SAGA 90
Jesús deyr á Golgata
Yfirprestarnir fóru með Jesú í höllina til Pílatusar landstjóra. Pílatus spurði þá: ‚Hvað sakið þið þennan mann um?‘ Þeir sögðu: ‚Hann segist vera konungur!‘ Pílatus spurði Jesú: „Ertu konungur Gyðinga?“ Jesús svaraði: „Ríki mitt tilheyrir ekki þessum heimi.“
Þá sendi Pílatus Jesú til Heródesar, sem stjórnaði í Galíleu, til að athuga hvort hann fyndi eitthvað til að dæma Jesú fyrir. Heródes gat ekki séð að Jesús hefði gert neitt rangt og sendi hann aftur til Pílatusar. Þá sagði Pílatus við fólkið: ‚Ég finn ekki að þessi maður hafi gert neitt af sér og það gerir Heródes ekki heldur. Ég ætla að láta hann lausan.‘ Fólkið hrópaði: ‚Dreptu hann! Dreptu hann!‘ Hermenn slógu Jesú með svipu, hræktu á hann og lömdu hann. Þeir settu þyrnikórónu á höfuðið á honum, gerðu grín að honum og sögðu: „Lengi lifi konungur Gyðinga!“ Pílatus sagði aftur við fólkið: ‚Þessi maður hefur ekki gert neitt af sér.‘ En fólkið hrópaði „Staurfestu hann!“ Að lokum sagði Pílatus að það ætti að taka Jesú af lífi.
Hermennirnir fóru með Jesú til staðar sem hét Golgata, negldu hann á staur og reistu staurinn upp. Jesús bað til Jehóva: ‚Faðir, fyrirgefðu þeim, af því að þeir vita ekki hvað þeir eru að gera.‘ Fólkið gerði grín að Jesú og sagði: ‚Ef þú ert sonur Guðs, komdu þá niður af staurnum. Bjargaðu sjálfum þér.‘
Tveir glæpamenn héngu við hliðina á Jesú og annar þeirra sagði: „Mundu eftir mér þegar þú kemur í ríki þitt.“ Jesús lofaði honum: „Þú verður með mér í paradís.“ Eftir hádegið varð dimmt í öllu landinu í þrjá klukkutíma. Nokkrir af lærisveinum Jesú stóðu nálægt staurnum – María mamma hans var ein af þeim. Jesús sagði Jóhannesi að hugsa um Maríu eins og mömmu sína.
Að lokum sagði Jesús: „Því er lokið.“ Hann beygði höfuðið og andaði í síðasta skiptið. Þá kom stór jarðskjálfti. Stóra tjaldið í musterinu á milli hins heilaga og hins allra helgasta rifnaði í tvennt. Liðsforingi sagði: ‚Hann var í alvörunni sonur Guðs.‘
„Hversu mörg sem loforð Guðs eru hafa þau öll orðið ‚já‘ fyrir tilstilli hans.“ – 2. Korintubréf 1:20.