Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.1. bls. 6-8
  • Þegar vonin og ástin hverfur

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þegar vonin og ástin hverfur
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Getur ástin bjargað?
  • Vonleysi
  • Sjálfsvígsfaraldur unga fólksins
    Vaknið! – 1999
  • Víðtækur vandi
    Vaknið! – 2002
  • Hvers vegna gefst fólk upp á lífinu?
    Vaknið! – 2002
  • Ætti ég að binda enda á líf mitt?
    Vaknið! – 2008
Sjá meira
Vaknið! – 1999
g99 8.1. bls. 6-8

Þegar vonin og ástin hverfur

SAUTJÁN ára kanadísk stúlka skrifaði niður af hverju hún vildi deyja. Hún taldi meðal annars upp eftirfarandi: ‚Ég er einmana og óttast framtíðina, mér finnst ég standa vinnufélögunum langt að baki, kjarnorkustríð, ósonlagið, ég er virkilega ljót þannig að mér tekst aldrei að ná mér í mann og ég verð ein alla ævi, mér finnst lífið ekki hafa upp á margt að bjóða svo að það er varla þess virði að bíða eftir því, ég hætti að vera öllum öðrum til byrði, það getur enginn sært mig framar.‘

Er þarna að finna einhverjar af ástæðunum fyrir því að ungt fólk fellur fyrir eigin hendi? „Sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök ungs fólks [í Kanada], ef frá eru talin umferðarslys.“ — The Globe and Mail.

Prófessor Riaz Hassan við Flinders-háskóla í Suður-Ástralíu skrifar: „Nokkrar samfélagslegar ástæður virðast hafa veruleg áhrif á það að sjálfsvígum unglinga hefur fjölgað. Þetta eru útbreitt atvinnuleysi meðal ungs fólks, breytingar á fjölskyldulífi Ástrala, aukin fíkniefnanotkun, aukið ofbeldi meðal ungs fólks, geðræn vandamál og breikkandi bil milli ‚fræðilegs frelsis‘ og raunverulegs sjálfræðis.“ Prófessor Hassan bendir einnig á að nokkrar kannanir hafi sýnt að unga fólkið sé fremur svartsýnt á framtíðina, og ráða megi af þeim að „stór hluti unga fólksins [horfi] með beyg og ótta til eigin framtíðar og heimsins. Það sér fyrir sér heim í rústum eftir kjarnorkustríð og stórskemmdan af völdum mengunar og umhverfisspjalla, ómennskt þjóðfélag þar sem tæknin hefur tekið völdin og atvinnuleysi er stjórnlaust.“

Gallup-könnun meðal 16 til 24 ára ungmenna leiddi í ljós fleiri ástæður fyrir sjálfsvígum. Þær eru hið breikkandi bil milli ríkra og fátækra, fjölgun einstæðra foreldra, vaxandi skotvopnaeign, kynferðisofbeldi gagnvart börnum og almenn „vantrú á morgundeginum.“

Tímaritið Newsweek nefnir að í Bandaríkjunum sé „byssueign einn helsti þátturinn [í sjálfsvígum unglinga]. Í samanburðarrannsókn á unglingum, sem fyrirfóru sér en virtust ekki eiga við nein geðræn vandamál að stríða, og krökkum, sem styttu sér ekki aldur, kom aðeins einn munur í ljós: hlaðin byssa á heimilinu. Þar fauk sú hugmynd að byssur séu ekki banvænar.“ Og það eru til hlaðnar byssur á milljónum heimila!

Ótti og ástlaust samfélag getur á augabragði ýtt óhörðnuðum unglingi fram á barm sjálfsvígs. Ofbeldisafbrot eru rösklega helmingi algengari gegn 12 til 19 ára unglingum en gegn fólki almennt. Rannsóknir hafa leitt í ljós að „ungar konur á aldrinum 14 til 24 ára eru í mestri árásarhættu,“ að sögn tímaritsins Maclean’s. „Konur verða oftast fyrir árásum eða eru myrtar af fólki sem segist þykja vænt um þær.“ Og afleiðingin er sú að óttinn við árás eða við eitthvað annað „grefur undan trausti og öryggistilfinningu þessara stúlkna.“ Í einni rannsókn kom í ljós að næstum þriðjungur kvenna, sem hafði verið nauðgað, hafði hugleitt að fyrirfara sér.

Í nýsjálenskri skýrslu er bent á aðra orsök þess að unglingar stytta sér aldur. Þar segir: „Hin almenna efnishyggja og veraldlegt gildismat, þar sem velgengni er lögð að jöfnu við ríkidæmi, fegurð og völd, hefur þau áhrif að mörgu ungu fólki finnst það einskis virði og útskúfað úr samfélaginu.“ Og tímaritið The Futurist bætir við: „[Unglingar] hafa sterka tilhneigingu til að fullnægja löngunum sínum strax; þeir vilja fá allt og fá það fljótt. Þeir horfa helst á sápuóperur í sjónvarpinu. Þeir vilja gjarnan að heimur þeirra sé fullur af laglegu fólki sem er klætt samkvæmt nýjustu tísku, er í áhrifa- og virðingarstöðum og hefur fullt af peningum án þess að þurfa að leggja sérlega hart að sér.“ Þessum óraunsæju og fjarstæðukenndu væntingum er veifað svo mikið framan í unga fólkið að það eitt virðist skapa vissa örvæntingu og getur leitt til sjálfsvígs.

Getur ástin bjargað?

Shakespeare skrifaði: „Ástin huggar eins og sól eftir regn.“ Biblían segir: „Kærleikurinn bregst aldrei.“ (1. Korintubréf 13:8, NW) Í þessum eiginleika liggur rótin að vandamálum ungs fólks í sjálfsvígshugleiðingum — þrá þess eftir ást og þörfin að tala við aðra. Handbókin The American Medical Association Encyclopedia of Medicine segir: „Fólk haldið sjálfsvígshvöt er yfirleitt óhemjueinmana, og finni það heyrandi eyra hjá samúðarfullri og skilningsríkri manneskju nægir það stundum til að hindra að það grípi til örþrifaráða.“

Unglingar hafa oft sterka þörf fyrir ást, samfylgd og samstöðu. Með hverjum degi sem líður verður æ erfiðara að fullnægja þessari þörf í ástlausum og skaðlegum heimi — heimi þar sem unglingar eru ósköp áhrifalitlir. Höfnunarkennd eftir skilnað foreldra getur stuðlað að því að unglingur fyrirfari sér. Og þessi höfnun birtist í mörgum myndum.

Tökum sem dæmi foreldra sem eru sjaldan heima hjá börnum sínum. Kannski eru þeir algerlega uppteknir af vinnunni eða stunda einhverja afþreyingu án barnanna. Þótt óbeint sé fá börnin þau skilaboð að þeim sé hafnað. Hugh Mackay, kunnur blaðamaður og rannsóknarmaður, bendir á að „foreldrar gerist sífellt sjálfselskari. Þeir láta sjálfa sig sitja í fyrirrúmi til að halda sínum lífsstíl. . . . Börn eru komin úr tísku, svo við orðum þetta umbúðalaust. . . . Lífið er erfitt og fólk verður svolítið upptekið af sjálfu sér.“

Í sumum samfélögum er algengt að mönnum finnist það ekki samræmast karlmennskuímyndinni að sinna börnum. Blaðamaðurinn Kate Legge lýsir því ágætlega: „Karlmenn, sem hafa áhuga á almannaþjónustu, taka yfirleitt hjálparsveitar- eða slökkvistarf fram yfir umönnunarstörf . . . Þeir vilja heldur hinn sterka og þögla hetjuskap baráttunnar við utanaðkomandi öfl en störf sem krefjast náinna samskipta við aðra.“ Og fátt krefst auðvitað meiri samskipta við aðra en það að vera foreldri. Að rækja ekki skyldur sínar sem foreldri jafngildir því að hafna barninu. Og af því leiðir að barnið getur fengið neikvæða sjálfsmynd og kann illa að fóta sig í samfélaginu. Tímaritið The Education Digest segir: „Hafi krakkar ekki jákvæða mynd af sjálfum sér vantar þá undirstöðuna til að taka ákvarðanir sem eru þeim fyrir bestu.“

Vonleysi

Rannsóknarmenn telja að vonleysi eigi verulegan þátt í sjálfsvígum. Gail Mason, sem hefur fjallað um sjálfsvíg ungs fólks í Ástralíu, segir: „Talið er að sjálfsvígshugleiðingar séu frekar sprottnar af vonleysi en þunglyndi. Vonleysi er stundum talið eitt af einkennum þunglyndis. . . . Algengt er að það birtist hjá ungu fólki sem almenn örvænting og uppgjöf gagnvart framtíðinni, sér í lagi fjárhagslegri framtíð þess, og að vissu marki vonleysiskennd varðandi ástandið í heiminum.“

Óheiðarleiki og slæmt fordæmi forystumanna er varla hvati fyrir ungt fólk til að gera auknar kröfur til sjálfs sín og eigin siðferðis. Afstaðan verður þessi: „Af hverju ætti ég að reyna að vera heiðarlegur?“ Tímaritið Harper’s Magazine bendir á að unga fólkið hafi næmt auga fyrir hræsni: „Unga fólkið hefur næma tilfinningu fyrir hræsni og það er mjög leikið í lestri — en ekki bóklestri. Það sem það les svo greiðlega eru hinar félagslegu vísbendingar heimsins þar sem það þarf að sjá fyrir sér.“ Og hvað stafa þessar vísbendingar fullum stöfum? Rithöfundurinn Stephanie Dowrick segir: „Aldrei hafa flætt yfir okkur jafnmiklar leiðbeiningar um það hvernig við eigum að lifa. Við höfum aldrei verið ríkari eða menntaðri en nú en samt er örvæntingin alls staðar.“ Og fyrirmyndirnar í efri stigum hins pólitíska og trúarlega þjóðfélags eru ekki margar. Dowrick varpar fram nokkrum viðeigandi spurningum: „Hvernig geta tilgangslausar þjáningar veitt okkur visku, þol og jafnvel tilgang í lífinu? Hvernig ræktum við með okkur kærleika þegar umhverfið er gagnsýrt eigingirni, geðvonsku og græðgi?“

Svörin við þessum spurningum er að finna í næstu grein. Vera má að þau komi þér á óvart.

[Innskot á blaðsíðu 6]

„Stór hluti unga fólksins horfir með beyg og ótta til eigin framtíðar og heimsins.“

[Innskot á blaðsíðu 7]

„Finni það heyrandi eyra hjá samúðarfullri og skilningsríkri manneskju nægir það stundum til að hindra að það grípi til örþrifaráða.“

[Rammi á blaðsíðu 6]

Nokkur hættumerki

• Svefnleysi, lystarleysi.

• Einangrun og fáskiptni, tíð óhöpp.

• Unglingurinn hleypst að heiman.

• Róttækar útlitsbreytingar.

• Neysla fíkniefna og/eða misnotkun áfengis.

• Uppnám og árásarhneigð.

• Unglingurinn talar um dauðann; skrifar um sjálfseyðingu; teiknar myndir af ofbeldi, einkum gegn sjálfum sér.

• Sektarkennd.

• Vonleysi, kvíði, þunglyndi, grátköst.

• Unglingurinn gefur persónulega hluti.

• Skert athyglisgáfa.

• Missir áhuga á ánægjulegum athöfnum.

• Sjálfsgagnrýni.

• Lauslæti.

• Frammistaða og mæting í skóla snarversnar.

• Unglingurinn gengur í trúarreglu eða gengi.

• Sæluvíma eftir þunglyndi.

Byggt á bókinni Teens in Crisis (American Association of School Administrators) og Depression and Suicide in Children and Adolescents eftir Philip G. Patros og Toniu K. Shamoo.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Ást og samkennd getur hjálpað ungu fólki að meta lífið.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila