Ágúst
Föstudagur 1. ágúst
„Hinn réttláti lendir í mörgum raunum en Jehóva frelsar hann úr þeim öllum.“ – Sálm. 34:19.
Tökum eftir tvennu mikilvægu sem kemur fram í þessum sálmi: (1) Réttlátt fólk þarf að takast á við vandamál. (2) Jehóva kemur okkur til hjálpar í erfiðleikum okkar. Hvernig gerir hann það? Hann gerir það til dæmis með því að hjálpa okkur að hafa raunhæft viðhorf til lífsins í þessu heimskerfi. Jehóva lofar okkur vissulega að veita okkur gleði þegar við þjónum honum en hann lofar ekki lífi án vandamála. (Jes. 66:14) Hann hvetur okkur til að beina athyglinni að framtíðinni, þegar við munum lifa því lífi sem hann vill að við njótum að eilífu. (2. Kor. 4:16–18) Þangað til hjálpar hann okkur á hverjum degi að þjóna sér. (Harmlj. 3:22–24) Hvað getum við lært af trúföstum tilbiðjendum Jehóva, bæði á biblíutímanum og á okkar dögum? Vandamál geta orðið óvænt á vegi okkar. En Jehóva mun alltaf styðja okkur þegar við treystum á hann. – Sálm. 55:22. w23.04 14–15 gr. 3, 4
Laugardagur 2. ágúst
Verið undirgefnir yfirvöldum. – Rómv. 13:1.
Við getum lært af reynslu Jósefs og Maríu. Þau sýndu yfirvöldum hlýðni jafnvel þegar það olli þeim óþægindum. (Lúk. 2:1–6) Þegar María var komin níu mánuði á leið reyndi á hlýðni hennar og Jósefs. Ágústus keisari Rómaveldis fyrirskipaði manntal. Jósef og María þurftu að ferðast til Betlehem en það var 150 km langt ferðalag um fjalllendi. Þetta yrði óþægileg ferð, sérstaklega fyrir Maríu. Þau hafa kannski haft áhyggjur af öryggi hennar og ófædds barns þeirra. Hvað ef fæðingin færi af stað á leiðinni? Hún gekk með Messías framtíðarinnar. Væri það afsökun til að óhlýðnast skipun yfirvalda? Jósef og María létu slíkar áhyggjur ekki hafa áhrif á það hvort þau hlýddu lögunum. Jehóva blessaði hlýðni þeirra. María kom heilu og höldnu til Betlehem, fæddi heilbrigt barn og átti þátt í að uppfylla spádóm Biblíunnar. – Míka 5:2. w23.10 8 gr. 9; 9 gr. 11, 12
Sunnudagur 3. ágúst
„Hvetjum hvert annað.“ – Hebr. 10:25.
Hvað ef bara tilhugsunin um að svara á samkomum gerir þig taugaóstyrkan? Þér gæti fundist gagnlegt að undirbúa þig vel. (Orðskv. 21:5) Því betur sem þú þekkir efnið þeim mun auðveldara er að rétta upp hönd og vera tilbúinn að svara. Hafðu líka svörin stutt. (Orðskv. 15:23; 17:27) Þegar svarið er stutt er minna til að hafa áhyggjur af. Þegar þú gefur stutt svar með eigin orðum sýnirðu að þú ert vel undirbúinn og skilur efnið. En hvað ef þú reynir að fara eftir sumum af tillögunum og þér finnst enn stressandi að hugsa um að svara oftar en einu sinni eða tvisvar? Þú getur verið viss um að Jehóva kann að meta það þegar þú leggur þig einlæglega fram um að gera þitt besta. (Lúk. 21:1–4) Hann ætlast ekki til meira af þér en þú getur. (Fil. 4:5) Ákveddu hvað þú getur, settu þér markmið í samræmi við það og biddu Jehóva að gefa þér hugarró. Til að byrja með gæti markmið þitt verið að gefa eitt stutt svar. w23.04 21 gr. 6–8
Mánudagur 4. ágúst
Klæðist brynju og hjálmi. – 1. Þess. 5:8.
Páll postuli líkti okkur við hermenn sem eru viðbúnir og búnir til orrustu. Hermaður við skyldustörf verður alltaf að vera til taks. Við erum í svipaðri stöðu. Við höldum áfram að vera viðbúin degi Jehóva með því að klæðast brynju trúar og kærleika og hjálmi vonar. Brynja verndaði hjarta hermanns. Trú og kærleikur vernda táknrænt hjarta okkar og hjálpa okkur að þjóna Guði og fylgja Jesú. Trúin fullvissar okkur um að Jehóva muni umbuna okkur fyrir að leita hans af öllu hjarta. (Hebr. 11:6) Hún fær okkur til vera trú leiðtoga okkar, Jesú, jafnvel þótt við þurfum að þola erfiðleika. Við getum byggt upp trú sem hjálpar okkur að komast í gegnum erfiðleika með því að læra af einstaklingum á okkar dögum sem hafa verið trúfastir þrátt fyrir ofsóknir og fjárhagserfiðleika. Og við getum forðast snöru efnishyggjunnar með því að líkja eftir þeim sem hafa einfaldað líf sitt til að setja hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sæti í lífinu. w23.06 10 gr. 8, 9
Þriðjudagur 5. ágúst
„Sá sem horfir á skýin uppsker ekki.“ – Préd. 11:4.
Sjálfstjórn er hæfileikinn til að stjórna eigin tilfinningum og verkum. Við þurfum líka á sjálfstjórn að halda til að ná markmiðum okkar, sérstaklega þegar það er erfitt eða okkur langar ekki til þess. Mundu að sjálfstjórn er hluti af ávexti andans. Biddu því Jehóva um heilagan anda til að hjálpa þér að rækta með þér þennan mikilvæga eiginleika. (Lúk. 11:13; Gal. 5:22, 23) Bíddu ekki eftir fullkomnum aðstæðum. Meðan þessi heimur stendur verða aðstæður aldrei fullkomnar. Ef við bíðum eftir þeim náum við kannski aldrei markmiði okkar. Okkur skortir kannski löngun af því að það virðist svo erfitt að ná markmiðinu. Þá gæti verið ráð að skipta markmiðinu niður í minni markmið. Ef markmið þitt er að vinna í einhverjum eiginleika hvers vegna ekki að byrja að sýna hann í einhverju smáu? Ef markmið þitt er að lesa alla Biblíuna gætirðu ákveðið að lesa í styttri tíma í einu. w23.05 29 gr. 11–13
Miðvikudagur 6. ágúst
„Braut réttlátra er eins og bjartur morgunljómi sem verður æ bjartari þar til komið er hádegi.“ – Orðskv. 4:18.
Á hinum síðustu dögum hefur Jehóva notað söfnuð sinn til að sjá stöðuglega fyrir andlegri fæðu sem hjálpar okkur öllum að halda ferð okkar áfram á ‚Veginum heilaga‘. (Jes. 35:8; 48:17; 60:17) Segja má að í hvert sinn sem einhver þiggur biblíunámskeið fái hann tækifæri til að hefja ferð sína á ‚Veginum heilaga‘. Sumir eru þar aðeins stutta stund og yfirgefa hann síðan. Aðrir eru ákveðnir í að halda ferð sinni áfram þangað til þeir komast á áfangastað. Hver er hann? Fyrir þá sem hafa himneska von liggur „Vegurinn heilagi“ til ‚paradísar Guðs‘ á himnum. (Opinb. 2:7) Fyrir þá sem hafa jarðneska von liggur hann til fullkomleika við enda 1.000 áranna. Ef þú ert á ferð á veginum skaltu ekki líta um öxl. Ekki yfirgefa hann áður en þú hefur lokið ferð þinni inn í nýjan heim. w23.05 17 gr. 15; 19 gr. 16–18
Fimmtudagur 7. ágúst
„Við elskum því að hann elskaði okkur að fyrra bragði.“ – 1. Jóh. 4:19.
Þegar þú hugsar um allt sem Jehóva hefur gert fyrir þig fyllistu örugglega þakklæti og vilt vígja líf þitt honum. (Sálm. 116:12–14) Biblían kallar Jehóva með réttu þann sem gefur ‚sérhverja góða og fullkomna gjöf‘. (Jak. 1:17) Stærsta gjöfin er lausnarfórn sonar hans, Jesú. Hugsa sér hversu stórkostleg þessi gjöf er. Lausnargjaldið gerir þér kleift að eiga náið samband við Jehóva. Og hann býður þér tækifæri til að lifa að eilífu. (1. Jóh. 4:9, 10) Að vígja Jehóva líf þitt er leið til að sýna Jehóva hversu þakklátur þú sért fyrir mesta kærleiksverk sem um getur og allt annað sem hann hefur gert fyrir þig. – 5. Mós. 16:17; 2. Kor. 5:15. w24.03 5 gr. 8
Föstudagur 8. ágúst
„Sá sem fetar beinar brautir óttast Jehóva.“ – Orðskv. 14:2.
Siðferðið sem er haldið á lofti í þessum heimi fær okkur til að líða eins og Lot. Hann „var miður sín yfir blygðunarlausri hegðun illra manna“ vegna þess að hann vissi að faðir okkar á himni hatar slíka hegðun. (2. Pét. 2:7, 8) Lot óttaðist Guð og elskaði hann en það fékk hann til að hafna lélegu siðferði fólks í kringum hann. Við búum meðal fólks sem ber litla sem enga virðingu fyrir siðferðismælikvarða Jehóva. En við getum haldið okkur siðferðilega hreinum ef við varðveitum kærleika okkar til Guðs og ræktum með okkur heilnæman guðsótta. Í Orðskviðunum veitir Jehóva okkur uppörvun og hvatningu sem getur hjálpað okkur. Allir þjónar Jehóva, bæði karlar og konur, geta notið góðs af því að hugleiða viskuna sem kemur fram í þessari biblíubók. Þegar við óttumst Jehóva kemur það í veg fyrir að við afsökum ranga breytni. w23.06 20 gr. 1, 2; 21 gr. 5
Laugardagur 9. ágúst
„Sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kvalastaur sinn daglega og fylgi mér.“ – Lúk. 9:23.
Þú hefur ef til vill fundið fyrir andstöðu ættingja eða fórnað efnislegum ávinningi fyrir hagsmuni Guðsríkis. (Matt. 6:33) Ef svo er geturðu verið viss um að Jehóva hefur tekið eftir öllu sem þú hefur gert fyrir hann. (Hebr. 6:10) Þú hefur trúlega upplifað sannleiksgildi þess sem Jesús sagði: „Enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og vegna fagnaðarboðskaparins án þess að hann fái hundraðfalt aftur núna á þessum tíma – heimili, bræður, systur, mæður, börn og akra, ásamt ofsóknum – og í hinum komandi heimi eilíft líf.“ (Mark. 10:29, 30) Blessunin sem þú hefur hlotið er sannarlega meiri en hver sú fórn sem þú hefur fært. – Sálm. 37:4. w24.03 9 gr. 5
Sunnudagur 10. ágúst
„Sannur vinur elskar alltaf og er sem bróðir á raunastund.“ – Orðskv. 17:17.
Þegar kristnir menn í Júdeu þurftu að þola mikla hungursneyð ákváðu bræðurnir í söfnuðinum í Antíokkíu „að senda hjálpargögn til trúsystkinanna sem bjuggu í Júdeu, hver eftir því sem hann hafði efni á“. (Post. 11:27–30) Þótt trúsystkinin sem urðu fyrir barðinu á hungursneyðinni byggju langt í burtu voru kristnir menn í Antíokkíu ákveðnir í að koma þeim til hjálpar. (1. Jóh. 3:17, 18) Við getum líka sýnt samkennd þegar við fréttum af trúsystkinum sem hafa orðið fyrir hamförum. Við bregðumst fúslega við og spyrjum kannski öldungana hvort við getum aðstoðað. Við gefum ef til vill framlög til alþjóðastarfsins eða biðjum fyrir þeim sem hafa orðið fyrir hamförum. Bræður okkar og systur gætu líka þurft hjálp til að hafa nauðsynjar. Þegar Jesús Kristur konungur okkar kemur til að fullnægja dómi viljum við að hann sjái að við sýnum samkennd og bjóði okkur að ‚taka við ríkinu‘. – Matt. 25:34–40. w23.07 4 gr. 9, 10; 6 gr. 12
Mánudagur 11. ágúst
„Verið þekkt fyrir að vera sanngjörn.“ – Fil. 4:5.
Jesús líkti eftir sanngirni Jehóva. Hann var sendur til jarðar til að boða ‚týndum sauðum af ætt Ísraels‘ trúna. En hann sýndi sanngirni þegar hann sinnti þessu verkefni. Við eitt tækifæri bað kona sem var ekki af Ísraelsþjóðinni hann að lækna dóttur sína sem var „sárþjáð af illum anda“. Jesús sýndi samúð og gerði eins og konan bað hann um og læknaði dóttur hennar. (Matt. 15:21–28) Skoðum annað dæmi. Fyrr á þjónustutíma sínum lýsti Jesús yfir: „Þeim sem afneitar mér … mun ég einnig afneita.“ (Matt. 10:33) En afneitaði hann Pétri sem afneitaði honum þrisvar? Nei. Jesús tók iðrun og trúfesti Péturs með í reikninginn. Eftir upprisu sína birtist hann Pétri og hefur þá líklega fullvissað hann um fyrirgefningu sína og kærleika. (Lúk. 24:33, 34) Jehóva Guð og Jesús Kristur eru báðir sanngjarnir. Hvað um okkur? Jehóva væntir þess að við séum sanngjörn. w23.07 21 gr. 6, 7
Þriðjudagur 12. ágúst
„Dauðinn verður ekki til framar.“ – Opinb. 21:4.
Hvað getum við notað til að hjálpa þeim sem efast um að Guð standi við loforð sín um paradís? Í fyrsta lagi er það Jehóva sjálfur sem gefur þetta loforð. Opinberunarbókin segir: „Sá sem sat í hásætinu sagði: ‚Ég geri alla hluti nýja.‘“ Hann býr yfir visku, mætti og löngun til að standa við loforð sín. Í öðru lagi er öruggt að hann standi við loforð sín, svo öruggt að það er eins og hann hafi nú þegar uppfyllt þau. Hann segir: „Þessi orð eru áreiðanleg og sönn … þetta er orðið að veruleika.“ Í þriðja lagi, þegar Jehóva byrjar á einhverju hættir hann ekki fyrr en hann hefur klárað það. Þess vegna segir hann: „Ég er alfa og ómega.“ (Opinb. 21:6) Jehóva mun sýna fram á að Satan sé lygari og að honum sé ómögulegt að hindra hann í að framkvæma vilja sinn. Þegar einhver segir að þetta hljómi of gott til að vera satt gæti verið góð hugmynd að lesa og útskýra Opinberunarbókina 21:5, 6. Þú gætir sýnt hvernig Jehóva hefur ábyrgst loforð sitt með því að undirrita það, ef svo má að orði komast, með eigin undirskrift. – Jes. 65:16. w23.11 7 gr. 18, 19
Miðvikudagur 13. ágúst
„Ég geri þig að mikilli þjóð.“ – 1. Mós. 12:2.
Jehóva gaf Abraham þetta loforð þegar hann var 75 ára gamall og barnlaus. Sá Abraham loforðið uppfyllast? Ekki að öllu leyti. Eftir að hafa farið yfir ána Efrat og beðið í 25 ár upplifði hann það kraftaverk að sjá Ísak son sinn fæðast og eftir 60 ár til viðbótar fæddust Esaú og Jakob sonarsynir hans. (Hebr. 6:15) En Abraham sá afkomendur sína aldrei verða að mikilli þjóð sem fengi fyrirheitna landið í arf. Þessi trúfasti maður átti hins vegar náið vináttusamband við skapara sinn. (Jak. 2:23) Og Abraham á eftir að verða himinlifandi þegar hann fær upprisu og kemst að því hvað trú hans og þolinmæði hefur reynst mikil blessun fyrir allar þjóðir. (1. Mós. 22:18) Hvað lærum við? Við sjáum kannski ekki öll loforð Jehóva verða að veruleika strax. En ef við erum þolinmóð eins og Abraham getum við verið viss um að Jehóva muni launa okkur það nú og jafnvel enn meir í nýjum heimi sínum. – Mark. 10:29, 30. w23.08 24 gr. 14
Fimmtudagur 14. ágúst
„Á meðan hann leitaði Jehóva lét hinn sanni Guð hann njóta velgengni.“ – 2. Kron. 26:5.
Ússía var auðmjúkur á sínum yngri árum. Hann lærði „að óttast hinn sanna Guð“. Jehóva blessaði hann meirihluta 68 ára ævi hans. (2. Kron. 26:1–4) Ússía sigraði marga af óvinum þjóðarinnar og styrkti varnir Jerúsalem. (2. Kron. 26:6–15) Hann var eflaust ánægður með allt sem Jehóva hafði hjálpað honum að áorka. (Préd. 3:12, 13) Ússía konungur var vanur að gefa öðrum skipanir. Fékk það hann til að hugsa sem svo að hann gæti gert það sem honum sýndist? Dag einn sýndi hann þá ósvífni að ganga inn í musteri Jehóva til að brenna reykelsi, en konungar höfðu ekki leyfi til þess. (2. Kron. 26:16–18) Asarja æðstiprestur reyndi að leiðrétta Ússía en hann brást reiður við. Ússía hafði þjónað Jehóva trúfastlega en þarna eyðilagði hann því miður mannorð sitt og var refsað með holdsveiki. (2. Kron. 26:19–21) Líf hans hefði endað allt öðruvísi ef hann hefði varðveitt auðmýkt sína. w23.09 10 gr. 9, 10
Föstudagur 15. ágúst
Hann dró sig í hlé af ótta við þá sem aðhylltust umskurð. – Gal. 2:12.
Pétur postuli varð að takast á við veikleika sína jafnvel eftir að hann varð andasmurður kristinn maður. Árið 36 var Pétur viðstaddur þegar Kornelíus, óumskorinn maður af þjóðunum, var smurður heilögum anda en það var skýr sönnun þess að „Guð mismunar ekki fólki“ og að fólk af þjóðunum mátti vera í kristna söfnuðinum. (Post. 10:34, 44, 45) Eftir það fannst Pétri hann geta setið að borði með fólki af þjóðunum en það hefði hann aldrei gert áður. Sumum kristnum Gyðingum fannst hins vegar að Gyðingar og fólk af þjóðunum ættu ekki að sitja saman til borðs. Þegar sumir þeirrar skoðunar komu til Antíokkíu hætti Pétur að borða með trúsystkinum sínum af þjóðunum, trúlega vegna þess að hann óttaðist að móðga kristna Gyðinga. Páll postuli sá hræsnina sem þetta endurspeglaði og ávítaði Pétur fyrir framan alla. (Gal. 2:13, 14) Þrátt fyrir þessi mistök gafst Pétur ekki upp. w23.09 22 gr. 8
Laugardagur 16. ágúst
Hann mun gera ykkur óhagganleg. – 1. Pét. 5:10.
Heiðarleg sjálfsrannsókn leiðir kannski í ljós að þú getur gert betur á vissum sviðum. En láttu það ekki draga úr þér kjark. „Drottinn [Jesús] er góður“ og hjálpar þér að taka framförum. (1. Pét. 2:3) Pétur postuli fullvissar okkur með þessum orðum: ‚Guð mun ljúka þjálfun ykkar. Hann mun efla ykkur.‘ Pétri fannst hann einu sinni óverðugur þess að vera í návist sonar Guðs. (Lúk. 5:8) En með kærleiksríkum stuðningi Jehóva og Jesú hélt hann áfram að fylgja Kristi. Þar með var öruggt að Pétur fengi að ganga inn „í eilíft ríki Drottins okkar og frelsara Jesú Krists“. (2. Pét. 1:11) Hvílík umbun! Ef þú sýnir þolgæði eins og Pétur og lætur Jehóva ljúka þjálfun þinni launar Jehóva þér líka með eilífu lífi. Þannig nærðu ‚takmarki trúar þinnar og frelsast‘. – 1. Pét. 1:9. w23.09 31 gr. 16, 17
Sunnudagur 17. ágúst
Tilbiðjið hann sem hefur gert himininn og jörðina. – Opinb. 14:7.
Í tjaldbúðinni til forna var einn forgarður – afgirt, opið svæði þar sem prestarnir sinntu þjónustu sinni. Stórt brennifórnaraltari úr kopar var í forgarðinum ásamt koparkeri með vatni sem prestarnir notuðu til að hreinsa sig áður en þeir gegndu heilagri þjónustu. (2. Mós. 30:17–20; 40:6–8) Þeir sem eru eftir af andasmurðum þjónum Jehóva þjóna í innri forgarði andlega musterisins á jörð. Stóra vatnskerið sem var í tjaldbúðinni og musterunum er mikilvæg áminning um að allir þjónar Guðs þurfi að halda sér siðferðilega og andlega hreinum. Hvar þjónar „múgurinn mikli“ Jehóva? Jóhannes postuli sá hann „standa frammi fyrir hásætinu“ en það samsvarar ytri forgarðinum á jörðinni þar sem hann ‚veitir Guði heilaga þjónustu dag og nótt í musteri hans‘. (Opinb. 7:9, 13–15) Við erum innilega þakklát að fá að tilbiðja Jehóva í hinu mikla andlega musteri hans! w23.10 28 gr. 15, 16
Mánudagur 18. ágúst
Trúin gaf honum styrk þar sem Guð hafði gefið honum loforð. – Rómv. 4:20.
Jehóva getur gefið okkur kraft fyrir tilstilli öldunganna. (Jes. 32:1, 2) Segðu öldungunum frá áhyggjum þínum þegar þér líður illa. Ekki hika við að þiggja hjálp þeirra. Með þeirra hjálp getur Jehóva gert þig sterkan. Vonin sem Biblían gefur okkur um að geta lifað að eilífu – í paradís á jörð eða í ríki Guðs á himnum – getur líka fyllt okkur krafti. (Rómv. 4:3, 18, 19) Von okkar gefur okkur styrk til að halda út í prófraunum, boða fagnaðarboðskapinn og sinna ýmsum verkefnum í söfnuðinum. (1. Þess. 1:3) Þessi sama von gaf Páli postula styrk. Hann var ‚aðþrengdur‘, ‚ráðvilltur‘, ‚ofsóttur‘ og ‚sleginn niður‘. Hann lenti jafnvel í lífshættu. (2. Kor. 4:8–10) Páll fékk styrk til að halda út með því að beina athyglinni að von sinni. (2. Kor. 4:16–18) Páll einbeitti sér að framtíðarvon sinni um eilíft líf á himnum. Páll hugleiddi þessa von og ‚endurnýjaðist dag frá degi‘ fyrir vikið. w23.10 15–16 gr. 14–17
Þriðjudagur 19. ágúst
„Jehóva veitir fólki sínu styrk, Jehóva blessar fólk sitt með friði.“ – Sálm. 29:11.
Þegar þú biður skaltu velta fyrir þér hvort Jehóva telji tímabært að verða við bæn þinni. Okkur gæti fundist við þurfa strax að fá svar við bænum okkar. En það er samt Jehóva sem veit best hvenær er rétti tíminn til að hjálpa. (Hebr. 4:16) Við gætum hugsað sem svo að svar hans væri „nei“ fyrst við fáum ekki strax það sem við biðjum um. En svarið gæti verið „ekki strax“. Ungur bróðir bað til dæmis um að hann næði sér af veikindum. En heilsan batnaði ekki. Ef Jehóva hefði læknað hann með kraftaverki hefði Satan getað haldið því fram að bróðirinn héldi bara áfram að þjóna Jehóva vegna þess að hann fengi lækningu. (Job. 1:9–11; 2:4) Auk þess hefur Jehóva ákveðinn tíma sem hann ætlar að lækna alla veika. (Jes. 33:24; Opinb. 21:3, 4) Þangað til getum við ekki vænst þess að fá lækningu fyrir kraftaverk. Bróðirinn gæti því beðið Jehóva um að gefa sér styrk og hugarfrið til að takast á við veikindin og halda áfram að þjóna honum af trúfesti. w23.11 23 gr. 13
Miðvikudagur 20. ágúst
„Hann kemur ekki fram við okkur í samræmi við syndir okkar né endurgeldur okkur eftir mistökum okkar.“ – Sálm. 103:10.
Samson hafði gert alvarleg mistök en hann gafst ekki upp. Hann leitaði færis að ljúka verkefninu sem Guð hafði gefið honum í tengslum við Filisteana. (Dóm. 16:28–30) Samson grátbað Jehóva: „Leyfðu mér að hefna mín á Filisteum.“ Guð svaraði bæn Samsonar og hann endurheimti ofurmannlegan kraft sinn. Hann drap fleiri Filistea við þetta tækifæri en nokkurn tíma áður. Þótt Samson hafi mátt þola sársaukafullar afleiðingar mistaka sinna hætti hann ekki að reyna að gera vilja Jehóva. Þótt við gerum mistök og þurfum áminningu eða missum verkefni megum við ekki gefast upp. Munum að Jehóva gefst ekki upp á okkur. (Sálm. 103:8, 9) Þrátt fyrir mistök okkar getum við komið Jehóva að gagni, rétt eins og Samson. w23.09 6 gr. 15, 16
Fimmtudagur 21. ágúst
„Þolgæðið veitir velþóknun Guðs og velþóknun Guðs veitir von.“ – Rómv. 5:4.
Þetta merkir ekki að Jehóva sé ánægður með að þú glímir við erfiðleika eða vandamál. Guð hefur velþóknun á þér. Þolgæði þitt veitir velþóknun hans. Er það ekki uppörvandi! (Sálm. 5:12) Gleymum ekki að Abraham sýndi þolgæði í erfiðleikum og Jehóva var ánægður með hann. Jehóva leit á hann sem vin sinn og áleit hann réttlátan. (1. Mós. 15:6; Rómv. 4:13, 22) Það sama getur átt við um okkur. Guð byggir ekki velþóknun sína á því hversu miklu við áorkum í þjónustu hans eða hvaða verkefni við höfum. Hann hefur velþóknun á því þegar við erum trúföst þrátt fyrir erfiðleika. Óháð aldri, aðstæðum og hæfileikum getum við öll sýnt þolgæði. Ertu að glíma við erfiðleika núna en heldur þig fast við Jehóva? Ef svo er skaltu ekki gleyma því að þú gleður Jehóva. Sú vitneskja er dýrmæt og styrkir von okkar. w23.12 11 gr. 13, 14
Föstudagur 22. ágúst
„Sýndu karlmennsku.“ – 1. Kon. 2:2.
Kristinn karlmaður þarf að læra að eiga góð samskipti við aðra. Sá sem er fær á þessu sviði hlustar og sýnir skoðunum og tilfinningum annarra skilning. (Orðskv. 20:5) Hann er vakandi fyrir raddblæ, svipbrigðum og líkamstjáningu. Það er ekki hægt að læra þetta nema með því að vera í samskiptum við fólk. Það getur veikt hæfileika þinn til að eiga samskipti við fólk augliti til auglitis ef þú hefur aðallega samskipti við aðra með hjálp tækninnar eins og með tölvupósti og textaskilaboðum. Reyndu því að nýta tækifærin sem gefast til að vera í beinum samskiptum við aðra. (2. Jóh. 12) Þroskaður kristinn karlmaður þarf líka að geta séð fyrir sér og fjölskyldu sinni. (1. Tím. 5:8) Það er gott að læra eitthvað sem hjálpar manni að fá vinnu. (Post. 18:2, 3; 20:34; Ef. 4:28) Leggðu hart að þér og kláraðu það sem þú byrjar á. Þannig eykurðu líkurnar á því að fá vinnu og halda henni. w23.12 27 gr. 12, 13
Laugardagur 23. ágúst
„Dagur Jehóva kemur eins og þjófur á nóttu.“ – 1. Þess. 5:2.
Þegar talað er um ‚dag Jehóva‘ í Biblíunni er átt við þann tíma þegar Jehóva eyðir óvinum sínum og frelsar þjóna sína. Jehóva refsaði stundum þjóðum áður fyrr. (Jes. 13:1, 6; Esek. 13:5; Sef. 1:8) Nú á tímum hefst „dagur Jehóva“ þegar ráðist verður á Babýlon hina miklu en dagurinn nær hámarki í Harmagedónstríðinu. Til að lifa þann „dag“ af þurfum við að undirbúa okkur núna. Jesús benti á að við þyrftum ekki bara að verða viðbúin ‚mikilli þrengingu‘ heldur líka ‚vera viðbúin‘ henni. (Matt. 24:21; Lúk. 12:40) Í fyrra bréfi Páls postula til Þessaloníkumanna bregður hann upp nokkrum myndum til að hjálpa þjónum Guðs að vera viðbúnir hinum mikla dómsdegi Jehóva. Páll vissi að dagur Jehóva kæmi ekki á þeim tíma. (2. Þess. 2:1–3) En hann hvatti trúsystkini sín til að búa sig undir daginn eins og hann kæmi næsta dag og leiðbeiningar hans eiga líka erindi til okkar. w23.06 8 gr. 1, 2
Sunnudagur 24. ágúst
Kæru bræður og systur, verið staðföst og óhagganleg. – 1. Kor. 15:58.
Seint á áttunda áratug síðustu aldar reis 60 hæða skýjakljúfur yfir nærliggjandi byggingar í Tókýó í Japan. Fólk velti fyrir sér hvernig hann gæti staðist jarðskjálftana sem voru svo tíðir í þessari borg. Hvert var leyndarmálið? Verkfræðingar hönnuðu bygginguna þannig að hún yrði sterkbyggð en um leið nægilega sveigjanleg til að standast höggbylgjur í jarðskjálftum. Líkja má kristnum mönnum við þannig skýjakljúf. Hvernig? Kristinn maður þarf að gæta jafnvægis milli staðfestu og sveigjanleika. Hann þarf að vera staðfastur og óhagganlegur þegar lög Jehóva og mælikvarði eru annars vegar. Hann er „fús til að hlýða“ og gerir engar málamiðlanir. En þegar það er mögulegt eða jafnvel nauðsynlegt þarf hann að vera sveigjanlegur, eða ‚sanngjarn‘. (Jak. 3:17) Þjónn Jehóva sem hefur tileinkað sér slíkt jafnvægi forðast að fara út í öfgar og vera annaðhvort of stífur eða of umburðarlyndur. w23.07 14 gr. 1, 2
Mánudagur 25. ágúst
„Þið hafið aldrei séð Jesú en elskið hann þó.“ – 1. Pét. 1:8.
Jesús varð að standast freistingar Satans Djöfulsins sem hvatti hann berum orðum til að snúa baki við Jehóva. (Matt. 4:1–11) Satan var staðráðinn í að fá Jesú til að syndga svo að hann gæti ekki greitt lausnargjaldið. Jesús gekk í gegnum ýmsar aðrar prófraunir meðan hann þjónaði á jörð. Hann var ofsóttur og lífi hans var ógnað. (Lúk. 4:28, 29; 13:31) Hann þurfti að umbera ófullkomleika fylgjenda sinna. (Mark. 9:33, 34) Hann var pyntaður og hæðst var að honum þegar hann átti dauðadóm yfir höfði sér. Síðan var hann líflátinn með afar kvalafullum og auðmýkjandi hætti. (Hebr. 12:1–3) Síðustu raunirnar þurfti hann að þola einn, án verndar Jehóva. (Matt. 27:46) Ljóst er að Jesús þurfti að þjást mikið til að færa lausnarfórnina. Þykir okkur ekki vænt um Jesú þegar við hugleiðum hve miklu hann fórnaði í okkar þágu? w24.01 10–11 gr. 7–9
Þriðjudagur 26. ágúst
„Fljótfærni steypir í fátækt.“ – Orðskv. 21:5.
Þolinmæði gagnast okkur vel í samskiptum við aðra. Hún hjálpar okkur að hlusta af athygli þegar aðrir tala. (Jak. 1:19) Þolinmæði stuðlar líka að friði. Hún forðar okkur frá því að bregðast of fljótt við og segja eitthvað óvinsamlegt þegar við erum undir álagi. Og þegar við erum þolinmóð erum við ekki fljót að reiðast þegar einhver særir okkur. Í stað þess að gjalda í sömu mynt ‚höldum við áfram að umbera hvert annað og fyrirgefa hvert öðru fúslega‘. (Kól. 3:12, 13) Þolinmæði getur líka hjálpað okkur að taka betri ákvarðanir. Í stað þess að vera fljótfær eða hvatvís tökum við okkur tíma til að skoða og meta möguleikana sem við höfum. Ef við erum til dæmis að leita að vinnu gætum við haft tilhneigingu til að taka þá fyrstu sem býðst. En ef við erum þolinmóð tökum við okkur tíma til að skoða áhrifin sem vinnan gæti haft á fjölskyldu okkar og sambandið við Jehóva. Þolinmæði getur forðað okkur frá því að taka ranga ákvörðun. w23.08 22 gr. 8, 9
Miðvikudagur 27. ágúst
„Ég sé annað lögmál í líkama mínum sem berst gegn lögum hugar míns og gerir mig að fanga undir lögmáli syndarinnar sem býr í mér.“ – Rómv. 7:23.
Ef það dregur úr þér kjark að þurfa að berjast við rangar langanir gefur það að hugsa um loforðið sem þú gafst Jehóva þegar þú vígðir honum líf þitt þann styrk sem þú þarft til að berjast gegn freistingu. Hvernig þá? Þegar þú vígir Jehóva líf þitt afneitarðu sjálfum þér. Það merkir að þú hafnar persónulegum metnaði og löngun í það sem Jehóva væri ekki ánægður með. (Matt. 16:24) Þegar þú verður fyrir freistingu eða gengur í gegnum erfiðleika þarftu ekki að velkjast í vafa um hvað þú átt að gera. Þú hefur þegar ákveðið hvað þú ætlar að gera, vera Jehóva trúfastur. Þú ert ákveðinn í að gleðja hann. Þú líkir þannig eftir Job. Þótt hann hafi lent í gríðarlega miklum erfiðleikum sagði hann ákveðinn: ‚Ég læt ekki af ráðvendni minni.‘ – Job. 27:5. w24.03 9 gr. 6, 7
Fimmtudagur 28. ágúst
„Jehóva er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.“ – Sálm. 145:18.
Jehóva, „Guð kærleikans“, er með okkur. (2. Kor. 13:11) Hann sýnir okkur persónulegan áhuga. Við erum sannfærð um að við séum ‚umvafin tryggum kærleika hans‘. (Sálm. 32:10) Því meir sem við íhugum hvernig hann hefur sýnt okkur kærleika sinn því raunverulegri verður hann okkur og við verðum nánari honum. Við getum hiklaust nálgast hann og sagt honum hve mjög við þörfnumst kærleika hans. Við getum tjáð honum allar áhyggjur okkar í þeirri vissu að hann skilji okkur og langi virkilega til að hjálpa okkur. (Sálm. 145:19) Kærleikur Jehóva dregur okkur til hans, rétt eins og við sækjum í ylinn af eldi á köldum degi. Þó að kærleikur hans sé kröftugur vitnar hann jafnframt um umhyggju hans og hlýju. Taktu því hlýjum kærleika Jehóva opnum örmum. Bregðumst öll við kærleika hans með því að taka undir með sálmaskáldinu: „Ég elska Jehóva!“ – Sálm. 116:1. w24.01 31 gr. 19, 20
Föstudagur 29. ágúst
Ég hef kunngert nafn þitt. – Jóh. 17:26.
Jesús sagði ekki fólki bara að nafn Guðs væri Jehóva. Gyðingarnir sem Jesús kenndi þekktu nafn Guðs þegar. En hann tók forystuna í að ‚skýra hver hann er‘. (Jóh. 1:17, 18) Hebresku ritningarnar gefa til dæmis til kynna að Jehóva sé miskunnsamur og samúðarfullur. (2. Mós. 34:5–7) Jesús sýndi það skýrar en nokkru sinni þegar hann sagði dæmisöguna af týnda syninum og föður hans. Þegar við lesum þessa dæmisögu sjáum við hversu miskunnsamur og samúðarfullur Jehóva er. Faðirinn kemur auga á iðrunarfullan son sinn ‚meðan hann er enn langt í burtu‘, hleypur á móti honum, faðmar hann að sér og fyrirgefur honum af öllu hjarta. (Lúk. 15:11–32) Jesús lýsir föður sínum eins og hann í sannleika er. w24.02 10 gr. 8, 9
Laugardagur 30. ágúst
Huggið aðra með þeirri huggun sem við fáum frá Guði. – 2. Kor. 1:4.
Jehóva endurnærir og huggar þá sem eiga erfitt. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva og fundið til samúðar gagnvart öðrum og huggað þá? Ein leið til þess er að þroska með okkur eiginleika sem hjálpa okkur að finna fyrir samkennd og hugga aðra. Hvaða eiginleikar eru þetta? Hvað getur hjálpað okkur að temja okkur þann kærleika sem við þurfum að hafa til að ‚hughreysta hvert annað‘ í daglegu lífi? (1. Þess. 4:18) Við þurfum að rækta með okkur eiginleika eins og samkennd, bróðurást og góðvild. (Kól. 3:12; 1. Pét. 3:8) Hvernig koma þessir eiginleikar okkur að gagni? Þegar samkennd og álíka eiginleikar verða hluti af persónuleika okkar getum við ekki annað en hughreyst þá sem eiga erfitt. Jesús sagði: „Munnurinn talar af gnægð hjartans. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði sínum.“ (Matt. 12:34, 35) Að hughreysta bræður okkar og systur í erfiðleikum er mjög mikilvæg leið til að tjá kærleika okkar til þeirra. w23.11 10 gr. 10, 11
Sunnudagur 31. ágúst
„Hinir skynsömu munu skilja það.“ – Dan. 12:10.
Við þurfum að biðja um hjálp til að skilja spádóma Biblíunnar. Skoðum dæmi. Ímyndaðu þér að þú sért á ferðalagi á ókunnugum slóðum með vin þinn með þér sem þekkir svæðið vel. Hann veit nákvæmlega hvar þið eruð og hvert leiðin liggur. Vafalaust ertu ánægður að vinur þinn skuli hafa samþykkt að koma með þér. Jehóva er eins og þessi hjálpsami vinur sem veit hvar við erum stödd í tímans rás og hvað er fram undan. Við þurfum því að vera auðmjúk og biðja Jehóva um hjálp til að fá skilning á biblíuspádómum. (Dan. 2:28; 2. Pét. 1:19, 20) Jehóva vill að börnin sín eigi hamingjuríka framtíð, rétt eins og allir góðir foreldrar. (Jer. 29:11) En ólíkt öðrum foreldrum getur Jehóva sagt framtíðina nákvæmlega fyrir. Hann lét skrá spádóma í orð sitt svo að við gætum vitað um mikilvæga atburði áður en þeir gerast. – Jes. 46:10. w23.08 8 gr. 3, 4