Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • es22 bls. 17-26
  • Febrúar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Febrúar
  • Rannsökum Ritningarnar daglega – 2022
  • Millifyrirsagnir
  • Þriðjudagur 1. febrúar
  • Miðvikudagur 2. febrúar
  • Fimmtudagur 3. febrúar
  • Föstudagur 4. febrúar
  • Laugardagur 5. febrúar
  • Sunnudagur 6. febrúar
  • Mánudagur 7. febrúar
  • Þriðjudagur 8. febrúar
  • Miðvikudagur 9. febrúar
  • Fimmtudagur 10. febrúar
  • Föstudagur 11. febrúar
  • Laugardagur 12. febrúar
  • Sunnudagur 13. febrúar
  • Mánudagur 14. febrúar
  • Þriðjudagur 15. febrúar
  • Miðvikudagur 16. febrúar
  • Fimmtudagur 17. febrúar
  • Föstudagur 18. febrúar
  • Laugardagur 19. febrúar
  • Sunnudagur 20. febrúar
  • Mánudagur 21. febrúar
  • Þriðjudagur 22. febrúar
  • Miðvikudagur 23. febrúar
  • Fimmtudagur 24. febrúar
  • Föstudagur 25. febrúar
  • Laugardagur 26. febrúar
  • Sunnudagur 27. febrúar
  • Mánudagur 28. febrúar
Rannsökum Ritningarnar daglega – 2022
es22 bls. 17-26

Febrúar

Þriðjudagur 1. febrúar

Verið auðmjúk og lítið á aðra sem ykkur meiri. – Fil. 2:3.

Kynnstu bræðrum þínum og systrum betur. Talaðu við þau fyrir og eftir samkomur, boðaðu trúna með þeim og bjóddu þeim í mat ef þú hefur möguleika á því. Þá kemstu kannski að því að systir sem virðist kuldaleg er í rauninni bara feimin, að bróðir sem er efnaður er ekki upptekinn af efnislegum hlutum heldur er hann örlátur eða að systir og börn hennar sem koma oft seint á samkomur eru að glíma við andstöðu. (Job. 6:29, NW) Við ættum auðvitað ekki að ,blanda okkur í málefni annarra‘. (1. Tím. 5:13) En það er gagnlegt að vita eitthvað um trúsystkini okkar og þær aðstæður sem hafa mótað þau. Þú átt auðveldara með að sýna trúsystkini sem fer í taugarnar á þér samkennd ef þú þekkir bakgrunn þess. Við þurfum að hafa fyrir því að kynnast trúsystkinum okkar betur. En þegar þú ferð eftir hvatningu Biblíunnar og gerir rúmgott í hjarta þínu líkirðu eftir Jehóva sem elskar „alls konar fólk“. – 1. Tím. 2:3, 4; 2. Kor. 6:11–13. w20.04 16–17 gr. 10–12

Miðvikudagur 2. febrúar

„Enginn á meiri kærleika en sá sem leggur lífið í sölurnar fyrir vini sína.“ – Jóh. 15:13.

Kvöldið áður en Jesús dó minnti hann lærisveina sína á að elska hver annan. Hann vissi að fórnfús kærleikur myndi hjálpa þeim að halda áfram að vera sameinaðir og þola hatur heimsins. Tökum sem dæmi söfnuðinn í Þessaloníku. Bræður og systur þar voru ofsótt frá því að hann var stofnaður. En samt urðu þau fyrirmynd í trúfesti og kærleika. (1. Þess. 1:3, 6, 7) Páll hvatti þau til að halda áfram að sýna kærleika, jafnvel í „enn ríkari mæli“. (1. Þess. 4:9, 10) Kærleikur myndi knýja þau til að hughreysta niðurdregna og styðja þá sem voru veikburða. (1. Þess. 5:14) Við sjáum að þau fylgdu leiðbeiningum Páls því að í síðara bréfi sínu sem hann skrifaði ári síðar gat hann sagt við þau: „Kærleikur ykkar allra hvert til annars fer vaxandi.“ (2. Þess. 1:3–5) Kærleikur þeirra hjálpaði þeim að halda út í erfiðleikum og ofsóknum. w21.03 22 gr. 11

Fimmtudagur 3. febrúar

„Hlaupum þolgóð í hlaupinu sem við eigum fram undan.“ – Hebr. 12:1.

Við verðum að fylgja kristinni lífsstefnu ef við viljum hljóta eilíft líf. (Post. 20:24; 1. Pét. 2:21) En Satan og þeir sem fylgja fordæmi hans vilja að við tökum aðra ákvörðun. Þeir vilja að við ,hlaupum með þeim‘. (1. Pét. 4:4) Þeir gera grín að lífsstefnu okkar og segja að sú braut sem þeir eru á sé betri og leiði til frelsis. En þeir hafa rangt fyrir sér. (2. Pét. 2:19) Það er ákaflega mikilvægt að við veljum réttu brautina. Satan vill að við hættum öll að hlaupa eftir mjóa veginum sem „liggur til lífsins“ og förum yfir á breiða veginn sem flestir í heiminum eru á. Sá vegur er vinsæll og það er auðveldara að fara hann. En hann „liggur til tortímingar“. (Matt. 7:13, 14) Við verðum að treysta Jehóva og hlusta á hann til að halda okkur á rétta veginum og láta ekki leiða okkur afvega. w20.04 26 gr. 1; 27 gr. 5, 7

Föstudagur 4. febrúar

Ég hvet til að beðið sé fyrir alls konar fólki með því að bera fram áköll og fyrirbænir svo að við getum haldið áfram að lifa friðsamlegu og rólegu lífi í hreinni guðrækni. – 1. Tím. 2:1, 2.

Á undanförnum árum hafa Rússland og bandamenn þess ráðist inn í „landið fagra“. (Dan. 11:41) Hvernig? Árið 2017 bannaði núverandi konungur norðursins starfsemi þjóna Jehóva og fangelsaði suma af bræðrum okkar og systrum. Hann bannaði einnig ritin okkar, þar á meðal Nýheimsþýðingu Biblíunnar. Auk þess gerði hann deildarskrifstofu okkar í Rússlandi upptæka sem og ríkissali og mótshallir. Árið 2018, eftir þessar aðgerðir, tilkynnti hið stjórnandi ráð að Rússland og bandamenn þess væru konungur norðursins. En jafnvel þó að þjónar Jehóva séu ofsóttir grimmilega reyna þeir ekki með nokkru móti að grafa undan stjórnum manna eða breyta þeim. Þeir fylgja heldur því ráði Biblíunnar að biðja fyrir „öllum sem eru háttsettir“, ekki síst þegar slíkir ráðamenn taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á frelsi til að tilbiðja Jehóva. w20.05 14 gr. 9

Laugardagur 5. febrúar

„Gættu stöðugt að sjálfum þér og kennslunni.“ – 1. Tím. 4:16.

Þið foreldrar, ef börnin ykkar eiga að vera sannfærð um að þau hafi fundið sannleikann er nauðsynlegt að þau eigi vináttusamband við Guð og séu sannfærð um að það sem Biblían kennir sé satt. Til að kenna börnum ykkar sannleikann um Guð þurfið þið að setja þeim gott fordæmi með því að vera iðin við að rannsaka Biblíuna sjálf. Þið verðið að gefa ykkur tíma til að hugleiða það sem þið lærið. Þá getið þið hjálpað börnunum að gera slíkt hið sama. Þið þurfið að kenna þeim að nota biblíunámsgögnin okkar rétt eins og þið kennið biblíunemanda að nota þau. Þannig hjálpið þið börnum ykkar að elska Jehóva og vera þakklát fyrir þá boðleið sem hann notar til að útdeila andlegri fæðu – trúa og skynsama þjóninn. (Matt. 24:45–47) Látið ykkur ekki nægja að kenna börnum ykkar aðeins grundvallarsannindi Biblíunnar. Hjálpið þeim að byggja upp sterka trú með því að kenna þeim í samræmi við aldur og getu „hið djúpa sem býr í Guði“. – 1. Kor. 2:10. w20.07 11 gr. 10, 12, 13

Sunnudagur 6. febrúar

„Andstyggð er sá Drottni sem afvega fer en ráðvandir menn eru alúðarvinir hans.“ – Orðskv. 3:32.

Hversu margir ófullkomnir menn nú á dögum eiga náið vináttusamband við Jehóva? Þeir skipta milljónum. Þessi vinátta er möguleg vegna trúar þeirra á lausnarfórn Jesú. Á grundvelli hennar sýnir Jehóva okkur þá góðvild að leyfa okkur að vígjast sér og skírast. Þegar við stígum þessi mikilvægu skref göngum við til liðs við milljónir vígðra og skírðra lærisveina Krists sem eiga náið vináttusamband við æðstu persónu alheims. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta vináttu okkar við Guð? Líkt og Abraham og Job, sem voru Guði trúfastir í meira en hundrað ár, verðum við að vera trúföst – óháð því hversu lengi við höfum þjónað Jehóva í þessum gamla heimi. Og líkt og Daníel verðum við að meta vináttu okkar við Guð meira en lífið. (Dan. 6:8, 11, 17, 23) Með hjálp Jehóva getum við tekist á við hvaða erfiðleika sem er og varðveitt náið samband við hann. – Fil. 4:13. w20.05 27 gr. 5, 6

Mánudagur 7. febrúar

„Gef mér heilt hjarta.“ – Sálm. 86:11.

Davíð konungur sá konu annars manns vera að baða sig. Hann þekkti lagaákvæði Jehóva: „Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns.“ (2. Mós. 20:17) En það er greinilegt að hann hélt áfram að horfa. Hjarta hans varð tvískipt. Hann langaði í konuna, sem hét Batseba, en hann langaði líka til að þóknast Jehóva. Davíð hafði elskað og óttast Jehóva lengi vel en nú náði eigingirnin yfirhöndinni með þeim afleiðingum að hann braut alvarlega af sér. Hann kastaði rýrð á nafn Jehóva en kallaði líka skelfilega ógæfu yfir saklaust fólk, þar á meðal sína eigin fjölskyldu. (2. Sam. 11:1–5, 14–17; 12:7–12) Jehóva agaði Davíð og hann endurheimti gott samband við hann. (2. Sam. 12:13; Sálm. 51:4–6, 19) Davíð gleymdi ekki þeim erfiðleikum og ógæfu sem hlaust af því að hjarta hans varð tvískipt. Það má einnig þýða orð hans í Sálmi 86:11: „Gefðu mér óskipt hjarta.“ Hjálpaði Jehóva Davíð að gera hjarta sitt heilt og óskipt að nýju? Já, í Biblíunni er síðar talað um að ,hjarta hans hafi verið óskipt gagnvart Drottni, Guði hans‘. – 1. Kon. 11:4; 15:3, Biblían 1981. w20.06 11 gr. 12, 13

Þriðjudagur 8. febrúar

Ég dró þá að mér með böndum kærleikans. – Hós. 11:4.

Í Biblíunni er kærleika Jehóva til þjóna sinna lýst sem böndum, eða reipi. Á hvaða hátt er kærleikur Guðs eins og reipi? Lýsum því með dæmi: Ímyndaðu þér að þú sért við það að drukkna í ólgusjó og að einhver hendi til þín björgunarvesti. Þú ert vissulega þakklátur vegna þess að vestið hjálpar þér að halda þér á floti. En björgunarvesti dugar ekki til að halda þér á lífi. Sjórinn er kaldur og þú lifir ekki af nema þú komist í björgunarbát. Það þarf einhver að henda til þín reipi og draga þig að björgunarbátnum. Eins og fram kemur í versi dagsins dró Jehóva Ísraelsmennina sem höfðu hætt að þjóna honum að sér á kærleiksríkan hátt. Guð lítur eins á þá sem hafa hætt að þjóna honum nú á dögum og eru að drukkna í vandamálum og áhyggjum. Hann vill að þeir viti að hann elskar þá og vill draga þá til sín. Og Jehóva getur notað þig til að tjá kærleika sinn til þeirra. Það er mikilvægt að fullvissa óvirka um að Jehóva elski þá og að við elskum þá líka. w20.06 27–28 gr. 12, 13

Miðvikudagur 9. febrúar

„Sá sem er þolgóður í prófraunum er hamingjusamur.“ – Jak. 1:12.

Þegar lærisveinninn Stefán var myrtur flúðu margir kristnir menn frá Jerúsalem og „dreifðust um alla Júdeu og Samaríu“ og fóru að lokum allt til Kýpur og Antíokkíu. (Post. 7:58–8:1; 11:19) Við getum rétt ímyndað okkur erfiðleikana sem þeir þurftu að þola. Samt héldu þeir áfram að boða fagnaðarboðskapinn af kappi hvert sem þeir fóru og söfnuðir voru myndaðir um allt Rómaveldi. (1. Pét. 1:1) En þeir áttu eftir að þola mun meiri erfiðleika. Til dæmis rak Kládíus keisari alla Gyðinga út úr Róm í kringum árið 50. Kristnir menn sem voru Gyðingar neyddust því til að yfirgefa heimili sín og setjast að annars staðar. (Post. 18:1–3) Um árið 61 skrifaði Páll um trúsystkini sín sem höfðu verið smánuð fyrir opnum tjöldum, fangelsuð og rænd eigum sínum. (Hebr. 10:32–34) Og kristnir menn urðu veikir og fátækir rétt eins og annað fólk. – Rómv. 15:26; Fil. 2:25–27. w21.02 26–27 gr. 2–4

Fimmtudagur 10. febrúar

„Djöfullinn er kominn niður til ykkar og er ofsareiður þar sem hann veit að hann hefur nauman tíma.“ – Opinb. 12:12.

Satan og þeir sem eru undir áhrifum hans geta ekkert gert til að gera okkur óstöðug í trúnni ef við höfum byggt hana upp og gert hana sterka. (2. Jóh. 8, 9) Við búumst við að heimurinn hati okkur. (1. Jóh. 3:13) Jóhannes minnir okkur á að ,allur heimurinn sé á valdi hins vonda‘. (1. Jóh. 5:19) Satan verður æ reiðari eftir því sem nær dregur endalokum þessa heims. Hann beitir ekki bara lúmskum aðferðum, eins og lygum fráhvarfsmanna eða freistingu til að fremja siðleysi. Hann notar einnig beinar ofsóknir. Satan veit að hann hefur ekki mikinn tíma eftir til að reyna að stöðva boðunina eða brjóta niður trú okkar. Það kemur okkur því ekki á óvart að hömlur séu á starfi okkar eða það bannað í ýmsum löndum. En þrátt fyrir það gefast bræður okkar og systur í þessum löndum ekki upp. Þau sýna og sanna að sama hvað Satan gerir okkur getum við unnið sigur! w20.07 24 gr. 12, 13

Föstudagur 11. febrúar

„Gjöf Guðs er eilíft líf vegna Krists Jesú, Drottins okkar.“ – Rómv. 6:23.

Það var ætlun Jehóva að mennirnir lifðu að eilífu á fallegu plánetunni sem hann hafði skapað. En þegar Adam og Eva gerðu uppreisn gegn kærleiksríkum föður sínum varpaði synd og dauði skugga yfir jörðina. (Rómv. 5:12) Hvernig brást Jehóva við? Hann lét strax í ljós hvernig hann ætlaði að bjarga mannkyninu. (1. Mós. 3:15) Jehóva ákvað að sjá fyrir lausnargjaldi sem myndi gera afkomendum Adams og Evu kleift að losna undan synd og dauða. Þannig gæti hann leyft hverjum og einum að velja að þjóna sér og hljóta eilíft líf. (Jóh. 3:16; 1. Kor. 15:21, 22) Þegar Jehóva reisir upp milljónir manna fyrir atbeina sonar síns megum við gera ráð fyrir að það fái ekki allir upprisu á sama tíma. Hvers vegna? Vegna þess að skyndileg fólksfjölgun myndi að öllum líkindum skapa ringulreið. Og ekkert sem Jehóva gerir einkennist af óreiðu eða skipulagsleysi. Hann veit að gott skipulag er forsenda þess að fólk geti búið við frið. – 1. Kor. 14:33. w20.08 14 gr. 3; 15 gr. 5

Laugardagur 12. febrúar

„Gættu stöðugt að sjálfum þér og kennslunni.“ – 1. Tím. 4:16.

Nemandi ætti að skilja að við viljum hjálpa honum að verða vottur Jehóva. Það er ýmislegt sem einlægur biblíunemandi getur gert til að ná því markmiði að skírast. Fyrst kynnist hann Jehóva og fer að trúa á hann og elska hann. (Jóh. 3:16; 17:3) Síðan fer hann að mynda vináttusamband við Jehóva og bræður og systur í söfnuðinum. (Hebr. 10:24, 25; Jak. 4:8) Með tímanum iðrast nemandinn innilega þess ranga sem hann hefur gert og snýr við blaðinu. (Post. 3:19) Hann fer líka að segja öðrum frá því sem hann trúir. (2. Kor. 4:13) Síðan vígir hann Jehóva líf sitt og lætur það opinberlega í ljós með því að láta skírast. (1. Pét. 3:21; 4:2) Það er gleðidagur fyrir alla! Þegar nemandinn tekur þau skref sem þarf til að geta skírst skaltu hrósa honum af einlægni og hvetja hann til að halda áfram að taka framförum. w20.10 18 gr. 12, 13

Sunnudagur 13. febrúar

„Ef fóturinn segði: ,Fyrst ég er ekki hönd tilheyri ég ekki líkamanum,‘ þá þýddi það ekki að hann væri ekki hluti af líkamanum.“ – 1. Kor. 12:15.

Ef þú berð þig saman við aðra í söfnuðinum gætirðu átt erfitt með að sjá að þú ert verðmætur fyrir söfnuðinn. Sumir í söfnuðinum eru kannski færir kennarar, snjallir skipuleggjendur eða góðir hirðar. Þér finnst þú kannski ekki búa yfir þessum hæfileikum í sama mæli og þeir. Það sýnir að þú ert auðmjúkur. (Fil. 2:3) En þú þarft að gæta þín. Ef þú berð þig sífellt saman við þá sem hafa framúrskarandi hæfileika verðurðu óánægður með sjálfan þig. Þér gæti jafnvel, eins og Páll postuli talaði um, fundist þú ekki skipta neinu máli í söfnuðinum. Jehóva gaf sumum kristnum mönnum á fyrstu öld gjafir heilags anda fyrir kraftaverk en það fengu ekki allir sömu gjafirnar. (1. Kor. 12:4–11) En þeir voru allir dýrmætir. Nú á dögum fáum við ekki gjafir heilags anda fyrir kraftaverk. En sama frumreglan gildir enn. Við búum kannski ekki öll yfir sömu hæfileikum en við erum öll dýrmæt í augum Jehóva. w20.08 23 gr. 13–15

Mánudagur 14. febrúar

„Drottinn er með mér, ég óttast eigi.“ – Sálm. 118:6.

Þegar þú biður um kjark og hugrekki svarar Jehóva bænum þínum og yfirgefur þig aldrei. (Post. 4:29, 31) Hann er alltaf tilbúinn að styðja þig. Hugsaðu um það hvernig hann hefur hjálpað þér að takast á við erfiðleika og gefið þér styrk til að gera breytingar á lífi þínu. Sá sem leiddi þjóð sína í gegnum Rauðahafið getur vissulega hjálpað þér að vera lærisveinn Krists. (2. Mós. 14:13) Vertu öruggur eins og sálmaritarinn sem sagði orðin í versi dagsins. Jehóva getur líka hjálpað nýjum boðberum að sýna hugrekki. Systir að nafni Tomoyo er dæmi um það. Í fyrsta sinn sem hún boðaði trúna hús úr húsi öskraði fyrsti húsráðandinn sem hún hitti: „Ég vil ekki sjá votta Jehóva!“ og skellti hurðinni. Þetta hræddi ekki Tomoyo heldur sagði hún við samstarfsfélaga sinn: „Heyrðirðu þetta? Ég sagði ekki orð og hún vissi að ég væri vottur Jehóva. Ég er svo ánægð!“ Tomoyo er núna brautryðjandi. w20.09 6 gr. 13, 14

Þriðjudagur 15. febrúar

„Asa gerði það sem gott var og rétt í augum Drottins, Guðs síns.“ – 2. Kron. 14:1.

Asa sagði þjóðinni að það væri Jehóva sem hafði ,veitt henni frið á alla vegu‘. (2. Kron. 14:5, 6) En hann leit ekki svo á að nú væri tími til að slaka á. Þvert á móti hófst hann handa við að láta reisa borgir, múra, turna og hlið. „Við höfum landið enn á valdi okkar,“ sagði hann við Júdamenn. Hvað átti Asa við? Fólk var frjálst ferða sinna í landinu og gat byggt án þess að mæta andstöðu óvina. Hann hvatti fólkið til að nota tímann vel meðan friður ríkti. Asa notaði líka þetta friðartímabil til að efla her sinn. (2. Kron. 14:7) Þýðir það að hann hafi ekki treyst á Jehóva? Nei, Asa vissi að það var hans ábyrgð sem konungur að búa þjóðina undir erfiðleika sem kynnu að koma upp. Hann vissi að friðurinn í Júda yrði líklega ekki varanlegur, og sú varð raunin. w20.09 15 gr. 4, 5

Miðvikudagur 16. febrúar

„Gangið ekki lengra en skrifað er.“ – 1. Kor. 4:6.

Öldungur gæti sett reglur í þeirri von að þær verndi sauði Guðs vegna þess að honum er annt um söfnuðinn. En hlutverk öldunganna og hlutverk höfuðs fjölskyldunnar eru á ýmsan hátt ólík. Jehóva hefur til dæmis útnefnt öldunga til að vera dómara. Og hann hefur gefið þeim þá ábyrgð að víkja þeim sem syndga og iðrast ekki úr söfnuðinum. (1. Kor. 5:11–13) En Jehóva hefur gefið fjölskyldufeðrum ákveðið vald sem hann hefur ekki gefið öldungum. Hann hefur til dæmis falið höfði fjölskyldunnar bæði að setja og framfylgja reglum í sinni fjölskyldu. (Rómv. 7:2) Höfuð fjölskyldunnar hefur til dæmis rétt á að setja börnum sínum útivistarreglur. Hann hefur líka vald til þess að aga þau ef þau brjóta þær. (Ef. 6:1) Að sjálfsögðu ráðfærir kærleiksríkur fjölskyldufaðir sig við konuna sína áður en hann setur reglur á heimilinu enda eru þau eitt. – Matt. 19:6. w21.02 16–18 gr. 10–13

Fimmtudagur 17. febrúar

Viska er dýrmætari en perlur, allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana. – Orðskv. 3:15.

Sannindin í Biblíunni eru dýrmæt að því leyti að Jehóva opinberar þau aðeins auðmjúku fólki ,sem hefur það hugarfar sem þarf‘. (Post. 13:48) Þeir sem eru auðmjúkir viðurkenna þá boðleið sem Jehóva notar til að koma þessum sannindum á framfæri nú á dögum. (Matt. 11:25; 24:45) Ekkert er jafn verðmætt og að skilja Biblíuna, en það getum við ekki upp á eigin spýtur. (Orðskv. 3:13) Jehóva hefur einnig trúað okkur fyrir því að fræða aðra um sannleikann um hann og fyrirætlun hans. (Matt. 24:14) Boðskapurinn sem við boðum er ómetanlegur því að hann hjálpar fólki að verða hluti af fjölskyldu Jehóva og gefur því tækifæri til að eignast eilíft líf. (1. Tím. 4:16) Hvort sem við getum tekið mikinn eða lítinn þátt í boðuninni styðjum við mikilvægasta starf sem unnið er á okkar tímum. (1. Tím. 2:3, 4) Hvílíkur heiður að vera samverkamenn Guðs! – 1. Kor. 3:9. w20.09 26–27 gr. 4, 5

Föstudagur 18. febrúar

Við fundum bræður og þeir hvöttu okkur til að staldra við. – Post. 28:14.

Jehóva veitti Páli postula oft hjálp fyrir atbeina bræðra og systra á ferð hans til Rómar. Tveir tryggir félagar Páls, þeir Aristarkus og Lúkas, ákváðu til dæmis að slást í för með Páli til Rómar. Þeir hættu lífi sínu fúslega til að vera með Páli enda þótt Jesús virðist hafa lofað hvorugum þeirra að komast heill á húfi til Rómar. Það var ekki fyrr en seinna í erfiðri sjóferð sem þeir fengu að vita að þeir myndu lifa. Þegar þeir komu að landi í hafnarborginni Sídon leyfði Júlíus Páli að „fara og hitta vini sína til að njóta umhyggju þeirra“. (Post. 27:1–3) Og síðar, í borginni Púteólí, fundu Páll og félagar hans ,bræður og þeir hvöttu þá til að staldra við í viku‘. Kristnir menn á þessum stöðum önnuðust Pál og félaga hans og hann hefur án efa glatt gestgjafa sína með uppörvandi frásögum. – Samanber Postulasöguna 15:2, 3. w20.11 15–16 gr. 15–17

Laugardagur 19. febrúar

Guðræknin gefur loforð bæði fyrir þetta líf og lífið sem er fram undan. – 1. Tím. 4:8.

Foreldrar, kennið börnunum ykkar í orði og verki að þið elskið Jehóva. Mesta gjöfin sem þið getið gefið þeim er að hjálpa þeim að elska Jehóva. Það er mikilvægt að þið kennið þeim að biðja reglulega og hafa góða reglu á sjálfsnámi, samkomum og boðuninni. (1. Tím. 6:6) Þið þurfið auðvitað að sjá börnunum fyrir efnislegum nauðsynjum. (1. Tím. 5:8) En munið að það er náið samband við Jehóva en ekki efnislegar eigur sem hjálpar þeim að lifa af endalok þessa gamla heims og komast inn í nýjan heim Guðs. (Esek. 7:19) Það er ánægjulegt að sjá svo marga foreldra í söfnuðinum taka góðar ákvarðanir til að hjálpa börnunum sínum að nálægja sig Jehóva. Börn sem alast upp í slíkum fjölskyldum halda oft áfram góðum venjum og sjá ekki eftir neinu. – Orðskv. 10:22. w20.10 28–29 gr. 10, 11

Sunnudagur 20. febrúar

„Þú átt alls ekki að þurfa að ganga í gegnum þetta.“ – Matt. 16:22.

Pétur postuli átti það til að segja eða gera eitthvað sem hann sá síðar eftir. Þegar Jesús til dæmis sagðist myndu þjást og deyja ávítti Pétur hann og sagði orðin í versi dagsins. (Matt. 16:21–23) Þá leiðrétti Jesús Pétur. Þegar hópur manna kom til að handtaka Jesú hjó Pétur í hvatvísi eyrað af þjóni æðstaprestsins. (Jóh. 18:10, 11) Aftur leiðrétti Jesús lærisveininn. Auk þess hafði Pétur gortað sig af því að hann myndi aldrei yfirgefa Krist þótt hinir postularnir myndu gera það! (Matt. 26:33) En þetta oftraust á sjálfum sér varð honum að falli. Hann óttaðist menn og afneitaði því Jesú þrisvar sinnum. Pétur „gekk út og grét beisklega“, algerlega niðurbrotinn. (Matt. 26:69–75) Hann hlýtur að hafa velt því fyrir sér hvort Jesús myndi nokkurn tíma fyrirgefa sér. En Pétur lét ekki depurð ná tökum á sér. Hann náði sér á strik eftir að hafa hrasað og hélt áfram að þjóna Jehóva með hinum postulunum. – Jóh. 21:1–3; Post. 1:15, 16. w20.12 20–21 gr. 17, 18

Mánudagur 21. febrúar

„Þið eiginmenn skuluð vera skynsamir í sambúðinni við konur ykkar. Virðið þær sem veikara ker, hið kvenlega.“ – 1. Pét. 3:7.

Sá sem er höfuð fjölskyldunnar getur sýnt lítillæti á marga vegu. Hann ætlast til dæmis ekki til þess að eiginkona sín og börn séu fullkomin. Hann hlustar á og tekur mið af skoðunum annarra í fjölskyldunni jafnvel þótt hann sé ekki sammála. Lítillátur eiginmaður er auk þess fús að vinna húsverk jafnvel þótt slík verk séu álitin kvenmannsverk í samfélaginu. Þetta getur verið áskorun. Hvers vegna? Systir sem heitir Rachel segir: „Ef eiginmaður hjálpar konunni sinni að vaska upp eftir matinn eða þrífa heimilið draga nágrannar og ættingjar í efa að hann sé ,sannur karlmaður‘. Þeir álíta að hann geti ekki haft stjórn á konunni sinni.“ Ef þetta er algengt viðhorf þar sem þú býrð skaltu muna að Jesús þvoði fætur postula sinna jafnvel þótt það væri álitið verk þræla. Þeim sem fer rétt með forystu í fjölskyldunni er ekki umhugað um að vera álitinn mikilvægur. Hann vill að eiginkona sín og börn séu ánægð. w21.02 2 gr. 3; 4 gr. 11

Þriðjudagur 22. febrúar

„Eitt er víst: Ég gleymi því sem er að baki og teygi mig eftir því sem er fram undan. Ég keppi að markinu.“ – Fil. 3:13, 14.

Góðar minningar eru blessun frá Jehóva. En sama hve gott líf okkar var áður verður það betra í nýja heiminum. Aðrir geta sært okkur, en þegar við veljum að fyrirgefa getum við einbeitt okkur að þjónustunni við Jehóva. Óhófleg sektarkennd getur hindrað okkur í að þjóna Jehóva með gleði. En við þurfum, líkt og Páll postuli, að trúa að Jehóva hafi fyrirgefið okkur. (1. Tím. 1:12–15) Við eigum í vændum að lifa að eilífu. Og í nýja heiminum á engin minning eftir að plaga okkur. Biblían segir um þann tíma: „Hins fyrra verður ekki minnst framar.“ (Jes. 65:17) Hugsið ykkur: Sum okkar eru farin að eldast í þjónustu Jehóva, en í nýja heiminum verðum við ung aftur. (Job. 33:25) Verum því staðráðin í að lifa ekki í fortíðinni. Horfum frekar fram á við og látum líf okkar snúast um það sem fram undan er. w20.11 24 gr. 4; 29 gr. 18, 19

Miðvikudagur 23. febrúar

Ég sá mikinn múg hrópa stöðugt hárri röddu: ,Frelsunin kemur frá Guði okkar og lambinu.‘ – Opinb. 7:9, 10.

Hvað er fram undan? Í þrengingunni miklu mun Jehóva bjarga okkur með undraverðum hætti. Fyrst mun hann bjarga trúföstum þjónum sínum þegar hann lætur konunga jarðarinnar eyða Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. (Opinb. 17:16–18; 18:2, 4) Síðan bjargar hann fólki sínu þegar hann afmáir það sem eftir verður af heimi Satans í Harmagedón. (Opinb. 16:14, 16) Satan getur ekki valdið okkur varanlegum skaða ef við höldum okkur nálægt Jehóva. Það er Satan sem á eftir að bíða varanlegan skaða. (Rómv. 16:20) Klæðstu öllum herklæðum Guðs – og vertu í þeim! Reyndu ekki að berjast einn. Styddu bræður þína og systur og fylgdu leiðsögn Jehóva. Ef þú gerir það geturðu treyst því að ástríkur faðir þinn á himnum styrki þig og verndi. – Jes. 41:10. w21.03 30 gr. 16, 17

Fimmtudagur 24. febrúar

„Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera.“ – Jes. 30:15.

Hvernig getum við sýnt að við treystum Jehóva? Með því að fylgja þeirri leiðsögn sem hann gefur okkur. Í Biblíunni er að finna margar frásögur sem sýna hversu mikilvægt er að halda ró sinni og treysta á Jehóva. Þegar þú skoðar þessar frásögur skaltu taka eftir hvað hjálpaði þjónum Guðs að halda ró sinni andspænis gríðarlegri andstöðu. Þegar Gyðingar í Æðstaráðinu skipuðu postulunum til dæmis að hætta að boða trúna misstu þeir ekki kjarkinn. Þess í stað svöruðu þeir hugrakkir: „Við verðum að hlýða Guði frekar en mönnum.“ (Post. 5:29) Jafnvel eftir að þeir höfðu verið hýddir fylltust þeir ekki örvæntingu. Hvers vegna? Þeir vissu að Jehóva studdi þá. Hann var ánægður með þá. Þeir héldu því áfram að boða fagnaðarboðskapinn. (Post. 5:40–42) Og þegar Stefán lærisveinn stóð andspænis dauðanum var hann svo rólegur og æðrulaus að andlit hans var „eins og andlit engils“. (Post. 6:12–15) Hvers vegna? Vegna þess að hann vissi að Jehóva hafði velþóknun á honum. w21.01 4 gr. 10, 11

Föstudagur 25. febrúar

„Þeir hafa þvegið skikkjur sínar skjannahvítar í blóði lambsins.“ – Opinb. 7:14.

Það þýðir að þeir hafa hreina samvisku og gott samband við Jehóva. (Jes. 1:18) Þeir sem tilheyra múginum mikla eru vígðir og skírðir þjónar Guðs sem hafa sterka trú á fórn Jesú og eiga vináttusamband við Jehóva. (Jóh. 3:36; 1. Pét. 3:21) Þess vegna geta þeir staðið frammi fyrir hásæti Guðs og veitt honum „heilaga þjónustu dag og nótt“ í jarðneskum forgarði andlegs musteris hans. (Opinb. 7:15) Þeir setja hagsmuni Guðsríkis framar sínum eigin og sinna nú af kappi stærstum hluta þess verkefnis að boða Guðsríki og gera fólk að lærisveinum. (Matt. 6:33; 24:14; 28:19, 20) Þeir sem tilheyra múginum mikla og koma úr þrengingunni miklu eru vissir um að Guð haldi áfram að annast þá því að „sá sem situr í hásætinu mun tjalda yfir þá“. Loforðið sem aðrir sauðir hafa hlakkað til að sjá uppfyllast rætist þá loksins: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra.“ – Opinb. 21:3, 4. w21.01 16 gr. 9, 10

Laugardagur 26. febrúar

Ég mun úthella nokkru af anda mínum yfir alls konar fólk. Synir ykkar og dætur munu spá. – Post. 2:17.

Við njótum þess að vera í fjölskyldu Jehóva og við gerum okkar besta til að virða fyrirkomulag Jehóva um forystu. Biblían sýnir að Jehóva metur bæði konur og karla. Hún segir til dæmis frá því að á fyrstu öld hafi Jehóva gefið bæði konum og körlum heilagan anda og gert þeim kleift að vinna kraftaverk, eins og að tala önnur tungumál. (Post. 2:1–4, 15–18) Bæði konur og karlar hafa verið smurð heilögum anda og munu ríkja með Kristi. (Gal. 3:26–29) Bæði karlar og konur munu hljóta eilíft líf á jörðinni. (Opinb. 7:9, 10, 13–15) Og bæði körlum og konum er falið að boða fagnaðarboðskapinn og kenna fólki. (Matt. 28:19, 20) Í Postulasögunni er til dæmis talað um systur sem hét Priskilla. Hún og Akvílas maðurinn hennar útskýrðu sannleikann nánar fyrir Apollósi sem var menntaður maður. – Post. 18:24–26. w21.02 14 gr. 1; 15 gr. 4

Sunnudagur 27. febrúar

Hafið gætur á sjálfum ykkur og allri hjörðinni. Verið hirðar safnaðar Guðs. – Post. 20:28.

Öldungar bera þá mikilvægu ábyrgð að hjálpa boðberum að ná árangri í boðun sinni og kennslu. Þú getur boðist til að stýra umræðunum ef boðberinn er feiminn við það þegar þú ert viðstaddur. Öldungar geta gert margt til að uppörva og hvetja biblíukennara. (1. Þess. 5:11) Þó að við höldum kannski ekki biblíunámskeið eins og er getum við samt hjálpað einhverjum að taka framförum í trúnni. Við getum aðstoðað kennarann í biblíunámsstund með vel undurbúnum athugasemdum okkar, án þess þó að tala of mikið. Við getum vingast við nemendur þegar þeir koma í ríkissalinn og við getum sýnt þeim gott fordæmi. Og öldungarnir geta hvatt nemendurna með því að gefa þeim af tíma sínum og kennarana með því að þjálfa þá og hrósa þeim. Það veitir okkur mikla ánægju að geta átt þó ekki sé nema lítinn þátt í að einhver læri að elska Jehóva og þjóna honum. w21.03 13 gr. 18, 19

Mánudagur 28. febrúar

„Drottinn sýnir þeim trúnað sem óttast hann.“ – Sálm. 25:14.

Davíð sýndi dagsdaglega að hann var ábyrgur og áreiðanlegur. Þegar hann var ungur lagði hann hart að sér við að annast sauðfé föður síns. Það reyndist hættulegt. Davíð útskýrði síðar fyrir Sál konungi: „Þjónn þinn hefur verið fjármaður hjá föður sínum. Þegar ljón eða björn kom og tók lamb úr hjörðinni elti ég hann og felldi og reif síðan lambið úr gini hans.“ (1. Sam. 17:34, 35) Davíð fann til ábyrgðar og verndaði féð. Ungir bræður geta líkt eftir Davíð með því að annast vel hvert það verkefni sem þeim er falið. Davíð var ungur þegar hann eignaðist náið samband við Jehóva. Það var mikilvægara en hugrekki Davíðs eða færni hans til að spila á hörpu. Jehóva var ekki aðeins Guð Davíðs, hann var líka vinur hans – náinn vinur. Ungu bræður, það mikilvægasta sem þið getið gert er að styrkja sambandið við himneskan föður ykkar. w21.03 3 gr. 4, 5

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila