5. Mósebók hvetur okkur til að þjóna Jehóva af hjartans gleði
DÝRKENDUR Jehóva verða að þjóna honum af trúfesti og hjartans gleði. Það kemur skýrt fram í 5. Mósebók Biblíunnar. (5. Mósebók 28:45-47) Og hvatningarorð hennar um trúfasta, gleðiríka þjónustu hafa mikla þýðingu í lífi votta Jehóva á 20. öld.
5. Mósebók var skrifuð af hebreska spámanninum Móse á Móabsvöllum árið 1473 f.o.t. og nær yfir hér um bil tveggja mánaða sögu. Líklega var síðasta kaflanum bætt við af Jósúa eða Eleasar æðsta presti. Í 5. Mósebók eru fjórar ræður, svo og söngur og blessunarorð Móse þegar Ísraelsmenn voru í þann mund að ganga inn í fyrirheitna landið. (5. Mósebók 1:3; Jósúa 1:1; 4:19) Í 5. Mósebók útskýrði Móse nánar viss atriði lögmálsins. Meðal annars sýnir bókin fram á að Jehóva krefst algerrar hollustu. Hún varar líka við falskri guðsdýrkun og hvetur þjóna Guðs til að vera trúfastir í helgri þjónustu hans.
En á hvaða sérstaka vegu hjálpuðu orðin í 5. Mósebók Ísraelsmönnum? Og hvernig getur þessi bók verið vottum Jehóva nú á dögum til gagns?
Ísraelsmenn höfðu verið í eyðimörkinni í um það bil 40 ár og núna ávarpar Móse þá enn á ný. Hann rifjar meðal annars upp skipan dómara sér til aðstoðar. Hann greinir frá neikvæðri frásögn njósnamannanna tíu sem leiddi til þess að þjóðin gerði uppreisn og þurfti að reika um eyðimörkina. Þar eru einnig rifjaðir upp sigrarnir sem Guð gerði mögulega. Móse varar menn við því að gera skurðgoð og undirstrikar það með því að segja: „(Jehóva) Guð.“ Eða „Guð sem krefst algerrar hollustu.“ (NW) Síðan fylgir hvatning um að hlýða Jehóva. — 5. Mósebók 1:1-4:49.
Í annarri ræðu telur Móse fyrst upp boðorðin tíu á ný og rifjar upp hvernig lögmálið var gefið. Áhersla er lögð á að elska Jehóva af öllu hjarta, sálu og mætti. Barnafræðsla er undirstrikuð. Sjö þjóðum í Kanaan skal tortímt, svo og því sem þær hafa notað til falskrar guðsdýrkunar. Ísraelsmönnum er sagt að þeir hafi verið valdir, ekki vegna eigin réttlætis, heldur vegna trúfesti Jehóva við sáttmála sinn. Þegar þeir eru komnir inn í fyrirheitna landið verða þeir að halda áfram að vera hlýðnir og ekki gleyma Guði. Rifjuð eru upp dæmi um óhlýðni og sýnt fram á að kærleikur af hjarta og guðsótti er nauðsynlegur. Blessun og bölvun er lögð fyrir Ísrael og hvatt til hlýðni við Guð. — 5. Mósebók 5:1-11:32.
Þessu næst koma lög sem varða lífið í fyrirheitna landinu. Meðal þeirra eru reglur um að gjöreyða öllum menjum óhreinna trúarbragða, neyslu kjöts og meðferð blóðs, meðferð falsspámanna og fráhvarfsmanna, hreinan mat og óhreinan og greiðslu tíundar. Greint er frá smáatriðum varðandi uppgjöf skulda, þrælahald og frumburði skepna. Rætt er um hinar þrjár árlegu hátíðir, svo og ýmis dómsmál og lög um konunga og levíta. Eftir aðvörun gegn spíritisma er boðuð koma spámanns í líkingu við Móse. — 5. Mósebók 12:1-18:22.
Af öðrum reglum, sem er getið, má nefna reglur um griðastaði, undanþágu frá herþjónustu, hreinsun af blóðskuld, um hjúskap við herteknar konur, frumburðarrétt, uppreisnargjarna syni, virðingu fyrir eigum og lífi annarra, kynferðismál og þá sem óhæfir eru til aðildar að söfnuðinum. Önnur lög vörðuðu meðferð þræla, vaxtagreiðslur og heit. Ræðunni lýkur með reglum um hjónaskilnað, lán, góðvild gagnvart föðurlausum og ekkjum, mágskylduhjónabönd, nákvæma vog, fórnir af frumgróðanum og um greiðslu tíundar. — 5. Mósebók 19:1-26:19.
Þriðja ræða Móse hefst með fyrirmælum um að skrá lögmálið á stóra steina. Lýsa á yfir blessun frá Garísímfjalli og bölvun frá Ebalfjalli. Blessunin samfara hlýðni við boð Guðs er því næst borin saman við bölvunina sem vænta má fyrir óhlýðni. — 5. Mósebók 27:1-28:68.
Í tengslum við fjórðu ræðu Móse er sáttmálinn milli Jehóva og Ísraelsmanna endurnýjaður. Móse rifjar upp umhyggju Guðs í eyðimörkinni. Varað er við óhlýðni og miskunn Jehóva undirstrikuð. Að síðustu er bent á valið milli lífs og dauða. Ísraelsmenn geta ‚lifað með því að elska Jehóva, hlýða raustu hans og halda sér fast við hann.‘ — 5. Mósebók 29:1-30:20.
Móse hvetur Ísraelsmenn til að vera hugrakkir þegar þeir ganga inn í fyrirheitna landið, því að Jehóva sé á göngu með þeim. Eftir skipan Jósúa sem leiðtoga kemur spádómur um uppreisnargirni Ísraelsmanna. Þessu næst miklar Móse Jehóva í söng, segir fyrir um bölvun vegna ótrúfesti Ísraels en lýkur honum með því að fullvissa þjóðina um hefnd Guðs tengda kallinu: „Vegsamið, þjóðir, lýð hans!“ Móse gefur sína hinstu blessun, síðan horfir hinn 120 ára gamli spámaður yfir fyrirheitna landið, deyr og er grafinn af Jehóva í ómerktri gröf. — 5. Mósebók 31:1-34:12.
Vel má vera að þetta ágrip örvi andlega matarlyst þína. En þegar þú lest 5. Mósebók kunna að vakna hjá þér spurningar um mikilvæg atriði. Við skulum nú varpa fram nokkrum slíkum og svara.
Fyrsta ræða Móse
• 4:15-24 — Merkja þessi varnaðarorð gegn líkneskjum að rangt sé að sýna ljósmyndir af einstaklingum?
Þessi vers banna að gerð séu líkneski til falskar tilbeiðslu. En Ísraelsmönnum var ekki bannað að gera líkneski í öðrum tilgangi. Til dæmis mælti Guð fyrir um gerð mynda af kerúbum á tjalddúk tjaldbúðarinnar og líkneski af þeim á loki hinnar helgu arkar. Ekki væri rétt að tengja það við skurðgoðadýrkun að taka og sýna ljósmyndir, nema því aðeins að þær væru af ásettu ráði notaðar í tengslum við fölsk trúarbrögð. Biblían er ekki á móti ljósmyndum, málverkum og höggmyndum af fólki eða hlutum sem þjóna nytsamlegum eða listrænum tilgangi.
Önnur ræða Móse
• 6:6-9 — Ber að skilja boðið um að ‚binda lög Guðs á hönd sér‘ bókstaflega?
Þessi vers styðja ekki þann sið að bera á sér smáhylki með biblíutextum í. Ráða má af orðalaginu að merkingin sé táknræn. (Samanber 2. Mósebók 13:9; Orðskviðina 7:2, 3.) Ekki er sagt að skrifa eigi boðorðin á eitthvað sem síðan skuli bera á sér eða festa við dyrastafi og borgarhlið. Ísraelsmenn áttu að hafa boðorð Guðs í sjónmáli öllum stundum, hvort sem þeir voru heima, á götum úti eða í grennd við borgarhliðin þar sem öldungarnir fjölluðu um lagaleg mál. Þeir áttu að varðveita lögmál Guðs í hjartanu, kenna það börnunum og sýna í verki (eins og tjáð með höndunum) að þeir héldu það. Fólkið átti að ganga fram opinberlega sem fólk er héldi lög Guðs, alveg eins og væri það ritað milli augna þeirra þar sem allir gætu séð. Á svipaðan hátt leitast vottar Jehóva nú við að sýna sig hlýðna þjóna Guðs. Hjörtu þeirra knýja þá til að hlýða orði hans, og þeir fylla hugann með því sem er satt, göfugt, réttlátt, elskuvert, dyggð og lofsvert. Á allan hátt leitast þeir við að sýna að þeir hafi boðorð Jehóva fyrir augunum öllum stundum. — Filippíbréfið 4:8; Kólossubréfið 3:23.
• 8:3, 4 — Merkir þetta aðeins að bætt hafi verið við fatabirgðirnar?
Brauðið af himni, manna, var áframhaldandi kraftaverk. Svo var einnig það að fötin slitnuðu ekki og fætur þeirra þrútnuðu ekki 40 árin í eyðimörkinni. Hefðu fatabirgðirnar einfaldlega verið endurnýjaðar á eðlilegan hátt hefði það ekki verið neitt kraftaverk. Ekki hefði verið erfiðleikum bundið að nota sömu fötin öll þeissi ár, því að yngri börnin hefðu getað notað föt af þeim eldri, þegar þau uxu upp úr þeim, og aðrir notað föt af fullorðnum þegar þeir dóu. Þar eð Ísraelsmenn voru næstum jafnmargir að lokinni göngunni um eyðimörkina og í byrjun hefðu upphaflegar fatabirgðir getað dugað þessi 40 ár. — 4. Mósebók 2:32; 26:51.
• 14:21 — Fyrst Ísraelsmenn máttu ekki eta „neitt sjálfdautt,“ hvers vegna mátti þá gefa það útlendum manni, sem bjó í landinu, eða selja það aðkomnum manni?
Sem hinn æðsti löggjafi hafði Jehóva rétt til að setja aðeins Ísraelsmönnum ákveðna hömlur. Þeir voru honum „helgaður lýður.“ Aðrar þjóðir héldu ekki þetta bann við því að eta kjöt af sjálfdauðri skepnu. Ekkert rangt var við að gefa óblóðugan skrokk útlendingi, sem bjó í landinu eða var þar á ferð, því að Ísraelsmenn gáfu ekki rangar upplýsingar og viðtakandi eða kaupandi vissi að hverju hann gekk. Því má bæta við að 5. Mósebók 14:21 kemur heim og saman við 3. Mósebók 17:10 sem bannaði útlendingi, sem bjó í landinu, að eta blóð. Útlendingur í landinu, sem var trúskiptingur, átti ekki að eta blóð, en þetta bann átti ekki við útlending í landinu sem ekki hafði skipt um trú að fullu. Slíkur maður gat notað sér kjöts af óblóðgaðri skepnu sem trúfastur Ísraelsmaður eða trúskiptingur áleit óhreint.
• 17:5-7 — Hvers vegna var þess krafist að vitnin reiddu fyrst hönd gegn þeim sem dæmdur var til dauða?
Sérhver maður í Ísrael átti að vera kostgæfur vegna sannrar guðsdýrkunar og ákafur að sjá til þess að skipulaginu væri haldið hreinu og enginn smánarblettur félli á nafn Jehóva. Vottarnir áttu að sýna slíka kostgæfni með því að taka forystuna í að fullnægja dóminum. (Samanber 4. Mósebók 25:6-9; 5. Mósebók 13:6-11.) Að sjálfsögðu var það eitt að bera vitni gegn manni en allt annað að taka hann af lífi. Það myndi koma vitninu til að hugsa sig vandlega um þegar það bæri vitni, og aðeins óguðlegur maður myndi bera ljúgvitni, vitandi að hann yrði fyrstur til að reiða upp hönd sína til að lífláta manninn eða konuna. Vottar Jehóva geta fylgt þessum frumreglum með því að vera kostgæfir gagnvart hreinleika safnaðarins og líka að gæta þess vandlega að bera vitni sem er sannleikanum samkvæmt. Þegar allt kemur til alls verður einn og sérhver að standa ábyrgur gerða sinna frammi fyrir dómaranum æðsta, Jehóva. — Matteus 12:36, 37.
• 22:5 — Er viðeigandi fyrir konu, í ljósi þessa banns, að klæðast síðbuxum?
Augljós tilgangur þessa ákvæðis var sá að koma í vega fyrir að fólki væri misboðið kynerðislega og kynjum ruglað saman. Venjulega vill karlmaður líkjast karlmanni og kona konu í útliti og klæðaburði. Breytti Ísraelsmaður gegn þessari innri vitund um hvað sé viðeigandi hefði það getað leitt til kynvillu. Þótt bæði karlar og konur klæddust þá eins konar kyrtlum var munur á klæðnaði þeirra. Eins er það nú sums staðar í heiminum að bæði karlar og konur klæðast síðbuxum, þótt munur sé á milli kynjanna. Meginreglan í þessari ritningargrein útilokar ekki að kristin kona geta stundum klæðst síðbuxum, til dæmis sé hún að vinna í garðinum eða í sveitavinnu. Og í samræmi við staðbundna siði og þarfir geta síðbuxur verið æskilegar þar sem loftslag er í kaldara lagi. Biblían ráðleggur konu að ‚skrýða sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti.‘ — 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10.
• 24:6 — Hvers vegna gat það jafngilt því að taka líf manns að veði ef kvörn hans eða efri kvarnarsteinn var tekinn að veði?
Brauð var að jafnaði bakað daglega og oft þurfti að mala korn. Daglegt brauð fjölskyldunnar var því háð kvörninni. Í miskunn sinni bannaði Guð því að kvörn eða efri kvarnarsteinn manns væri tekinn að veði. Væri annað hvort tekið myndi það svipta fjölskylduna sínu daglega brauði og jafngilti því að taka „líf“ mannsins að veði.
Lokaræður, söngur og blessun
Þessar tvær ritningargreinar fjalla um gerólík efni. Inntakið í 5. Mósebók 32:39 er að falsguðir eiga enga hlutdeild með hinum sanna Guði, Jehóva, í frelsunarathöfnum hans. Þeir eru ófærir um að frelsa dýrkendur sína frá ógæfu, og slíkir guðir voru ekki með Jehóva í nokkru sem hann gerði. Þótt „Orðið“ sé guð eða voldug vera er það ekki í andstöðu við Jehóva eða gengur fram sem keppinautur, hans, eins og falsguðirnir. — 5. Mósebók 32:12, 37, 38.
• 33:1-29 — Hvers vegna er Símeons ekki getið í þessari blessun?
Símeon og Leví höfðu gerst sekir um grimmdarverk saman, og þótt þeim væri gefinn hlutur í Ísrael var hann ekki eins og hlutur hinna ættkvíslanna. Levítunum voru gefnar 48 borgir víða um landið en hlutur Símeons var umkringdur landsvæði Júda. (1. Mósebók 34:13-31; 49:5-7; Jósúa 19:9; 21:41, 42) Þegar því Móse beindi athygli sinni að Júda vissi hann vel að hlutur Símeons var innifalinn. Enn fremur hlaut ættkvísl Símeons hina almennu blessun: „Heill þér, Ísrael! Hver er sem þú? — lýður, sigursæll fyrir hjálp [Jehóva]!“ — 5. Mósebók 33:29.
Varanleg hjálp trúföstum þjónum
5. Mósebók er til varanlegs gagns þjónum Jehóva og við getum fundið í henni mikilvægan lærdóm. Til dæmis fylgdi Jósúa, þegar hann réðst inn í Kanannland, skilyrðislaust því sem nú stendur í þeirri bók. Á sama hátt ættum við að þiggja handleiðslu Guðs fúslega. (5. Mósebók 20:15-18; 21:23; Jósúa 8:24-29) Jesús Kristur vitnaði í 5. Mósebók þegar hann stóð gegn Satan. Eins og Jesús viðurkennum við að maðurinn verður að lifa á orði Jehóva, að við eigum ekki að freista Guðs og að okkur ber að veita heilaga þjónustu honum einum. — Matteus 4:1-11; 5. Mósebók 5:9; 6:13, 16; 8:3.
Þessi bók lýsir Jehóva sem Guði er krefst algerrar hollustu. (5. Mósebók 4:24; 6:15) Hún segir líka: „Þú skalt elska [Jehóva] Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ (5. Mósebók 6:5) Kjarni 5. Mósebókar er því hvatning til okkar um að þjóna Jehóva trúfastlega. Megum við því veita honum heilaga þjónustu af hjartans gledi.