Sjónarmið Biblíunnar
Er rangt að nefna nafn Guðs?
GYÐINGDÓMURINN hefur kennt um aldaraðir að nafn Guðs, Jehóva, sé svo heilagt að ekki megi nefna það.a (Sálmur 83:19) Margir guðfræðingar hafa haldið því fram að það sé virðingarleysi að ávarpa hinn dýrlega skapara svo kumpánlega, og að það sé jafnvel brot á þriðja boðorðinu um að ‚leggja ekki nafn Guðs við hégóma.‘ (2. Mósebók 20:7) Mísna Gyðinga frá þriðju öld lýsir yfir að „sá sem nefnir nafn Guðs eins og það er stafað“ eigi „enga hlutdeild í hinum komandi heimi.“ — Sanhedrin 10:1.
Athygli vekur að margir fræðimenn kristna heimsins fylgja þessari erfðavenju Gyðinga þegar þeir þýða Biblíuna. Til dæmis segir í formála biblíuþýðingarinnar The New Oxford Annotated Bible: „Hætt var að nota í gyðingdóminum, löngu fyrir daga kristninnar, nokkurt einkanafn fyrir hinn eina og sanna Guð, rétt eins og til væru aðrir guðir sem þyrfti að aðgreina hann frá, og það er algerlega óviðeigandi í almennri trú hinnar kristnu kirkju.“na 20 Þess vegna notar sú biblía orðið „LORD“ (Drottinn) í stað nafns Guðs.
Hver er skoðun Guðs?
En ætli Guð sé sömu skoðunar og slíkir þýðendur og guðfræðingar? Þegar allt kemur til alls faldi Guð ekki nafn sitt fyrir mannkyninu heldur kaus að opinbera það. Nafn Guðs, Jehóva, stendur ríflega 6800 sinnum í hinum hebreska hluta Biblíunnar sem almennt er kallaður Gamla testamentið. Af Biblíunni má sjá að Adam og Eva, fyrstu mannhjónin, þekktu nafnið og notuðu það. Þegar Eva fæddi fyrsta son sinn sagði hún: „Sveinbarn hefi ég eignast með hjálp [Jehóva].“ — 1. Mósebók 4:1.
Öldum síðar kallaði Guð Móse til að leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi og þrælkuninni þar, og þá spurði Móse: „En þegar ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: ‚Guð feðra yðar sendi mig til yðar,‘ og þeir segja við mig: ‚Hvert er nafn hans?‘ hverju skal ég þá svara þeim?“ Móse kann að hafa verið spurn hvort Guð myndi opinbera sig með nýju nafni. En Guð sagði við Móse: „Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ‚[Jehóva], Guð feðra yðar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs sendi mig til yðar.‘ Þetta er nafn mitt um aldur, og þetta er heiti mitt frá kyni til kyns.“ (2. Mósebók 3:13, 15) Ljóst er að hinum sanna Guði fannst nafn sitt ekki svo heilagt að fólk hans mætti ekki nefna það.
Reyndar hafa allar kynslóðir trúrra þjóna Guðs notað nafn hans að vild en með tilhlýðilegri virðingu. Bóas, sem var dyggur þjónn Guðs, hafði fyrir sið að heilsa verkamönnunum á akri sínum með orðunum „[Jehóva] sé með yður!“ Og hneyksluðust verkamennirnir á þessari kveðju? Nei, síður en svo. Frásagan segir að þeir hafi svarað: „[Jehóva] blessi þig!“ (Rutarbók 2:4) Slík kveðjuorð voru alls ekki álitin lítilsvirðing við Guð heldur leið til að heiðra hann og vegsama í dagsins önn. Jesús kenndi lærisveinum sínum að biðja á sömu nótum: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ — Matteus 6:9.
Þriðja boðorðið
En hvað um bannákvæði þriðja boðorðsins? Önnur Mósebók 20:7 segir með áhersluþunga: „Þú skalt ekki leggja nafn [Jehóva] Guðs þíns við hégóma, því að [Jehóva] mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.“
Hvað merkir það, nákvæmlega, að leggja nafn Guðs „við hégóma“? Skýringaritið The JPS Torah Commentary, gefið út af Jewish Publication Society, segir að hebreska orðið (lasjsjaw’ʹ), sem þýtt er „við hégóma,“ geti merkt „ranglega“ eða „til einskis, með lítilsvirðingu.“ Bókin heldur áfram: „[Hebreska orðið] er margrætt og getur merkt bann við meinsæri beggja aðila að málaferlum, rangan eið og ástæðulausa eða léttúðuga notkun á nafni Guðs.“
Þetta gyðinglega skýringarrit bendir réttilega á að það að ‚leggja nafn Guðs við hégóma‘ merki að nota það á óviðeigandi eða rangan hátt. En getur það talist ‚ástæðulaust eða léttúðugt‘ að nefna föður okkar á himnum með nafni þegar við erum að fræða aðra um hann eða leitum til hans í bæn? Jehóva lýsir afstöðu sinni í Sálmi 91:14: „Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.“
Skiptir það máli?
Ensk nútímaþýðing, sem nefnd er The Five Books of Moses, víkur frá hefðinni. Þar er ekki notað hið hefðbundna „LORD“ (Drottinn) fyrir nafn Guðs heldur „YHWH,“ til að „ná fram sömu áhrifum og textinn hefur á hebreskan lesanda.“ Þýðandinn, Everett Fox, ítrekar: „Lesandinn veitir því athygli þegar í stað að einkanafn Guðs Biblíunnar stendur í þessu bindi sem ‚YHWH.‘“ Hann viðurkennir að lesandanum geti þótt „óþægilegt“ að sjá nafn Guðs, en eftir að hafa sýnt það lofsverða framtak að breiða ekki yfir nafnið segir hann: „Ég mæli með að sagt sé ‚DROTTINN‘ í upplestri samkvæmt hefðinni, en hver og einn getur gert eins og hann er vanur.“ En snýst málið einfaldlega um smekk, hefð eða persónulegar venjur?
Nei, Biblían hvetur ekki aðeins til þess að nafn Guðs sé notað heldur beinlínis fyrirskipar það! Í Jesaja 12:4a er fólki Guðs lýst sem það hrópi hátt og snjallt: „Lofið [Jehóva], ákallið nafn hans.“ Sálmaritarinn talar auk þess um fólk sem verðskuldar harðan dóm af hendi Guðs: „Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.“ — Sálmur 79:6; sjá einnig Orðskviðina 18:10; Sefanía 3:9.
Sumir misskilja þriðja boðorðið og forðast þar af leiðandi að nefna hið dýrlega nafn Jehóva, en þeir sem elska nafnið í raun og veru leitast við að ákalla það. Hvenær sem við á ‚gera þeir máttarverk hans kunn meðal þjóðanna og hafa í minnum að háleitt er nafn hans.‘ — Jesaja 12:4b.
[Neðanmáls]
a Í hinum hebreska hluta Biblíunnar (Gamla testamentinu) er nafn Guðs skrifað með fjórum bókstöfum sem má umrita JHVH. Ekki er vitað með vissu hvernig nafnið var borið fram en „Jehóva“ er algengur framburður á íslensku.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Hluti Sálmanna í Dauðahafshandritunum. Nafn Guðs, Jehóva (JHVH), er skrifað með eldra letri en annar texti bókrollunnar.
[Rétthafi]
Birt með góðfúslegu leyfi Shrine of the Book, Israel Museum, Jerusalem