Stattu einarður gegn vélráðum Satans!
„Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.“ — Efesusbréfið 6:11.
1. Hvert er hlutskipti kristinna manna sem lifa í samræmi við sérréttindi sín?
VÍGÐIR vottar Jehóva, sem lifa í samræmi við sérréttindi sín, búa í andlegri paradís. Á spádómsmáli lýsti spámaður Guðs, Jesaja, núverandi ástandi þeirra svo: „Réttvísin [skal] festa byggð í eyðimörkinni og réttlætið taka sér bólfestu í aldingarðinum. Og ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu. — Jesaja 32:16, 17.
2. Hvers vegna þurfum við alltaf að vera á verði?
2 Til að varðveita þessi hamingjuríku skilyrði þurfum við alltaf að vera á verði, því að Satan djöfullinn öfundar okkur að hamingju okkar og velsæld í hinni andlegu paradís. Sem Góg frá Magóg mun hann bráðlega gera allsherjarárás á þjóna Jehóva. (Esekíel 38:8-12) Hann situr þó alls ekki auðum höndum núna. Hann veit að hann hefur aðeins nauman tíma til stefnu og er reiðari þjónum Jehóva nú en nokkru sinni fyrr. — Opinberunarbókin 12:12, 17.
3. Hvers vegna er Satan þjónum Jehóva ævareiður?
3 Satan stýrir þessum heimi ranglátra manna. (Efesusbréfið 2:1, 2; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Allir eru þeir hans megin í deilumálinu mikla um drottinvaldið yfir alheiminum. Þeir taka allir undir efasemdir Satans um hvort nokkur maður geti varðveitt ráðvendni við Jehóva Guð. (Orðskviðirnir 27:11) Það egnir djöfulinn að fáeinir kristnir menn skuli sýna fram á að hann er hégómafullur raupari og auvirðilegur lygari. Hann beitir því öllum brögðum og klækjum, sem hann kann, til að sigra þessa trúföstu þjóna Jehóva. Þess vegna eigum við í baráttu við „andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ — Efesusbréfið 6:12.
4. Hvers vegna þurfum við að vinna af dugnaði að því að sigrast á veikleikum okkar?
4 Því er hyggilegt af þér að spyrja sjálfan þig: ‚Hvernig get ég staðið einarður gegn þessum öfluga óvini?‘ Eins og við höfum séð notfærir hann sér veikleika hins fallna holds til að hneppa kristinn mann í fjötra. Ekki er víst að leti sé okkar veiki en við erum kannski stolt. Vera má að við hneigjumst ekki til holdlegra lystisemda en kannski erum við ágjörn. Við þurfum að vinna af kappi að því að sigrast á veikleikum okkar, standa gegn djöflinum svo að hann flýi frá okkur. — Jakobsbréfið 4:7.
Andleg herklæði okkar
5. Af hverju þurfum við að klæðast alvæpni Guðs?
5 Óvinur okkar beitir sömu brögðunum aftur og aftur. Með því að nema orð Guðs getum við því verið á varðbergi gegn þeim vélráðum sem Satan hefur notað frá því á tímum Biblíunnar, og við getum lært hvernig við getum staðið gegn honum. Páll postuli skrifaði: „Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.“ Hann hvatti einnig: „Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.“ Tökum eftir að Páll leggur áherslu á að taka „alvæpni Guðs.“ Hættulegt væri að láta vanta jafnvel einn hluta þessara herklæða Guðs, því að Satan myndi veita því athygli og gæti vel beint árásum sínum að þeim óvarða bletti. Það gæti orðið okkur að fjörtjóni andlega. — Efesusbréfið 6:11, 13.
6. Hvers krefst það af okkur að vera ‚gyrt sannleika um lendar okkar‘?
6 Postulinn byrjar á því að hvetja okkur: „Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar.“ (Efesusbréfið 6:14) Til forna báru menn leðurbelti um mitti sér eða mjaðmir. Oft var það set litlum málmplötum sem veittu aukna vernd. Við það var líka fest sverð eða rýtingur hermannsins. Hvað merkir það fyrir kristinn mann að hafa lendar sínar gyrtar sannleika? Að vera gyrtur sannleikanum í orði Guðs þýðir að vera búinn á alla vegu til að við getum notað Ritninguna til að svara spurningum. Eins og belti hermannsins var vörn fyrir hann, eins gefur sannleikurinn okkur sjálfstraust til að bera byrðar okkar og verndar okkur. Að halda huganum uppteknum af sannindum Guðs mun því tvímælalaust hjálpa okkur að standa einörð gegn Satan.
7. Hvað merkir það að vera klæddur „brynju réttlætisins“?
7 Næst segir postulinn okkur að vera „klæddir brynju réttlætisins.“ (Efesusbréfið 6:14) Á tímum Biblíunnar var brynja gerð úr litlum málmplötum, keðjuhlekkjum eða heilli málmplötu og verndaði einkanlega hjartað. Til að hafa þessa brynju réttlætisins verðum við framar öllu öðru að ‚varðveita hjartað.‘ (Orðskviðirnir 4:23) Aðeins þannig getum við veitt Satan harða mótspyrnu, með því að hafa löngun til að þjóna Jehóva og vera hreinlíf sem tryggir að við höfum ekki siðspillandi áhrif meðal fólks Jehóva. — 1. Pétursbréf 1:14-16.
8. Hvað felst í því að vera ‚skóaður fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins‘?
8 Páll nefnir þessu næst að við skulum vera „skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.“ (Efesusbréfið 6:15) Hvað er fólgið í því? Að vera mjög athafnasöm í að prédika boðskapinn um Guðsríki á friðsamlegan hátt eins og Jesús gaf trúboðunum 70 fyrirmæli um: „Hvar sem þér komið í hús, þá segið fyrst: ‚Friður sé með þessu húsi.‘“ (Lúkas 10:5) Við komum ekki til að eiga í þrætum við fólk. Við komum til að færa því hughreystingu, gleði, hugarfrið og von. Satan vill vekja mótspyrnu og baráttugirni með sumum áheyrendanna og reyna að koma okkur til að gjalda líku líkt. Til að standa einörð gegn vélabrögðum Satans þurfum við þess vegna að vera háttvís og þolinmóð, að vera „öllum allt.“ — 1. Korintubréf 9:19-23.
9. Hvernig voru skildir og eldleg skeyti til forna?
9 Postulinn heldur áfram: „Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.“ (Efesusbréfið 6:16) Gríska orðið, sem hér er þýtt ‚skjöldur,‘ merkir skjöld sem er nógu stór til að vernda stærsta hluta líkamans. Að því er hin „eldlegu skeyti“ varðar má nefna að Rómverjar gerðu sér stundum skotspjót úr holum reyr með smáum hólfum fylltum logandi koltjöru. Vera má að Páll hafi haft slík logandi skeyti í huga.
10. Hvað notar Satan sem ‚eldleg skeyti‘?
10 Satan skýtur margs konar ‚eldlegum skeytum‘ að kristnum mönnum. Meðal þessara ‚skeyta‘ eru háð, spott og rógburður sem óvinir þjóna Guðs beina að þeim. Þessi ‚skeyti‘ geta líka verið tilraunir sumra til að draga kjark úr kristnum hermönnum á þeim forsendum að árangurinn af þjónustu þeirra sé rýr eða þeim verði lítt ágegnt að sigrast á einhverjum veikleika holdsins. Beisk orð, hnýfilyrði og rangfærslur teljast líka til þeirra. Stundum hefur Satan sært kristna menn með því að vekja forvitni þeirra á veraldlegri visku tengdri dulspeki eða heimspekilegum vangaveltum um uppruna og örlög mannsins. Þú ættir eindregið að forðast slíkt „djúp Satans.“ Gerir þú það? — Opinberunarbókin 2:24.
11. Hvað ræður því hversu stór og sterkur okkar andlegi skjöldur er?
11 Til að vernda hjörtu okkar gegn ‚eldlegum skeytum‘ Satans þurfum við stóran og sterkan skjöld trúarinnar. Mest er það undir sjálfum okkur komið hversu stór og sterkur hann er. Við munum njóta nauðsynlegrar verndar í sama mæli og við kaupum okkur tíma til einkanáms í Biblíunni, hugleiðingar um orð Guðs og félagsskapar við bræður okkar í trúnni. Að sjálfsögðu verðum við að heimfæra á okkur það sem við lærum því að ‚trúin er dauð án verka.‘ (Jakobsbréfið 2:26) Einhver besta leiðin til að auka og efla trú okkar, og þar með geta staðið stöðug, er að leggja okkur í einlægni fram um að innprenta öðrum trú.
12. Hver er hinn andlegi hjálmur og hvers virði er hann okkur?
12 Páll segir síðan: „Takið við hjálmi hjálpræðisins.“ (Efesusbréfið 6:17) Til forna voru hjálmar ýmist gerðir úr sefi, stungnu líni eða leðri eða þá málmi. (1. Samúelsbók 17:38) En úr hverju er okkar andlegi hjálmur gerður? Páll sagði kristnum mönnum í Þessaloníku: „Vér . . . skulum vera algáðir, klæddir . . . von hjálpræðis sem hjálmi.“ (1. Þessanloníkubréf 5:8) Já, von getur verndað okkur fyrir atlögum Satans og útsendara hans. Sterk von byggð á Biblíunni „bregst oss ekki.“ (Rómverjabréfið 5:5) Slík von mun vernda okkur fyrir áróðri efnishyggjunnar, því að hún mun koma okkur til að leita fyrst ríkis Guðs. — Matteus 6:33; Lúkas 12:31.
13. Hvert er ‚sverð andans‘ og hvers virði er það?
13 Þá komum við að lokum að eina árásarvopninu, sem við höfum, „sverði andans,“ sem er Guðs orð.
Kristnir eiginleikar til hjálpar
14. (a) Hvers vegna höfum við ekki ástæðu til stærilætis? (b) Hvers vegna þurfum við að vera auðmjúk til að standa gegn Satan?
14 Auk okkar andlegu herklæða munu kristnir eiginleikar hjálpa okkur að standa einarðir gegn djöflinum. Þar eð Satan höfðar til stolts og stærilætis mun lítillæti og heilbrigt hugarfar hjálpa okkur í baráttunni gegn honum. Enginn kristinn maður ætti að ‚hugsa hærra um sig en hugsa ber.‘ Þegar við höfum gert allt sem okkur er sett fyrir ættum við að geta sagt: „Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.“ Auk þess þörfnumst við óverðskuldaðrar góðvildar Guðs til að standa fastir fyrir gegn Satan, og til að hafa hana verðum við að vera auðmjúk því að „Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum vetir hann náð.“ — Rómverjabréfið 12:3; Lúkas 17:10; Jakobsbréfið 4:6.
15. Hvernig hjálpar sjálfstjórn okkur til að vera staðföst?
15 Sjálfstjórn er annar kristinn eiginleiki sem hjálpar okkur að standa óhagganleg gegn Satan. Ef við ekki stjórnum tilfinningum okkar og erum til dæmis reiðigjörn, eða gætum ekki hófs í sambandi við mat, drykk eða kynlíf verðum við berskjölduð fyrir árásum djöfulsins. Þegar við „lutum . . . vilja holdsins“ lifðum við í reyndinni eftir „vilja valdhafans í loftinu [Satans djöfulsins], anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.“ (Efesusbréfið 2:1-3) Ef við látum eigingjarnar, óhreinar hugsanir og tilfinningar taka af okkur ráðin erum við í mikilli hættu að festast í snöru djöfulsins með því að gera vilja hans. (2. Tímóteusarbréf 2:26) Til að standa föst fyrir gegn honum verðum við að stýra hugsunum okkar og tilfinningum af festu, svo og orðum okkar og verkum. Við verðum að aga hugi okkar til að hugsa það sem er göfugt, rétt, hreint og elskuvert. — Filippíbréfið 4:8.
16. Hvernig getur óeigingjarn kærleikur hjálpað okkur að standa föst fyrir?
16 Meira en nokkuð annað mun óeigingjarn kærleikur hjálpa okkur að standa einörð gegn Satan djöflinum. Hann bíður ekki boðanna að höfða til sérhverrar minnstu eigingirni sem hann verður var við í fari okkar. Í sama mæli og óeigingjarn kærleikur heldur okkur uppteknum í þjónustu og tilbeiðslu á Jehóva erum við óhult fyrir árásum Satans. Hvaða möguleika á hann gegn okkur ef við elskum Jehóva af öllu hjarta, sálu, huga og mætti? Kærleikur gerir okkur áhugasöm um hjálpræði annarra og það mun líka hjálpa okkur að gera hjálpræði okkar öruggt. (Markús 12:30, 31; 1. Tímóteusarbréf 4:16) Svo lengi sem við iðkum kærleikann í hans mörgu myndum mun hvorki Satan né nokkur af útsendurum hans, sýnilegur sem ósýnilegur, geta veikt andstöðu okkar gegn þeim. — 1. Korintubréf 13:4-8.
17. Hvers vegna er bæn svona þýðingarmikil til að hjálpa okkur að vera staðföst?
17 Til að geta staðið óhagganleg gegn vélabrögðum Satans verðum við líka að notfæra okkur bænina til hins ýtrasta. Hvers vegna? Vegna þess að við getum hreinlega ekki gengið með sigur af hólmi í eigin krafti. Við þurfum að fá hjálp að ofan. Eftir að hafa lýst hinum andlegu herklæðum hvatti Páll trúbræður sína til að notfæra sér ‚bæn og beiðni og biðja á hverri tíð í anda.‘ Til þess að svo yrði áttu þeir að vera „árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum,“ þeirra á meðal postulunum. — Efesusbréfið 6:!8, 19.
18, 19. (a) Hvernig getur lof- og þakkargjörð hjálpað okkur? (b) Hvaða gildi hafa beiðni og ákall?
18 Hvað er fólgið í „alls konar bæn“? (Ísl. bi. 1912) Ein tegund bænar er lofgjörð. Vissulega verðskuldar Jehóva lof okkar með tilliti til þess hver hann er, hverjir eiginleikar hans og stað í alheiminum. (Sálmur 33:1) Önnur tegund bænar er þakkargjörð. Og hvílíka ástæðu höfum við ekki til að þakka gjafara ‚sérhverrar góðrar gjafar og sérhverrar fullkominnar gáfu‘! (Jakobsbréfið 1:17) Okkur er ráðlagt að „þakka [Jehóva] miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn“ sem er mjög svo viðeigandi. (Sálmur 107:31) Þakklát hjörtu og hugir munu hjálpa okkur að standa einörð gegn Satan.
19 Beiðni er önnur tegund bænar. Rétt og viðeigandi er af okkur að biðja um visku (Jakobsbréfið 1:5), heilagan anda (Lúkas 11:13), fyrirgefningu synda (1. Jóhannesarbréf 1:9; 2:1, 2) og um blessun Guðs yfir viðleitni okkar (Sálmur 90:17). Þá er að nefna ákall, en með því er átt við að biðja Jehóva innilega og ákaft, til dæmis á hættustund eða við mikið álag. Þegar Páll var í fangelsi bað hann þess að beðið yrði ákaft fyrir sér. (Efesusbréfið 6:18-20) Þess konar bæn mun örugglega hjálpa okkur að standa föst fyrir gegn Satan.
Ákveðin að vera staðföst
20, 21. Hvernig getum við gengið af hólmi algerlega sigursæl?
20 Þjónar Jehóva njóta nú sem heild þeirrar blessunar að búa í andlegri paradís. En við hvert og eitt getum ekki gengið að því vísu að við munum halda áfram að eiga hlut í þeirri blessun. Við verðum alltaf að vera á varðbergi, að vera staðföst gegn óvini okkar, Satan djöflinum. — 1. Pétursbréf 5:8, 9.
21 Satan beitir margs konar vélráðum, eins og við höfum séð, og ætlun hans er að brjóta á bak aftur ráðvendni okkar og koma okkur til að hætta að þjóna Jehóva Guði. En Satan mun ekki yfirbuga okkur ef við varðveitum okkar andlegu herklæði frá Guði, höldum áfram að rækta ávexti anda hans, svo sem kærleika og sjálfstjórn, og erum þolgóð í bæninni. Þá munum við, með ástríkri hjálp frá Guði okkar, Jehóva, vera fullbúin til að standa einörð gegn vélráðum Satans.
Manst þú?
◻ Hvers vegna er Satan þjónum Jehóva ævareiður?
◻ Hvað myndar andlegt alvæpni kristins manns?
◻ Nefnið nokkur af ‚eldlegum skeytum‘ Satans. Hvaða vernd höfum við gegn þeim?
◻ Hvers vegna verðum við að vera auðmjúk til að standa óhagganleg gegn djöflinum?
◻ Hvers vegna er bænin þýðingarmikill þáttur í að vera staðfastur?
[Myndir á blaðsíðu 27]
Regluleg bænagerð hjálpar fjölskyldu að standast árásir Satans.