sjálfsvígsfaraldur unga fólksins
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Vandamálið er alls staðar
  • Víðtækur vandi
    Vaknið! – 2002
  • Hvers vegna gefst fólk upp á lífinu?
    Vaknið! – 2002
  • Þegar vonin og ástin hverfur
    Vaknið! – 1999
  • Er sjálfsmorð lausnin?
    Vaknið! – 1994
Sjá meira
Vaknið! – 1999
g99 8.1. bls. 4-5

Sjálfsvígsfaraldur unga fólksins

RÉTT eins og stríð, morð og hermdarverk nægi ekki til að tortíma unga fólkinu bætist við sjálfseyðilegging. Neysla fíkniefna og misnotkun áfengis skemmir huga og líkama þess og margir deyja. Fíkniefni kosta æ fleiri ungmenni lífið — þau taka of stóran skammt, annaðhvort óvart eða af ásetningi.

Vikuritið Morbidity and Mortality Weekly Report frá 28. apríl 1995 segir að „sjálfsvíg sé þriðja algengasta dánarorsök bandarískra unglinga á aldrinum 15-19 ára.“ Dr. J. J. Mann segir í ritinu The Decade of the Brain: „Rösklega 30.000 Bandaríkjamenn fyrirfara sér á ári hverju [talan var 31.284 árið 1995]. Því miður eru flestir þeirra ungt fólk . . . Tífalt fleiri reyna að svipta sig lífi en tekst ekki. . . . Læknum er mikill vandi á höndum að segja fyrir um hvaða sjúklingar séu líklegir til að fyrirfara sér, því að það er erfitt að greina milli alvarlega þunglyndra sjúklinga, sem reyna að fyrirfara sér, og þeirra sem reyna það ekki.“

Simon Sobo, yfirlæknir geðdeildar New Milford spítalans í Connecticut í Bandaríkjunum, segir: „Það hafa fleiri reynt að fyrirfara sér í vor [1995] en nokkurn tíma fyrr þau 13 ár sem ég hef verið hér.“ Þúsundir bandarískra unglinga reyna að stytta sér aldur á ári hverju. Hver einasta tilraun er ákall um hjálp og athygli. Hver getur liðsinnt þessum unglingum áður en það er um seinan?

Vandamálið er alls staðar

Ástandið er ósköp svipað annars staðar í heiminum. Um 30.000 indversk ungmenni sviptu sig lífi árið 1990 að sögn dagblaðsins India Today. Sjálfsvígum ungs fólks hefur fjölgað í Finnlandi, Frakklandi, Hollandi, Ísrael, Kanada, Nýja-Sjálandi, Spáni, Sviss og Taílandi. Í skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) frá 1996 segir að sjálfsvíg unglinga séu algengust í Finnlandi, Lettlandi, Litháen, Nýja-Sjálandi, Rússlandi og Slóveníu.

Í Ástralíu er sjálfsvígstíðni meðal ungs fólks líka með því hæsta sem gerist í heiminum. Árið 1995 var fjórðungur allra dauðsfalla meðal ungra karla vegna sjálfsvíga og 17 af hundraði meðal ungra kvenna, að sögn dagblaðsins The Canberra Times. Áströlskum drengjum tekst fimmfalt oftar að fyrirfara sér en stúlkum. Hlutfallið er svipað annars staðar í heiminum.

Eru drengir þá líklegri til að reyna að fyrirfara sér en stúlkur? Ekki endilega. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru sjálfsvígstilraunir nánast jafnalgengar hjá báðum kynjunum. Hins vegar eru sjálfsvíg „um það bil fjórfalt fleiri meðal ungra karla en kvenna í iðnríkjum heims samkvæmt nýjustu tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar [WHO].“ — UNICEF: The Progress of Nations.

En þessar skelfilegu tölur segja ekki nema brot af sögunni. Tölur um tíðni sjálfsvíga meðal unga fólksins eru nógu skýrar, en menn gleyma oft eða sjá ekki það sem býr að baki hverri einustu tölu — harmi slegnar fjölskyldur, og sorg, kvöl og örvæntingu þeirra sem eftir lifa og leita svara.

Er hægt að afstýra svona harmleikjum? Við skulum skoða nokkra mikilvæga þætti sem menn hafa bent á að geti fyrirbyggt að ungt fólk grípi til þessa örþrifaráðs.

[Rammi á blaðsíðu 5]

Ólíkar hvatir að baki sjálfsvígum

Margar kenningar eru uppi um það hver sé hvatinn að baki sjálfsvígum. „Sjálfsvíg er afleiðing þess að finnast sem maður sé að kikna undan yfirþyrmandi vandamáli, svo sem félagslegri einangrun, ástvinamissi (einkum maka), skilnaði foreldra í æsku, alvarlegum veikindum, elli, atvinnuleysi, fjárhagserfiðleikum og fíkniefnanotkun.“ — The American Medical Association Encyclopedia of Medicine.

Að sögn félagsfræðingsins Emile Durkheim má í stórum dráttum skipta orsökum sjálfsvíga í fjóra flokka:

1. Eigingjarnar hvatir — Orsökin er „talin sú að fólk er utanveltu í samfélaginu. Þeir sem fyrirfara sér af eigingjörnum hvötum eru að mestu leyti einir og hafa hvorki tengsl við samfélagið né eru háðir því.“ Þeir eru gjarnan einfarar.

2. Óeigingjarnar hvatir — „Einstaklingurinn er svo samgróinn hópnum að honum finnst engin fórn of stór.“ Nefnd eru dæmi eins og japanskir sjálfsmorðsflugmenn í síðari heimsstyrjöldinni og trúarlegir öfgamenn sem sprengja sjálfa sig í loft upp um leið og þeir drepa meinta óvini sína. Einnig má nefna fólk sem fórnar eigin lífi til að vekja athygli á einhverjum málstað.

3. Ráðleysi — „Einstaklingurinn er ófær um að bregðast skynsamlega við kreppuástandi í lífinu og velur þann kost að leysa vandamálið með því að fyrirfara sér. Þetta gerist þegar skyndileg og átakanleg breyting verður á því sambandi sem hann er vanur að hafa við samfélagið.“

4. Uppgjöf — Orsökin er „talin vera of mikil stjórnun af hálfu samfélagsins sem takmarkar grundvallarfrelsi einstaklingsins.“ Þeim sem falla í þennan flokk „finnst þeir ekki eiga sér neina lífvænlega framtíð.“ — Alan L. Berman og David A. Jobes: Adolescent Suicide: Assessment and Intervention.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Skaðleg hegðun sem getur leitt ungt fólk út í sjálfsvíg.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila