SAGA 71
Jehóva verndaði Jesú
Í landi sem var langt í austur frá Ísrael trúðu sumir því að stjörnurnar gætu leiðbeint þeim. Eina nóttina sáu nokkrir menn frá Austurlöndunum eitthvað sem leit út fyrir að vera skær stjarna. Hún færðist á himninum svo að þeir eltu hana. „Stjarnan“ leiddi þá til Jerúsalem. Mennirnir spurðu fólkið þar: ‚Hvar er barnið sem verður konungur Gyðinga? Við erum komnir til að krjúpa fyrir því.‘
Þegar Heródes, sem var konungurinn í Jerúsalem, frétti af nýjum konungi hafði hann miklar áhyggjur. Hann spurði yfirprestana: ‚Hvar átti þessi konungur að fæðast?‘ Þeir sögðu við hann: ‚Spámennirnir sögðu að hann ætti að fæðast í Betlehem.‘ Heródes lét þá sækja mennina frá Austurlöndum og sagði við þá: ‚Farið til Betlehem og finnið barnið. Komið síðan aftur og segið mér hvar það er. Mig langar líka að krjúpa fyrir því.‘ En það var ekki satt.
„Stjarnan“ fór aftur að hreyfast. Mennirnir eltu hana til Betlehem. „Stjarnan“ stoppaði fyrir ofan hús og mennirnir fóru inn. Þar sáu þeir Jesú og Maríu mömmu hans. Þeir krupu fyrir honum og gáfu honum gull, reykelsi og myrru. Var það Jehóva sem sendi þessa menn til að finna Jesú? Nei.
Um nóttina sagði Jehóva við Jósef í draumi: ‚Heródes ætlar að drepa Jesú. Flýðu til Egyptalands með konuna þína og son þinn. Vertu þar þangað til ég segi þér að það sé öruggt að koma til baka.‘ Þau fóru strax til Egyptalands.
Jehóva var búinn að segja mönnunum frá Austurlöndum að þeir ættu ekki að fara aftur til Heródesar. Heródes var ofsareiður þegar hann fattaði að þeir myndu ekki koma til baka. Fyrst hann gat ekki fundið Jesú skipaði hann að það ætti að drepa alla litla stráka í Betlehem sem voru á sama aldri og Jesú. En Jesús var öruggur því að hann var kominn langt í burtu, til Egyptalands.
Seinna dó Heródes. Þá sagði Jehóva við Jósef: ‚Núna er í lagi að fara til baka.‘ Jósef, María og Jesús fóru aftur til Ísraels og bjuggu í Nasaret.
„Eins er það með orðið sem kemur af munni mínum. Það … áorkar því sem ég ætlast til.“ – Jesaja 55:11.