SAGA 78
Jesús boðar ríki Guðs
Stuttu eftir að Jesús lét skírast byrjaði hann að boða: ‚Ríki Guðs er nálægt.‘ Hann ferðaðist um Galíleu og Júdeu og lærisveinar hans fóru með honum. Þegar Jesús kom heim til Nasaret fór hann í samkunduhúsið, opnaði bókrollu Jesaja og las upphátt: ‚Jehóva hefur gefið mér heilagan anda til að ég geti boðað fagnaðarboðskapinn.‘ Hvað þýddi þetta? Það þýddi að aðalástæðan fyrir því að hann fékk heilagan anda var að hann gæti boðað fagnaðarboðskapinn, þó að fólk langaði til að sjá hann gera kraftaverk. Síðan sagði hann við þá sem hlustuðu á: ‚Í dag hefur þessi spádómur ræst.‘
Síðan fór Jesús að Galíleuvatni. Þar hitti hann fjóra fiskimenn, sem urðu lærisveinar hans. Þeir hétu Pétur, Andrés, Jakob og Jóhannes. Hann sagði við þá: ‚Komið með mér og ég skal láta ykkur veiða menn.‘ Þeir hættu strax að vinna sem fiskimenn og fylgdu honum. Þeir fóru út um alla Galíleu og boðuðu ríki Guðs. Þeir boðuðu í samkunduhúsum, á mörkuðum og úti á götu. Hvert sem þeir fóru fylgdi þeim stór hópur af fólki. Fréttir af Jesú bárust um allt, meira að segja alla leið til Sýrlands.
Með tímanum gaf Jesús sumum af fylgjendum sínum kraft til að lækna veika og reka út illa anda. Aðrir fóru með honum þegar hann boðaði borg úr borg og þorp úr þorpi. Margar trúfastar konur – María Magdalena, Jóhanna, Súsanna og fleiri – ferðuðust með Jesú og lærisveinunum og hjálpuðu þeim með ýmislegt.
Þegar Jesús var búinn að þjálfa lærisveinana sína sendi hann þá út til að boða trúna. Þeir ferðuðust um alla Galíleu og margir aðrir urðu lærisveinar og létu skírast. Það voru svo margir sem vildu verða lærisveinar Jesú að hann sagði að þeir væru eins og akur þar sem var hægt að byrja að uppskera. Hann sagði: ‚Biðjið Jehóva að senda fleiri vinnumenn til að uppskera.‘ Seinna valdi hann 70 lærisveina og sendi þá tvo og tvo saman til að boða um alla Júdeu. Þeir sögðu alls konar fólki frá ríki Guðs. Þegar lærisveinarnir komu aftur voru þeir spenntir að segja Jesú frá öllu sem hafði gerst. Djöfullinn gat ekki gert neitt til að stoppa boðunina.
Jesús vildi að lærisveinarnir héldu áfram með þetta mikilvæga verkefni eftir að hann færi til himna. Hann sagði: ‚Boðið fagnaðarboðskapinn um alla jörðina. Kennið fólki orð Guðs og skírið það.‘
„Ég þarf líka að flytja öðrum borgum fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs því að til þess var ég sendur.“ – Lúkas 4:43.