Desember
Mánudagur 1. desember
Dauðir rísa upp. – Lúk. 20:37.
Býr Jehóva yfir mætti til að reisa hina dánu til lífs? Svo sannarlega! Hann er „hinn almáttugi“. (Opinb. 1:8) Hann býr yfir svo miklum mætti að hann getur sigrað hvaða óvin sem er, jafnvel dauðann. (1. Kor. 15:26) Önnur ástæða fyrir því að við vitum að Jehóva getur reist hina dánu aftur til lífs er sú að hann hefur takmarkalaust minni. Hann nefnir hverja stjörnu með nafni. (Jes. 40:26) Hann man líka eftir þeim sem eru dánir. (Job. 14:13; Lúk. 20:38) Hann á auðvelt með að muna minnstu smáatriði um þá sem hann mun reisa aftur til lífs, þar á meðal erfðalykil þeirra, reynslu í lífinu og minningar. Við getum augljóslega treyst loforði Jehóva um upprisu í framtíðinni vegna þess að við vitum að hann hefur bæði löngun og mátt til að efna það. Skoðum aðra ástæðu sem við höfum til að treysta loforði Guðs um upprisu. Jehóva hefur þegar reist dána til lífs á ný. Á biblíutímanum gerði hann nokkrum trúföstum mönnum, þar á meðal Jesú, kleift að reisa dána aftur til lífs. w23.04 9 gr. 7–9
Þriðjudagur 2. desember
„Verið alltaf vingjarnleg í tali og kryddið mál ykkar með salti.“ – Kól. 4:6.
Fólk getur verið tilbúnara að hlusta og halda umræðunum áfram ef við tjáum okkur með háttvísi og mildi. Okkur ber auðvitað engin skylda til að halda umræðunum áfram ef viðmælandinn hefur bara áhuga á að sigra í kappræðum eða hæðast að trú okkar. (Orðskv. 26:4) En líklega eru fæstir þannig. Ef við sýnum mildi gætu margir kosið að hlusta. Það er sannarlega gagnlegt fyrir okkur að rækta með okkur mildi. Biddu Jehóva um styrk til að bregðast mildilega við þegar þú svarar ósanngjarnri gagnrýni og erfiðum eða eldfimum spurningum. Gleymdu ekki að mildi getur komið í veg fyrir að skoðanamunur magnist upp í rifrildi. Og milt svar sem ber vott um virðingu getur fengið suma til að líta okkur og sannindi Biblíunnar öðrum augum. Vertu alltaf tilbúinn að færa rök fyrir trú þinni „með hógværð og djúpri virðingu“. (1. Pét. 3:15) Megi mildi vera styrkur þinn! w23.09 19 gr. 18, 19
Miðvikudagur 3. desember
Íklæðist þolinmæði. – Kól. 3:12.
Athugum hvernig þolinmæði birtist á mismunandi vegu. Í fyrsta lagi: Þolinmóður maður er seinn til reiði. Hann reynir að halda ró sinni og gjalda ekki í sömu mynt þegar einhver kemur illa fram við hann. Og hann lætur það ekki bitna á öðrum þegar hann er undir álagi. (2. Mós. 34:6) Í öðru lagi: Þolinmóður maður getur beðið rólegur. Ef eitthvað tekur lengri tíma en búist var við reynir hann að verða ekki órólegur eða pirraður. (Matt. 18:26, 27) Í þriðja lagi: Þolinmóður maður tekur ekki ákvarðanir í fljótfærni. Þegar þolinmóður maður þarf að vinna mikilvægt verk hespar hann því ekki af. Hann skipuleggur sig þannig að hann hafi nægan tíma til að ljúka því. Síðan tekur hann sér tíma til að sinna verkinu vel. Í fjórða lagi: Þolinmóður maður leitast við að takast á við erfiðleika án þess að kvarta. Hann gerir sitt besta til að sýna þolgæði og vera jákvæður. (Kól. 1:11) Þjónar Jehóva þurfa að sýna þolinmæði á alla þessa mismunandi vegu. w23.08 20–21 gr. 3–6
Fimmtudagur 4. desember
„Jehóva kannar hjörtun.“ – Orðskv. 17:3.
Það er mikilvægt að vernda táknrænt hjarta okkar því að Jehóva rannsakar það. Það þýðir að hann sér meira en það sem blasir við öðrum, hann sér líka okkar innri mann. Hann elskar okkur ef við fyllum huga okkar með visku frá honum sem getur veitt okkur eilíft líf. (Jóh. 4:14) Þannig komumst við hjá því að bíða tjón af siðferðilega og andlega eitrinu sem kemur frá Satan og heimi hans. (1. Jóh. 5:18, 19) Kærleikur okkar til Jehóva og virðing fyrir honum eykst eftir því sem við kynnumst honum betur. Okkur hryllir jafnvel við þeirri tilhugsun að syndga vegna þess að við viljum ekki særa föður okkar. Marta er systir í Króatíu sem var freistað til að fremja siðleysi. Hún segir: „Mér fannst erfitt að hugsa skýrt og bæla niður löngunina til að syndga. En guðsóttinn verndaði mig.“ Hvernig? Marta segist hafa hugleitt afleiðingarnar af rangri breytni. Við getum gert það líka. w23.06 20–21 gr. 3, 4
Föstudagur 5. desember
„‚Þjóðirnar komast að raun um að ég er Jehóva,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva, ‚þegar ég helga mig meðal ykkar fyrir augum þeirra.‘“ – Esek. 36:23.
Jesús vissi að fyrirætlun Jehóva væri að helga nafn hans og hreinsa það af allri smán. Þess vegna kenndi meistari okkar fylgjendum sínum að biðja: „Faðir okkar á himnum, við biðjum að nafn þitt helgist.“ (Matt. 6:9) Jesús vissi að þetta væri mikilvægasta málið sem sköpunin stæði frammi fyrir. Engin vitiborin sköpunarvera í alheiminum hefur gert það sem jafnast á við það sem Jesús gerði til að helga nafn Jehóva. En fyrir hvaða synd var Jesús þrátt fyrir það ákærður? Guðlast! Það að rægja heilagt nafn föður hans var versta synd sem hugsast gat í huga Jesú. Það olli honum miklum kvölum að hugsa til þess að hann yrði sakfelldur og fundinn sekur um þennan glæp. Það gæti verið meginástæðan fyrir því að Jesús var „svo angistarfullur“ síðustu klukkustundirnar áður en hann var handtekinn. – Lúk. 22:41–44. w24.02 11 gr. 11
Laugardagur 6. desember
„Af visku er hús reist.“ – Orðskv. 24:3.
Í hlaupinu um lífið verðum við að elska Jehóva og Jesú meira en ættingja okkar. (Matt. 10:37) Það þýðir ekki að við megum vanrækja fjölskylduábyrgð okkar, eins og hún væri hindrun í að gera vilja Guðs og Krists. Við þurfum þvert á móti að rækja skyldur okkar gagnvart fjölskyldunni til að vera Guði og Kristi þóknanleg. (1. Tím. 5:4, 8) Við erum hamingjusamari þegar við gerum það. Jehóva veit að fjölskyldur eru hamingjusamar þegar eiginmaður og eiginkona koma fram við hvort annað af kærleika og virðingu, þegar foreldrar elska börnin sín og kenna þeim og þegar börn hlýða foreldrum sínum. (Ef. 5:33; 6:1, 4) Hvert sem hlutverk þitt er í fjölskyldunni skaltu treysta visku Biblíunnar frekar en eigin tilfinningum, menningu eða því sem svokallaðir sérfræðingar segja. Notfærðu þér vel biblíutengd rit okkar. Þar er að finna gagnlegar tillögur um hvernig má heimfæra meginreglur Biblíunnar. w23.08 28 gr. 6, 7
Sunnudagur 7. desember
„Lestu í henni lágum rómi dag og nótt svo að þú farir vandlega eftir öllu sem stendur í henni. Þá verður þú farsæll og gerir það sem er skynsamlegt.“ – Jós. 1:8.
Kristnar konur þurfa að tileinka sér færni á ýmsum sviðum. Sumt af því sem stúlkur læra í æsku nýtist þeim í gegnum allt lífið. Lærðu til dæmis að lesa og skrifa. Í sumum menningarsamfélögum er ekki álitið mikilvægt að konur læri að lesa og skrifa. Það er hins vegar mjög mikilvægt fyrir alla þjóna Guðs. (1. Tím. 4:13) Láttu ekkert stoppa þig í að læra að lesa og skrifa vel. Hvernig kemur það sér vel fyrir þig? Það getur hjálpað þér að finna vinnu og halda henni. Það hjálpar þér að vera betri nemandi og kennari orðs Guðs. Og það sem mestu máli skiptir er að þú nálgast Jehóva meir þegar þú lest og hugleiðir orð hans. – 1. Tím. 4:15. w23.12 20 gr. 10, 11
Mánudagur 8. desember
„Jehóva veit hvernig hann á að bjarga hinum guðræknu úr prófraunum.“ – 2. Pét. 2:9.
Biddu Jehóva um hjálp til að standast freistingar. Vegna ófullkomleikans þurfum við stöðugt að berjast gegn freistingunni til að gera það sem er rangt. Satan gerir allt sem í hans valdi stendur til að gera þá baráttu eins erfiða og mögulegt er. Ein leið sem hann notar til að spilla huga okkar er siðlaus afþreying. Hún getur fyllt huga okkar með óhreinum hugsunum sem spilla okkar innri manni og geta leitt til alvarlegrar syndar. (Mark. 7:21–23; Jak. 1:14, 15) Við þurfum á hjálp Jehóva að halda til að standast freistingar til að gera rangt. Í faðirvorinu nefndi Jesús eftirfarandi beiðni: „Leiddu okkur ekki í freistingu heldur frelsaðu okkur frá hinum vonda.“ (Matt. 6:13) Jehóva vill hjálpa okkur en við þurfum að biðja um hjálpina. Við þurfum líka að breyta í samræmi við bænir okkar. w23.05 6–7 gr. 15–17
Þriðjudagur 9. desember
„Þrefaldan þráð er ekki auðvelt að slíta.“ – Préd. 4:12.
Þegar hjón meta mikils vináttu sína við föður sinn á himnum fylgja þau fúslega ráðum hans. Það hjálpar þeim að forðast vandamál sem gætu annars valdið því að ást þeirra kólni eða þá sigrast á slíkum vandamálum. Andlega sinnað fólk leitast líka við að líkja eftir Jehóva og rækta með sér eiginleika sem hann býr yfir, eins og góðvild, þolinmæði og fúsleika til að fyrirgefa. (Ef. 4:32–5:1) Ástin dafnar betur þegar hjón sýna af sér slíka eiginleika. Systir sem heitir Lena og hefur verið gift í meira en 25 ár segir: „Það er auðvelt að elska og virða andlega manneskju.“ Skoðum dæmi í Biblíunni. Þegar Jehóva þurfti að velja hjón til að vera foreldrar verðandi Messíasar kaus hann Jósef og Maríu úr hópi margra afkomenda Davíðs. Hvers vegna? Þau áttu bæði gott samband við Jehóva og hann vissi að þau myndu bæði byggja hjónaband sitt á kærleika sínum til hans. w23.05 20–21 gr. 3, 4
Miðvikudagur 10. desember
„Hlýðið þeim sem fara með forystuna á meðal ykkar.“ – Hebr. 13:17.
Leiðtogi okkar, Jesús, er fullkominn en ekki þeir sem hann velur til að taka forystuna á jörðinni. Það getur því reynst okkur erfitt að sýna þeim hlýðni, sérstaklega ef þeir biðja okkur að gera eitthvað sem okkur langar ekki að gera. Pétur postuli hikaði eitt sinn við að sýna hlýðni. Þegar hann fékk fyrirmæli frá engli um að borða kjöt af dýrum sem voru óhrein samkvæmt Móselögunum neitaði Pétur því – ekki bara einu sinni, heldur þrisvar! (Post. 10:9–16) Hvers vegna? Hann skildi ekki þessar nýju leiðbeiningar. Páll postuli hlýddi hins vegar þegar eldri kristnir menn í Jerúsalem sögðu honum að taka fjóra menn með sér í musterið og hreinsa sig trúarlega til að sýna að hann héldi lögmálið. Páll vissi að kristnir menn væru ekki lengur undir lögmálinu. Og hann hafði ekki gert neitt rangt. Páll tók samt „mennina með sér daginn eftir og hreinsaði sig ásamt þeim samkvæmt helgisiðunum“. (Post. 21:23, 24, 26) Hlýðni Páls stuðlaði að einingu. – Rómv. 14:19, 21. w23.10 10 gr. 15, 16
Fimmtudagur 11. desember
„Þeir sem óttast Jehóva verða nánir vinir hans.“ – Sálm. 25:14.
Þú myndir líklega ekki hugsa um ótta sem mikilvægan eiginleika í sambandi góðra vina. En þeir sem vilja vera nánir vinir Jehóva þurfa að óttast hann. Við þurfum að varðveita djúpa virðingu fyrir Jehóva, óháð því hversu lengi við höfum þjónað honum. En hvað felst í því að óttast Jehóva? Sá sem ber djúpa virðingu fyrir Jehóva elskar hann og vill ekki gera neitt sem myndi spilla sambandinu við hann. Jesús bjó yfir slíkum guðsótta. (Hebr. 5:7) Hann var ekki sjúklega hræddur við Jehóva. (Jes. 11:2, 3) Hann elskaði hann innilega og vildi hlýða honum. (Jóh. 14:21, 31) Rétt eins og Jesús berum við virðingu og lotningu fyrir Jehóva vegna þess að hann er kærleiksríkur, vitur, réttlátur og máttugur. Við vitum líka að Jehóva elskar okkur og að viðbrögð okkar við leiðsögn hans snerta hann. Við getum glatt hann eða sært. – Sálm. 78:41; Orðskv. 27:11. w23.06 14 gr. 1, 2; 15 gr. 5
Föstudagur 12. desember
„Þegar hann var orðinn voldugur hrokaðist hann upp og það varð honum að falli. Hann syndgaði gegn Jehóva.“ – 2. Kron. 26:16.
Þegar Ússía konungur varð voldugur gleymdi hann hver var uppspretta styrks hans og velgengni. Hver er lærdómurinn? Það er gott fyrir okkur að minna okkur á að allt það góða sem við eigum og njótum kemur frá Jehóva. Í stað þess að miklast af því sem við áorkum ættum við að gefa Jehóva heiðurinn. (1. Kor. 4:7) Við þurfum að vera auðmjúk og viðurkenna að við erum ófullkomin og þurfum á leiðréttingu að halda. Bróðir á sjötugsaldri skrifaði: „Ég hef lært að taka mig ekki of alvarlega. Þegar ég er leiðréttur vegna heimskulegra mistaka sem ég geri stundum reyni ég að bæta mig og sækja fram.“ Við lifum hamingjuríku lífi ef við óttumst Jehóva og varðveitum auðmjúkt hugarfar. – Orðskv. 22:4. w23.09 10 gr. 10, 11
Laugardagur 13. desember
„Þið þurfið að vera þolgóð til að gera vilja Guðs og fá að sjá loforðið rætast.“ – Hebr. 10:36.
Kristnir menn á fyrstu öld þurftu að vera þolgóðir. Auk þess að glíma við vandamál sem fólk þurfti almennt að gera þurftu þeir að horfast í augu við aðrar prófraunir. Margir þeirra voru ofsóttir, ekki bara af trúarleiðtogum Gyðinga og yfirvöldum Rómverja heldur líka eigin fjölskyldu. (Matt. 10:21) Og stundum þurftu þeir að berjast gegn áhrifum fráhvarfsmanna og kenninga þeirra innan safnaðarins. (Post. 20:29, 30) En þessir þjónar Guðs voru þolgóðir. (Opinb. 2:3) Hvernig tókst þeim það? Þeir hugleiddu vandlega frásögur Biblíunnar af þolgóðum einstaklingum, eins og Job. (Jak. 5:10, 11) Þeir báðu um styrk. (Post. 4:29–31) Og þeir höfðu skýrt í huga það góða sem það hefði í för með sér að sýna þolgæði. (Post. 5:41) Við getum líka verið þolgóð ef við rannsökum og hugleiðum reglulega dæmi um þolgæði í orði Guðs og ritum safnaðarins. w23.07 3 gr. 5, 6
Sunnudagur 14. desember
„Einbeitið ykkur því fyrst og fremst að ríki Guðs og réttlæti, þá fáið þið allt hitt að auki.“ – Matt. 6:33.
Jehóva og Jesús munu aldrei gefast upp á okkur. Pétur postuli stóð á krossgötum í lífi sínu eftir að hafa afneitað Kristi. Myndi hann hætta eða myndi hann halda áfram að vera lærisveinn Krists? Jesús hafði beðið Jehóva ákaflega að trú Péturs myndi ekki bregðast. Jesús sagði Pétri frá því og tjáði honum traust sitt á að hann myndi síðar geta styrkt bræður sína. (Lúk. 22:31, 32) Það hlýtur að hafa huggað Pétur að rifja upp það sem Jesús sagði. Þegar við stöndum á krossgötum í lífinu gæti Jehóva notað umhyggjusama hirða til að sjá okkur fyrir þeirri huggun sem við þurfum til að vera trúföst. (Ef. 4:8, 11) Jehóva sá fyrir efnislegum þörfum Péturs og hinna postulanna og hann mun líka sjá fyrir efnislegum þörfum okkar ef við setjum þjónustuna við hann í fyrsta sæti í lífi okkar. w23.09 24–25 gr. 14, 15
Mánudagur 15. desember
„Sá sem er góður við bágstadda lánar Jehóva og hann endurgeldur honum.“ – Orðskv. 19:17.
Jehóva tekur jafnvel eftir minnsta góðverki sem við gerum fyrir aðra. Hann lítur á það sem dýrmæta fórn og skuld við sig sem hann mun endurgjalda. Ef þú varst áður safnaðarþjónn eða öldungur man Jehóva eftir því sem þú gerðir áður og kærleikanum sem hvatti þig til að gera það. (1. Kor. 15:58) Hann tekur líka eftir kærleikanum sem þú sýnir núna. Jehóva vill að við styrkjum öll kærleika okkar til hans og annarra. Við styrkjum kærleika okkar til Jehóva með því að lesa í orði hans, hugleiða það og með því að tala reglulega við hann í bæn. Kærleikur okkar til bræðra og systra getur aukist við að rétta þeim hjálparhönd. Eftir því sem kærleikur okkar eykst styrkist sambandið við Jehóva og bræður okkar og systur. Og við munum njóta þessara vináttubanda að eilífu. w23.07 10 gr. 11; 11 gr. 13; 13 gr. 18
Þriðjudagur 16. desember
„Hver og einn þarf að bera sína byrði.“ – Gal. 6:5.
Hver og einn þjónn Guðs verður að ákveða hvað hann vill gera til að hugsa vel um heilsuna. Aðeins fáein lög Biblíunnar, eins og þau um að halda sig frá blóði og spíritisma, hafa áhrif á val kristinna manna varðandi heilsumeðferð. (Post. 15:20; Gal. 5:19, 20) Að öðru leyti geta þeir sjálfir kosið þá meðferð sem þeir vilja. Við verðum að virða rétt bræðra okkar og systra til að taka eigin ákvarðanir varðandi heilsuna, sama hversu sterkar skoðanir við höfum á ákveðnum meðferðum. Við ættum að hafa eftirfarandi í huga: (1) Aðeins undir stjórn Guðsríkis fær fólk bót allra meina sinna. (Jes. 33:24) (2) Hver og einn þjónn Guðs ætti að „fylgja eigin sannfæringu“ um hvað er best fyrir sig. (Rómv. 14:5) (3) Við dæmum ekki aðra fyrir ákvarðanir þeirra og gerum ekkert sem getur orðið þeim að falli. (Rómv. 14:13) (4) Þjónar Guðs sýna kærleika og skilja að eining safnaðarins er mikilvægari en þeirra eigin skoðanir. – Rómv. 14:15, 19, 20. w23.07 24 gr. 15
Miðvikudagur 17. desember
„Hann er helgaður Jehóva allan tímann sem hann er nasírei.“ – 4. Mós. 6:8.
Er samband þitt við Jehóva þér dýrmætt? Það er það eflaust. Og frá fornu fari hafa ótal margir haft sömu tilfinningar og þú. (Sálm. 104:33, 34) Margir hafa fært fórnir til að tilbiðja Jehóva. Það átti sannarlega við um þá sem voru kallaðir nasírear, eða þeir sem voru vígðir, í Ísrael til forna. Nasírear voru kappsamir Ísraelsmenn sem færðu Jehóva ákveðnar persónulegar fórnir með því að þjóna honum á sérstakan hátt. Móselögin gerðu manni eða konu kleift að vinna Jehóva ákveðið heit með því að velja að lifa sem nasírei um ákveðinn tíma. (4. Mós. 6:1, 2) Þetta heit, eða hátíðlega loforð, fól í sér að hlýða fyrirmælum sem aðrir Ísraelsmenn þurftu ekki að fara eftir. Hvers vegna myndi Ísraelsmaður kjósa það að vinna nasíreaheit? Sá sem gerði það var líklega knúinn af djúpum kærleika til Jehóva og innilegu þakklæti fyrir allar hans góðu gjafir. – 5. Mós. 6:5; 16:17. w24.02 14 gr. 1, 2
Fimmtudagur 18. desember
Jehóva sýnir þeim tryggan kærleika sem elska hann og halda boðorð hans. – Dan. 9:4.
Í Biblíunni lýsir hebreska orðið sem er þýtt „trúfesti“ eða „tryggur kærleikur“ hugmyndinni um hlýja væntumþykju sem er oft notuð til að lýsa kærleika Guðs til þjóna sinna. Sama orð er einnig notað til að lýsa kærleikanum sem þjónar Guðs sýna hver öðrum. (2. Sam. 9:6, 7) Trúfesti okkar getur orðið sterkari með tímanum. Skoðum hvernig þetta var raunin hjá Daníel. Það reyndi á trúfesti Daníels við Jehóva alla ævi. En ein stærsta prófraunin kom þegar hann var á tíræðisaldri. Mönnum við hirð konungsins var illa við Daníel og þeir báru litla virðingu fyrir þeim Guði sem hann tilbað. Þeir brugguðu því ráð um að láta taka Daníel af lífi. Þeir fengu konunginn til að skrifa undir lög sem myndu leiða í ljós hvort Daníel yrði trúr Guði sínum eða konungi. Það eina sem hann þurfti að gera til að sanna hollustu sína við konunginn var að hætta að biðja til Jehóva í 30 daga. Daníel neitaði að gera málamiðlun. – Dan. 6:12–15, 20–22. w23.08 5 gr. 10–12
Föstudagur 19. desember
„Höldum áfram að elska hvert annað.“ – 1. Jóh. 4:7.
Jehóva vill að við höldum áfram að sýna trúsystkinum okkar kærleika. Ef einhver kemur illa fram við okkur getum við gert ráð fyrir að hann vilji fylgja meginreglum Biblíunnar en hafi gert þetta í hugsunarleysi. (Orðskv. 12:18) Guð elskar trúa þjóna sína þrátt fyrir ófullkomleika þeirra. Hann gefst ekki upp á okkur þegar við gerum mistök eða heldur áfram að vera reiður. (Sálm. 103:9) Það er mjög mikilvægt að við líkjum eftir föður okkar sem er fús til að fyrirgefa. (Ef. 4:32–5:1) Höfum líka í huga að endirinn er nálægur og við þurfum að viðhalda nánu sambandi við bræður okkar og systur. Við megum reikna með auknum ofsóknum. Við gætum jafnvel lent í fangelsi vegna trúar okkar. Þá þurfum við meira en nokkru sinni fyrr á bræðrum okkar og systrum að halda. – Orðskv. 17:17. w24.03 15–16 gr. 6, 7
Laugardagur 20. desember
„Jehóva stýrir skrefum mannsins.“ – Orðskv. 20:24.
Í Biblíunni er sagt frá ungu fólki sem ræktaði náið samband við Jehóva, hafði velþóknun hans og náði góðum árangri í lífinu. Davíð er dæmi um það. Hann kaus ungur að taka afstöðu með Jehóva og varð seinna trúfastur konungur. (1. Kon. 3:6; 9:4, 5; 14:8) Það getur verið hvetjandi og uppörvandi fyrir þig að skoða vandlega líf Davíðs og trúfasta þjónustu. Þú gætir líka kynnt þér líf og starf Markúsar eða Tímóteusar. Þú sérð þá að þeir þjónuðu Jehóva frá unga aldri og héldu trúfastlega áfram að gera það. Hvernig þú notar líf þitt núna hefur áhrif á líf þitt í framtíðinni. Ef þú treystir Jehóva frekar en að reiða þig á eigin vitsmuni mun hann stýra skrefum þínum. Þú getur lifað hamingjuríku og innihaldsríku lífi. Mundu að Jehóva kann að meta það sem þú gerir fyrir hann. Er til betri lífsstefna en að þjóna kærleiksríkum föður okkar á himni? w23.09 13 gr. 18, 19
Sunnudagur 21. desember
Haldið áfram að fyrirgefa hvert öðru fúslega. – Kól. 3:13.
Páll postuli vissi vel að trúsystkini hans væru ófullkomin. Hann var til dæmis litinn hornauga stuttu eftir að hann kom inn í söfnuðinn. (Post. 9:26) Seinna baktöluðu sumir hann til að gera lítið úr honum. (2. Kor. 10:10) Páll sá bróður í ábyrgðarstöðu taka ranga ákvörðun sem getur hafa hneykslað aðra. (Gal. 2:11, 12) Og Markús, náinn samstarfsmaður Páls, olli honum miklum vonbrigðum. (Post. 15:37, 38) Hvert og eitt þessara tilfella hefði getað fengið Pál til að hætta að umgangast þá sem gerðu á hlut hans. En hann hélt áfram að líta bræður sína og systur jákvæðum augum og þjóna Jehóva trúfastlega. Hvað hjálpaði Páli að halda út? Páll elskaði trúsystkini sín. Það hjálpaði honum að einbeita sér að góðum eiginleikum þeirra en ekki ófullkomleika. Kærleikur hjálpaði Páli líka að fylgja því sem segir í versi dagsins. w24.03 15 gr. 4, 5
Mánudagur 22. desember
„Þjónn Drottins á ekki að rífast heldur á hann að vera ljúfur við alla.“ – 2. Tím. 2:24.
Í Biblíunni eru margar frásögur sem sýna hversu verðmætur eiginleiki mildi er. Tökum Ísak sem dæmi. Þegar hann bjó í Gerar í landi Filistea byrgðu öfundsjúkir nágrannar hans brunnana sem þjónar föður hans höfðu grafið. Í stað þess að berjast fyrir rétti sínum færði hann sig um set ásamt heimilisfólki sínu og gróf aðra brunna. (1. Mós. 26:12–18) En Filistear fullyrtu að vatnið í þeim brunnum væri líka þeirra. Aftur brást Ísak friðsamlega við. (1. Mós. 26:19–25) Hvað hjálpaði honum að vera mildur þegar fólk virtist staðráðið í að ögra honum? Hann hafði eflaust tekið eftir fordæmi foreldra sinna og séð hvernig Abraham kom friðsamlega fram og að Sara var bæði friðsöm og hógvær. – 1. Pét. 3:4–6; 1. Mós. 21:22–34. w23.09 15 gr. 4
Þriðjudagur 23. desember
„Ég hef ákveðið það og ég kem því til leiðar.“ – Jes. 46:11.
Jehóva sendi ástkæran og frumgetinn son sinn til jarðar til að fræða fólk um Guðsríki og gefa líf sitt sem lausnargjald og frelsa okkur þannig frá synd og dauða. Síðan reisti Jehóva Jesú aftur til lífs til að ríkja sem konungur í Guðsríki á himni. Kjarninn í Biblíunni er að nafn Jehóva verði hreinsað og upphafið þegar hann gerir fyrirætlun sína með jörðina að veruleika undir stjórn Krists í Guðsríki. Fyrirætlun Jehóva verður ekki breytt. Hann hefur lofað að allt verði eins og hann hefur sagt. (Jes. 46:10, neðanmáls; Hebr. 6:17, 18) Með tímanum verður jörðinni breytt í paradís þar sem fullkomnir og réttlátir afkomendur Adams og Evu „njóta lífsins að eilífu“. (Sálm. 22:26) Og ekki nóg með það, endanleg fyrirætlun hans er að sameina alla þjóna sína á himni og jörð. Þá munu allir sem lifa þjóna alvöldum Drottni í trúfesti. (Ef. 1:8–11) Er ekki stórkostlegt hvernig Jehóva kemur fyrirætlun sinni til leiðar? w23.10 20 gr. 7, 8
Miðvikudagur 24. desember
‚Verið hugrökk. Ég er með ykkur,‘ segir Jehóva hersveitanna. – Hag. 2:4.
Þegar Gyðingarnir sem yfirgáfu Babýlon komu til Jerúsalem leið ekki á löngu áður en óstöðugt efnahags- og stjórnmálaástand og andstaða hafði erfiðleika í för með sér. Sumum fannst þess vegna erfitt að einbeita sér að endurbyggingu musteris Jehóva. Jehóva sendi tvo spámenn, Haggaí og Sakaría, til að endurvekja áhuga fólksins sem reyndist vera áhrifaríkt. (Hag. 1:1; Sak. 1:1) En tæplega 50 árum síðar þurftu Gyðingarnir aftur á hvatningu að halda. Esra, sem var fær afritari laganna, kom þá frá Babýlon til Jerúsalem til að hvetja þjóð Guðs til að setja sanna tilbeiðslu í fyrsta sæti í lífinu. (Esra. 7:1, 6) Spámennirnir Haggaí og Sakaría hjálpuðu þjónum Guðs áður fyrr til að halda áfram að treysta Jehóva þegar þeir mættu andstöðu. Hvatning þeirra getur líka fullvissað okkur um að Jehóva hjálpar okkur í gegnum hvaða erfiðleika sem við tökumst á við. – Orðskv. 22:19. w23.11 14–15 gr. 2, 3
Fimmtudagur 25. desember
Íklæðist kærleikanum því að hann er fullkomið einingarband. – Kól. 3:14.
Hvernig sýnum við kærleika okkar til trúsystkina okkar? Ein leið til þess er að hughreysta þau. Við munum geta ‚hughreyst hvert annað‘ ef við höfum samúð hvert með öðru. (1. Þess. 4:18) Hvernig getum við gætt þess að kærleikur okkar hvert til annars sé alltaf sterkur? Með því að gera okkar besta til að fyrirgefa mistök annarra. Hvers vegna er sérstaklega mikilvægt núna að við sýnum hvert öðru kærleika? Tökum eftir því sem Pétur segir: „Endir allra hluta er í nánd … Berið umfram allt brennandi kærleika hvert til annars.“ (1. Pét. 4:7, 8) Hverju getum við búist við eftir því sem endir þessa illa heims nálgast? Jesús talaði um fylgjendur sína þegar hann sagði: „Allar þjóðir munu hata ykkur vegna nafns míns.“ (Matt. 24:9) Við verðum að vera sameinuð til að standast slíkt hatur. Þegar við erum það tekst Satan ekki að sundra okkur vegna þess að kærleikur bindur okkur sterkum böndum. – Fil. 2:1, 2. w23.11 13 gr. 18, 19
Föstudagur 26. desember
„Við erum samverkamenn Guðs.“ – 1. Kor. 3:9.
Sannleikurinn í orði Guðs er gríðarlega kröftugur. Þegar við fræðum fólk um Jehóva og hver hann er í raun getum við upplifað eitthvað mjög sérstakt. Smátt og smátt hverfur hulan sem Satan blindaði huga fólks með og það fer að sjá kærleiksríkan föður okkar eins og við sjáum hann. Það fyllist lotningu yfir takmarkalausum mætti hans. (Jes. 40:26) Það lærir að treysta honum vegna þess að hann er fullkomlega réttlátur. (5. Mós. 32:4) Það nýtur góðs af djúpstæðri visku hans. (Jes. 55:9; Rómv. 11:33) Og það finnur huggun í því að læra að hann er persónugervingur kærleikans. (1. Jóh. 4:8) Þegar fólk nálgast Jehóva styrkist vonin um að lifa að eilífu hér á jörð sem elskuð börn hans. Það er einstakur heiður að fá að hjálpa fólki að nálgast föður okkar. Þegar við gerum það lítur Jehóva á okkur sem „samverkamenn“ sína. – 1. Kor. 3:5. w24.02 12 gr. 15
Laugardagur 27. desember
„Betra er að heita engu en að heita og efna það ekki.“ – Préd. 5:5.
Ef þú ert biblíunemandi eða alinn upp af foreldrum sem eru vottar er mjög gott markmið að láta skírast. En áður en þar að kemur þarf maður að vera búinn að vígja líf sitt Jehóva. Hvernig vígirðu Jehóva líf þitt? Þú lofar honum í bæn að þú munir aðeins tilbiðja hann og að þú setjir vilja hans í fyrsta sæti í lífi þínu. Þú lofar Jehóva að elska hann „af öllu hjarta þínu, allri sál þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum“. (Mark. 12:30) Þú vígir líf þitt Jehóva í einrúmi, þetta er milli þín og hans. Skírnin er á hinn bóginn opinber, hún sýnir öðrum að þú hafir vígt Jehóva líf þitt. Vígslan er heilagt loforð. Markmið þitt ætti að vera að standa við loforðið og Jehóva væntir þess, rétt eins og þú sjálfur. – Préd. 5:4. w24.03 2 gr. 2; 3 gr. 5
Sunnudagur 28. desember
Hver og einn á að elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan beri djúpa virðingu fyrir manni sínum. – Ef. 5:33.
Öll hjón þurfa að glíma við erfiðleika. Í Biblíunni segir berum orðum: „Þeir sem giftast verða fyrir erfiðleikum í lífinu.“ (1. Kor. 7:28) Hvers vegna? Vegna þess að hjónaband er samband tveggja ófullkominna einstaklinga sem hafa ólíka eiginleika og ólíkan smekk. Hjón koma stundum úr ólíku umhverfi og menningu. Og þau gætu með tímanum sýnt eiginleika sem makinn tók ekki eftir áður en þau giftu sig. Þetta getur valdið ágreiningi. Þau kenna kannski hvort öðru um vandann þó að þau eigi bæði sinn þátt í honum og ættu að vinna saman að því að leysa hann. Þeim gæti jafnvel fundist lausnin vera að slíta samvistum eða skilja. En er lausnin að gefast upp á hjónabandinu? Nei. Jehóva vill að hjón virði hjónabandið, jafnvel þó að sambúðin sé erfið. w24.03 16 gr. 8; 17 gr. 11
Mánudagur 29. desember
„Vonin bregst okkur ekki.“ – Rómv. 5:5.
Eftir að þú skírðist styrktist von þín um að lifa að eilífu í paradís enn frekar þegar þú kynntist Jehóva betur og elskaðir hann meira. (Hebr. 5:13–6:1) Þú hefur líklega upplifað það sem segir í Rómverjabréfinu 5:2–4. Þú hefur tekist á við mismunandi erfiðleika en sýnt þolgæði og skynjað velþóknun Guðs. Fullvissa um velþóknun hans gefur þér enn ríkari ástæðu til að trúa því að þú hljótir það sem hann hefur lofað. Von þín er orðin sterkari en hún var í upphafi. Hún er þér raunverulegri og persónulegri og hefur sterkari áhrif á þig. Hún hefur áhrif á allt líf þitt og breytir því hvernig þú kemur fram við fjölskyldu þína, hvernig þú tekur ákvarðanir og líka hvernig þú notar tímann. Páll postuli bendir á eitt í viðbót varðandi vonina sem þú hefur eftir að hafa fengið velþóknun Guðs. Hann fullvissar þig um að vonin muni rætast. – Rómv. 15:13. w23.12 12–13 gr. 16–19
Þriðjudagur 30. desember
Jehóva veitir þér stöðugleika. – Jes. 33:6.
Þegar við göngum í gegnum erfiða prófraun eru tilfinningar okkar, hugsanir og viðbrögð kannski ekki í sama jafnvægi og venjulega. Okkur gæti liðið eins og við værum á báti í stórsjó og hentumst fram og til baka. Hvernig hjálpar Jehóva okkur þegar slíkar tilfinningar hellast yfir okkur? Hann fullvissar okkur um að hann geri okkur stöðug. Þegar skip lendir í stormi getur veltingurinn orðið mjög hættulegur. Mörg skip hafa búnað, svokallaða veltiugga, til að vinna á móti slíkum hreyfingum og gera skipið stöðugt. Þeir geta dregið umtalsvert úr hreyfingum skipsins og gert það öruggara og þægilegra fyrir farþega. En þessi búnaður skilar mestum árangri þegar skipið er á ferð. Á líkan hátt mun Jehóva gera okkur stöðug þegar við höldum áfram að þjóna honum af trúfesti á erfiðum tímum. w24.01 22 gr. 7, 8
Miðvikudagur 31. desember
Ég set traust mitt á Guð og er ekki hræddur. – Sálm. 56:4.
Þegar þú verður óttasleginn skaltu spyrja þig: Hvað hefur Jehóva nú þegar gert? Hugsaðu um það sem hann hefur skapað. Þegar við ‚virðum fyrir okkur‘ hversu vel hann annast fuglana og blómin – sem eru ekki sköpuð í hans mynd og geta ekki tilbeðið hann – styrkir það traust okkar á að hann muni líka annast okkur. (Matt. 6:25–32) Hugleiddu einnig hvað Jehóva hefur gert fyrir tilbiðjendur sína. Þú gætir rannsakað biblíupersónu sem sýndi einstaka trú eða lesið um reynslu þjóns Jehóva úr nútímanum. Hugleiddu líka hvernig Jehóva hefur annast þig hingað til. Hvernig dró hann þig að sannleikanum? (Jóh. 6:44) Hvernig hefur hann svarað bænum þínum? (1. Jóh. 5:14) Hvernig hefurðu gagn af lausnarfórn ástkærs sonar hans á hverjum degi? – Ef. 1:7; Hebr. 4:14–16. w24.01 4 gr. 6; 7 gr. 17