SAGA 80
Jesús velur tólf postula
Þegar Jesús var búinn að boða trúna í um eitt og hálft ár þurfti hann að taka mikilvæga ákvörðun. Hann þurfti að velja nokkra sem hann myndi vinna sérstaklega mikið með. Og hann ætlaði að þjálfa þá til að fá sérstök verkefni í söfnuðinum. Jesús vildi að Jehóva hjálpaði sér að taka þessa ákvörðun. Hann fór þess vegna upp á fjall þar sem hann gat verið einn og bað til Jehóva alla nóttina. Um morguninn kallaði Jesús á nokkra af lærisveinum sínum og valdi sér tólf postula. Manstu hvað þeir hétu? Þeir hétu Pétur, Andrés, Jakob, Jóhannes, Filippus, Bartólómeus, Tómas, Matteus, Jakob Alfeusson, Taddeus, Símon og Júdas Ískaríot.
Andrés, Pétur, Filippus og Jakob.
Postularnir tólf áttu að ferðast með honum. Þegar hann var búinn að þjálfa þá sendi hann þá út til að boða trúna. Jehóva gaf þeim kraft til að reka út illa anda og lækna veika.
Jóhannes, Matteus, Bartólómeus og Tómas.
Jesús kallaði postulana vini sína og hann treysti þeim. Faríseunum fannst postularnir bara vera venjulegir menn sem kunnu ekki neitt. En Jesús þjálfaði þá fyrir verkefni sitt. Þeir myndu vera með Jesú á mikilvægustu tímunum í lífi hans, eins og rétt áður en hann dó og eftir að hann reis upp. Flestir postularnir voru frá Galíleu eins og Jesús. Sumir þeirra voru giftir.
Jakob Alfeusson, Júdas Ískaríot, Taddeus og Símon.
Postularnir voru ekki fullkomnir og þeir gerðu mistök. Stundum töluðu þeir án þess að hugsa og tóku slæmar ákvarðanir. Stundum voru þeir óþolinmóðir. Þeir rifust meira að segja um hver þeirra væri mikilvægastur. En þeir voru góðir menn og þeir elskuðu Jehóva. Þeir áttu að verða fyrstir til að fá mikilvæg verkefni í kristna söfnuðinum eftir að Jesús færi frá jörðinni.
„Ég kalla ykkur vini því að ég hef sagt ykkur allt sem ég hef heyrt hjá föður mínum.“ – Jóhannes 15:15.