Spásagnir eru enn í tísku
„ÆTLA mætti óþarft, núna á tímum útbreiddrar upplýsingar og menntunar, að afsanna trúarhugmyndir byggðar á hjátrú og kukli.“ Svo hljóðaði að hluta til yfirlýsing undirrituð af 186 kunnum vísindamönnum, þeirra á meðal 18 Nóbelsverðlaunahöfum. Um hvað voru þeir að tala? Um stjörnuspár sem að þeirra sögn „gagnsýrir þjóðfélag nútímans.“ Leggur þú trúnað á spásagnir af einhverju tagi? Ert þú kannski efagjarn, jafnvel mjög andsnúinn þeim eins og þessir vísindamenn? Afstaða þín skiptir máli eins og við munum sjá í framhaldinu.
Spásagnir af ýmsu tagi eru mjög útbreiddar. Talsmaður samtaka spásagnamanna í París segir að „fjórar milljónir Frakka leiti til miðils á hverju sex mánaða tímabili.“ Í Bandaríkjunum eru ætlaðir vera 175.000 stjörnuspámenn í hlutastarfi og 10.000 í fullu starfi. Þeir eru einnig fjölmennir á Bretlandseyjum þar sem þeir reka sína eigin skóla. Og franska tímaritið Ça m’intresse (Þetta vekur áhuga minn) segir: „Alls staðar, þar á meðal í háþróuðustu þjóðfélögum, er svipað uppi á teningnum. Spásagnir blómstra nú undir lok aldarinnar.“
Hverjir leita til þeirra og hvers vegna?
Sumir halda að einungis illa menntað lágstéttarfólk hafi áhuga á hinum dulrænu „vísindum“ þar sem stjörnuspekin er sennilega fyrirferðarmest. En Madame Soleil, kunnur franskur stjörnuspáfræðingur, segir: „Þeir koma allir til mín, bæði hægri- og vinstrisinnar, stjórnmálamenn frá öllum hugmyndastefnum og erlendir þjóðhöfðingjar. Meira að segja prestar og kommúnistar koma til mín.“ Þegar töframaðurinn Frédéric Dieudonné lést birtist grein í hinu virta franska dagblaði Le Figaro þar sem sagt var að hann hafi átt sér „mjög stóran viðskiptahóp nafntogaðra Parísarbúa, presta, háttsettra embættismanna, rithöfunda og leikara.“
Fjárhættuspilarar leita ráða stjörnuspámanna um hvað skuli veðja á. Kaupsýslumenn ráðfæra sig við þá um hvernig þeir skuli ávaxta fjármuni sína. Stjörnuspámenn eru meira að segja fúsir til að segja fólki hvenær það skuli fara í ferðalög og hvað það skuli hafa til matar. Og spásagnir hafa teygt sig inn á fleiri svið. Í sumum löndum leitar lögregla hjálpar miðla og sjáenda til að finna glæpamenn eða týnt fólk. Að sögn franska vikuritsins Le Figaro Magazine „hefur Pentagon [bandaríska varnarmálaráðuneytið] í þjónustu sinni 34 einstaklinga gædda skyggnigáfu, til að fá upplýsingar um hvað eigi sér stað í leynilegum herbækistöðvum í Sovétríkjunum.“ Sama blað hefur eftir bandaríska þingmanninum Charles Rose að Sovétmenn beiti sams konar aðferðum.
Hvers vegna eiga stjörnuspár og spásagnir af ýmsu öðru tagi enn svona miklu fylgi að fagna? Eru þær skaðlaus skemmtun eða afþreying? Eru þær besta leiðin til að sjá fyrir hvað framtíðin ber í skauti sér eða er til önnur betri leið? Við skulum freista þess að leita svara við því.