Míkael, hinn mikli höfðingi, gengur fram
„En á þeim tíma mun Míkael, hinn mikli verndarengill, sá er verndar landa þína, fram ganga.“ — DANÍEL 12:1.
1. Hvað er sagt fyrir í Biblíunni um þróun heimsmála og hvaða spurning vaknar þar af leiðandi í sambandi við þjóna Guðs?
JEHÓVA hefur gefið skýra aðvörun: Það verður aldrei friður á jörð svo lengi sem konungurinn norður frá og konungurinn suður frá berjast um völdin. Hagsmunir þessara tveggja afla hljóta alltaf að rekast á. Auk þess mun konungurinn norður frá, þegar fjandskapur þeirra nær hámarki, ógna andlegu starfssviði þjóna Guðs áður en hann ‚líður undir lok.‘ (Daníel 11:44, 45) Munu þjónar Guðs lifa árásina af? Og hvað verður um konunginn suður frá þegar keppinautur hans líður undir lok?
2, 3. (a) Hvaða spádóm finnum við í Esekíelsbók sem hjálpar okkur að skilja spádóminn um konunginn norður frá og konunginn suður frá? (b) Hvernig mun lokaárásinni á þjóð Guðs lykta samkvæmt spádómi Esekíels?
2 Spádómur samtíðarmanns Daníels, Esekíels, hjálpar okkur að svara þessum spurningum. Esekíel var líka blásið í brjóst að tala um ‚síðustu tíma,‘ og hann varaði við hinni komandi árás ‚Gógs í Magóglandi‘ á land þjóna Guðs. (Esekíel 38:2, 14-16; Daníel 10:14) Í þeim spádómi táknar Góg Satan og her hans táknar alla jarðneska skósveina Satans sem gera örþrifatilraun til að afmá þjóna Guðs. Með því að þessi árás á sér stað á síðustu tímum, eins og árás konungsins norður frá, er rökrétt að ætla að það sé til stuðnings við árás Gógs að konungurinn norður frá ‚slær skrauttjöldum sínum milli hafsins og fjalls hinnar helgu prýði.‘ (Daníel 11:40, 45) Mun árásin heppnast?
3 Esekíel spáði: „En þann dag, daginn sem Góg fer móti Ísraelslandi, — segir [Jehóva] Guð — mun reiðin blossa í nösum mér. Og ég vil ganga í dóm við hann með drepsótt og blóðsúthelling, með dynjandi steypiregni og haglsteinum. Eldi og brennisteini vil ég rigna láta yfir hann og yfir hersveitir hans og yfir margar þjóðir, sem með honum eru.“ (Esekíel 38:18, 22) Nei, árásin mun ekki heppnast. Sannkristnum mönnum verður bjargað og sveitum Gógs tortímt. — Esekíel 39:11.
4. Mun konungurinn suður frá halda velli þegar konungurinn norður frá líður undir lok? Hvaða aðrir spádómar styðja þennan skilning?
4 Ljóst er því að endalokatími konungsins norður frá er jafnframt endalokatími Gógs og sveita hans, þeirra á meðal konungsins suður frá. Það kemur heim og saman við aðra spádóma í Daníelsbók. Til dæmis lesum við að Guðsríki myndi, eftir stofnsetningu sína, „knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [þeirra á meðal bæði konunginn norður frá og konunginn suður frá], en sjálft mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44) Í sýn Daníels um hrútinn og geithafurinn er lítið horn látið tákna ensk-ameríska heimsveldið. Ofurmannlegt afl, ekki konungurinn norður frá, eyðir þessu litla horni „er ríki þeirra tekur enda“: „Hann mun . . . sundurmulinn verða án manna tilverknaðar.“ — Daníel 7:24-27; 8:3-10, 20-25.
Míkael, hinn mikli höfðingi
5. Hvern notar Jehóva fyrst og fremst til að frelsa þjóna sína og hvers vegna er það vel við hæfi?
5 Engillinn upplýsir nú hver það sé sem Jehóva notar til að eyða öllum þessum ríkjum. Hann segir: „En á þeim tíma mun Míkael, hinn mikli verndarengill, sá er verndar landa þína, fram ganga. Og það skal verða svo mikil hörmungatíð, að slík mun aldrei verið hafa, frá því er menn urðu fyrst til og allt til þess tíma. Á þeim tíma mun þjóð þín frelsuð verða, allir þeir sem skráðir finnast í bókinni.“ (Daníel 12:1) Í byrjun spádóms engilsins var sagt frá því að Míkael hefði barist fyrir Ísrael gegn verndarenglum Persíu og Grikklands. (Daníel 10:20, 21) Núna, þegar spádómurinn nálgast enda, gengur þessi sami Míkael fram í þágu þjóðar Daníels. Hver er þessi höfðingi sem berst fyrir fólk Guðs?
6, 7. (a) Hver er Míkael að sögn sumra af fræðimönnum kristna heimsins? (b) Hvað segir Biblían sem hjálpar okkur að bera kennsl á Míkael?
6 Snemma á 19. öld sagði biblíufræðimaðurinn Joseph Benson að lýsing Biblíunnar á Míkael „hæfi greinilega Messíasi.“ Hinn lúterski E. W. Hengstenberg, uppi á 19. öld, tók í sama streng og sagði að ‚Míkael væri enginn annar en Kristur.‘ Hið sama sagði guðfræðingurinn J. P. Lange í athugasemdum um Opinberunarbókina 12:7. „Vér álítum að Míkael . . . sé frá byrjun Kristur herbúinn til stríðs gegn Satan.“ Á þessi skilningur sér stuðning í Biblíunni? Já.a
7 Að sögn engilsins átti Míkael að ‚ganga fram.‘ Í spádómi engilsins getur þetta orðasamband (á hebresku amadh) merkt ‚að veita lið.‘ (Daníel 11:1) Það getur í ýmsum samböndum falið í sér „stuðning,“ „að rísa gegn,“ „að fá staðist,“ „að veita viðnám“ eða „að fá framgang.“ (Daníel 11:6, 11, 14, 15, 16a, 17, 25) En oft er það notað um konung, annaðhvort um embættistöku hans eða giftusama gjörninga. (Daníel 11:2-4, 7, 16b, 20, 21, 25) Það er sú merking sem hæfir best orðum engilsins í Daníel 12:1 og hæfir vel þeirri staðreynd að Míkael sé Jesús Kristur, því að Jesús er skipaður konungur Jehóva og hefur fyrirmæli um að tortíma öllum þjóðum í Harmagedón. (Opinberunarbókin 11:15; 16:14-16; 19:11-16) Það kemur líka heim og saman við aðra spádóma sem vísa til þess tíma er ríki Guðs í höndum Jesú Krists lætur til skarar skríða gegn þjóðum þessa heims. — Daníel 2:44; 7:13, 14, 26, 27.
8, 9. (a) Hverjir voru í upphafi ‚þjóð Daníels‘ og hverjir mynda hana núna? (b) Hvernig hefur Míkael í aldanna rás sýnt ‚þjóð Daníels‘ virkan áhuga?
8 Míkael hefur lengi haft tengsl við ‚þjóð Daníels,‘ Ísraelsmenn. Hann var með þeim í eyðimörkinni og studdi þá í bardaganum gegn ‚verndarenglum‘ fornra heimsvelda. (Daníel 10:13, 21; 2. Mósebók 23:20, 21; Júdasarbréfið 9) Hann fæddist á jörð sem maðurinn Jesús, til að vera hinn langþráði Messías, ‚afkvæmið‘ sem heitið var forföður Daníels, Abraham. (1. Mósebók 22:16-18; Galatabréfið 3:16; Postulasagan 2:36) Sem þjóð hafnaði Ísrael að holdinu Jesú og því hafnaði Jehóva henni sem útvalinni þjóð sinni. (Matteus 21:43; Jóhannes 1:11) Hann ákvað að leggja nafn sitt við nýja þjóð, andlegan „Ísrael Guðs,“ myndaðan bæði Gyðingum að holdinu og mönnum af öðrum þjóðum sem trúðu á Jesú. — Galatabréfið 6:16; Postulasagan 15:14; 1. Pétursbréf 2:9, 10.
9 Þessi nýja þjóð, hinn smurði kristni söfnuður, kom í heiminn árið 33 að okkar tímatali og þjónaði sem Ísrael Guðs eftir það. Hún yrði þaðan í frá ‚þjóð Daníels.‘ (Rómverjabréfið 2:28, 29) Fyrir upprisu sína til himna árið 33 hét Jesús að halda áfram að styðja ‚þjóð Daníels.‘ Hann sagði væntanlegum meðlimum hinnar nýju Ísraelsþjóðar: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ — Matteus 28:20; Efesusbréfið 5:23, 25-27.
Míkael ‚gengur fram‘ vegna þjóðar Daníels
10. Hvað mun Míkael gera samkvæmt orðum engilsins við Daníel og hvaða spurningu vekur það?
10 En núna segir engillinn að Míkael ætli að gera eitthvað sérstakt. Hann tvítekur að Míkael muni „rísa upp“ og ‚standa‘ og segir: „Og á þeim tíma mun Míkael standa upp, hinn mikli höfðingi sem stendur til varnar sonum þjóðar þinnar.“ (Daníel 12:1, NW) Hvað merkir það að Jesús ‚rísi upp‘? Og í hvaða skilningi ‚stendur hann til varnar sonum þjóðar Daníels‘? Áður en þessum spurningum er svarað skulum við líta á nokkrar staðreyndir til að byggja á.
11. Í hvaða skilningi stóð Jesús upp árið 1914?
11 Eftir upprisu sína árið 33 sagði Jesús fylgjendum sínum: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.“ (Matteus 28:18) Jesús hefur lengi farið með slíkt vald yfir smurðum þjónum sínum á jörðinni. (Kólossubréfið 1:13) Enn var þó ekki kominn sá tími er Jesús skyldi beita valdi sínu sem konungur Guðsríkis. Eftir að hann steig upp til himna ‚settist hann við hægri hönd Guðs‘ þar til sá tími kæmi er Guðsríki yrði stofnsett. (Sálmur 110:1, 2; Postulasagan 2:34, 35) Sá tími rann upp árið 1914, hinn ‚ákveðni tími.‘ (Daníel 11:29) Það ár var Jesús krýndur sem ríkjandi konungur Guðsríkis og þegar í stað gekk hann fram sem Míkael erkiengill og kastaði Satan niður af himnum. (Opinberunarbókin 11:15; 12:5-9) Frá 1914 hefur Jesús því ‚staðið‘ sem konungur. — Sálmur 2:6.
12, 13. Hvaða blessun hafa þjónar Guðs hlotið síðan 1914 sem sýnir að Jesús hefur ‚staðið til varnar þjóð Daníels‘?
12 Að Jesús skuli hafa ‚staðið‘ í þessum skilningi hefur verið ‚sonum þjóðar Daníels‘ mikil blessun. Þegar hann tók vald sem konungur og kastaði Satan niður til jarðar hreinsaði hann þar með framtíðarheimili þeirra, himininn. (Jóhannes 14:2, 3) Eftir það var hægt að reisa upp til himneskrar arfleifðar þá sem þegar voru dánir trúfastir. (1. Þessaloníkubréf 4:16, 17) Leifar þeirra, sem enn voru á jörðinni, máttu þola töluverðar ofsóknir í fyrri heimsstyrjöldinni sem höfðu í för með sér að prédikun þeirra nánast stöðvaðist. En árið 1919 voru þeir lífgaðir við og leiddir fram á vettvang heimsmálanna sem ný þjóð. — Jesaja 66:7, 8; Opinberunarbókin 9:14; 11:11, 12.
13 Eftir það uppfyllti Jesús loforð sitt um að „safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja.“ (Matteus 13:41) Á þennan hátt hefur hann haldið hreinum söfnuði smurðra kristinna manna sem hafa ‚þekkt Guð sinn, staðið stöðugir og drýgt dáðir.‘ Þeir hafa prédikað fagnaðarerindið um Guðsríki um allan heiminn og þar með ‚kennt mörgum hyggindi.‘ (Daníel 11:32, 33; Matteus 24:14) Frá og með 1935 hefur Jehóva leitt til þessa safnaðar vaxandi fjölda ‚annarra sauða‘ sem eiga von um líf á jörðinni og taka trúfastir þátt í að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki. — Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:9, 14, 15.
14. Hvað hefur það haft í för með sér að Jesús skuli hafa ‚staðið til varnar þjóð Daníels‘ út í gegnum hina síðustu daga?
14 Það eitt að þessi hópur kristinna manna skuli vera til nú á dögum er eftirtektarvert. Í stjórnmálalega sundruðum heimi hafa þeir sem mynda hann varðveitt algert hlutleysi sem þegnar Guðsríkis. (Jóhannes 17:14) Þar af leiðandi hafa báðir konungarnir ofsótt þá. Falstrúarbrögðin hafa líka gert sitt ýtrasta til að þurrka þá út. En þess í stað hafa þeir blómgast og dafnað, og núna eru starfandi vel yfir þrjár milljónir trúfastra þjóna Guðs í meira en 200 löndum. Þeir búa í andlegri paradís undir stjórn Krists sem sker sig mjög úr myrkri og ringulreið þessa heims. (Jesaja 65:13, 14) Þannig hefur Jesús ‚staðið til varnar sonum þjóðar Daníels‘ núna á síðustu dögunum. — Daníel 12:1.
Míkael ‚stendur upp‘
15. Í hvaða skilningi ‚stendur Jesús upp‘ og hvenær?
15 Í hvaða skilningi ‚stendur Jesús upp‘ á þeim tíma? (Daníel 12:1) Þeim að stjórn hans nær nýjum áfanga. Nú er runninn upp sá tími að hann skuli ganga fram með sérstökum hætti til að koma í veg fyrir að mennskar stjórnir afmái ‚þjóð Daníels.‘ (Esekíel 38:18, 19) ‚Tíminn,‘ sem hér er nefndur, er bersýnilega endalokatími konungsins norður frá og konungsins suður frá sem núna ógna andlegri paradís þjóna Guðs. (Daníel 11:40-45) Fram til þessa hafa einungis trúfastir þegnar Jesús á jörð tekið stjórn hans alvarlega. (Sálmur 2:2, 3) En núna er runnin upp ‚opinberun Drottins Jesú‘ þegar allir neyðast til að viðurkenna konungdóm hans. (2. Þessaloníkubréf 1:7, 8) Það felur í sér að allir andstæðingar hans verða afmáðir og upp rennur þúsundáraríki Jesú og meðstjórnenda hans. Þá verður Guðsríki eina stjórnin yfir mannkyninu. — Opinberunarbókin 19:19-21; 20:4.
16. Hvaða afleiðingar hefur það fyrir hinar óguðlegu þjóðir að Jesús skuli ‚standa upp‘?
16 Í samræmi við þetta segir engillinn að verða muni „svo mikil hörmungatíð að slík mun aldrei verið hafa, frá því er menn urðu fyrst til og allt til þess tíma,“ um leið og Míkael stendur upp. (Daníel 12:1; samanber Matteus 24:21.) Hinir óguðlegu verða þá afmáðir en hinir trúföstu hljóta hjálpræði. (Orðskviðirnir 2:21, 22) Í Opinberunarbókinni er lýst viðbrögðum óguðlegra sem eru skelfingu lostnir: „Þeir segja við fjöllin og hamrana: ‚Hrynjið yfir oss og felið oss fyrir ásjónu hans, sem í hásætinu situr, og fyrir reiði lambsins; því að kominn er dagurinn, hinn mikli dagur reiði þeirra, og hver mun geta staðist?‘“ — Opinberunarbókin 6:16, 17.
17. Hvað verður um jarðneskar sveitir Satans, þeirra á meðal konunginn norður frá og konunginn suður frá?
17 Spádómur Esekíels gegn Góg frá Magóg lýsir áhrifum þessarar ‚hörmungatíðar‘ fyrir jarðneskar sveitir Satans: „Á Ísraels fjöllum skalt þú falla, þú og allar hersveitir þínar og þær þjóðir, sem eru í för með þér.“ (Esekíel 39:4) Jeremía segir um sömu hörmungatíð: „Þeir sem [Jehóva] hefir fellt, munu á þeim degi liggja dauðir frá einum enda jarðarinnar til annars.“ (Jeremía 25:33) Það verður sannarlega mikil hörmungatíð. Jesús mun binda enda á hina löngu hernaðarsögu manna þegar hann ‚stendur upp‘ til að svipta völdum þau mennsku öfl sem bera ábyrgð á henni. — Sálmur 46:10; 1. Korintubréf 15:25.
Þeir sem lifa af ‚hörmungatíðina‘
18. (a) Hvað munu sannir þjónar Guðs fá að reyna þegar Messías ‚gengur fram‘? (b) Hvað felst í því að eiga nafn sitt ‚skráð í bókinni‘?
18 Þótt þjónar Guðs muni finna fyrir fjandskap óvinanna eru það fyrst og fremst hinir óguðlegu sem munu þola „hörmungatíð.“ (Sálmur 37:20) Engillinn segir Daníel: „Á þeim tíma mun þjóð þín frelsuð verða, allir þeir sem skráðir finnast í bókinni.“ (Daníel 12:1) Margir af ‚sonum þjóðar Daníels‘ verða þá dánir og hafa hlotið himnesk laun sín. Þeir munu vafalaust eiga hlut með Míkael í þessum mikla hersigri. (Opinberunarbókin 2:26, 27; Sálmur 2:8, 9) Þeir sem eftir eru á jörðinni taka engan þátt í bardaganum. Hins vegar varðveita þeir ráðvendni og lifa því af. (Opinberunarbókin 17:14; 19:7, 8) Félagar þeirra, ‚múgurinn mikli,‘ bjargast líka. (Opinberunarbókin 7:9, 14) Bæði hinar smurðu leifar og hinir ‚aðrir sauðir‘ ‚finnast því skráðir í bókinni,‘ það er að segja þeir eiga í vændum að hljóta eilíft líf að gjöf, annaðhvort á himni eða jörð. — Jóhannes 10:16; 2. Mósebók 32:32, 33; Malakí 3:16; Opinberunarbókin 3:5.
19. (a) Hvernig mun það hafa í för með sér frið á jörðinni þegar Messías ‚stendur upp‘? (b) Hvaða spurningu er enn ósvarað?
19 Þeir hljóta þau sérréttindi að sjá komið á sönnum friði um alla jörðina. Þeir verða sjónarvottar að því er rætist fyrirheit Jehóva: „Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar.“ (Sálmur 37:9) Með því að ríki Guðs verður þá eina stjórnin yfir jörðinni verða allir þálifandi menn þjónar Jehóva. (Jesaja 11:9) Þegar endalokatími konunganna tveggja rennur upp ‚stendur Míkael upp‘ til að koma á friði á jörðinni. Stórveldin geta með engu móti hindrað það, ekki heldur með mikilli hernaðaruppbyggingu. En þýðir það að við verðum að bíða þess þangað til að njóta friðar? Nei, til er sá friður sem kristnir menn geta notið nú þegar — í raun langtum stórkostlegri friður en aðeins sá að ekki séu háðir bardagar. Hver er þessi friður? Spádómur engilsins, sem hann færði Daníel, varpar ljósi á það.
[Neðanmáls]
a Þar eð Míkael er nefndur erkiengill álíta sumir að það dragi á einhvern hátt úr tign Jesú að segja þá vera einn og hinn sama. (Júdasarbréfið 9) En rökin fyrir því að Míkael og Jesús séu einn og hinn sami leiddu áðurnefnda fræðimenn kristna heimsins að þeirri niðurstöðu enda þótt þeir hafi sennilega trúað á þrenningarkenninguna.
Manst þú?
◻ Hver er Míkael, hinn mikli verndarengill?
◻ Hver er þjóð Daníels núna?
◻ Í hvaða skilningi stendur Míkael nú upp í þágu þjóðar Daníels?
◻ Með hvað hætti mun Míkael bráðlega ganga fram á sérstakan hátt?
◻ Hverjir munu lifa af þann tíma þegar Míkael gengur fram?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Örvæntingarfull lokatilraun til að afmá þjóð Guðs misheppnast — en hvernig?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Þjóð Guðs verður frelsuð þegar Míkael ‚stendur upp‘ til að binda enda á valdabaráttu konunganna tveggja.