15. námskafli
Viðeigandi líkingar
1 Þegar ræðumaður notar líkingar er hann að greypa innihaldsríkar myndir í hugi áheyrenda. Líkingar örva áhuga og varpa ljósi á mikilvægar hugmyndir. Þær örva hugsun áheyrenda og auðvelda þeim að meðtaka nýjar hugmyndir. Vel valdar líkingar höfða bæði til skynsemi og tilfinninga. Boðskapurinn þrengir sér þá inn í hugann af meira afli en hann myndi gera með staðreyndum einum saman. En þessi áhrif nást því aðeins að líkingarnar séu viðeigandi. Þær verða að hæfa efninu.
2 Af og til má nota líkingu til að sneiða hjá fordómum og hleypidómum. Hún getur yfirunnið mótbárur áður en umdeild kenning er tekin til umfjöllunar. Þú gætir til dæmis sagt: „Enginn faðir myndi refsa barni sínu með því að leggja hönd þess á heita eldavélarhellu.“ Sé slík líking notuð sem inngangur að kenningunni um „helvíti“ gerir hún þessa falskenningu ógeðfellda og þá er auðveldara að setja hana til hliðar.
3 Líkingar geta verið af ýmsum toga. Þær geta verið hliðstæður, samanburður, andstæður, samlíkingar, myndlíkingar, persónuleg reynsla og dæmi. Leita má fanga víða. Þær geta fjallað jafnt um lifandi verur sem lífvana hluti. Þær geta byggst á atvinnu áheyrenda, mannlegum einkennum eða eiginleikum, húsmunum eða öðrum verkum manna svo sem húsum, skipum og fleiru. En hver svo sem líkingin er ætti ræðumaður ekki að velja hana af því að hún er uppáhaldslíking hans heldur af því að hún hæfir efni og aðstæðum.
4 En sýndu aðgát. Ofkryddaðu ekki ræðuna með of mörgum líkingum. Notaðu þær en gerðu það í hófi.
5 Rétt notkun líkinga er list sem krefst kunnáttu og reynslu. En það er engan veginn hægt að ofmeta gildi líkinga. Til að læra að nota líkingar þarftu að temja þér að hugsa í myndum. Taktu eftir líkingum þegar þú lest. Þegar þú horfir á eitthvað, hugleiddu þá hvernig þú getir heimfært það upp á kristilegt líf og þjónustu. Ef þú sérð þurra og visna pottaplöntu gætirðu hugsað: „Vinátta er eins og planta. Það verður að vökva hana til að hún dafni.“ Sumir hugsa aðeins um tunglið í sambandi við geimferðir. Kristnir menn líta á það sem handaverk Guðs, eilífan fylgihnött er hann hefur skapað og hefur áhrif á daglegt líf með því að valda flóði og fjöru.
6 Komi einfaldar líkingar ekki greiðlega upp í hugann þegar þú undirbýrð ræðu skaltu fletta upp á skyldu efni í ritum Varðturnsfélagsins. Athugaðu hvort þú finnur líkingar þar. Hugsaðu um lykilorð ræðunnar og þær myndir sem koma upp í hugann. Byggðu á þeim. En mundu að líking, sem á ekki við efnið, er verri en engin. Þegar þú íhugar liðinn „Líkingar eiga við efnið“ á ráðleggingakortinu er nauðsynlegt að hafa nokkur atriði í huga.
7 Einfaldar. Það er auðveldara að muna einfalda líkingu en flókna. Einföld líking styður rökfærsluna í stað þess að flækja hana. Líkingar Jesú voru oft á tíðum ekki nema fáein orð. (Sjá til dæmis Matteus 13:31-33; 24:32, 33.) Orðalagið þarf að vera auðskilið til að líking sé einföld. Ef líking þarfnast mikilla útskýringa er hún hreinlega íþyngjandi. Slepptu henni eða einfaldaðu hana.
8 Jesús notaði smáa hluti til að útskýra hið stóra, og auðskilda hluti til að útskýra hið torskilda. Líking ætti að vera þannig að auðvelt sé að sjá hlutina fyrir sér. Hún má ekki vera of margþætt. Hún ætti að vera hnitmiðuð og raunhæf. Slíka líkingu er ekki svo auðvelt að misskilja.
9 Best er að líking sé alger hliðstæða þess efnis sem hún á að skýra. Ef líking á ekki að öllu leyti við er trúlega betra að sleppa henni. Sumir fara að hugsa um það sem ekki á við og þar með glatast áhrif hennar.
10 Heimfærslan útskýrð. Ef líking er ekki heimfærð má vera að sumir nái merkingunni en aðrir ekki. Ræðumaðurinn þarf að hafa líkinguna skýra í huga og vita til hvers hann ætlar að nota hana. Hann ætti að segja í einföldu máli í hverju gildi líkingarinnar sé fólgið. — Sjá Matteus 12:10-12.
11 Líkingu má heimfæra á ýmsa vegu. Það má nota hana til að staðfesta frumreglu sem ýmist er tilgreind rétt á undan eða eftir. Þá má heimfæra hana með því að sýna fram á afleiðingar þeirra röksemda sem hún lýsir. Einnig má heimfæra líkinguna með því einu að beina athygli að því sem er líkt með henni og rökfærslunni.
12 Áhersla á mikilvæg atriði. Notaðu ekki líkingu aðeins vegna þess að þér dettur hún í hug. Brjóttu ræðuna til mergjar til að sjá greinilega hver aðalatriðin eru og veldu síðan líkingar sem hjálpa þér að hnykkja á þeim. Ef sterkar líkingar eru notaðar til að styðja smáatriði er hætta á að áheyrendur muni betur eftir þeim en aðalatriðunum. — Sjá Matteus 18:21-35; 7:24-27.
13 Líkingin ætti ekki að skyggja á rökfærsluna. Það má vera að áheyrendur muni fyrst eftir líkingunni, en þegar hún kemur upp í hugann ætti málið, sem hún átti að varpa ljósi á, einnig að koma upp í hugann. Annars hefur líkingin verið of áberandi.
14 Þegar þú undirbýrð ræðu og velur líkingar skaltu meta gildi líkingarinnar í samanburði við það sem hún á að draga fram. Styður hún það? Lætur hún það skera sig úr? Auðveldar hún áheyrendum að skilja það og hugfesta? Ef ekki, þá á líkingin ekki við.
――――◆◆◆◆◆――――
15 Líkingar þurfa bæði að eiga við efnið og áheyrendur. Þetta er sérstakur liður á ráðleggingakortinu og kallast „Líkingar eiga við áheyrendur.“ Þegar Natan var sendur til að leiðrétta Davíð vegna syndar hans með Batsebu sagði hann dæmisögu um fátækan mann sem átti eitt lamb. (2. Sam. 12:1-6) Dæmisagan eða líkingin var bæði nærgætnisleg og átti vel við Davíð sem verið hafði fjárhirðir. Hann skildi strax hvað við var átt.
16 Ef þorri áheyrenda er roskið fólk ætti ekki að nota líkingar sem höfða aðeins til ungs fólks. En slíkar líkingar gætu átt vel við í hópi skólanema. Stundum má nálgast líkingu frá tveimur mismunandi sjónarhornum eftir þörfum áheyrenda, eins og til dæmis ungra og aldinna eða karla og kvenna.
17 Sóttar í þekktar aðstæður. Ef þú sækir líkingar þínar í daglegt líf eiga áheyrendur auðvelt með að skilja þær. Þannig fór Jesús að. Þegar hann ræddi við konuna við brunninn líkti hann lífgandi eiginleikum sínum við vatn. Hann sótti líkingar sínar í hið hversdagslega, ekki hið óvenjulega. Áheyrendur hans áttu auðvelt með að sjá fyrir sér það sem hann var að tala um eða þeim kom strax í hug eitthvað sem þeir höfðu sjálfir upplifað. Hann notaði líkingar við kennslu.
18 Eins er það núna. Húsmæður geta haft góða þekkingu á viðskiptalífinu en samt er betra að þú skýrir orð þín með dæmum úr daglegu lífi þeirra, af börnum þeirra, skyldustörfum á heimilinu og hlutum sem eru á heimilinu.
19 Þá er einnig áhrifaríkt að nota líkingar sem byggjast á staðbundnum hlutum sem engir þekkja nema íbúar staðarins. Atburðir líðandi stundar í byggðarlaginu eru einnig viðeigandi ef smekkvísi er gætt.
20 Smekklega valdar. Allar líkingar ættu að hæfa biblíulegum umræðum. Líkingar ættu auðvitað ekki að vera siðferðilega „djarfar.“ Forðastu tvíræð orð. Það er góð regla að sleppa líkingunni ef þú ert í vafa.
21 Líkingar ættu ekki að móðga neinn meðal áheyrenda að þarflausu, sérstaklega ekki þá sem eru nýlega byrjaðir að sækja samkomur. Þess vegna væri óráðlegt að minnast á umdeilt efni eða kenningar sem tengjast viðfangsefninu lítið eða ekkert. Til dæmis ættirðu ekki að taka blóðgjafir eða fánakveðju sem dæmi ef þú ert ekki að fjalla um slík mál í ræðunni. Það gæti komið sumum úr jafnvægi eða jafnvel hneykslað. En ef eitthvað slíkt er viðfangsefni ræðunnar horfir málið öðruvísi við. Þá hefurðu tækifæri til að rökræða um efnið og sannfæra áheyrendur þína. En spilltu ekki fyrir sjálfum þér með því að láta líkingar þínar gera áheyrendur fordómafulla gagnvart þeim mikilvæga boðskap sem þú ert að fjalla um.
22 Sýndu því góða dómgreind í vali þínu á líkingum. Gættu þess að þær eigi við. Ef þær eiga bæði við efnið og áheyrendur eru þær líka við hæfi.
[Spurningar]
1, 2. Útskýrðu stuttlega hvaða gagn líkingar gera í ræðu.
3-6. Hvert er hægt að sækja líkingar?
7-9. Hvers vegna eru einfaldar líkingar áhrifamestar?
10, 11. Hvers vegna þarf heimfærsla líkinga að vera skýr?
12-14. Hvernig má ganga úr skugga um að líking eigi við efnið?
15, 16. Útskýrðu hvers vegna líkingar þurfa að eiga við áheyrendur.
17-19. Hvert má sækja líkingar svo að þær höfði til áheyrenda?
20-22. Nefndu nokkrar tálgryfjur sem varast þarf við notkun líkinga.