SAGA 91
Jesús er reistur upp frá dauðum
Þegar Jesús var dáinn spurði ríkur maður, sem hét Jósef, Pílatus hvort hann mætti taka Jesú niður af staurnum. Jósef vafði Jesú í dúk úr fínu líni með ilmjurtum og lagði hann í nýja gröf. Hann lét rúlla þungum steini fyrir opið. Yfirprestarnir sögðu við Pílatus: ‚Við erum hræddir um að einhverjir af lærisveinum Jesú komi og steli líkamanum hans og segi að hann hafi verið reistur upp frá dauðum.‘ Pílatus sagði við þá: ‚Lokið gröfinni vandlega og setjið verði við hana.‘
Snemma um morguninn þrem dögum seinna komu konur að gröfinni og sáu að það var búið að rúlla steininum frá. Inni í gröfinni var engill sem sagði við konurnar: ‚Ekki vera hræddar. Jesús er risinn upp. Farið og segið lærisveinum hans að hitta hann í Galíleu.‘
Á meðan engillinn var að tala við konurnar flýtti María Magdalena sér til að finna Pétur og Jóhannes. Hún sagði: ‚Einhver hefur tekið líkama Jesú!‘ Pétur og Jóhannes hlupu að gröfinni. Þegar þeir sáu að hún var tóm fóru þeir heim aftur.
Þegar María kom aftur að gröfinni sá hún tvo engla inni í henni og hún sagði við þá: ‚Ég veit ekki hvert þeir hafa farið með Drottinn minn.‘ Síðan sá hún mann sem hún hélt að væri garðyrkjumaðurinn og hún sagði: ‚Herra, segðu mér hvert þú fórst með hann.‘ En þegar maðurinn sagði: „María!“ þá vissi hún að þetta var Jesús. Hún hrópaði upp yfir sig: „Kennari!“ og knúsaði hann. Jesús sagði við hana: ‚Farðu og segðu bræðrum mínum að þú hafir séð mig.‘ María hljóp strax til lærisveinanna og sagði þeim að hún hefði hitt Jesú.
Seinna sama dag voru tveir lærisveinar að labba frá Jerúsalem til Emmaus. Maður byrjaði að labba með þeim og spurði þá hvað þeir væru að tala um. Þeir sögðu: ‚Hefurðu ekki frétt að fyrir þrem dögum létu yfirprestarnir taka Jesú af lífi? Og núna eru einhverjar konur að segja að hann sé lifandi!‘ Maðurinn spurði: ‚Trúið þið ekki spámönnunum? Þeir sögðu að Kristur myndi deyja og síðan verða reistur upp.‘ Maðurinn hélt áfram að útskýra spádómana fyrir þeim. Þegar þeir komu til Emmaus buðu lærisveinarnir manninum að koma með sér. Þegar þeir borðuðu tók hann brauð og hafði bæn. Þá föttuðu þeir að þetta var Jesús. Og þá hvarf hann.
Lærisveinarnir tveir flýttu sér í húsið í Jerúsalem þar sem postularnir voru og sögðu þeim hvað hafði gerst. Jesús birtist þeim öllum á meðan þeir voru þarna í húsinu. Fyrst trúðu postularnir ekki að þetta væri Jesús. Þá sagði hann: ‚Sjáið hendurnar á mér. Komið við mig. Það var búið að skrifa að Kristur myndi rísa upp frá dauðum.‘
„Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemst til föðurins án mín.“ – Jóhannes 14:6.