‚Á varðturni stend ég‘
„Þá hrópaði hann eins og ljón: ‚Á varðturninum, Jehóva, stend ég allan daginn og er á verði hverja nótt.‘“ — JESAJA 21:8, NW.
1, 2. (a) Hvaða markmið hafði Charles T. Russell? (b) Hvernig gátu bækur og tímarit hjálpað honum að ná marki sínu?
GUÐHRÆDDUR, tuttugu og eins árs maður í norðausturhluta Bandaríkjanna hafði það ætlunarverk að afhjúpa falskar trúarkenningar sinnar samtíðar, einkum kenningarnar um eilífar kvalir og forlög. Hann vildi líka vera baráttumaður sannleikans um lausnargjaldið og um tilgang og eðli komu Krists. Hvernig ætlaði hann að fara að því? Með því að beina ljósi orðs Guðs, heilagrar Biblíu, á trúarkenningar. — Sálmur 43:3; 119:105.
2 Þetta var Charles T. Russell, fyrsti forseti Biblíufélagsins Varðturninn. Árið 1873 ákvað hann að hefja útgáfu trúarlegra bóka og tímarita til að beina athygli fólks að sannleiksljósi Biblíunnar. Með hjálp þessara rita myndu einlægir menn koma auga á brestina í trúarsetningum kristna heimsins. Hið sterka ljós Biblíunnar myndi afhjúpa leynda ágalla þessara trúarsetninga. (Efesusbréfið 5:13) Samtímis myndu þessi rit lýsa upp hina „heilnæmu kenningu“ og byggja upp trú lesenda sinna. (Títusarbréfið 1:9; 2:11; 2. Tímóteusarbréf 1:13) Átti sú kostgæfni, sem knúði Charles Russell áfram í leit sinni að sannleikanum, sér eitthvert fordæmi? — Samanber 2. Konungabók 19:31.
Frumkristnir menn voru baráttumenn orðs Guðs
3. Hvernig sýndi Kristur Jesús að menn skyldu rísa upp sannleikanum til varnar?
3 Kristnir menn á fyrstu öld börðust fyrir notkun orðs Guðs meðal Gyðinga og heiðingja. Þeir stóðu eins og á varðturni og hrópuðu sannleikann til allra sem vildu heyra. (Matteus 10:27) Leiðtogi þeirra, Jesús Kristur, hafði kennt þeim. Hann sagði: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37) Þótt Jesús væri fullkominn treysti hann ekki á eigin visku eða skoðanir. Kenning hans var komin frá kennaranum æðsta, Jehóva Guði. „Ég gjöri ekkert af sjálfum mér,“ sagði hann hópi Gyðinga, „heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.“ (Jóhannes 8:28; sjá einnig Jóhannes 7:14-18.) Samkvæmt frásögn guðspjallanna af þjónustu hans á jörð vitnaði hann í um helming bóka Hebresku ritninganna eða lét í ljós svipaðar hugmyndir og þar er að finna. — Lúkas 4:18, 19 (Jesaja 61:1, 2); Lúkas 23:46 (Sálmur 31:6).
4. Nefndu dæmi um hvernig Jesú notaði orð Guðs til að kenna sannleikann.
4 Jafnvel eftir dauða sinn og upprisu notaði Kristur orð Guðs til að kenna sannleikann. Til dæmis þegar Kleófas og félagi hans voru á ferð frá Jerúsalem til Emmaus hjálpaði Jesús þeim að hugsa út af Ritningunni. Frásagan segir: „Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum.“ (Lúkas 24:25-27) Síðar þennan sama dag birtist Jesús postulunum ellefu og nokkrum lærisveinanna til að byggja upp trú þeirra. Hvernig gerði hann það? Með fagmannlegri notkun Ritningarinnar. Lúkas segir: „Síðan lauk hann [Jesús] upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar. Og hann sagði við þá: ‚Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi.‘“ — Lúkas 24:45, 46.
5. Hvernig fylgdi Pétur fordæmi Krists í notkun Ritningarinnar á hvítasunnunni árið 33?
5 Eftir fyrirmynd meistarans hóf kristni söfnuðurinn árið 33 opinbera þjónustu sína með hjálp Ritningarinnar. Hvar? Á opnu svæði við hús eitt í Jerúsalem. Eftir að hafa heyrt „eins og aðdynjanda sterkviðris“ yfir þessu húsi hópast þangað þúsundir Gyðinga úr Jerúsalem og pílagrímar annars staðar frá. Pétur stígur fram — hinir postularnir ellefu eru með honum — og með styrkri röddu tekur hann til máls: „Gyðingar og allir þér Jerúsalembúar! Þetta skuluð þér vita. Ljáið eyru orðum mínum.“ Síðan bendir hann á „það, sem spámaðurinn Jóel segir,“ og það sem „Davíð segir.“ Hann skýrir fyrir fólkinu það kraftaverk, sem nýbúið var að gerast, og að ‚Guð hafi gert þennan Jesú, sem það staurfesti, bæði að Drottni og Kristi.‘ — Postulasagan 2:2, 14, 16, 25, 36.
6. (a) Gerðu grein fyrir því sem gerðist á fundi hins stjórnandi ráðs fyrstu aldar. (b) Hvernig fengu söfnuðirnir að vita af ákvörðun hins stjórnandi ráðs og hvaða gagn höfðu þeir af því?
6 Þegar frumkristnir menn þurftu að fá skýrari upplýsingar um trú og breytni notaði hið stjórnandi ráð fyrstu aldar Ritninguna vel. Þegar ráðið kom saman árið 49 beindi lærisveinninn Jakob, sem þá var fundarstjóri, athygli þess að mikilvægum ritningarstað í Amosi 9:11, 12. „Bræður, hlýðið á mig,“ segir hann. „Símon hefur skýrt frá, hvernig Guð sá til þess í fyrstu, að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða, er bæri nafn hans. Í samræmi við þetta eru orð spámannanna, svo sem ritað er.“ (Postulasagan 15:13-17) Allt ráðið var sammála tillögu Jakobs og setti á blað ákvörðun sína, byggða á Ritningunni, svo að hægt væri að flytja hana öllum söfnuðunum og lesa upp fyrir þeim. Hver var árangurinn af því? Kristnir menn „urðu . . . glaðir yfir þessari uppörvun“ og „söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.“ (Postulasagan 15:22-31; 16:4, 5) Frumkristni söfnuðurinn varð þannig „stólpi og grundvöllur sannleikans.“ En hvað um nútímasögu? Myndu Charles T. Russell og biblíunemendurnir, sem unnu með honum, líkja eftir þessu góða fordæmi frá fyrstu öld? Hvernig myndu þeir vera málsvarar sannleikans? — 1. Tímóteusarbréf 3:15.
Tímarit með langdræga yfirsýn
7. (a) Hvert var markmið tímaritsins Varðturn Síonar? (b) Hver var álitinn stuðningsaðili blaðsins?
7 Í júlí árið 1879 var fylgt úr hlaði helsta verkfæri Russells til að upplýsa fólk um Biblíuna — tímaritinu Zion’s Watch Tower and Herald of Christ’s Presence (Varðturn Síonar og boðberi nærveru Krists). Í fyrsta tölublaðinu mátti lesa um hið göfuga markmið tímaritsins: „Eins og nafnið bendir til miðar blaðið að því að vera útsýnisstaður þaðan sem kunngera má ‚litlu hjörðinni‘ áhugaverð og nytsamleg verðmæti. Sem ‚boðberi nærveru Krists‘ er því ætlað að gefa ‚heimamönnum trúarinnar‘ ‚mat á réttum tíma.‘“ Hornsteinn tímaritsins var traust til hins alvalda Guðs. Í öðru tölublaðinu sagði: „‚Varðturn Síonar‘ á, að okkar hyggju, JEHÓVA sér að baki, og þar af leiðandi mun blaðið aldrei betla eða biðja menn um stuðning. Þegar hann sem segir: ‚Mitt er silfrið, mitt er gullið,‘ hættir að sjá fyrir nægu fé munum við skilja það sem merki þess að útgáfu blaðsins skuli hætt.“
8. Skýrðu aukna útbreiðslu Varðturnsins í ljósi Jesaja 60:22 og Sakaría 4:10.
8 Varðturn Síonar, núna Varðturninn, hefur nú komið út samfleytt í 108 ár. Hann hefur vaxið úr mánaðarriti í 6000 eintaka upplagi á einu tungumáli í hálfsmánaðarrit á öllum helstu tungumálum heims. Meðalupplag hvers tölublaðs er nú 12.315.000 eintök á 103 tungumálum. — Samanber Jesaja 60:22; Sakaría 4:10.
9. Hvers vegna var titillinn „Varðturn“ við hæfi?
9 Titill blaðsins, Varðturn, var vel valinn hjá Russell. Orðið, sem Hebresku ritningarnar nota yfirleitt um „varðturn,“ merkir „varðstöð“ eða „sjónarhóll“ þaðan sem vörður átti auðvelt með að koma auga á óvin í fjarlægð og vara tímanlega við aðvífandi hættu. Vel átti því við að fyrstu 59 útgáfuárin skyldu standa á forsíðunni orð úr Jesaja 21:11, 12 samkvæmt King James-þýðingunni: „Vökumaður, hvað líður nóttinni?“ „Morgunninn kemur.“
10. Hver er varðmaðurinn í Jesaja 21:11 og hvaða boðskap boðar hann?
10 Vökumaðurinn í spádómi Jesaja átti bráðlega að stíga fram. Mitt í myrkri hins illa heims hafði Russell með gleði boðað fagnaðartíðindin um hinn komandi ‚morgun.‘ En áður en „morgunninn“ kemur aðvarar varðmannahópurinn — leifar hins andlega Ísraels — djarflega við framvindu ‚næturinnar‘ sem nær sínu myrkasta svartnætti í ‚stríðinu á hinum miklum degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón. — Opinberunarbókin 16:14-16.
11, 12. (a) Hvernig sýna orðin í Jesaja 21:8 að varðmannahópurinn er trúr og vökull? (b) Í gegnum hvaða miðil berast núna boð frá honum og hvernig er honum aðallega dreift?
11 Fyrr, í Jesaja 21:8, er talað um þennan trúa varðmann með eftirfarandi orðum: „Þá hrópaði hann eins og ljón: ‚Á varðturninum, Jehóva, stend ég allan daginn og er á verði hverja nótt.‘“ — NW.
12 Sjáðu fyrir þér varðmann uppi á háum turni. Hann hallar sér fram og rennir augunum yfir sjóndeildarhringinn meðan dagsbirtu nýtur og hvessir augun út í myrkrið á nóttunni, sívökull á verði sínum. Þetta er meginhugmynd hebreska orðsins sem þýtt er „varðturn“ (mitspe) eins og það er notað í Jesaja 21:8. Enginn heilvita maður efast um þau boð sem berast frá svona vökulum varðmanni. Varðmannahópur nútímans hefur lagt sig fram um að rannsaka Ritninguna til að sjá hvað Jehóva hyggist gera við þetta heimskerfi. (Jakobsbréfið 1:25) Þessi varðmaður kallar síðan hátt og óttalaust, einkum á síðum Varðturnsins. (Samanber Amos 3:4, 8.) Þetta tímarit mun aldrei skjóta sér óttaslegið undan því að halda sannleikanum á lofti! — Jesaja 43:9, 10.
13. Hvaða förunautur hóf göngu sína árið 1919 og hvaða áþekkan tilgang hefur hann?
13 Þann 1. október 1919 hóf nýtt tímarit göngu sína: The Golden Age (Gullöldin).a Varðmannahópurinn ætlaði að nota þetta verkfæri sem förunaut Varðturnsins. Þótt greinarnar í því myndu ekki kafa jafndjúpt ofan í biblíuleg málefni og gert var í Varðturninum, myndu þær vekja athygli mannkyns á fölskum trúarkenningum, komandi eyðingu hins núverandi illa heimskerfis og hinni nýju, réttlátu jörð sem á eftir kæmi. Já, þetta tímarit myndi líka vera málsvari sannleikans!
14. Hvert hefur verið markmið þess tímarits?
14 Átján árum síðar var nafni „Gullaldarinnar“ breytt í Consolation (Hughreysting). „Nýja nafnið stendur fyrir sannleikann,“ sagði í blaðinu þann 6. október 1937. Þann 22. ágúst 1946 var nafninu breytt í Awake! (Vaknið!). Í því tölublaði var gefið eftirfarandi loforð: „Ráðvendni við sannleikann verður æðsta markmið þessa tímarits.“ Fram til þessa dags hefur það ekki brugðist því fyrirheiti. Með einstæðum hætti halda Varðturninn og Vaknið! merki sannleikans hátt á lofti svo allir geti séð. Með því hafa tímaritin fylgt þeirri braut sem frumkristni söfnuðurinn ruddi. — 3. Jóhannesarbréf 3, 4, 8.
Varðturninn og Vaknið!: málsvarar sannleikans
15. (a) Hvað er líkt með miðlun andlegrar fæðu núna og á fyrstu öld? (b) Hvað þarf að gera auk þess að vitna í Ritninguna? Nefndu dæmi.
15 Hinn „trúi og hyggni þjónn,“ „vökumaðurinn,“ notar núna tímaritið Varðturninn undir handleiðslu hins stjórnandi ráðs votta Jehóva sem helstu boðleið andlegs ‚matar á réttum tíma.‘ (Matteus 24:45) Þar með er fylgt fyrirmynd safnaðarins á fyrstu öld sem gaf í rituðu formi skýrar upplýsingar um kenningar og siðferði, svo hægt væri að „lesa . . . upp fyrir öllum bræðrunum.“ (1. Þessaloníkubréf 5:27) Allt frá byrjun hefur Varðturninn notað Biblíuna og kennt. Til dæmis vitnaði fyrsta tölublaðið eða vísaði í liðlega 200 ritningargreinar í að minnsta kosti 30 biblíubókum. En það eitt að vitna í biblíuvers er ekki nóg. Fólk þarf að fá hjálp til að skilja þau. Varðturninn hefur alltaf unnið að skilningi á Biblíunni. Frá 1892 til 1927 var í hverju tölublaði dagskrá um vikulegan biblíulestur og umræða um lykilritningarstað úr hverjum leskafla. Fleiri dæmi er að finna í töflunni „Sögulegar greinar í Varðturninum.“
16, 17. Hvað gerði fyrsti ritstjóri Varðturnsins til að tryggja að tímaritið yrði alltaf málsvari sannleika Biblíunnar?
16 Hvernig ætlaði Varðturninn að halda boðskap sínum hreinum? Fyrsti ritstjóri blaðsins, C. T. Russell, setti ákveðnar starfsreglur til að tryggja að það sem birtist í Varðturninum væri sannleikurinn eins og menn best skildu hann á hverjum tíma. Ein þeirra kom fram í erfðaskrá hans sem hann gerði þann 27. júní 1907. (Russell lést þann 31. október 1916.) Í erfðaskrá hans segir:
Ég mæli svo fyrir að öll ritstjórn Varðturnsins verði í höndum nefndar fimm bræðra sem ég hvet til fyllstu aðgætni og tryggðar við sannleikann. Allar greinar, sem birtast á síðum Varðturnsins, skulu hafa skilyrðislaust samþykki minnst þriggja í hinni fimm manna nefnd. Hafi þeir þrír samþykkt eitthvað en viti eða ætli að annar eða báðir hinna í nefndinni séu því ósammála, þá hvet ég til að slíkar greinar bíði útgáfu í þrjá mánuði til að megi íhuga þær, biðja og ræða um þær, þannig að ritstjórn tímaritsins megi, að svo miklu leyti sem unnt er, varðveita einingu í trú og bönd friðarins.
17 Hver meðlimur ritstjórnarnefndarinnar átti, samkvæmt erfðaskrá Russells, að vera „fullkomlega trúr kenningum Ritningarinnar“ og sýna af sér „hreint líferni, glöggan skilning á sannleikanum, kostgæfni gagnvart Guði, kærleika til bræðranna og trúfesti við frelsarann.“ Russell kvað einnig á um að ekki skyldi „með nokkrum hætti koma fram hver hafi skrifað þær ýmsu greinar sem birtast í tímaritinu . . . til að sannleikurinn sé viðurkenndur og metinn sjálfs sín vegna, og til að Drottinn sé virtur sem höfuð kirkjunnar og uppspretta sannleikans.“
18. Hvers vegna getum við treyst Vaknið! og Varðturninum?
18 Allt til þessa dags hefur hið stjórnandi ráð fylgt svipuðum starfsreglum. Hver einasta grein bæði í Varðturninum og Vaknið! og hver einasta blaðsíða, þar á meðal myndir, eru gaumgæfðar af völdum meðlimum hins stjórnandi ráðs fyrir prentun. Þeir sem skrifa greinar í Varðturninn eru auk þess kristnir öldungar sem taka hlutverk sitt alvarlega. (Samanber 2. Kroníkubók 19:7.) Þeir verja miklum tíma til rannsókna á Biblíunni og fræðibókum til að fullvissa sig um að það sem ritað er sé sannleikurinn og fylgi Ritningunni nákvæmlega. (Prédikarinn 12:9, 10; 2. Tímóteusarbréf 1:13) Ekki er óalgengt að gerð einnar tímaritsgreinar — sem þú getur lesið á stundarfjórðungi — taki frá hálfum mánuði upp í rúman mánuð.
19. Hvað getur þú gert til að halda sannindum Biblíunnar á lofti?
19 Þú getur því lesið Varðturninn og Vaknið! óttalaust. En þú getur gert fleira. Þú getur með eldmóði boðið öðrum þessi tímarit til að þeir geti líka kynnst sannleikanum og notið góðs af því að heyra boðskapinn frá ‚varðmanninum á varðturninum.‘ (Jesaja 21:8) Ásamt varðmanni nútímans getur þú líka verið málsvari sannleika Biblíunnar.
[Neðanmáls]
a Sumir lesendanna voru í fyrstu vonsviknir út af forsíðu „Gullaldarinnar.“ Þeim þótti hún allt of hversdagleg. Um þetta sagði í ársskýrslu Varðturnsfélagsins: „Í þessu sambandi er rétt að minna á að um það leyti sem útgáfa ‚Gullaldarinnar‘ hófst voru prentarar á New York-svæðinu í verkfalli. Aðeins fáeinum dögum fyrr hafði verið gerður samningur um útgáfu ‚Gullaldarinnar‘ og mennirnir, sem áttu að vinna við þær prentvélar er taka þá pappírsgerð og forsíðu, fóru ekki í verkfall. Það virtist því guðleg forsjón að velja þess konar forsíðumynd og pappír, því að hefði eitthvað annað verið valið hefði alls ekki verið hægt að hefja útgáfu tímaritsins. Drottinn virtist því styðja þetta nýja rit.“
Manst þú?
◻ Hvers vegna hóf C. T. Russell útgáfu biblíurita?
◻ Hvernig voru frumkristnir menn málsvarar sannleikans?
◻ Hvers vegna heitir þetta tímarit Varðturninn?
◻ Hver er varðmaður nútímans og hvaða verkfæri notar hann fyrst og fremst til að magna rödd sína?
◻ Hvernig halda Varðturninn og Vaknið! sannindum Biblíunnar á lofti?
[Rammi á blaðsíðu 13]
Sögulegar greinar í Varðturninum
1879: „Guð er kærleikur“ — Hélt á lofti lausnarfórn Jesú sem forsendu frelsunar manna.
1879: „Hvers vegna illskan var leyfð“ — Skýrði hvers vegna nærvera Jesú Krists yrði ósýnileg.
1880: „Einn líkami, einn andi, ein von“ — Benti á að tímar heiðingjanna enduðu árið 1914.
1882: „Laun syndarinnar er dauði“ — Afhjúpaði að kenningin um eilífar kvalir samsvarar því að afneita kærleika Guðs.
1885: „Þróunarkenningin og vísdómsöldin“ — Afhjúpaði þróunarkenninguna.
1897: „Hvað segir Ritningin um andatrú?“ — Sannaði að illir andar standa að baki andatrú.
1902: „Guð fyrst — útnefningar hans“ — Undirstrikaði hlýðni við lög Guðs í fjölskyldunni og í viðskiptum.
1919: „Sælir eru þeir sem ekki óttast“ — Blés nýju lífi í vaknandi skipulag óttalausra guðsdýrkenda.
1925: „Fæðing þjóðarinnar“ — Skýrði spádómana sem sýna að Guðsríki fæddist árið 1914.
1931: „Nýtt nafn“ — Þaðan í frá myndi nafnið vottar Jehóva greina sannkristna menn frá trúvilltum kristnum heimi.
1935: „Múgurinn mikli“ — Benti á að söfnun þeirra sem skyldu lifa að eilífu á jörð væri hafin.
1938: „Skipulag“ — Kynnti sanna guðræðisskipan meðal votta Jehóva.
1939: „Hlutleysi“ — Styrkti votta Jehóva um allan heim til að standast álag síðari heimsstyrjaldarinnar.
1942: „Ljósið eina“ — Hvatning til þess að halda af hugrekki áfram vitnisburðarstarfinu.
1945: „Óhagganlegir í sannri guðsdýrkun“ — Sýndi fram á að kristnir menn mega ekki láta gefa sér blóð.
1952: „Skipulaginu haldið hreinu“ — Rökstuddi að brottvísun úr söfnuðinum sé biblíuleg.
1962: (ísl.: 1964) „Undirgefni við ‚æðri yfirvöld‘ — hvers vegna?“ — Færði rök fyrir afstæðri undirgefni við mannleg yfirvöld.
1973: „Söfnuði Guðs haldið hreinum á ‚dómstíma hans‘“ — Benti á nauðsyn þess að nota ekki tóbak.
1979: (ísl.: 1981) „Kostgæfni vegna húss Jehóva“ — Undirstrikaði að prédikun hús úr húsi fylgi fordæmi postulanna.
1982: (ísl.: 1983) „Þér elskaðir . . . varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs“ — Vakti kristna menn til vitundar um aðferðir fráhvarfsmanna.
1983: (ísl.: 1984) „Gengið með Guði í ofbeldisfullum heimi“ — Staðfesti að kristnir menn mega ekki eiga hlut í ofbeldi.
1984: „Hið nýtilkomna sauðabyrgi fyrir ‚aðra sauði‘“ — Skýrði hvernig þessi jarðneski hópur sameinast þeim sem eru í „sauðabyrgi“ nýja sáttmálans.
1987: „Hið kristna fagnaðarár nær hámarki í þúsundáraríkinu“ — Sýnir hvernig allir trúfastir kristnir menn öðlast frelsi og líf.