Konurnar lögðu mikið af mörkum
VIÐ vígslu útibús votta Jehóva í Simbabve hinn 12. desember 1998 var lögð áhersla á hve þýðingarmiklu hlutverki kristnar konur gegndu í byggingarframkvæmdunum. Þau fjögur ár, sem framkvæmdirnar stóðu yfir, gáfu sjálfboðaliðar frá fjölmörgum löndum — meðal annars mörg hundruð frá Simbabve — af tíma sínum, kröftum, kunnáttu og fjármunum til að byggja þau fallegu húsakynni sem sjá má á meðfylgjandi mynd.
Aftan til á myndinni sjást sex álíka stórar íbúðabyggingar. Í stóru byggingunni næst þeim er matsalur, eldhús og þvottahús. Sextíu og eitt svefnherbergi er í íbúðabyggingunum og matsalurinn tekur um 200 í sæti. Skrifstofubyggingin er fremst á myndinni til vinstri, móttakan fyrir miðju og vörugeymslan til hægri, en þar fór vígslan fram.
Þetta fallega útibú í Simbabve í suðurhluta Afríku er aðeins ein bygging af tugum sem ráðist hefur verið í síðan vottar Jehóva hrundu af stað alþjóðlegri byggingaráætlun í nóvember 1985. Tímaritið Vaknið! 22. ágúst 1991 (ensk útgáfa) lýsti þessari áætlun sem „nýjung í alþjóðlegu byggingarstarfi.“
Vaknið! sagði eftirfarandi um þátt kvenna í áætluninni: „Margar hafa verið þjálfaðar í járnbindingu, flísalögn og málningarvinnu. Aðrar annast nauðsynleg þrif og matargerð. Þannig leggja þær allar mikið af mörkum til byggingarframkvæmda um heim allan.“
Á vígsludagskránni í Simbabve fyrir rúmu ári líktu George Evans og James Paulson, sem höfðu umsjón með framkvæmdunum, hlutverki kvenna í byggingu útibúsins við hlutverk kvenna í gerð tjaldbúðarinnar í Ísrael til forna. „Komu þá allir, sem gáfu af fúsum huga,“ segir Biblían um Ísraelsmenn, „og þeir komu, bæði menn og konur.“ — 2. Mósebók 35:21, 22.
Bróðir Evans og bróðir Paulson notuðu frásögu Biblíunnar til að leggja áherslu á þá gæðavinnu sem konurnar höfðu innt af hendi: „Allar hagvirkar konur spunnu með höndum sínum . . . allar konur, sem til þess voru fúsar og höfðu kunnáttu til.“ Já, konur voru í hópi þeirra sem lögðu fúslega sitt af mörkum til verksins. „Hver maður og hver kona, er fúslega vildi láta eitthvað af hendi rakna til alls þess verks, er [Jehóva] hafði boðið Móse að gjöra.“ — 2. Mósebók 35:25, 26, 29.
Haft var eftir umsjónarmönnum framkvæmdanna við útibúið í Simbabve að ‚konurnar hefðu unnið sömu störf og karlmenn,‘ meðal annars við járnbindingu og stjórn þungavinnuvéla. Að sögn bróður Paulsons héldu konurnar steypubílum og öðrum þungavinnuvélum og tækjum tandurhreinum sem karlmenn gera að öllu jöfnu ekki.
Við getum svo sannarlega verið þakklát fyrir þær mörg þúsund konur sem hafa unnið við hlið karlmanna að byggingu útibúa og ríkissala votta Jehóva um heim allan.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Útibúið í Simbabve.