Framtíðin — betri leið til að fræðast um hana
ÁRIÐ 1962 spáðu indverskir stjörnuspámenn miklum heimshamförum „vegna sjaldgæfrar samstöðu átta reikistjarna í Steingeitarmerkinu.“ En ekkert gerðist. Undir árslok 1980 voru flestir franskir stjörnuspáfræðingar þeirrar skoðunar að þáverandi Frakklandsforseti, Giscard d’Estaing, yrði endurkjörinn. En það fór á annan veg því að mótframbjóðandinn, François Mitterand, sigraði í kosningunum. Mistök af þessu tagi minna okkur á að stjörnuspáfræðin er hvergi nærri örugg leið til að fá vitneskju um framtíðina.
En er einhver önnur leið til? Eru tilraunir vísindamanna til að segja framtíðina fyrir trúverðugri? Árið 1970 spáði bandaríska McGraw-Hill stofnunin hvað myndi standa mönnum til boða árið 1980: „Lyf gegn krabbameini, mannaðar geimferðir til Mars og Venusar, varanleg geimstöð á tunglinu, rafmagnsbílar, tölvur á flestum heimilum, möguleiki á að ákveða kyn barns fyrir fæðingu og sjónvarp og kvikmyndir í þrívídd.“
Árið 1970 sögðu vísindamenn þessarar stofnunar: „Reynt er að ná fram áreiðanlegri spá með því að byggja á samhljóða áliti sérfræðingahóps.“ En spár þessara sérfræðinga hafa reynst rangar bæði á þessum sviðum og fjölmörgum öðrum, svo sem stjórnmálum og efnahagsmálum.
Áreiðanleg heimild
Er þá ógerlegt að fá öruggar upplýsingar um framtíðina, fyrst stjörnuspekingar og vísindamenn geta ekki sagt hana fyrir með neinni vissu? Áður en við gefumst upp væri rétt að kynna okkur hvað Biblían segir um málið. Jehóva Guð, höfundur Biblíunnar, segir um sjálfan sig: „Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið.“ — Jesaja 46:10.
Í orði Guðs er að finna fjölmarga spádóma. Í hverju eru þeir ólíkir spám stjörnuspekinganna? Uppsláttarrit, sem heitir The Great Ideas, svarar: „Svo virðist sem hebresku spámennirnir séu einstakir að því leyti að geta séð framtíðina fyrir. Ólíkt heiðnum spámönnum eða spásagnamönnum . . . þurfa þeir ekki að beita brögðum eða nota einhver hjálpargögn til að skyggnast inn í guðlega leyndardóma. . . . Ólíkt véfréttum virðast spádómsræður þeirra að mestu leyti skýrar og ótvíræðar. Að minnsta kosti virðist tilgangurinn sá að opinbera en ekki fela áætlun Guðs um þau mál sem hann sjálfur vill að mennirnir viti fyrir.“
Sem dæmi um þetta má nefna að miklar upplýsingar voru skráðar í Biblíuna mörgum árum fyrir fæðingu Jesú. Sagt var fyrir að hann myndi fæðast í Betlehem, í ætt Ísaí, föður Davíðs konungs. (Míka 5:2; Jesaja 11:1, 10) Ritningin sagði líka fyrir að hann yrði tekinn af lífi á staur en að ekkert beina hans yrði brotið eins og venja var við slíkar aftökur. Þetta rættist í smáatriðum, og eru þá talin aðeins fáein dæmi af þeim liðlega 120 spádómum sem biblíufræðingur einn ætlar hafa ræst á Jesú. — Sálmur 22:17, 18; 34:21.
Spádómur uppfylltur nú á tímum
Við þetta bætist að Biblían inniheldur spádóma sem eiga við okkar tíma. Við skulum athuga einn hinna þýðingarmestu. Hann lýsir atburðarás sem myndi einkenna tímann rétt áður en Guðsríki hlutaðist með mikilfenglegum hætti til um málefni jarðarinnar. Þessir atburðir yrðu meðal annars jarðskjálftar, farsóttir, matvælaskortur og aukið lögleysi. Hefur ekki allt þetta orðið meira og meira áberandi í heimsfréttunum nú á 20. öldinni? — Matteus 24:3, 7-14; Lúkas 21:7, 10, 11; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
Jesús sagði fyrir að uppfylling þessara spádóma yrði jafnöruggur boðberi þess að Guðsríki væri í nánd, eins og að frumknappar trjánna boða komu vorsins. Hann tók jafnvel fram að þeir myndu allir uppfyllast innan einnar kynslóðar. Allir þættir táknsins, þeirra á meðal þau atriði sem nefnd eru að ofan, hafa uppfyllst fyrir augum okkar frá og með 1914.a Við getum því treyst fullkomlega að Guðsríki muni láta til skarar skríða mjög bráðlega. — Lúkas 21:29-33.
Því var einnig spáð að á þessum tíma yrði „angist þjóða, ráðalausra.“ (Lúkas 21:25) Franska dagblaðið Le Monde Dimanche bendir á samhengi milli þessa ástands og hins mikla áhuga nútímafólks á stjörnuspám og dulspeki: „Frammi fyrir þessu kreppuástandi lætur fólk einskis ófreistað til að fá hughreystingu. Dulsálarfræðin veitir fólki mikla hughreystingu án þess að það þurfi mikið á sig að leggja, og á tímum ógnvekjandi vísindaafreka, svo sem beislun kjarnorkunnar og genaskeytinga, freistast fólk til að flýja á vit hins óþekkta og órökræna til að reyna að finna aftur tilgang í lífinu.“ Við ættum því ekki að undrast hinn útbreidda áhuga á stjörnuspám og alls kyns dulspeki af öðru tagi. Hann er eitt af sjúkdómseinkennum þeirrar ‚angistar‘ sem sækir á fólk eins og Jesús spáði.
„Lyftið upp höfðum yðar“
Hvað ættu kristnir menn að gera þegar þeir sjá allt þetta? Verða skelfdir eins og fólkið í kringum þá? Jesús gaf eftirfarandi ráð: „Þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ — Lúkas 21:28.
Langar þig til að vita framtíðina fyrir í smærri atriðum? Taktu þér þá tíma til að skoða Biblíuna gaumgæfilega og ‚reyna orð hennar, hvort þau séu frá Guði.‘ (1. Jóhannesarbréf 4:1) Það getur þú gert með hjálp tímaritsins Varðturninn sem ræðir reglubundið um spádóma Biblíunnar og skýrir merkingu þeirra fyrir okkar tíma. Þannig getur þú sannfærst um að endalok hinnar núverandi heimsskipanar séu í nánd. Þá getur þú líka ‚lyft upp höfði þínu.‘ Þú munt einnig fá vitneskju um hvað þú þarft að gera til að hljóta blessun Messíasarríkisins sem bráðlega mun grípa inn í gang mála hér á jörðinni til góðs fyrir alla réttsinnaða menn.
[Neðanmáls]
a Ítarlegri upplýsingar um þessa spádóma og uppfyllingu þeirra frá 1914 er að finna í 7. kafla bókarinnar Sannur friður og öryggi — hvernig? gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Rammagrein á blaðsíðu 5]
„Og táknið eða undrið rætist“
‚Hvað er athugavert við að leita til spámanns eða spákonu, eða þá lesa stjörnuspána í dagblaðinu? Er það ekki bara skaðlaus skemmtun?‘
Biblían lítur málið öðrum augum. Hún meira að segja varar okkur við spásagnamönnum og andamiðlum. Í 5. Mósebók gefur Jehóva eftirfarandi aðvörun: „Ef spámaður eða draumamaður . . . boðar þér tákn eða undur, og táknið eða undrið rætist, það er hann hafði boðað þér og sagt um leið: ‚Vér skulum snúa oss til annarra guða‘ . . . þá skalt þú ekki hlýða á orð þess spámanns eða draumamanns.“ — 5. Mósebók 13:1-3.
Veittu því athygli að Ritningin dregur ekki í efa að sumar spár spásagnamanna eða andamiðla rætist. Samt varar hún við því að þessar spár, byggðar á himintáknum eða öðrum spádómsaðferðum, komi frá illum öndum, leiði menn á villigötur og geti snúið þeim frá hinum sanna Guði. — Sjá Postulasöguna 16:16-18.
Sá sem leggur eyrun við spám stjörnuspekinga eða annarra, sem segjast geta sagt framtíðina fyrir, hættir á það að baka sér alvarlegt, andlegt vandamál og gera sig að þræli ‚andavera vonskunnar í himingeimnum.‘ (Efesusbréfið 6:12) Guð lítur því á það sem alvarlega synd að leita til slíkra einstaklinga, og þeir sem það iðka eru viðurstyggilegir í augum hans og munu ekki erfa Guðsríki. — Opinberunarbókin 22:15.
Það er því með velferð okkar fyrir augum að Biblían varar okkur við stjörnuspám og öllum öðrum spásögnum.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Biblían sagði fyrir að . . .
◆ Jesús myndi fæðast í Betlehem. — Míka 5:2.
◆ Hann myndi fæðast í ætt Ísaí, föður Davíðs konungs. — Jesaja 11:1, 10.
◆ Hann yrði líflátinn á staur. — Sálmur 22:17, 18.
◆ Ekkert af beinum hans yrði brotið. — Sálmur 34:21.