Námskafli 22
Ritningarstaðir rétt heimfærðir
AÐ KENNA öðrum er annað og meira en að lesa eitt og eitt vers upp úr Biblíunni. Páll postuli skrifaði Tímóteusi, félaga sínum: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ — 2. Tím. 2:15.
Til að gera þetta þurfum við að gæta þess að skýra ritningargreinar í samræmi við það sem Biblían kennir. Það merkir að taka tillit til samhengisins en velja ekki aðeins ritningarorð sem höfða til sjálfra okkar og prjóna svo eigin skoðunum við þau. Fyrir munn Jeremía varaði Jehóva við spámönnum sem þóttust flytja orð hans en boðuðu í rauninni ‚vitranir sem þeir höfðu sjálfir spunnið upp.‘ (Jer. 23:16) Páll postuli varaði kristna menn við því að menga orð Guðs með heimspeki manna. Hann skrifaði: „Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð.“ Óheiðarlegir vínkaupmenn forðum daga áttu það til að þynna vín með vatni til að drýgja það og auka tekjur sínar. Við fölsum ekki orð Guðs með því að blanda heimspeki manna saman við það. „Ekki erum vér eins og hinir mörgu, er pranga með Guðs orð,“ skrifaði Páll, „heldur flytjum vér það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs, með því að vér erum í Kristi.“ — 2. Kor. 2:17; 4:2.
Segjum að þú vitnir í ritningarstað til að draga fram ákveðna meginreglu. Biblían er uppfull af meginreglum sem eru góður leiðarvísir við alls konar aðstæður. (2. Tím. 3:16, 17) En þú þarft að fullvissa þig um að þú skýrir og heimfærir ritningarstaðinn rétt en misnotir hann ekki með því að láta virðast sem hann segi það sem þig langar til að hann segi. (Sálm. 91:11, 12; Matt. 4:5, 6) Heimfærslan þarf að vera í samræmi við ásetning Jehóva og orð hans í heild.
Til að ‚fara rétt með orð sannleikans‘ þurfum við einnig að skilja andann í orðum Biblíunnar. Við megum ekki nota hana eins og „barefli“ til að ógna öðrum. Trúarkennararnir, sem börðust gegn Jesú Kristi, vitnuðu í Ritninguna en lokuðu augunum fyrir því sem skipti miklu meira máli og Guð krefst, það er að segja réttlæti, miskunn og trúfesti. (Matt. 22:23, 24; 23:23, 24) Jesús endurspeglaði persónuleika föður síns er hann fræddi fólk um orð hans. Brennandi sannleiksást hans hélst í hendur við sterkan kærleika til þeirra sem hann kenndi. Við ættum að leggja okkur fram um að líkja eftir honum. — Matt. 11:28.
Hvernig getum við verið viss um að við skýrum ritningarorð rétt? Þar kemur reglulegur biblíulestur að gagni. Við þurfum einnig að hafa hugfast að Jehóva hefur skipað ‚trúan og hygginn þjón‘ til að gefa öllum trúum þjónum sínum andlega fæðu, og það eru andasmurðir kristnir menn sem mynda þennan þjón. (Matt. 24:45) Með einkanámi og með því að sækja safnaðarsamkomur reglulega og taka þátt í þeim getum við notið góðs af þeirri fræðslu sem hinn trúi og hyggni þjónshópur lætur í té.
Ef þú getur notfært þér bókina Reasoning From the Scriptures (Rökræðubókina) og lærir vel á hana hefurðu handbærar leiðbeiningar um það hvernig þú getir skýrt hundruð ritningarstaða sem oft eru notaðir í boðunarstarfinu. Ef þú hefur hugsað þér að nota ritningarstað, sem er þér framandi, ættirðu að vera nógu hógvær til að kynna þér hann vel þannig að þú farir örugglega rétt með orð sannleikans þegar þú talar. — Orðskv. 11:2.
Skýrðu ritningarstaðinn vel. Þegar þú kennir þarftu að fullvissa þig um að tengslin milli viðfangsefnisins og ritningarstaðarins, sem þú notar, séu ljós. Ef þú kynnir hann með spurningu ættu áheyrendur að átta sig á því hvernig hann svarar henni. Ef þú notar ritningarstaðinn til að styðja einhverja staðhæfingu þarftu að fullvissa þig um að nemandinn skilji sönnunargildi ritningartextans.
Að öllu jöfnu er ekki nóg að lesa aðeins ritningargreinina, jafnvel þó að það sé með áherslum. Mundu að flestir eru illa heima í Biblíunni og átta sig sennilega ekki á rökum þínum þó að þeir heyri ritningarstað lesinn einu sinni. Þú þarft að vekja athygli á þeim hluta textans sem snýr beint að umræðuefninu.
Yfirleitt þarf að benda á lykilorð ritningarstaðarins, þau orð sem tengjast umræðuefninu beint. Einfaldasta aðferðin er sú að endurtaka þau orð sem bera hugsunina uppi. Sértu að tala við eina manneskju gætirðu borið fram spurningu til að auðvelda henni að koma auga á lykilorðin. Þegar um hóp er að ræða velja sumir mælendur að nota samheiti eða endurtaka hugmyndina. En ef þú ákveður að gera það skaltu gæta þess að áheyrendur missi ekki sjónar á tengslunum milli umræðuefnisins og orðalagsins í versinu.
Þú ert búinn að leggja góðan grundvöll þegar þú hefur einangrað lykilorðin. Nú þarftu að byggja ofan á. Kom greinilega fram í formála að ritningarstaðnum hvers vegna þú last hann? Þá skaltu benda á hvernig orðin, sem þú lagðir áherslu á, tengjast því sem þú nefndir í formálanum. Segðu skilmerkilega hver tengslin eru. Og jafnvel þó að þú hafir ekki svona ítarlegan formála að textanum ættirðu að láta einhverja skýringu fylgja lestrinum.
Farísearnir spurðu Jesú erfiðrar spurningar, að þeir héldu: „Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?“ Jesús byggði svarið á 1. Mósebók 2:24. Hann beindi athyglinni aðeins að einum hluta versins og heimfærði hann síðan. Eftir að hafa bent á að maðurinn og kona hans hafi orðið „einn maður“ sagði hann: „Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ — Matt. 19:3-6.
Hve ítarlega ættirðu að skýra hvers vegna þú lest ákveðinn ritningarstað? Það ræðst af áheyrendum og því efni sem til umræðu er. En hafðu alltaf sem markmið að hafa skýringarnar einfaldar, skýrar og gagnorðar.
Rökræddu út af Ritningunni. Postulasagan 17:2, 3 segir að Páll hafi ‚lagt út af ritningunum‘ þegar hann starfaði í Þessaloníku. Allir þjónar Jehóva ættu að þjálfa sig í þessu. Páll sagði til dæmis frá ýmsu úr ævi og þjónustu Jesú, benti á að því hefði verið spáð í Hebresku ritningunum og kom síðan með skýra niðurstöðu: „Jesús, sem ég boða yður, hann er Kristur.“
Páll vitnaði margsinnis í Hebresku ritningarnar þegar hann skrifaði Hebreabréfið. Oft dró hann fram eitt orð eða stutt orðasamband til að leggja áherslu á eitthvað eða skýra það og benti síðan á hvað það þýddi. (Hebr. 12:26, 27) Í 3. kafla Hebreabréfsins vitnar hann í Sálm 95:7-11. Sjáðu hvernig hann vinnur síðan úr þrem atriðum í sálminum: (1) skírskotun til hjartans, (2) merkingu orðasambandsins „í dag“ (Hebr. 3:7, 13-15; 4:6-11) og (3) merkingu orðanna: „Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar“ (Hebr. 3:11, 18, 19; 4:1-11). Reyndu að líkja eftir Páli þegar þú skýrir og heimfærir ritningarstað.
Taktu eftir hvernig Jesús rökræddi út frá Ritningunni eins og lýst er í Lúkasi 10:25-37 og hversu áhrifaríkt það var. Lögfróður maður spurði hann: „Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús bað manninn þá að segja sér hvernig hann liti sjálfur á málið og benti síðan á að það skipti mestu máli að gera eins og orð Guðs segir. Þegar ljóst var að maðurinn skildi ekki kjarna málsins tók Jesús fyrir aðeins eitt ritningarorð — „náungi“ — og ræddi um það í löngu máli. En í stað þess að skilgreina merkingu orðsins sagði hann dæmisögu til að maðurinn gæti sjálfur dregið rétta ályktun.
Ljóst er að Jesús vitnaði ekki aðeins í ritningartexta sem gáfu bein og augljós svör við spurningum heldur braut hann til mergjar það sem stóð í textanum og heimfærði það upp á spurninguna sem fyrir lá.
Saddúkear komu einhverju sinni að máli við Jesú og véfengdu upprisuvonina. Hann vakti þá athygli þeirra á einu ákveðnu atriði í 2. Mósebók 3:6. En hann lét sér ekki nægja að vitna í versið heldur rökræddi út frá því og sýndi greinilega fram á að upprisan væri þáttur í ásetningi Guðs. — Mark. 12:24-27.
Til að vera góður kennari er nauðsynlegt að fara rétt með orð Ritningarinnar og kunna að rökræða út frá þeim. Leggðu þig fram um að ná góðum tökum á því.