SAGA 56
Jósía elskaði lög Guðs
Jósía var átta ára þegar hann varð konungur í Júda. Á þeim tíma stundaði þjóðin galdra og tilbað skurðgoð. Þegar Jósía var orðinn 16 ára reyndi hann að finna út hvernig ætti að tilbiðja Jehóva á réttan hátt. Þegar hann var 20 ára fór hann að eyðileggja skurðgoðin og ölturun í öllu landinu. Og þegar hann var 26 ára ákvað hann að það ætti að laga musteri Jehóva.
Hilkía æðstiprestur fann bókrolluna með lögum Jehóva í musteinu. Kannski var það bókrollan sem Móse skrifaði. Safan ritari konungsins kom með bókrolluna til Jósía og las upphátt úr lögunum. Jósía hlustaði á hann og þá skildi hann að fólkið hafði óhlýðnast Jehóva í mörg ár. Jósía konungur sagði við Hilkía: ‚Jehóva er mjög reiður við okkur. Farðu og talaðu við hann. Hann segir okkur hvað við eigum að gera.‘ Hulda spákona sagði þeim svar Jehóva: ‚Fólkið í Júda hefur yfirgefið mig. Því verður refsað, en ekki á meðan Jósía er konungur af því að hann hefur gert það sem er gott og hlýðir mér.‘
Þegar Jósía konungur heyrði þetta fór hann í musterið. Hann safnaði saman fólkinu í Júda og las lög Jehóva uppátt fyrir alla þjóðina. Jósía og fólkið í landinu lofaði að hlýða Jehóva af öllu hjarta.
Júdamenn höfðu ekki haldið páska í mörg ár. En þegar Jósía las úr lögbókinni að það ætti að halda páska á hverju ári sagði hann: ‚Við skulum halda páska fyrir Jehóva.‘ Jósía fór að undirbúa hátíðina. Hann gaf margar fórnir og safnaði saman söngvurum í kór til að syngja í musterinu. Svo héldu Júdamenn páska og strax á eftir héldu þeir hátíð ósýrðu brauðanna í sjö daga. Það höfðu ekki verið haldnir svona páskar síðan Samúel var á lífi. Jósía elskaði lög Guðs mjög mikið. Finnst þér gaman að læra um Jehóva?
„Orð þitt er lampi fóta minna og ljós á götu minni.“ – Sálmur 119:105.