Námskafli 21
Ritningarstaðir lesnir með réttum áherslum
ÞEGAR þú talar við fólk um tilgang Guðs, annaðhvort einslega eða af ræðupallinum, ætti Biblían að vera kjarninn í umræðunni. Til þess þarf að jafnaði að lesa ritningartexta upp úr Biblíunni, og það ætti að lesa þá vel.
Réttar áherslur byggjast á tilfinningu. Ritningartexta ætti að lesa með tilfinningu. Lítum á nokkur dæmi. Þegar þú lest Sálm 37:11 ætti raddblærinn að enduróma tilhlökkun eftir gæfunni sem er lofað þar. Þegar þú lest um endalok þjáninga og dauða í Opinberunarbókinni 21:4 ætti tónninn að lýsa innilegu þakklæti fyrir þá lausn sem boðuð er. Í Opinberunarbókinni 18:2, 4, 5 er sterk hvatning til að ganga út úr ‚Babýlon hinni miklu‘ sem er syndum hlaðin. Þessi vers þarf að lesa með vissum ákafa. En tilfinningin verður auðvitað að vera einlæg og má ekki vera ýkt. Tilfinningastyrkurinn ræðst af textanum sjálfum og tilganginum með því að lesa hann.
Leggðu áherslu á réttu orðin. Ef þú ert aðeins að fjalla um ákveðinn hluta af versi ættirðu að draga hann fram þegar þú lest textann. Segjum að þú sért að lesa Matteus 6:33 og ætlir að skýra út hvað sé fólgið í því að ‚leita fyrst ríkis hans.‘ Þá myndirðu ekki leggja aðaláhersluna á ‚réttlæti‘ eða „allt þetta.“
Setjum sem svo að þú ætlir að lesa Matteus 28:19 á þjónustusamkomu. Á hvaða orð áttu að leggja áherslu? Ef þú ætlar að hvetja áheyrendur til að vera duglegir að hefja ný biblíunámskeið myndi orðið ‚lærisveinar‘ fá áhersluna. Sértu hins vegar að fjalla um þá ábyrgð kristins manns að koma sannleika Biblíunnar á framfæri við innflytjendur eða ef þú ætlar að hvetja suma boðbera til að þjóna þar sem þörfin er meiri, þá gætirðu lagt áherslu á orðin „allar þjóðir.“
Oft lesum við vers til að svara spurningu eða styðja röksemd í máli þar sem skoðanir manna eru skiptar. Ef öll atriði textans fá jafna áherslu er óvíst að áheyrendur átti sig á tengslunum. Þau blasa kannski við þér en þeir sjá þau ekki.
Segjum að þú sért að lesa Sálm 83:19 í biblíu þar sem nafn Guðs stendur og leggir aðaláherslu á orðin „Hinn hæsti.“ Þá er óvíst að viðmælandinn átti sig á þeirri staðreynd, sem virðist þó augljós, að Guð heitir ákveðnu nafni. Þú ættir að leggja áherslu á nafnið „Jehóva.“ En ef þú notar þetta sama vers í umræðu um drottinvald Jehóva ættirðu að leggja aðaláherslu á orðin „Hinn hæsti.“ Hið sama er að segja um Jakobsbréfið 2:24. Ef þú notar það til að benda á að trúin þurfi að birtast í verki en leggur ekki áherslu á orðið „verkum“ heldur „réttlætist,“ þá er ekki víst að viðmælandinn eða áheyrendur átti sig á hvert aðalatriðið er.
Annað gott dæmi er að finna í Rómverjabréfinu 15:7-13. Páll postuli skrifaði þetta bréf til safnaðar þar sem var bæði fólk af heiðnum uppruna og gyðinglegum. Hér færir postulinn rök fyrir því að þjónusta Krists gagnist ekki aðeins umskornum Gyðingum heldur einnig fólki af heiðnum uppruna, þannig að „heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans.“ Síðan vitnar Páll í fjóra ritningarstaði og vekur athygli á að þetta tækifæri standi þjóðunum til boða. Hvernig áttu að lesa þessar tilvitnanir Páls til að leggja áherslu á það sem hann hafði í huga? Ef þú ættir að merkja við áhersluorðin gætirðu merkt við „heiðingjarnir“ í níunda versinu, „þér heiðingjar“ í því tíunda, „allar þjóðir“ og „allir lýðir“ í því ellefta og „þjóðum“ og „þjóðir“ í því tólfta. Reyndu nú að lesa Rómverjabréfið 15:7-13 með áherslu á þessi orð. Þannig verður rökfærsla Páls skýr og auðskilin.
Áhersluaðferðir. Beita má mismunandi aðferðum til að leggja áherslu á þau orð sem fela í sér hugsunina og þú vilt að skeri sig úr. Sú aðferð, sem þú beitir, þarf auðvitað að hæfa ritningarorðunum og umgjörð ræðunnar. Hér koma nokkrar uppástungur.
Áhersla með raddbeitingu. Hér er átt við öll raddbrigði sem notuð eru til að láta aðalorðin skera sig úr setningunni í heild. Hægt er ná fram áherslu með því að breyta raddstyrk — annaðhvort með því að hækka róminn eða lækka. Í mörgum tungumálum má ná fram áherslu með því að breyta tónhæð. Í sumum tungumálum getur það hins vegar gerbreytt merkingunni. Hægt er að leggja áherslu á lykilorð með því að hægja á lestrinum. Sum tungumál bjóða ekki upp á raddbeitingu til að leggja áherslu á viss orð og þá þarf að nota aðrar aðferðir, sem málið býður upp á, til að ná tilætluðum árangri.
Málhlé. Þau má gera á undan eða eftir aðalatriðinu í ritningarstað eða hvort tveggja. Hlé á undan mikilvægu efni vekur eftirvæntingu en hlé á eftir eykur áhrifin. Hléin mega samt ekki vera of mörg því að þá mun ekkert skera sig úr.
Endurtekning. Þú getur lagt áherslu á ákveðið atriði með því að stöðva lesturinn og lesa orðið eða orðasambandið aftur. Oft er þó æskilegra að ljúka við að lesa textann og endurtaka síðan lykilorðið eða orðin.
Tilburðir. Oft er hægt að leggja áherslu á orð eða orðasamband eða lýsa tilfinningu með líkamstjáningu og svipbrigðum.
Raddblær. Í sumum tungumálum er hægt að hafa áhrif á merkingu orða og láta þau skera sig úr með ákveðnum raddblæ. En hér þarf einnig að sýna aðgát, sérstaklega í sambandi við kaldhæðni.
Þegar aðrir lesa ritningartexta. Þegar húsráðandi les upp ritningartexta má vera að hann leggi áherslu á röng orð, ef nokkur. Hvað er þá til ráða? Oftast er best að þú dragir merkinguna fram sjálfur með því að skýra textann. Eftir að hafa skýrt hann geturðu bent húsráðanda sérstaklega á þau orð í Biblíunni sem bera uppi merkinguna.