Horft á heiminn
Hljóðmengun
Íbúatala Indlands nálgast einn milljarð. Að sögn S. B. S. Manns, læknis og prófessors við Post Graduate Institute í Chandigarh á Indlandi, er tíundi hver maður eða nærri 100 milljónir manna með skerta heyrn í einhverri mynd. Í ræðu á árlegri ráðstefnu hjá Félagi háls- og eyrnalækna á Indlandi kenndi hann hljóðmengun frá bílflautum, vélum, ökutækjum og flugvélum um þetta alvarlega heilsuvandamál. Hann segir að það megi einnig skella skuldinni á púðurkerlingar sem svo vinsælt er að sprengja á hátíðum. Á Dasehra-hátíðinni eru gríðarstórar eftirmyndir af hindúískum goðsagnaverum, sem tákna ill þjóðfélagsöfl, fylltar með hundruðum púðurkerlinga sem springa með feiknalegum hávaða þegar kveikt er í þeim um land allt. Í kjölfarið fylgir svo hin fimm daga Deepawali-hátíð þegar milljónir púðurkerlinga eru sprengdar.
Af hverju er ekki hægt að kitla sjálfan sig?
„Það er hægt að gera fullvaxinn mann gersamlega ósjálfbjarga með því að kitla hann á réttum stað. En kitlnustu menn geta að minnsta kosti varpað öndinni léttar vitandi það að þeir geta ekki kitlað sjálfa sig,“ segir tímaritið The Economist. Af hverju ekki? Samkvæmt nýlegri rannsókn er svarið að finna í hnyklinum, þeim hluta heilans sem samhæfir hreyfingar. Rannsóknarmenn álíta að hnykillinn bæði samhæfi hreyfingar og eigi þátt í að segja til um viðeigandi skynviðbrögð. Þegar fólk reynir að kitla sjálft sig sér hnykillinn það fyrir og bælir niður tilfinninguna. Þegar einhver annar kitlar mann fara útreikningar hnykilsins og áreitið ekki saman og tilfinningin er ekki bæld niður. Dagblaðið The New York Times lýsir þessu í hnotskurn í sambærilegri grein: „Heilinn getur sagt til um hvaða kitl er af eigin völdum og látið það hafa minni forgang svo að hann sé næmari fyrir utanaðkomandi skynhrifum sem gætu verið meira aðkallandi.“
Áhugasamir feður eiga ánægðari syni
Feður, sem sýna persónulegan áhuga á áhyggjum, skólaverkefnum og félagslífi sona sinna, ala upp „umhyggjusama og bjartsýna unga menn, fulla sjálfstrausts og vonar,“ að sögn Lundúnablaðsins The Times. Í rannsókn á vegum samstarfsverkefnisins Tomorrow’s Men, sem náði til 1500 pilta á aldrinum 13 til 19 ára, kom í ljós að rösklega 90 af hundraði drengja, sem töldu að feður þeirra eyddu tíma með þeim og hefðu vakandi áhuga á framförum þeirra, höfðu „mikla sjálfsvirðingu og sjálfstraust, og voru mjög hamingjusamir.“ En 72 af hundraði drengja, sem fannst að feður þeirra sýndu þeim sjaldan eða aldrei áhuga, höfðu hins vegar „mjög litla sjálfsvirðingu og sjálfstraust, og voru líklegri til að verða þunglyndir, hafa óbeit á skólanum og komast í kast við lögin.“ Adrienne Katz hjá Tomorrow’s Men segir að tíminn, sem faðir og sonur eyði saman, þurfi ekki að vera mikill. „Það snýst allt um að barnið finni að þess sé þarfnast, að það sé elskað og að hlustað sé á það,“ segir hún.
Lestur undir sæng
Lestur við dauft ljós undir sæng kann að vera óhollt fyrir augu barns, segir þýska heilbrigðisfréttabréfið Apotheken Umschau. Rannsókn á hænsnum við háskólann í Tübingen gefur til kynna að dauf birta og sjónbjögun, þótt hún sé aðeins lítils háttar, geti haft áhrif á augnvöxt. Þegar barn les undir sæng uppi í rúmi er hvort tveggja til staðar: sjónbjögun af því að augað sér ekki skýrt þegar bók er haldið of nærri, svo og mjög dauf lýsing. „Kynslóðir unglinga vopnaðar vasaljósum hafa gleypt í sig eftirlætissögur sínar undir sænginni og þar með lagt bæði grunninn að bókmenntaáhuga sínum og nærsýni,“ að sögn fréttabréfsins.
Biblíuútgáfa í Kína
„Rösklega 20 milljónir eintaka af Heilagri ritningu hafa komið út í Kína síðustu tvo áratugi og Biblían hefur verið ein af vinsælustu bókum í landinu frá því í byrjun tíunda áratugarins,“ segir í frétt Xinhua-fréttastofunnar. Að sögn prófessors Fengs Jinyuans við Heimstrúarbragðastofnun kínversku félagsvísindaakademíunnar eiga kristnir menn í Kína rétt á að kaupa tvö eintök hver. Rösklega 20 mismunandi útgáfur hafa þegar komið út, „meðal annars enskar útgáfur með kínverskri þýðingu, kínverskar útgáfur með hefðbundnu og einfölduðu letri, útgáfur á tungumálum þjóðernislegra minnihlutahópa og bæði stórar útgáfur og litlar.“ Auk þess hafa margar biblíusögubækur komið út og er búist við að salan á þeim verði meiri en á Biblíunni. „Biblían er í 32. sæti yfir áhrifamestu bækur í landinu síðan í byrjun tíunda áratugarins,“ segir í greininni, „en almennt séð hafa trúarbrögð minni áhrif á Kínverja en á Vesturlandabúa.“
Broskennsla
Í Japan, þar sem fólk leggur metnað sinn í að veita góða þjónustu, senda æ fleiri fyrirtæki „starfsmenn sína í skóla til að læra vingjarnlegri framkomu,“ segir dagblaðið Asahi Evening News. „Fyrirtæki telja að bros, hlátur og kímnigáfa sé ódýr og árangursrík leið á samdráttartímum til að örva sölu.“ Í einum skóla sitja nemendur fyrir framan spegla og æfa sig í að brosa og „reyna að búa til fallegasta brosið.“ Þeim er sagt að hugsa um þann sem þeim þykir vænst um. Leiðbeinendur reyna að hjálpa þeim að slaka á og brosa eðlilega. Auk þess að senda starfsmenn í skóla senda sum fyrirtæki starfsfólk til afgreiðslustarfa á skyndibitastöðum þar sem það fær þjálfun í að brosa látlaust. Örvar það viðskiptin að brosa? Að sögn dagblaðsins jókst sala snyrtivörufyrirtækis um 20 af hundraði sama ár og það sendi rösklega 3000 starfsmenn á brosnámskeið. Ein starfsstúlka benti á að námskeiðið hefði líka bætt andrúmsloftið á skrifstofunni. „Það er indælt að hafa vingjarnlega og brosmilda yfirmenn allt í kringum sig,“ segir hún.
Tímanleg greining bjargar mannslífum
„Tímanleg greining krabbameins er lykillinn að réttri meðferð og meðhöndlun þess,“ að því er fram kemur í frétt í dagblaðinu Times of Zambia. Því miður deyr óþekktur fjöldi manna úr krabbameini sums staðar í Afríku sem hefði verið hægt að greina í tíma með læknisskoðun. Algengasta krabbamein kvenna er brjósta- og leghálskrabbamein, en blöðruháls- og ristilskrabbamein hjá körlum. Heilbrigðisnefnd Sambíu mælir því með að fólk fari í krabbameinsskoðun á sjúkrahúsi. Að sögn dagblaðsins þýðir tímanleg greining „minni sársauka og áföll, bæði fyrir sjúklinginn og fjölskyldu hans. Og það gerir læknum kleift að grípa til aðgerða í tíma.“
Vélvædd mjaltakona
„Mjaltir tvisvar á dag setja kúm óeðlilegar hömlur,“ segir Sue Spencer sem hefur hannað vélvædda mjaltakonu í samvinnu við aðra. Að sögn hennar geta yfirfull júgur orsakað helti og aðra kvilla. Hvað getur mjólkurkýr þá gert þegar hún vill láta mjólka sig utan mjaltatíma? Lausnin kann að vera vélvædda mjaltakonan. Hún er þegar notuð á býli í Svíþjóð, að því er fram kemur í tímaritinu New Scientist. Sænsku kýrnar geta bara arkað inn í opið fjós, þar sem vélmennið er til húsa, þegar þær þurfa þess. Hver kýr í þessari 30 kúa hjörð hefur rafeindaól um hálsinn til að kerfið geti borið kennsl á hana. Ef mjólka á kúna opnast hlið að mjaltabásnum og leysistýrður armur mjaltavélarinnar þreifar gætilega eftir spenunum og festir spenahylkin á þær.
Lækkandi fæðingartala í Evrópu
„Á síðasta ári var fæðingartalan í Evrópusambandinu (ESB) sú lægsta sem verið hefur frá lokum síðari heimsstyrjaldar,“ segir dagblaðið Süddeutsche Zeitung. Hagstofa ESB (Eurostat) greinir frá því að 4 milljónir barna hafi fæðst í ríkjum ESB árið 1998, samanborið við 6 milljónir barna á ári um miðjan sjöunda áratuginn. Að meðaltali fæðast 10,7 börn árlega á hverja 1000 íbúa ESB. Lægst er fæðingartalan á Ítalíu, þrátt fyrir að rómversk-kaþólska kirkjan sé andvíg takmörkun barneigna. Þar fæðast aðeins 9,2 börn á hverja 1000 íbúa. Hæsta fæðingartalan er á Írlandi — 14,1 barn á hverja 1000 íbúa.
Að borða saman
Foreldrar víða um lönd harma að börn þeirra borði sjaldan með þeim, heldur taki oft skyndibitamat fram yfir. En Frakkland er trúlega undantekning frá því. Að sögn franska dagblaðsins La Croix leiddi nýleg könnun í ljós að 84 af hundraði fjölskyldna í Frakklandi borða kvöldmatinn saman. Reyndar kom fram í könnuninni að 95 af hundraði 12 til 19 ára unglinga telja að andrúmsloftið við máltíðina sé jákvætt. Sérfræðingar leggja áherslu á mikilvægi þess að fjölskyldur borði saman að staðaldri. „Matmálstíminn er ekki aðeins til að neyta matar heldur sérstaklega til að tala saman,“ segir dr. François Baudier hjá frönsku Heilsufræðslumiðstöðinni.