16. námskafli
Efnið aðlagað boðunarstarfinu
1 Starf kristinna boðbera nú á dögum er að stórum hluta fólgið í því að prédika og kenna mönnum sem þekkja lítið til Biblíunnar. Sumir hafa aldrei átt biblíu en hjá öðrum stendur hún uppi á hillu. Þetta þýðir að við þurfum að laga orð okkar eftir aðstæðum fólks ef það á að hafa gagn af. Ekki svo að skilja að við breytum boðskapnum heldur leggjum við okkur fram um að nota orðfæri sem fólk skilur. Þegar við þurfum að laga efnið að aðstæðum reynir á hve vel við skiljum það sjálf.
2 Að aðlaga merkir að laga eftir aðstæðum, að aðhæfa. Það merkir að samræma eitthvað eigin þörfum eða annarra. Að aðlaga efni boðunarstarfinu snýst fyrst og fremst um að framsögn okkar, þar sem og annars staðar, sé einföld og auðskilin fyrir tiltekinn áheyrendahóp, sérstaklega það fólk á starfssvæðinu sem hefur nýlega sýnt áhuga. Þegar kemur að þessum þætti góðrar ræðumennsku í skólanum ættirðu að líta á áheyrendur þína eins og fólk sem þú hittir í starfinu hús úr húsi.
3 Þegar þú vinnur að þessum þjálfunarlið er hugmyndin ekki sú að ræðan verði að vera eins og kynning í boðunarstarfinu hús úr húsi. Allar ræður skulu byggðar upp samkvæmt gildandi leiðbeiningum skólans. Með öðrum orðum á rökfærslan og málfarið að vera sams konar og þú notar þegar þú talar við fólk í boðunarstarfinu, óháð því hvers konar ræðu þú ert að flytja. Þar sem stærstur hluti af málflutningi okkar fer fram í boðunarstarfinu ætti þessi þjálfunarliður að minna á nauðsyn þess að tala einfalt mál svo að flestir á svæðinu skilji það sem sagt er. Þú fékkst einhvern undirbúning fyrir þetta í 2. námskafla. En núna er þetta mál tekið fyrir sem sérstakur þjálfunarliður vegna þess hve mikilvægt það er og hve nauðsynlegt er að ná tökum á því.
4 Orðaval skiljanlegt almenningi. Orðfæri sumra bræðra í boðunarstarfinu og nýstofnuðum biblíunámskeiðum minnir á að við þurfum að gefa þessu gaum. Biblíuskilningi okkar fylgir viss orðaforði sem er almenningi ekki tamur. Við tölum um „leifarnar,“ hina „aðra sauði“ og fleira í þeim dúr. Ef við notum þess konar orðfæri í boðunarstarfinu er næsta víst að þau eru merkingarlaus í eyrum fólks sem við hittum. Við þurfum að skýra þau með viðeigandi samheitum eða útskýringum. Jafnvel það að minnast óbeint á „Harmagedón“ og „stofnsetningu Guðsríkis“ hefur litla merkingu án einhverra skýringa.
5 Þegar þú vinnur að þessum þjálfunarlið mun leiðbeinandinn spyrja sig: Getur sá sem er ókunnugur sannleika Biblíunnar skilið þessar hugmyndir eða þetta orðalag? Það er ekki víst að hann ráði þér frá að nota þessi guðræðisorð. Þau tilheyra orðaforða okkar og við viljum að þau verði töm fólki sem hefur nýlega sýnt áhuga. En ef þú notar þannig orð fylgist leiðbeinandinn með því hvort þú útskýrir þau eða ekki.
6 Viðeigandi efni valið. Hugmyndir þínar að umræðuefni í boðunarstarfinu eru breytilegar rétt eins og orðaval þitt er breytilegt eftir aðstæðum. Það kemur til af því að við ræðum yfirleitt ekki um sum mál við fólk sem nýlega hefur sýnt áhuga. Þá ræður þú algerlega sjálfur hvaða efni þú velur. En þegar þú færð verkefni í skólanum er búið að ákveða fyrirfram hvaða efni á að fjalla um. Þú átt ekki um annað að velja en það sem stendur á úthlutunarblaðinu. Hvað ættirðu að gera?
7 Þar eð þú hefur takmarkað efni að moða úr þarftu að velja ræðuumgjörð sem rúmar flest er varðar efnið. Leiðbeinandinn gefur því sérstakan gaum hvaða atriði þú dregur fram og hvernig þau hæfa umgjörð ræðunnar. Það stafar af því að með þessum þjálfunarlið er verið að sýna hvernig mismunandi efni hæfir ólíkum aðstæðum í boðunarstarfinu. Þú notar til dæmis ekki sama efni til að bjóða áhugasömum manni á samkomu og þú notar við kynningu hús úr húsi. Þess vegna þarf að koma fram í orðavali þínu og efnisvali hvers konar áheyrendur þú ert að ávarpa, hvort heldur þú ert að tala við húsráðanda eða flytja venjulega ræðu úr ræðustól.
8 Leiðbeinandinn tekur mið af tilgangi ræðunnar þegar hann úrskurðar hvort efnisatriði séu viðeigandi eða ekki. Í boðunarstarfinu hús úr húsi er tilgangurinn venjulega sá að fræða húsráðandann og vekja áhuga hans á því að fræðast meira. Í endurheimsókn er markmiðið að auka áhugann og koma af stað biblíunámskeiði ef mögulegt er. Ef sviðsetning ræðunnar er umræður eftir nám er markmiðið það að hvetja húsráðanda til að sækja samkomu, taka þátt í boðunarstarfinu og þar fram eftir götunum.
9 Að sjálfsögðu getur efnisval verið breytilegt eftir áheyrendum, jafnvel í sömu grein boðunarstarfsins, og það þarf líka að hafa í huga. Þú ættir ekki að taka með þau atriði hins úthlutaða efnis sem koma markmiði þínu ekkert við.
10 Í ljósi þessa er nauðsynlegt að velja umgjörð og aðstæður áður en undirbúningur ræðunnar hefst. Hverju viltu koma til leiðar? Hvaða efnisatriði eru nauðsynleg til að ná þessu markmiði og hvernig þarf að laga efnið að umgjörð ræðunnar? Þegar þú hefur komist að niðurstöðu er vandalaust að velja viðeigandi efni og aðlaga það boðunarstarfinu.
11 Áhersla á hagnýtt gildi efnisins. Að draga fram hagnýtt gildi efnisins þýðir að þú verður að sýna húsráðanda skýrt og greinilega fram á að það snerti hann, að hann hafi þörf fyrir það og geti hagnýtt sér það. Húsráðandi verður að gera sér ljóst allt frá byrjun að efnið snertir hann. Það er nauðsynlegt til að ná athygli hans. En til að halda athyglinni er nauðsynlegt að halda áfram að heimfæra efnið á hann persónulega út alla ræðuna.
12 Málið snýst um meira en að ná aðeins sambandi við áheyrendur og hjálpa þeim að rökhugsa. Þú þarft að ganga lengra og hreinlega heimfæra boðskapinn á viðmælanda þinn. Markmið boðunarstarfsins er að kenna fólki sannleikann í orði Guðs og hjálpa því inn á veginn til lífsins. Þú þarft því með háttvísi og nærgætni að sýna viðmælanda þínum fram á hagnýtt gildi þess að hlusta og fara eftir því sem þú ert að segja.
13 Þrátt fyrir að þessi þáttur góðrar ræðumennsku sé tekinn síðast til umfjöllunar er það ekki af því að hann skipti minnstu máli. Hann er mjög áríðandi og ætti aldrei að gleymast. Leggðu hart að þér að ná valdi á honum því að hann er mikilvægur í boðunarstarfinu. Þér tekst sjaldan að halda athygli húsráðanda lengi nema hann sjái greinilega að það sem þú segir hafi eitthvert gildi fyrir hann sjálfan.
[Spurningar]
1-3. Hvers vegna er mikilvægt að læra að aðlaga ræðuefnið boðunarstarfinu?
4, 5. Útskýrðu hvers vegna orðfæri okkar þarf að vera skiljanlegt fyrir almenning.
6-8. Hvers vegna verðum við að velja viðeigandi efni vel þegar við undirbúum ræðu?
9, 10. Hvernig getum við gengið úr skugga um að við höfum valið viðeigandi efni?
11-13. Hvers vegna er áríðandi að benda á hagnýtt gildi efnisins?