Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.3. bls. 18-23
  • Gættu þín á óvini þínum, djöflinum!

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Gættu þín á óvini þínum, djöflinum!
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Það sem Satan gengur til
  • Blekking um tilvist hans
  • Fölsk trúarbrögð — verkfæri Satans
  • Satan höfðar til stærilætis
  • Tál efnishyggjunar
  • Satan spilar á veikleika manna
  • Standið fastir fyrir!
  • Vertu á verði – Satan vill tortíma þér
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Óvinur eilífs lífs
    Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
  • Standið einarðir gegn vélabrögðum Satans
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Hver er djöfullinn?
    Hvers krefst Guð af okkur?
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.3. bls. 18-23

Gættu þín á óvini þínum, djöflinum!

„Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt. — 1. Pétursbréf 5:8.

1. Hvaða óvin eiga vottar Jehóva? Er hægt að standast hann?

ERT ÞÚ Vottur Jehóva Guðs, vígður honum skilyrðislaust? Ef svo er átt þú þér illskeyttan óvin sem leggur á ráðin að hremma þig. Þrátt fyrir allt sem þessi slægi óvinur getur gert er þó hægt að standast atlögur hans. Þú getur reynst ráðvandur hinum hæsta Guði, Jehóva. Án nokkurs vafa getur þú þannig átt hlut í að upphefja hið óviðjafnanlega nafn þíns himneska föður. Þú getur sannarlega glatt hjarta Jehóva og gefið honum tilefni til að svara smánaranum mikla. Já, og þú getur höndlað þau verðlaun sem eilíft líf í paradísarsælu eru. — Orðskviðirnir 27:11; Lúkas 23:43; Opinberunarbókin 2:7.

2. Hvað sagði Pétur postuli um erkióvin okkar?

2 Til að vera Guði trúfastur þarft þú að varast höfuðóvin þinn. Pétur postuli skrifaði um hann: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ Þó er hægt að verjast þessum óvini því að postulinn heldur áfram: „Standið gegn honum, stöðugir í trúnni, . . . Guð . . . mun sjálfur, er þér hafið þjáðst um lítinn tíma, fullkomna yður, styrkja og öfluga gjöra.“ (1. Pétursbréf 5:8-10) Einkum eru þessi orð hughreysting smurðum fylgjendum Jesú Krists. En þau hafa líka mikla þýðingu fyrir þjóna Jehóva sem hlakka til að lifa eilíflega í jarðneskri paradís.

3. (a) Hverjir eru tilbúnir að hjálpa okkur? (b) Hvaða óvinum teflir Satan fram til að ná sínum illa tilgangi?

3 Ef við eigum að gæta okkar á óvini okkar þurfum við á hjálp að halda, svo og þekkingu á aðferðum hans. Jehóva Guð, Jesús Kristur, hinir heilögu englar og kristni söfnuðurinn eru reiðubúnir og fúsir til að hjálpa okkur öllum til að varðveita ráðvendni. Hins vegar þurfum við að berjast við okkar ófullkomna hold, þetta illa heimskerfi og Satan djöfulinn sjálfan. Honum gengur aðeins illt til og er alltaf tilbúinn að kalla til hjálpar hina óvinina okkar tvo til að ná fram illum vilja sínum. — Jóhannes 15:19; 1. Korintubréf 9:27.

4. (a) Undir hvaða fjórum heitum er Satan kunnur? (b) Hvers vegna verðskuldar Satan titlana „djöfull,“ „höggormur“ og „dreki“?

4 Þau nöfn, sem Ritningin gefur óvini okkar, hjálpa okkur að skilja betur aðferðir hans og undirferli. Hann er kallaður Satan, djöfull, höggormur og dreki. (Opinberunarbókin 12:4, 9, 10) Nafn hans, Satan, merkir „andstæðingur“ eða „óvinur.“ (Jobsbók 1:6; 2:1) „Djöfull“ merkir „rógberi,“ „ákærandi“ eða „hinn illskeytti.“ Satan er líka nefndur „höggormur“ vegna þess að hann notaði höggorm til að tæla Evu í aldingarðinum. (1. Mósebók 3:1-7) Og hann er nefndur ‚dreki‘ vegna tilhneigingar sinnar til að svelgja í sig.

Það sem Satan gengur til

5. Hvaða stöðu hefur Satan tekið gagnvart Jehóva?

5 Satan djöfullinn, upprunalega einn himneskra sona Guðs, fór út á þá braut að standa gegn og rægja Jehóva. Ætlun Satans var að snúa mannkyninu frá Guði og láta það þjóna eigingjörnum hvötum hans sjálfs. Atferli djöfulsins ber með sér að hann véfengdi sannsögli Guðs, svo og þörf mannkynsins að reiða sig á Jehóva til að veita áfram líf og hamingju. Í því sem Satan gerði fólst einnig að hann véfengdi rétt Guðs til að stjórna og stjórnarfar hans. Jehóva fylgir ófrávíkjanlega þeirri meginreglu að stjórna í réttlæti og láta sköpunarverur sínar þjóna sér fúslega af kærleika til hans og réttlætisins. Satan á hinn bóginn hefur tekið þá afstöðu að eigingjarn ávinningur sé eftirsóknarverðara tilefni. Með öðrum orðum, hann fullyrðir að allar skynsemigæddar sköpunarverur ættu að vera og séu jafneigingjarnar og hann. — Jobsbók, 1. og 2. kafli.

6. Hvað leiðir stefna Satans í ljós um hvatir hans?

6 Að Satan skyldi fara út á slíka braut sýnir að hann lét ótilhlýðilega metnaðargirnd verða að brennandi ástríðu með sér. Það má einnig sjá af aðvörun Páls við því að skipa mann, sem nýlega hefur tekið trú, í stöðu umsjónarmanns; hann gæti þá ‚ofmetnast og orðið fyrir sama dómi og djöfullin.‘ (1. Tímóteusarbréf 3:6) Það bar sannarlega vott um skefjalaust sjálfsálit að Satan skyldi voga sér að rísa gegn hinum alvalda, hinum hæsta, drottinvaldi alheimsins, konungi eilífðarinnar, Jehóva Guði. (1. Mósebók 17:1; 2. Samúelsbók 7:28; Sálmur 83:19; 1. Tímóteusarbréf 1:17) Þegar djöfullinn bauð Jesú Kristi „öll ríki heims og dýrð þeirra“ ef Jesús félli fram og tilbæði hann, afhjúpaði hann að hann væri keyrður áfram af þeirri ástriðu að upphefja sjálfan sig, að hann öfundaði Jehóva af þeirri tilbeiðslu sem skynsemigæddar sköpunarverur hans veitti honum. — Matteus 4:8, 9.

7. Hvers vegna tók Guð ekki uppreisnarseggina Satan, Adam og Evu strax af lífi?

7 Að sjálfsögðu hefði Jehóva Guð getað líflátið Satan og fyrstu mannlegu hjónin jafnskjótt og þau syndguðu. En vegna þeirra ákæra, sem fólust í uppreisn Satans, og vegna miskunnar fyrir ófæddu afkvæmi Adams leyfði Guð djöflinum að lifa og reyna að sanna drembilegar fullyrðingar sínar. Um leið gaf Jehóva þeim mönnum, sem vildu, tækifæri til að reyna að stjórna án Guðs og réttlátra meginreglna hans.

Blekking um tilvist hans

8. Hvernig hefur Satan blekkt mannkynið í sambandi við tilvist sína?

8 Satan beitir mörgum og margvíslegum vélabrögðum til að efla sinn hag sem andstæðingur Jehóva Guðs og, ef mögulegt, að snúa öllum mönnum frá réttmættri tilbeiðslu á skapara sínum. Eitt þessara vélabragða er að fá fólk til að trúa að hann sé ekki til! Eftir það eru menn auðveld bráð fyrir hann. Innan margra trúarhreyfinga núna er í tísku að trúa að engin slík persóna sem Satan djöfullinn sé til. Skoðanakönnun, sem gerð var í New York 1974, leiddi til dæmis í ljós að yfir helmingur Bandríkjamanna trúði ekki fyllilega að til væri persónubundinn djöfull. Jafnvel margir klerkar trúa ekki að djöfullinn sé til sem persóna.

9, 10. Hvernig sýnir Ritningin fram á að djöfullinn er persóna?

9 En Ritningin lætur okkur ekki vera í neinum vafa um að til sé persónubundinn djöfull. Hún sýnir okkur að það var persóna sem talaði í gegnum höggorminn og blekkti og tældi fyrstu konuna, Evu. Jobsbók sýnir enn skýrar fram á að Satan er til sem persóna, því að hún segir frá að hann hafi talað við Jehóva Guð og borið brigður á ráðvendni þjóns Guðs, Jobs. Auk þess greina guðspjallaritararnir Matteus, Markús og Lúkas frá því að Jesú Krists hafi verið freistað af djöflinum. Að slík freisting hljóti að hafa komið utan að er ljóst ekki aðeins af því sem við vitum um fullkomleika Jesú og persónuleika, heldur líka af eðli þriðju freistingar Satans. Hvernig hefði Jesús getað fallið fram og tilbeðið illa frumreglu eða hugmynd? Þá ber einnig að nefna að Jesús talaði margsinnis um Satan sem persónu og „höfðingja þessa heims.“ — Jóhannes 12:31; 14:30; 16:11; 8:44; Matteus 4:1-10; 12:26; Lúkas 10:18.

10 Postular Jesú töluðu lika um djöfulinn sem persónu. Páll gaf til kynna að sannkristnum mönnum væri ekki ókunnugt um „vélráð“ Satans og postulinn varaði þá við ‚vélabrögðum djöfulsins.‘ (2. Korintubréf 2:11; Efesusbréfið 6:11) Eins og þegar hefur verið bent á hvatti Pétur trúbræður sína til að vara sig á óvini sínum, djöflinum. Og Jóhannes postuli bar því vitni að ‚allur heimurinn væri á valdi hins vonda‘ og að „djöfullinn myndi varpa nokkrum kristnum mönnum í fangelsi.‘ — 1. Jóhannesarbréf 5:19; Opinberunarbókin 2:10; 1. Pétursbréf 5:8.

Fölsk trúarbrögð — verkfæri Satans

11. Hvað hefur Satan gert í sambandi við tilbeiðsluhvöt manna?

11 Það vélráð Satans að blinda fólk er tengt notkun hans á fölskum trúarbrögðum. (2. Korintubréf 4:4) Guð áskapaði manninum þörf á að halda tengslum við skapara sinn með því að tilbiðja hann. Satan hefur sveigt þessa hvöt af réttri braut með því að höfða til eigingirni manna og stuðla að fáfræði um sanna trú. Í því skyni tekur Satan á sig „ljósengilsmynd.“ (2. Korintubréf 11:14) Slík blekking hefur leitt til þess að menn iðka þúsundir ólíkra falstrúarbragða.

12. Hvernig ber okkur að líta á falstrúarbrögð og samband trúarbragða?

12 Öll fölsk trúarbrögð eru í reyndinni frá Satan komin því að Páll sagði: „Það sem heiðingjarnir blóta, það blóta þeir illum öndum, en ekki Guði.“ Jesús sagði: „Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.“ Og Kristur gaf enga heimild fyrir því að ólíkum trúarbrögðum væri blandað saman heldur sagði: „Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“ — 1. Korintubréf 10:20; Matteus 12:30; Jóhannes 14:6.

13. Hvernig hefur Satan notfært sér forvitni mannsins um hið dulræna?

13 Satan gjörnýtir sér forvitni mannsins um hið dulræna og um ástand hinna dánu. Með algerlega óbiblíulegum vélráðum svo sem sambandi við hina dánu eða spíritisma, spásögnum, stjörnuspám og svartagaldri hefur hann hneppt óteljandi menn í fjötra. Meira að segja fer áhugi manna fyrir slíku vaxandi. Slíkar eru öfgarnar orðnar að sumir hreinlega dýrka djöfulinn sjálfan. — 2. Mósebók 22:18; 3. Mósebók 19:26; 20:6; 5. Mósebók 18:10-12.

Satan höfðar til stærilætis

14, 15. (a) Hverju beitti Satan til að fá Evu og Kain til að þjóna tilgangi sínum? (b) Hvaða fleiri dæmi gefur Biblían um þetta?

14 Oflæti varð Satan að falli. Það var því eðlilegt framhald að hann skyldi vekja með Evu oflátungslega og eigingjarna löngun til að verða eins og hinn hæsti Guð. Þannig tókst honum að snúa okkar fyrstu foreldrum frá því að tilbiðja Jehóva Guð. Satan beitti vafalaust svipuðum aðferðum við Kain. Hann veitti eflaust athygli hversu Kain gramdist að Abel, bróðir hans, skyldi njóta velvildar Guðs, og hann gat blásið þessa gremju upp í öfund og morðhug. — 1. Mósebók 4:3-8; 1. Jóhannesarbréf 3:11, 12.

15 Út í gegnum sögu mannkynsins hefur Satan getað notað sem verkfæri sín menn sem voru drambsamir — menn sem eins og Nimrod, Faraó í Egyptalandi á dögum Móse og Sanherib Assýriukonung. (1. Mósebók 10:8-12; 2. Mósebók 5:2; Jesaja 36:7-10, 16-20) Núna heldur Satan fjölda manna í greipum drambseminnar — kynþáttadrambs, þjóðernisdrambs, menntadrambs, stöðudrambs og svo framvegis. Allt þjónar þetta þeim tilgangi djöfulsins að fá menn til að daufheyrast við boðskap Guðs.

Tál efnishyggjunar

16. Hversu notadrjúg hefur Satan reynst efnishyggja og ágirnd?

16 Annað verkfæri, sem Satan notar til að hneppa menn í fjötra, er efnishyggja, græðgi, ágirnd, ást á peningum, oflæti vegna eigna. Þannig náði hann á sitt vald klerkunum á dögum Jesú sem voru fégjarnir. (Lúkas 16:14) Satan notaði ágirnd í hið efnislega til að ‚fylla hjarta Ananíasar svo að hann laug að heilögum anda.‘ (Postulasagan 5:1-11) Og vafalaust beitti djöfullinn fíkn í hið efnislega og heimsins munað til að koma Demasi og fleiri kristnum mönnum til að hætta að þjóna Jehóva. — 2. Tímóteusarbréf 4:10.

17. Hvaða alkunnugt dæmi höfum við um mann sem varð græðginni að bráð?

17 Júdas Ískaríot er alkunnugt dæmi um hvernig Satan notar ágirnd til að hneppa menn í fjötra. Ekki aðeins varð hann ágjarn þjófur heldur átti ágirnd þátt í því að hann sveik meistara sinn. Að hugur hans hafi beinst í þá átt má sjá af því að hann mótmælti því er María smurði fætur Jesú með dýrri olíu. (Jóhannes 12:4-6; Matteus 26:14-16) Við ættum að gæta þess mjög vandlega að Satan yfirbugi okkur ekki með tálbeitu efnishyggjunnar!

Satan spilar á veikleika manna

18. (a) Hvað gerði Guð fyrir manninn til þess að hann nyti þess að lifa? (b) Hvernig hefur Satan rangsnúið því til tjóns fyrir manninn?

18 Meðal hinna ýmsu veikleika, sem Satan höfðar til, er löngunin í forboðinn, holdlegan unað. Jehóva ætlaðist til að við nytum unaðar af ýmsu tagi, og þegar hans er notið innan þeirra marka, sem hann setur okkur, getur hann veitt okkur margt gott og mikla hamingju. En Satan freistar manna til að láta þetta ganga fyrir í lífi sínu og njóta þess á siðlausan hátt sem þverbrýtur lög Guðs. Þannig kom Satan 24.000 Ísraelsmönnum til að falla fyrir Baal Peór. (4. Mósebók 25:1-9) Heimur okkar tíma hefur gengið af göflunum í eftirsókn sinni eftir holdlegum unaði. Tímarit, dagblöð, kvikmyndir og sjónvarpsþættir ganga sífellt lengra í að höfða til lostafullra langana. Við, kristnir menn, leiddir af anda Guðs, verðum samt sem áður að vísa slíkum freistingum á bug. — 1. Korintubréf 14:20.

19. (a) Hvaða snöru Satans er kristnu æskufólki sérlega hætt við að falla í? (b) Hvað ætti ungt kristið fólk að vera sér meðvitandi um?

19 Annað vélabragð Satans er að höfða til löngunar í spenning. Þar eru ungir kristnir menn sérstaklega veikir fyrir. Oft sökva þeir sér af lífi og sál niður í margs konar íþróttir, bæði sem áhorfendur og þátttakendur. En það gæti komið þeim til að ‚elska munaðarlífið meira en Guð.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:4) Með öðrum unglingum dregur löngunin í spenning þá að tónlist og söng sem hvetur til siðleysis og ofbeldis. Sannarlega er mikillar varúðar þörf því að slíkt getur lokkað unga kristna menn út af braut ráðvendni og dyggðar. — Sálmur 16:11; 2. Pétursbréf 2:20-22.

20. Hvernig notar Satan ótta?

20 Óttinn við menn er líka snara sem Satan notar. Eðlilegt er að veigra sér við að vera hafður að spotti og reyna að komast hjá þjáningum. Slíkur ótti hefur komið ófáum til að gefa eftir þegar að þeim hefur kreppt. (Orðskviðirnir 29:25; Hebreabréfið 2:14, 15) Megum við með Guðs hjálp aldrei láta það henda okkur.

21. Hvers vegna þurfum við ekki að láta kjarkleysi yfirbuga okkur?

21 Annað vélabragð Satans er að reyna að telja kjark úr þjónum Guðs svo að þeir gefist upp. Djöfullinn reyndi það svo sannarlega við Job, svo mjög að hann óskaði þess að hann væri dáinn eða hefði aldrei fæðst. Satan reyndi að beita Móse sömu brögðum. (Jobsbók 3:1-13; 14:13; 4. Mósebók 11:10-15) Hvorugur þessara trúföstu manna lét kjarkleysi verða sér að fótakefli. Þess í stað létu þeir vilja Guðs ráða gerðum sínum. Við þurfum ekki, frekar en þeir, að missa kjarkinn þótt aðstæður séu erfiðar, því að Jehóva getur haldið okkur uppi og leyfir aldrei að réttlátur maður verði valtur á fótum. — Sálmur 55:23.

Standið fastir fyrir!

22, 23. (a) Hvað verðum við að gera til að geta staðið föst fyrir gegn „vélabrögðum Satans“ og ekki þjóna hagsmunum hans?

22 Með það í huga hversu Satan hefur tekist að gera þorra manna fjarlægan Jehóva Guði, hvað verðum við að gera? Sem hugdjarfir vottar Jehóva verðum við að ‚standa fastir fyrir gegn vélabrögðum djöfulsins,‘ gegn blekkingum hans, herbrögðum og undirferli. (Efesusbréfið 6:11) Með því getum við sannað hann vera þann fyrirlitlega hrokafulla lygara sem hann í reyndinni er.

23 Samt sem áður getum við ekki staðið fastir fyrir gegn djöflinum í eigin krafti, því að hann er ofurefli okkar, býr yfir meiri þekkingu og langtum meiri reynslu en við. Til að standa óhagganlegir gegn honum þurfum við því að notfæra okkur til hins ýtrasta alla þá hjálp sem Jehóva hefur gefið þjónum sínum. Þá getum við hrundið árásum þessa slóttuga óvinar!

Manst þú?

◻ Hvaða óvinum teflir djöfullinn fram til að ná sínum illa tilgangi?

◻ Hvaða stöðu hefur Satan tekið gagnvart Jehóva?

◻ Hvernig sannar Biblían að Satan er persóna?

◻ Nefndu sumt af því sem djöfullinn notar til að hremma okkur. Hvernig getum við forðast að það verði okkur að snöru?

[Mynd á blaðsíðu 21]

Vottar Jehóva láta ekki bugast af ótta við menn

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila