Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.4. bls. 29-30
  • Horft á heiminn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Horft á heiminn
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Sagan upp á yfirborðið
  • Samband við ættleidd börn
  • Syfjaðir ökumenn
  • Halda sér grönnum með reykingum
  • Sex milljarðar á þessu ári
  • Páfagarður á vefnum
  • Hversu margar bakteríur?
  • Einbeittir hundar
  • Stefnir í eitt alþjóðamál?
  • Fílréttindi
Vaknið! – 1999
g99 8.4. bls. 29-30

Horft á heiminn

Sagan upp á yfirborðið

„Floti Napóleons er fundinn á grunnsævi í flóa einum við Miðjarðarhaf, tveim öldum eftir sögufræga orustu sem gerði vonir keisarans um að knésetja breska heimsveldið að engu,“ að sögn dagblaðsins The Toronto Star. Breski sjóherinn, undir stjórn Horatios Nelsons flotaforingja, sökkti flaggskipinu L’Orient og herskipunum La Seriuse og La Artemise árið 1798 í orustunni um Níl. Franski sjávarfornleifafræðingurinn Franck Goddio fann flotann á 11 metra dýpi um tvo kílómetra undan strönd Alexandríu í Egyptalandi. „Það var hér sem örlög Evrópu réðust,“ segir Goddio.

Samband við ættleidd börn

Hjón, sem ætla sér að ættleiða barn, draga stundum upp glansmynd af sambandinu sem stofna á til. Þau halda að barnið verði alltaf ljúft og indælt og að erfiðleikar verði auðleystir og auðskildir. En sú er yfirleitt ekki raunin, að sögn brasilíska dagblaðsins O Estado de S. Paulo. Sálfræðingurinn Heloísa Marton segir: „Foreldrar eru yfirleitt óviðbúnir árekstrum.“ Og „hjónum, sem búast við að barnið verði ævinlega þakklátt,“ á eftir að bregða í brún, að sögn Miriam Debieux Rosa, prófessors við São Paulo háskóla. Hún bendir á að enginn sé hamingjusamur öllum stundum og bætir við: „Foreldrar ímynda sér oft að erfiðleikarnir stafi af því að blóðböndin vantar, en það er ekki rétt.“ Hún minnir á að foreldrar þurfi að sýna tökubarni ást og umhyggju: „Það er ekki nóg að sjá fyrir efnislegum þörfum barnsins eða eiga ópersónulegt samband við það.“ Tilfinningatengsl eru einnig nauðsynleg.

Syfjaðir ökumenn

„Sumir sérfræðingar segja að syfjaðir ökumenn séu ekki síður hættulegir en drukknir ökumenn,“ að sögn tímaritsins The Journal of the American Medical Association. „Syfja er stórlega vanmetinn þáttur í [umferðarslysum] og syfjaðir ökumenn eru alvarleg ógnun við heill og öryggi almennings.“ Að sögn dagblaðsins The Toronto Star hafa rannsóknir leitt í ljós að fólk getur ekki sagt fyrir um hvenær það sofni eða dæmt um eigin syfju. Stephanie Faul, talsmaður Umferðaröryggisstofnunar Félags bandarískra bifreiðaeigenda, bendir á að við þurfum ekkert síður að sofa en að anda og nærast. „Þegar líkaminn þarfnast svefns getur hann hreinlega dottið út.“ Hvað eiga ökumenn að gera þegar þeir eru sígeispandi eða augnalokin síga og bíllinn rásar? „Það dugir hreinlega ekki að draga niður hliðarrúðuna eða hækka í útvarpinu eins og margir gera,“ segir dagblaðið. „Koffín er gott til að hressa mann stutta stund en það dregur ekki úr lífeðlisfræðilegri svefnþörf“ líkamans. Syfjuðum ökumönnum er ráðlagt að leggja bílnum á öruggum stað og fá sér blund.

Halda sér grönnum með reykingum

Kanadíska dagblaðið The Globe and Mail segir að fjöldi unglingsstúlkna fari að reykja til að halda sér grönnum. Í könnun, sem náði til 832 kanadískra og 1936 breskra stúlkna á aldrinum 10 til 17 ára, sögðust margar draga úr matarlystinni með reykingum og sögðust „reykja í stað þess að borða.“ Margar sögðust halda að þær myndu „borða meira og þyngjast ef þær hættu reykingum.“ Dagblaðið sagði „skýrslur benda til að reykingar unglinga ykjust mest meðal stúlkna og það skýrði vaxandi tíðni lungnakrabba meðal kvenna.“

Sex milljarðar á þessu ári

Jarðarbúar fara yfir sex milljarða markið einhvern tíma á þessu ári, að sögn franska dagblaðsins Le Monde. Þó hefur hægt á mannfjölguninni. Árleg mannfjölgun er nú 30 prósentum minni en hún var á sjöunda áratugnum. Þetta má sumpart rekja til aukinnar notkunar getnaðarvarna og meiri menntunar stúlkna. Að sögn blaðsins eru ungmenni á aldrinum 15 til 24 ára rösklega einn milljarður sem stendur, en 587 milljónir manna eru yfir sextugt.

Páfagarður á vefnum

Páfagarður undirritaði samning árið 1994 um að opna vefsetur á Netinu. Nú er hægt að fá trúarlega þjónustu á Netinu, svo sem skriftir og ráðgjöf prests varðandi „allar efasemdir“ í trúarlegum efnum, að sögn dagblaðsins El Financiero. Kaþólskir „netverjar“ geta óskað eftir fyrirbænum á netinu. Þar er líka hægt að sjá beina útsendingu frá sunnudagsblessun páfa. Og svo eru auglýst þar ýmis „tilboð og útsölur á trúarlegu efni.“ „Gallinn er sá að mjög fáar kaþólskar vefsíður fá margar heimsóknir,“ segir blaðið. „Heimasíða Páfagarðs fær innan við 25 heimsóknir á dag, og flestir gestanna eru frá kaþólsku pressunni.“

Hversu margar bakteríur?

Bakteríur eða gerlar eru mjög algengt lífsform á jörðinni. Þær er að finna undir botni dýpstu úthafa og í 60 kílómetra hæð yfir jörð. Heildarmassi þeirra er meiri en nokkurs annars lífsforms. Vísindamenn við Georgíuháskóla í Bandaríkjunum hafa nú freistað þess að áætla fjölda þeirra, og er þetta sennilega fyrsta alvörutilraunin til þess. Talan, sem þeir slá fram, er fimm með 30 núllum á eftir. „Flestir halda að bakteríur valdi sjúkdómum,“ segir Lundúnablaðið The Times. „En einungis örlítið brot þeirra teljast sýklar. Jafnvel þótt lagðar væru saman allar þær bakteríur, sem lifa í öllum dýrum heims, væru þær aðeins um 1 prósent heildarinnar. Flestar bakteríur eru bæði skaðlausar og bráðnauðsynlegar, til dæmis í líkamsstarfsemi eins og meltingu.“ Þótt ótrúlegt sé er 92 til 94 prósent allra baktería að finna í botnseti meira en 10 sentímetrum undir sjávarbotni og í jarðveginum á meira en 9 metra dýpi. Þessi svæði voru hingað til talin nánast lífvana. Kolefni, sem er nauðsynlegt öllu lífi, er um það bil helmingur af þurravigt baktería. „Það er næstum jafnmikið kolefni í bakteríunum eins og í öllum plöntum jarðar,“ segir dagblaðið.

Einbeittir hundar

Hvað gerir hund að góðum fíkniefnahundi? Meðal annars framúrskarandi þefskyn og „óhagganleg einbeiting,“ að sögn tímaritsins New Scientist. „Góður fíkniefnahundur þarf að geta einbeitt sér að fíkniefnaleitinni, þrátt fyrir ys og þys flugstöðvar eða hafnarsvæðis,“ segir í blaðinu. Og þótt venjubundin skoðun á pósti geti tekið margar klukkustundir „einbeita hundarnir sér svo að verkinu að . . . hálft gramm af heróíni . . . falið í úttroðnum póstpoka sleppur ekki fram hjá þeim.“ Árið 1993 var hafin ræktun á hundum sem hefur heppnast einstaklega vel og meira en helmingur hundanna hefur reynst hæfur til fíkniefnaleitar hjá áströlsku tollgæslunni. Hundaræktendurnir leituðu einnig að öðrum einkennum í fari nokkurra hundakynslóða, svo sem þörf fyrir hrós, sterkri veiðihvöt, úthaldi og óttaleysi.

Stefnir í eitt alþjóðamál?

Átta ára drengur segir pabba sínum að hann þurfi að læra ensku. Þetta á sér stað í Asíuríki þar sem vestræn tungumál eru sjaldan töluð. Faðirinn spyr um ástæðuna. „Af því að tölvan talar ensku,“ svarar drengurinn. Tímaritið Asiaweek segir að þessi saga „sýni fram á það sem sumir kalla lævísa aukaverkun upplýsingahraðbrautarinnar . . . möguleikann á að flýta ferlinu í átt að einu alheimstungumáli — ensku.“ Blaðið heldur áfram: „Það sem ræður ferðinni er ekki löngun til að skapa bræðralag allra manna heldur hrein hagkvæmnissjónarmið. Ef við ætlum okkur að taka þátt í stafrænum samræðum og viðskiptum á Netinu þarf sameiginlegan miðil til að viðskiptin gangi greiðlega.“ En af hverju verður enskan ofan á? Af því að „einmenningstölvan og Netið varð til í Ameríku. Um 80 prósent efnis á Netinu er á ensku.“ Í sumum tilvikum dregur úr notkun annarra tungumála vegna þess hve erfitt er að laga þau að lyklaborði sem er gert fyrir ensku. „En þetta kostar sitt,“ segir tímaritið. „Málvísindamenn spá því að helmingur þeirra 6000 tungumála, sem nú eru töluð, verði útdauður í lok næstu aldar, jafnvel innan 20 ára.“

Fílréttindi

Fílar eru mikilvægt vinnuafl víða á Indlandi. Tímaritið The Week segir frá því að í Uttar Pradesh á norðanverðu Indlandi séu fílar á launaskrá hins opinbera sem fullgildir launþegar. Fílar hefja störf um tíu ára gamlir og geta náð allt að 50 ára starfsaldri. Við starfslok eru fílunum greidd eftirlaun líkt og öðrum opinberum starfsmönnum, og fílahirðir útnefndur til að gæta þess að fíllinn fái fóður og viðeigandi umönnun. Kýrin fær ýmis hlunnindi á starfsævi sinni, meðal annars eins árs fæðingarorlof í þægilegum dýragarði áður en hún snýr aftur til sinna mikilvægu starfa við timburflutninga, smölun og tamningu villtra fíla og gæslu þjóðgarða og verndaðra skóga.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila