Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • es22 bls. 88-97
  • September

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • September
  • Rannsökum Ritningarnar daglega – 2022
  • Millifyrirsagnir
  • Fimmtudagur 1. september
  • Föstudagur 2. september
  • Laugardagur 3. september
  • Sunnudagur 4. september
  • Mánudagur 5. september
  • Þriðjudagur 6. september
  • Miðvikudagur 7. september
  • Fimmtudagur 8. september
  • Föstudagur 9. september
  • Laugardagur 10. september
  • Sunnudagur 11. september
  • Mánudagur 12. september
  • Þriðjudagur 13. september
  • Miðvikudagur 14. september
  • Fimmtudagur 15. september
  • Föstudagur 16. september
  • Laugardagur 17. september
  • Sunnudagur 18. september
  • Mánudagur 19. september
  • Þriðjudagur 20. september
  • Miðvikudagur 21. september
  • Fimmtudagur 22. september
  • Föstudagur 23. september
  • Laugardagur 24. september
  • Sunnudagur 25. september
  • Mánudagur 26. september
  • Þriðjudagur 27. september
  • Miðvikudagur 28. september
  • Fimmtudagur 29. september
  • Föstudagur 30. september
Rannsökum Ritningarnar daglega – 2022
es22 bls. 88-97

September

Fimmtudagur 1. september

„Síðar mun ég úthella anda mínum yfir alla menn.“ – Jóel 3:1.

Pétri var innblásið að breyta aðeins orðalaginu þegar hann vitnaði í spádóm Jóels. (Post. 2:16, 17) Í stað þess að byrja tilvitnunina á „síðar“ sagði Pétur að „á síðustu dögum“ – og átti þar við síðustu daga þjóðskipulags Gyðinga – yrði anda Guðs úthellt yfir „alls konar fólk“. Það gefur til kynna að talsverður tími hafi liðið áður en spádómur Jóels rættist. Það var eftir að anda Guðs var úthellt með undraverðum hætti á fyrstu öld að hafið var boðunarátak sem næði með tímanum út um allan heim. Þegar Páll skrifaði bréf sitt til Kólossumanna um árið 61 gat hann sagt að fagnaðarboðskapurinn hefði verið boðaður „allri sköpun undir himninum“. (Kól. 1:23, neðanmáls) Á dögum Páls vísaði ,öll sköpunin‘ til þess heims sem þá var þekktur. Með hjálp máttugs anda Jehóva hefur boðuninni vaxið stórlega fiskur um hrygg á okkar dögum og nær „til endimarka jarðar“. – Post. 13:47. w20.04 6 gr. 15, 16

Föstudagur 2. september

„Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim.“ – Esek. 34:11.

Jehóva elskar hvert og eitt okkar, líka þá sauði sína sem hafa villst frá hjörðinni. (Matt. 18:12–14) Guð lofaði að hann myndi leita að týndum sauðum sínum og hjálpa þeim að endurheimta gott samband við sig. Og hann útskýrði hvað hann myndi gera. Hann færi svipað að og dæmigerður fjárhirðir á biblíutímanum gerði ef sauður týndist. (Esek. 34:12–16) Fjárhirðirinn leitaði fyrst að sauðnum en það gat kostað mikinn tíma og erfiði. Þegar hann fann sauðinn fór hann með hann til baka í hjörðina. Og ef sauðurinn var særður eða hungraður hjálpaði fjárhirðirinn honum á kærleiksríkan hátt með því að binda um sárin, bera hann og gefa honum mat. Öldungar eru hirðar „hjarðar Guðs“ og þurfa að fara eins að til að hjálpa hverjum þeim sem hefur villst frá söfnuðinum. (1. Pét. 5:2, 3) Öldungarnir leita að þeim, hjálpa þeim að snúa aftur til safnaðarins og sýna þeim kærleika með því að veita þeim þá hjálp sem þeir þurfa til að eignast aftur vináttu við Guð. w20.06 20 gr. 10

Laugardagur 3. september

Akrarnir eru hvítir og tilbúnir til uppskeru. – Jóh. 4:35.

Bjóst Jesús við að þorri manna myndi fylgja sér fyrst hann sagði að akrarnir væru tilbúnir til uppskeru? Alls ekki. Ritningarnar höfðu sagt fyrir að frekar fámennur hópur fólks myndi trúa á hann. (Jóh. 12:37, 38) Og Jesús gat lesið hjörtu. (Matt. 9:4) En hann boðaði öllum trúna þótt hann einbeitti sér sérstaklega að þeim fáu sem trúðu á hann. Við getum ekki lesið hjörtu. Við ættum því miklu fremur að forðast þá tilhneigingu að dæma hóp fólks eða einstaklinga á starfssvæði okkar. Þess í stað skulum við líta á fólk sem tilvonandi lærisveina. Munum það sem Jesús sagði við lærisveina sína. Akrarnir eru hvítir, þeir eru með öðrum orðum tilbúnir til uppskeru. Fólk getur breyst og gerst lærisveinar Krists. Í augum Jehóva eru þessir hugsanlegu lærisveinar „gersemar“. (Hag. 2:7, Biblían 1981) Ef við lítum aðra sömu augum og Jehóva og Jesús kynnum við okkur bakgrunn þeirra og hvar áhugi þeirra liggur. Við lítum ekki svo á að þeir komi okkur ekki við heldur að þeir geti orðið trúsystkini okkar. w20.04 13 gr. 18, 19

Sunnudagur 4. september

„Ég kalla ykkur vini því að ég hef sagt ykkur allt sem ég hef heyrt hjá föður mínum.“ – Jóh. 15:15.

Í Biblíunni kemur skýrt fram að við verðum að elska Jesú og hlúa að kærleikanum til hans ef við viljum þóknast Jehóva. Eitt sem við getum gert til að verða vinir Jesú er að kynnast honum. Við getum gert það með því að lesa biblíubækurnar Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes. Við lærum að elska og virða Jesú þegar við hugleiðum efni bókanna og kynnumst því hvernig hann sýndi öðrum hlýju og vinsemd. Hann kom til dæmis ekki fram við lærisveina sína eins og þjóna þótt hann væri húsbóndi þeirra. Öllu heldur tjáði hann þeim hugsanir sínar og tilfinningar. Hann fann til með þeim og grét með þeim. (Jóh. 11:32–36) Jafnvel andstæðingar hans viðurkenndu að hann væri vinur þeirra sem tóku við boðskap hans. (Matt. 11:19) Þegar við líkjum eftir því hvernig Jesús kom fram við lærisveina sína eignumst við betra samband við aðra, við verðum hamingjusamari og kærleikur okkar og virðing í garð Jesú fer vaxandi. w20.04 22 gr. 9, 10

Mánudagur 5. september

„Konungur suðursins mun heyja stríð og tefla gegn honum miklum og illvígum her.“ – Dan. 11:25.

Árið 1870 var Bretland orðið stærsta heimsveldi á jörðinni og það var með öflugasta herinn. Þessu heimsveldi var lýst eins og litlu horni sem vann sigur á þrem öðrum hornum – Frakklandi, Spáni og Hollandi. (Dan. 7:7, 8) Bretland var konungur suðursins þar til langt var liðið á fyrri heimsstyrjöldina. Bandaríkin voru þá orðin efnaðasta land heims og mynduðu náið bandalag við Bretland. Í fyrri heimsstyrjöldinni mynduðu Bandaríkin og Bretland öflugt hernaðarbandalag og urðu þá ensk-ameríska heimsveldið. Eins og Daníel spáði fyrir um hafði þessi konungur safnað saman „miklum og illvígum her“. Á hinum síðustu dögum hefur ensk-ameríska heimsveldið alltaf verið konungur suðursins. w20.05 4 gr. 7, 8

Þriðjudagur 6. september

„Þangað sem árnar renna munu þær ávallt renna.“ – Préd. 1:7.

Vatn er í fljótandi formi á jörðinni vegna þess að hún er staðsett í nákvæmlega réttri fjarlægð frá sólu. Ef hún væri örlítið nær myndi allt vatn gufa upp og hún verða skraufþurr og steikjandi heit og ekkert líf gæti þrifist á henni. Ef jörðin væri örlítið fjær sólu myndi allt vatn frjósa og hún verða að risastórum ísklumpi. Hringrás vatns viðheldur lífinu á jörðinni vegna þess að Jehóva staðsetti jörðina á besta stað. Sólin sér til þess að vatn gufar upp úr sjó, ám og vötnum. Vatnsgufan verður síðan að skýjum. Á hverju ári gufa upp nálega 500.000 rúmkílómetrar af vatni vegna áhrifa sólarinnar. Eftir að vatnið gufar upp helst það í loftinu í um það bil tíu daga og fellur síðan til jarðar sem regn eða snjór. Vatnið rennur síðan aftur til sjávar eða sameinast ám og vötnum og hringrásin endurtekur sig. Þessi stöðuga og lífsnauðsynlega hringrás sannar að Jehóva er bæði vitur og máttugur. – Job. 36:27, 28. w20.05 22 gr. 6

Miðvikudagur 7. september

„Þið fáið kraft þegar heilagur andi kemur yfir ykkur.“ – Post. 1:8.

Jesús hvatti okkur til að halda áfram að biðja um heilagan anda. (Lúk. 11:9, 13) Jehóva notar heilagan anda til að gefa okkur kraft – jafnvel kraft „sem er ofar mannlegum mætti“. (2. Kor. 4:7) Með hjálp heilags anda getum við staðist hvaða prófraun sem við verðum fyrir. Heilagur andi getur líka hjálpað okkur að gera verkefnum okkar í þjónustu Guðs góð skil og aukið hæfileika okkar og getu. Við vitum að árangurinn af erfiði okkar er ekki sjálfum okkur að þakka heldur hjálp heilags anda Guðs. Við getum sýnt að við erum þakklát fyrir heilagan anda Guðs með því að biðja Guð um að heilagur andi hjálpi okkur að koma auga á rangar hugsanir eða langanir sem kunna að leynast í hjarta okkar. (Sálm. 139:23, 24) Þegar við gerum það getur Jehóva notað anda sinn til að vekja athygli okkar á röngum hugsunum eða tilhneigingum. Síðan ættum við að biðja hann um að andi hans gefi okkur styrk til að berjast á móti þeim. Þannig sýnum við að við erum staðráðin í að forðast hvaðeina sem gæti orðið til þess að Jehóva hætti að veita okkur hjálp heilags anda. – Ef. 4:30. w20.05 28–29 gr. 10–12

Fimmtudagur 8. september

„Ég hef kunngert þeim nafn þitt.“ – Jóh. 17:26.

Við líkjum eftir Jesú Kristi þegar við verjum nafn Jehóva. Jesús kunngerði nafn föður síns bæði með því að nota það og verja mannorð hans. Farísearnir drógu upp þá mynd af Jehóva að hann væri harðneskjulegur, kröfuharður, fjarlægur og miskunnarlaus. Jesús andmælti því. Hann sýndi fólki fram á að Jehóva væri sanngjarn, þolinmóður, kærleiksríkur og fús til að fyrirgefa. Hann hjálpaði fólki að kynnast honum með því að endurspegla eiginleika hans fullkomlega dag frá degi. (Jóh. 14:9) Líkt og Jesús getum við sagt fólki frá því sem við vitum um Jehóva og kennt hve kærleiksríkur og góður Guð hann er. Með því að gera það hrekjum við lygar og róg um hann. Við helgum nafn Jehóva með því að sýna fólki fram á að það sé heilagt. Við sýnum með orðum okkar og verkum hvernig Jehóva er í raun og veru. Við hreinsum nafn Jehóva af ósönnum ákærum þegar við hjálpum fólki að losa sig við ranghugmyndir um hann. w20.06 6 gr. 17, 18

Föstudagur 9. september

„Lítum ekki of stórt á sjálf okkur þannig að við förum að keppa hvert við annað og öfunda hvert annað.“ – Gal. 5:26.

Hægt er að nota samfélagsmiðla til góðra hluta – eins og til að halda sambandi við fjölskyldu og vini. En hefurðu tekið eftir að fólk setur stundum efni inn á samfélagsmiðla til að upphefja sjálft sig? Skilaboðin sem það vill senda virðast vera: „Sjáið mig!“ Sumir setja jafnvel dónalegar og klúrar athugasemdir við eigin myndir eða myndir annarra. Það er þveröfugt við þá auðmýkt og náungakærleika sem kristnir menn eru hvattir til að þroska með sér. (1. Pét. 3:8) Ef þú notar samfélagsmiðla skaltu spyrja þig: Gætu athugasemdir mínar, myndir eða myndbönd gefið þá mynd að ég sé að gorta mig? Gætu aðrir orðið öfundsjúkir? Kristnum mönnum finnst þeir ekki þurfa að láta aðra dást að sér. Þeir fylgja hvatningu Biblíunnar í versi dagsins. Auðmýkt kemur í veg fyrir að við látum stærilæti heimsins ná tökum á okkur. – 1. Jóh. 2:16. w20.07 6 gr. 14, 15

Laugardagur 10. september

Áður var ég guðlastari, ósvífinn og ofsótti fólk Guðs. En mér var miskunnað vegna þess að ég vissi ekki betur. – 1. Tím. 1:13.

Áður en Páll postuli gerðist lærisveinn Krists var hann ósvífinn ungur maður sem ofsótti fylgjendur Jesú. (Post. 7:58) Jesús stöðvaði ofsóknir Páls sem var þá þekktur undir nafninu Sál. Jesús talaði við Pál frá himni og sló hann blindu. Til að endurheimta sjónina neyddist Páll til að leita hjálpar einmitt hjá þeim sem hann hafði ofsótt. Hann þáði auðmjúkur hjálp lærisveinsins Ananíasar, en hann hjálpaði Páli að fá sjónina á ný. (Post. 9:3–9, 17, 18) Páll varð síðar vel þekktur innan kristna safnaðarins. En hann gleymdi aldrei lexíunni sem hann lærði af því sem gerðist þegar Jesús talaði við hann á leiðinni til Damaskus. Páll var áfram auðmjúkur og þáði fúslega hjálp trúsystkina sinna. Hann sagði að þau hefðu verið sér „mikill styrkur“. – Kól. 4:10, 11, neðanmáls. w20.07 18–19 gr. 16, 17

Sunnudagur 11. september

„Faðir ykkar hefur ákveðið að gefa ykkur ríkið.“ – Lúk. 12:32.

Jehóva felur öðrum ábyrgð, jafnvel þótt hann sé almáttugur. Hann fól Jesú að vera konungur Guðsríkis og felur 144.000 körlum og konum að ríkja með honum. Jehóva bjó Jesú auðvitað undir það að verða konungur og æðstiprestur. (Hebr. 5:8, 9) Hann þjálfar líka meðstjórnendur hans. En hann felur þeim ekki verkefni og reynir síðan að stjórna því algerlega hvernig þeir inna það af hendi. Hann treystir að þeir geri vilja hans. (Opinb. 5:10) Fyrst himneskur faðir okkar, sem þarf ekki á hjálp annarra að halda, felur öðrum ábyrgð, hversu miklu fremur ættum við þá ekki að gera það! Ert þú höfuð fjölskyldu eða öldungur í söfnuðinum? Þá skaltu fylgja fordæmi Jehóva með því að fela öðrum ábyrgð og forðast þá tilhneigingu að stjórna því um of hvernig þeir vinna verkið. Þegar þú líkir eftir Jehóva er ekki aðeins hægt að ljúka verkinu heldur þjálfarðu um leið aðra og styrkir sjálfstraust þeirra. – Jes. 41:10. w20.08 9 gr. 5, 6

Mánudagur 12. september

„Mannssonurinn kom til að leita að hinu týnda og bjarga því.“ – Lúk. 19:10.

Hvernig vill Jehóva að við lítum á týnda sauði hans? Jesús setti okkur fordæmi. Hann vissi að allir sauðir Jehóva eru honum mikils virði. Þess vegna gerði hann sitt besta til að leita „týndra sauða af ætt Ísraels“ og hjálpa þeim að snúa aftur til Jehóva. (Matt. 15:24) Jesús er góði hirðirinn og gerði því allt sem hann gat til að enginn af sauðum Jehóva glataðist. (Jóh. 6:39) Páll postuli hvatti öldungana í söfnuðinum í Efesus til að fylgja fordæmi Jesú. Hann sagði þeim „að hjálpa þeim sem eru veikburða, og hafa í huga orð Drottins Jesú en hann sagði: ,Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.‘“ (Post. 20:17, 35) Öldungar nú á dögum bera augljóslega sérstaka ábyrgð. Salvador er öldungur á Spáni. Hann segir: „Þegar ég hugsa um hve annt Jehóva er um týnda sauði sína langar mig að gera mitt besta til að hjálpa þeim. Ég er sannfærður um að Jehóva vill að ég annist þá.“ w20.06 23 gr. 15, 16

Þriðjudagur 13. september

„Það sem áður var er horfið.“ – Opinb. 21:4.

Jehóva býst ekki við fullkomleika af okkur fyrr en í lok þúsundáraríkisins. En fram að því sýnir hann okkur þolinmæði og er fús til að fyrirgefa syndir okkar. Við ættum því að líkja eftir honum og leitast við að sjá það góða í fari annarra og sýna þeim þolinmæði. Jesús og englarnir glöddust þegar jörðin var mynduð. En ímyndaðu þér gleðina þegar þeir sjá jörðina fulla af fullkomnu fólki sem elskar Jehóva og þjónar honum. Hugsaðu þér gleði þeirra sem voru kallaðir til himna til að ríkja með Kristi þegar þeir sjá að mannkynið nýtur góðs af starfi þeirra. (Opinb. 4:4, 9–11; 5:9, 10) Og ímyndaðu þér hvernig lífið verður þegar gleðitár koma í stað sorgartára og þegar veikindi, sorg og dauði er úr sögunni fyrir fullt og allt. Vertu staðráðinn þangað til í að líkja eftir kærleiksríkum, vitrum og þolinmóðum föður þínum. Þannig viðheldurðu gleðinni, sama hvaða erfiðleikum þú mætir. (Jak. 1:2–4) Við getum verið innilega þakklát að Jehóva skuli hafa lofað að „reisa upp bæði réttláta og rangláta“. – Post. 24:15. w20.08 19 gr. 18, 19

Miðvikudagur 14. september

„Fagnaðarboðskapurinn um ríkið verður boðaður um alla jörðina.“ – Matt. 24:14.

Biblían er kærleiksrík gjöf frá Guði, himneskum föður okkar. Hann elskar mannkynið og innblés því mönnum að skrifa hana. Í Biblíunni gefur hann okkur svör við mikilvægustu spurningunum sem nokkur gæti spurt sig, spurningum eins og: Hvaðan komum við? Hver er tilgangur lífsins? Og hvað ber framtíðin í skauti sér? Jehóva vill að öll jarðnesk börn sín fái svör við þessum spurningum og hefur því í aldanna rás séð til þess að menn finni sig knúna til að þýða Biblíuna á fjöldann allan af tungumálum. Nú er hægt að lesa Biblíuna í heild eða að hluta á ríflega 3.000 tungumálum. Biblían er útbreiddasta og mest þýdda bók veraldar. Við sýnum að við kunnum að meta Biblíuna með því að lesa daglega í henni, hugleiða efni hennar og gera okkar besta til að fara eftir því sem við lærum. Auk þess sýnum við Guði að við erum þakklát fyrir þessa gjöf þegar við segjum eins mörgum og við getum frá boðskap Biblíunnar. – Sálm. 1:1–3; Matt. 28:19, 20. w20.05 24–25 gr. 15, 16

Fimmtudagur 15. september

„Orð Drottins varð mér til skammar og skapraunar allan daginn.“ – Jer. 20:8.

Jeremía spámanni var úthlutað mjög erfiðu starfssvæði. Eitt sinn var hann svo niðurdreginn að hann var við það að gefast upp. En hann gerði það ekki. Hvers vegna? Orð Jehóva var eins og eldur í hjarta Jeremía svo að hann gat ekki þagað! (Jer. 20:9) Hið sama á við um okkur þegar við fyllum huga okkar og hjarta af orði Guðs. Það er enn ein ástæða til að lesa daglega í Biblíunni og hugleiða efni hennar. Þá njótum við meiri gleði og þjónusta okkar getur orðið árangursríkari. (Jer. 15:16) Þegar þú ert niðurdreginn skaltu því sárbæna Jehóva um stuðning. Hann hjálpar þér að takast á við ófullkomleika þinn, veikleika eða veikindi. Hann hjálpar þér að sjá verkefni í þjónustunni í réttu ljósi. Og hann hjálpar þér að hafa jákvætt viðhorf til boðunarinnar. Umfram allt skaltu varpa áhyggjum þínum á himneskan föður þinn. Með hans hjálp geturðu unnið í baráttunni við depurð. w20.12 27 gr. 20, 21

Föstudagur 16. september

Áminntu rosknar konur sem mæður og yngri konur sem systur í öllum hreinleika. – 1. Tím. 5:1, 2.

Sumar systur fá aðallega tækifæri til að vera með trúsystkinum sínum á samkomum. Við viljum því nota þessi tækifæri til að taka vel á móti þeim, tala við þær og láta þær finna að okkur er annt um þær. Við getum líkt eftir Jesú með því að verja tíma með systrum okkar. (Lúk. 10:38–42) Kannski gætum við boðið þeim í mat eða gert eitthvað annað skemmtilegt með þeim. Við slík tækifæri viljum við að umræðurnar séu uppbyggilegar. (Rómv. 1:11, 12) Öldungar ættu að hafa sama hugarfar og Jesús. Hann vissi að það gat reynst sumum erfitt að vera einhleypir en hann tók skýrt fram að varanleg hamingja byggist hvorki á því að giftast né eignast börn. (Lúk. 11:27, 28) Slík hamingja hlýst öllu heldur af því að setja þjónustuna við Jehóva í fyrsta sæti. (Matt. 19:12) Öldungar þurfa öðrum fremur að koma fram við konur í söfnuðinum eins og þær séu systur sínar og mæður. Það er mikilvægt að öldungar gefi sér tíma fyrir og eftir samkomur til að tala við systur. w20.09 21–22 gr. 7–9

Laugardagur 17. september

Bóndinn bíður eftir dýrmætum ávexti jarðarinnar. Verið þið líka þolinmóð. – Jak. 5:7, 8.

Bóndinn í Ísrael sáði korni sínu eftir haustregnið og uppskar eftir vorregnið. (Mark. 4:28) Það er skynsamlegt af okkur að líkja eftir þolinmæði bóndans. En það er ekki alltaf auðvelt. Ófullkomnir menn eru gjarnir á að vilja sjá árangur af erfiði sínu án tafar. En ef við viljum að garðurinn okkar beri ávöxt þurfum við að huga stöðugt að honum með því að grafa, gróðursetja, reita arfa og vökva. Að gera fólk að lærisveinum krefst einnig stöðugrar viðleitni. Það tekur tíma að hjálpa biblíunemendum að uppræta fordóma og rækta með sér kærleika. Þolinmæði hjálpar okkur að missa ekki móðinn þegar fólk hlustar ekki á okkur. Við verðum líka að vera þolinmóð þegar fólk bregst vel við boðskapnum. Við getum ekki þvingað biblíunemanda til að þroskast í trúnni. Lærisveinar Jesú voru jafnvel stundum seinir að skilja það sem hann kenndi þeim. (Jóh. 14:9) Munum að þó að við getum gróðursett og vökvað er það Guð sem gefur vöxtinn. – 1. Kor. 3:6. w20.09 11 gr. 10, 11

Sunnudagur 18. september

„Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta í félagi og söfnuði réttvísra.“ – Sálm. 111:1.

Öll viljum við að nemendur okkar láti að lokum skírast. Mikilvæg hjálp til þess er að hvetja þá til að sækja safnaðarsamkomur. Nemendur sem mæta strax á samkomur taka í flestum tilfellum hraðari framförum. Sumir kennarar segja nemendum sínum að þeir fái helming biblíufræðslunnar á námskeiðinu og hinn helminginn á samkomum. Lestu Hebreabréfið 10:24, 25 með nemandanum og útskýrðu hvers vegna það er gagnlegt fyrir hann að koma á samkomur. Segðu honum frá einhverju af brennandi áhuga sem þú hefur lært nýlega á samkomu. Það er meiri hvatning í því en að bjóða nemandanum einfaldlega að koma. Það sem hann upplifir á sinni fyrstu samkomu verður gerólíkt því sem hann hefur upplifað á nokkurri annarri trúarsamkomu. (1. Kor. 14:24, 25) Hann hittir fólk sem er góðar fyrirmyndir og mun hjálpa honum að taka framförum til að geta látið skírast. w20.10 10–11 gr. 14, 15

Mánudagur 19. september

Hver getur kennt eins og Guð? – Job. 36:22.

Andi Guðs hjálpar þér að nota það sem þú lest og hugleiðir í orði Guðs. Biddu eins og sálmaritarinn: „Vísa mér veg þinn, Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ (Sálm. 86:11) Haltu því áfram að nærast á andlegu fæðunni sem Jehóva gefur okkur í orði sínu og söfnuðinum. Markmið þitt er auðvitað ekki aðeins að afla þér þekkingar. Þú vilt láta sannleikann festa rætur í hjarta þínu og heimfæra hann upp á líf þitt. Andi Jehóva getur hjálpað þér að gera það. Þú vilt líka hvetja bræður þína og systur. (Hebr. 10:24, 25) Þú vilt gera það vegna þess að þau eru andleg fjölskylda þín. Biddu um anda Guðs til að hjálpa þér að gefa einlæg svör á samkomum og að gera þitt allra besta þegar þú ert með verkefni. Þannig sýnirðu Jehóva og syni hans að þú elskar dýrmæta sauði þeirra. (Jóh. 21:15–17) Hlustaðu því á hinn mikla kennara með því að nýta þér til fulls andlega veisluborðið sem hann býður til. w20.10 24–25 gr. 15–17

Þriðjudagur 20. september

Allir lærisveinarnir yfirgáfu hann og flúðu. – Mark. 14:50.

Hvernig kom Jesús fram við postula sína þegar þeir voru niðurdregnir? Stuttu eftir upprisu sína sagði Jesús við nokkrar konur sem voru fylgjendur hans: „Verið óhræddar. Farið og segið bræðrum mínum [að ég sé risinn upp].“ (Matt. 28:10a) Jesús gafst ekki upp á lærisveinum sínum. Þótt þeir hefðu yfirgefið hann kallaði hann þá samt bræður sína. Líkt og Jehóva var Jesús miskunnsamur og fús til að fyrirgefa. (2. Kon. 13:23) Okkur er sömuleiðis mjög umhugað um þau sem hafa hætt að taka þátt í boðuninni. Þau eru bræður okkar og systur og við elskum þau. Við höfum ekki gleymt því sem þau lögðu á sig í þjónustunni við Jehóva áður fyrr, sum ef til vill áratugum saman. (Hebr. 6:10) Við söknum þeirra sannarlega. (Lúk. 15:4–7) Hvettu því óvirka til að sækja samkomur. Og þegar óvirkur boðberi kemur í ríkissalinn ættum við að eiga frumkvæðið og bjóða hann hjartanlega velkominn. w20.11 6 gr. 14–17

Miðvikudagur 21. september

„Gangið ekki lengra en skrifað er.“ – 1. Kor. 4:6.

Jakob og Jóhannes komu ásamt móður sinni til Jesú til að biðja um stöðu sem hann hafði ekki vald til að veita. Jesús svaraði um hæl að aðeins himneskur faðir sinn gæti ákveðið hver sæti sér til hægri handar og til vinstri handar í Guðsríki. (Matt. 20:20–23) Jesús sýndi að hann virti takmörk sín. Hann var hógvær. Hann fór aldrei út fyrir það vald sem Jehóva hafði falið honum. (Jóh. 12:49) Hvernig getum við líkt eftir góðu fordæmi Jesú? Við líkjum eftir fordæmi Jesú þegar við förum eftir því sem segir í versi dagsins. Þegar við erum beðin um ráð viljum við þess vegna ekki koma eigin skoðunum á framfæri eða segja einfaldlega það fyrsta sem okkur dettur í hug. Öllu heldur ættum við að beina athyglinni að leiðbeiningum sem er að finna í Biblíunni og ritunum okkar. Þannig sýnum við að við virðum takmörk okkar. Þá erum við hógvær og sýnum að við treystum ,réttlátum úrskurðum‘ hins almáttuga. – Opinb. 15:3, 4. w20.08 11 gr. 14, 15

Fimmtudagur 22. september

„Vertu ekki um of réttlátur og stærðu þig ekki af speki, hví vilt þú tortíma sjálfum þér?“ – Préd. 7:16.

Hvað ættirðu að hafa í huga ef þér finnst þú þurfa að gefa vini ráð? Áður en þú talar við vin þinn skaltu spyrja þig hvort þú sért „um of réttlátur“. Sá sem er um of réttlátur dæmir aðra ekki eftir mælikvarða Jehóva heldur sínum eigin. Og hann sýnir líklega ekki mikla miskunn. Ef þér finnst enn þá að þú þurfir að tala við vin þinn eftir að hafa hugsað málið skaltu útskýra vel hvert vandamálið er og nota viðhorfsspurningar til að hjálpa vini þínum að átta sig á mistökum sínum. Gættu þess að það sem þú segir sé byggt á Biblíunni og hafðu í huga að vinur þinn er ábyrgur frammi fyrir Jehóva en ekki þér. (Rómv. 14:10) Reiddu þig á viskuna í orði Guðs og líktu eftir samkennd Jesú þegar þú gefur öðrum ráð. (Orðskv. 3:5; Matt. 12:20) Hvers vegna ættirðu að gera það? Vegna þess að Jehóva dæmir okkur á sama hátt og við dæmum aðra. – Jak. 2:13. w20.11 21 gr. 13

Föstudagur 23. september

„Hættið að dæma eftir ytra útliti. Dæmið heldur réttlátan dóm.“ – Jóh. 7:24.

Myndir þú vilja að fólk dæmdi þig eftir hörundslit þínum, andlitsfalli, líkamsgerð eða holdafari? Líklega ekki. Það er því hughreystandi til þess að vita að Jehóva dæmir okkur ekki eftir því sem aðrir geta séð. Þegar Samúel leit á syni Ísaí sá hann ekki það sem Jehóva sá. Jehóva hafði sagt Samúel að einn sona Ísaí yrði konungur Ísraels. En hver þeirra? Þegar Samúel sá Elíab, elsta son Ísaí, hugsaði hann: „Hér stendur Drottins smurði áreiðanlega frammi fyrir honum.“ Elíab var höfðinglegur að sjá. „En Drottinn sagði við Samúel: ,Horfðu ekki á hæð hans og glæsileik því að ég hef hafnað honum.‘“ Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Jehóva hélt áfram: „Maðurinn sér hið ytra en Drottinn horfir á hjartað.“ (1. Sam. 16:1, 6, 7) Við ættum að líkja eftir Jehóva í samskiptum okkar við bræður og systur. w20.04 14 gr. 1; 15 gr. 3

Laugardagur 24. september

„Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir og tilbúnir til uppskeru.“ – Jóh. 4:35.

Jesús hefur gengið um græna akra, líklega með nýsprottnu byggi. (Jóh. 4:3–6) Það yrði tilbúið til uppskeru eftir um fjóra mánuði. Það hlýtur því að hafa hljómað undarlega þegar Jesús sagði: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir og tilbúnir til uppskeru.“ (Jóh. 4:35, 36) Hvað átti hann við? Jesús átti augljóslega við táknræna uppskeru af fólki. Skoðum hvað hafði nýlega gerst. Gyðingar áttu vanalega engin samskipti við Samverja. Jesús hafði þó boðað samverskri konu trúna og hún hlustaði. Og meðan Jesús var að tala um að akrarnir væru „hvítir og tilbúnir til uppskeru“ fór hópur Samverja sem hafði heyrt konuna tala um hann á fund hans til að fá að vita meira. (Jóh. 4:9, 39–42) Biblíuskýringarit segir um þessa frásögu: „Ákafi fólksins ... sýndi að það var eins og korn sem er tilbúið til uppskeru.“ w20.04 8 gr. 1, 2

Sunnudagur 25. september

„Berum umhyggju hvert fyrir öðru svo að við hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka.“ – Hebr. 10:24.

Samkomurnar bæta bardagalist okkar með því að hjálpa okkur að taka framförum í boðuninni og kennslunni. Við lærum til dæmis að nota vel verkfærin í verkfærakistunni okkar. Undirbúðu þig því vel fyrir safnaðarsamkomur. Hlustaðu vel á samkomum. Notaðu síðan það sem þú lærir. Með því að gera þetta verðurðu „góður hermaður Krists Jesú“. (2. Tím. 2:3) Við njótum líka stuðnings milljóna öflugra engla. Ímyndaðu þér hvað einn engill er fær um að gera. (Jes. 37:36) Ímyndaðu þér síðan hvað heill her öflugra engla er fær um að gera. Enginn maður eða illur andi hefur möguleika á að vinna öflugan her Jehóva. Það er stundum sagt að einn trúfastur vottur og Jehóva séu alltaf meirihluti. (Dóm. 6:16) Það er svo sannarlega rétt! Hafðu það í huga þegar vinnufélagi, skólafélagi eða ættingi sem er ekki í trúnni dregur úr þér kjarkinn. Mundu að þú ert ekki einn í þessari baráttu. Jehóva styður þig því að þú ert að fylgja leiðsögn hans. w21.03 29 gr. 13, 14

Mánudagur 26. september

„Ef hinir dánu verða ekki reistir upp ,skulum við borða og drekka því að á morgun deyjum við‘.“ – 1. Kor. 15:32.

Páll postuli gæti hafa verið að vísa í Jesaja 22:13 sem lýsir viðhorfi Ísraelsmanna. Í stað þess að styrkja kærleika sinn til Guðs sóttust þeir eftir að skemmta sér. Viðhorf þessara Ísraelsmanna var í raun að þeir þyrftu að lifa lífinu núna því að þeir gætu dáið hvenær sem er, og þetta viðhorf er líka algengt nú á dögum. Við vitum að Jehóva ætlar að reisa upp látna og það ætti að hafa áhrif á val okkar á vinum. Kristnir menn í Korintu þurftu að forðast að umgangast þá sem höfnuðu upprisunni. Við getum dregið lærdóm af því. Ekkert gott hlýst af því að verja miklum tíma með þeim sem hugsa ekki um framtíðina heldur bara að skemmta sér. Það getur haft slæm áhrif á viðhorf og venjur kristins manns að umgangast slíka einstaklinga. Hann gæti farið að temja sér að gera það sem Guð hatar. Páll gaf því þessa sterku hvatningu: „Takið sönsum. Gerið það sem er rétt og hættið að syndga.“ – 1. Kor. 15:33, 34. w20.12 9 gr. 3, 5, 6

Þriðjudagur 27. september

„Kristur er höfuð hvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð er höfuð Krists.“ – 1. Kor. 11:3.

Versið lýsir fyrirkomulaginu sem Jehóva hefur í alheimsfjölskyldu sinni. Forysta felur í sér tvö grundvallaratriði – vald og ábyrgð. Jehóva er höfuðið og fer með æðsta valdið og öll börn hans á himni og jörðu eru ábyrg gagnvart honum. (Rómv. 14:10; Ef. 3:14, 15) Jehóva hefur gefið Jesú vald yfir söfnuðinum en hann er ábyrgur gagnvart Jehóva fyrir því hvernig hann kemur fram við okkur. (1. Kor. 15:27) Jehóva hefur einnig gefið eiginmanni vald yfir eiginkonu sinni og börnum. Hvernig getur hann lært að fara rétt með forystu í fjölskyldunni? Til að byrja með verður hann að skilja hvers Jehóva krefst af honum. Hann þarf einnig að skilja hvers vegna Jehóva hefur falið sumum vald yfir öðrum og hvernig hann getur líkt eftir fordæmi Jehóva og Jesú. Hvers vegna er það mikilvægt? Vegna þess að Jehóva hefur falið höfði fjölskyldunnar ákveðið vald og væntir þess að rétt sé farið með það. – Lúk. 12:48b. w21.02 2 gr. 1–3

Miðvikudagur 28. september

„Ég er Drottinn, Guð þinn, sem kenni þér það sem gagnlegt er.“ – Jes. 48:17.

Það er okkur til góðs að láta sumt falla í gleymsku eins og Jehóva gerir. Hann hefur vissulega fullkomið minni en hann ákveður að fyrirgefa og gleyma mistökum okkar ef við sjáum eftir þeim. (Sálm. 25:7; 130:3, 4) Hann vill að við gerum slíkt hið sama þegar aðrir særa okkur og sjá eftir því. (Matt. 6:14; Lúk. 17:3, 4) Við getum sýnt að við metum að verðleikum hina mögnuðu gjöf sem heilinn er með því að nota hann til að heiðra þann sem gaf okkur hann. Sumir ákveða að nota heilann í eigingjörnum tilgangi og ákveða sjálfir hvað sé rétt og rangt. En þar sem Jehóva skapaði okkur, er þá ekki eðlilegt að ætla að siðferðisreglur hans séu betri en þær siðferðisreglur sem menn kunna að setja? (Rómv. 12:1, 2) Það stuðlar að hamingju okkar og innri friði þegar við lifum í samræmi við meginreglur hans. (Jes. 48:18) Þá skiljum við líka betur hver tilgangur lífsins er – að heiðra skapara okkar og föður og gleðja hann. – Orðskv. 27:11. w20.05 23–24 gr. 13, 14

Fimmtudagur 29. september

Sýnið hvert öðru ástúð. – Rómv. 12:10.

Hvernig getum við ræktað með okkur ástúð í garð bræðra okkar og systra? Þegar við kynnumst þeim betur finnst okkur ef til vill auðveldara að skilja þau og finna til ástúðar í garð þeirra. Aldur og bakgrunnur þarf ekki að vera nein hindrun. Munum að Jónatan var um 30 árum eldri en Davíð, en vinátta þeirra varð samt náin. Getur þú vingast við einhvern sem er þér eldri, eða yngri? Með því að gera það geturðu sýnt að þú ,elskir allt bræðrasamfélagið‘. (1. Pét. 2:17) Þýðir það að við finnum til ástúðar í garð trúsystkina okkar að við séum jafn nánir vinir allra í söfnuðinum? Nei, það væri ekki raunhæft. Það er ekkert óeðlilegt við það að eiga nánari vináttu við þá sem eru með svipuð áhugamál og við. Jesús leit á alla postula sína sem vini en hann var sérstaklega náinn Jóhannesi. (Jóh. 13:23; 15:15; 20:2) Hann mismunaði samt ekki postulum sínum. – Mark. 10:35–40. w21.01 23 gr. 12, 13

Föstudagur 30. september

„Mér sýnist að þið séuð á allan hátt trúhneigðari en aðrir.“ – Post. 17:22.

Páll postuli flutti ekki fólki af öðrum þjóðum í Aþenu boðskap sinn á sama hátt og Gyðingum í samkunduhúsinu. Hann virti umhverfið vandlega fyrir sér og veitti athygli trúarvenjum fólks. (Post. 17:23) Því næst leitaðist Páll við að finna eitthvað sameiginlegt með tilbeiðslu þeirra og sannleikanum í Ritningunum. Páll var því fús til að laga sig að þeim. Hann sagði Aþeningum að boðskapur sinn kæmi frá þeim ,ókunna guði‘ sem þeir höfðu reynt að tilbiðja. Páll taldi ekki að það væri þeim utan seilingar að taka trú þó að þeir þekktu lítið til Ritninganna. Þess í stað leit hann svo á að þeir væru eins og korn sem er tilbúið til uppskeru og hann aðlagaði framsetningu sína á fagnaðarboðskapnum. Vertu eftirtektarsamur líkt og Páll. Taktu eftir vísbendingum um hverju fólk trúir á starfssvæði þínu. Hvernig er umhorfs við heimili þess? Segir nafn, snyrting og klæðaburður eða jafnvel orðfæri til um trú þess? w20.04 9–10 gr. 7, 8

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila