SAGA 62
Draumur um stórt tré
Eina nóttina dreymdi Nebúkadnesar draum sem hræddi hann. Hann kallaði á vitringana sína og bað þá um að segja sér hvað draumurinn þýddi. En enginn þeirra gat útskýrt drauminn. Að lokum lét konungurinn sækja Daníel.
Nebúkadnesar sagði við Daníel: ‚Ég sá tré í draumnum. Það varð svo hátt að það náði til himins. Það sást hvar sem maður var á jörðinni. Það voru falleg laufblöð á því og mikið af ávöxtum. Dýr hvíldu sig í skugganum af því og fuglar bjuggu sér til hreiður á greinunum. Síðan kom engill niður af himnum. Hann kallaði: „Höggvið tréð niður og skerið greinarnar af því. En látið stubbinn með rótunum verða eftir í jörðinni og festið bönd úr járni og kopar utan um hann. Tréð verður ekki lengur með mannshjarta heldur dýrshjarta. Og það munu líða sjö tíðir. Allir munu fá að vita að Guð ræður og að hann getur gert hvern sem hann vill að konungi.“‘
Daníel varð hræddur þegar Jehóva lét hann skilja hvað draumurinn þýddi. Hann sagði: ‚Ég vildi óska að þessi draumur væri um óvini þína, en hann er um þig, konungur. Þú ert stóra tréð sem var höggvið niður. Þú verður ekki konungur lengur og átt eftir að bíta gras eins og dýr. En af því að engillinn sagði að það ætti að skilja trjástubbinn eftir með rótunum verður þú konungur aftur.‘
Ári seinna var Nebúkadnesar að dást að Babýlon þegar hann var að labba uppi á þakinu á konungshöllinni. Hann sagði: ‚Sjáið þið þessa glæsilegu borg sem ég hef byggt. Ég er stórkostlegur konungur!‘ Þá heyrðist rödd af himni sem sagði: ‚Nebúkadnesar! Núna ertu ekki lengur konungur.‘
Um leið missti Nebúkadnesar vitið og varð eins og dýr. Hann var neyddur til að fara úr höllinni sinni og þurfti að búa með dýrunum úti á engi. Hárið á Nebúkadnesari varð sítt eins og arnarfjaðrir og neglurnar á honum urðu eins og klær á fuglum.
Eftir sjö ár varð Nebúkadnesar aftur eðlilegur og Jehóva gerði hann að konungi í Babýlon. Þá sagði Nebúkadnesar: ‚Ég lofa Jehóva, konung himnanna. Núna veit ég að það er Jehóva sem ræður. Hann auðmýkir þá sem eru stoltir og getur gert hvern sem hann vill að konungi.‘
„Stolt leiðir til falls, hroki til hruns.“ – Orðskviðirnir 16:18.