Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w89 1.8. bls. 23-28
  • Réttlæti handa öllum þjóðum innan skamms

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Réttlæti handa öllum þjóðum innan skamms
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Skuggi hinna komandi gæða
  • Réttlæti í jafnvægi við miskunn
  • Réttlæti handa öllum þjóðum
  • Hvernig bregst þú við réttlátum vegum Guðs?
  • Guð réttlætisins mun ganga skjótlega til verks
  • „Vegsamið, þjóðir, lýð hans!“
  • Jehóva — uppspretta réttlætis og réttvísi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Líktu eftir Jehóva — iðkaðu réttlæti og réttvísi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • „Allir vegir hans eru réttlátir“
    Nálgastu Jehóva
  • Réttlæti einkennir alla vegu Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
w89 1.8. bls. 23-28

Réttlæti handa öllum þjóðum innan skamms

„Réttlætinu einu skalt þú fram fylgja, til þess að þú megir lifa og fá til eignar landið, sem [Jehóva] Guð þinn gefur þér.“ — 5. MÓSEBÓK 16:20.

1. Hver var upphaflegur tilgangur Guðs með manninn og með hvaða hætti einum gat hann uppfyllt hann?

TILGANGUR Jehóva Guðs með sköpun mannsins og konunnar var sá að uppfylla jörðina fullkomnum sköpunarverum. Allar myndu þær lofsyngja hann og eiga sinn þátt í að gera jörðina sér undirgefna. (1. Mósebók 1:26-28) Þar sem maðurinn var gerður í mynd og líkingu Guðs var hann ýmsum kostum búinn, svo sem visku, réttlæti, kærleika og krafti. Aðeins með því að beita þessum hæfileikum í jafnvægi yrði maðurinn fær um að uppfylla ætlun skapara síns.

2. Hversu mikilvægt var það fyrir Ísraelssyni að framfylgja réttlætinu?

2 Eins og fram kom í greininni á undan gerði maðurinn uppreisn gegn vegum Guðs og var dæmdur til dauða. Þaðan í frá var honum ógjörningur, sökum ófullkomleikans, að framkvæma upphaflegan tilgang Guðs. Vanhæfni mannsins til að sýna fullkomið réttlæti hefur átt stóran þátt í að það skuli ekki hafa tekist. Það er því ekki að undra að Móse skyldi áminna Ísraelssyni: „Réttlætinu einu skalt þú fram fylgja“! Líf þeirra og hæfni til að leggja undir sig fyrirheitna landið stóð og féll með því hvernig þeir framfylgdu réttlætinu. — 5. Mósebók 16:20.

Skuggi hinna komandi gæða

3. Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur, sem nú lifum, að rannsaka viðskipti Jehóva við Ísraelsmenn?

3 Samskipti Jehóva við Ísrael efla traust okkar á að hann muni gera réttlæti sitt augljóst öllum þjóðum fyrir milligöngu síns útvalda þjóns, Jesú Krists. Páll postuli útskýrir málið þannig: „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) Þar sem Guð „hefir mætur á réttlæti og rétti“ krafðist hann þess að Ísraelsmenn líktu eftir honum í samskiptum sínum hver við annan. (Sálmur 33:5) Það sést greinilega ef við skoðum fáeinar hinna 600 lagagreina sem Ísrael voru gefnar.

4. Hvernig var tekið á vandamálum í sambandi við borgaraleg réttindi í móselögunum?

4 Engin vandamál komu upp varðandi borgaraleg réttindi þegar móselögunum var fylgt. Þriðja Mósebók 19:34 segir um útlendan mann sem tók sér búsetu í landinu: „Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig.“ Þetta var bæði réttlátt og kærleiksríkt. Jafnt dómarar sem vitni voru áminnt með þessum orðum: „Ef þú átt svör að veita í sök nokkurri, þá skalt þú ekki á eitt leggjast með margnum til þess að halla réttu máli. Ekki skalt þú vera hliðdrægur manni í máli hans, þótt fátækur sé.“ (2. Mósebók 23:2, 3) Hugsaðu þér — réttlætinu skyldi framfylgt jafnt gagnvart ríkum sem fátækum.

5. Berðu saman refsiákvæði móselaganna og nútímalaga.

5 Refsiákvæði móselaganna voru langtum fremri nokkru því sem lögbækur þjóðanna geyma nú. Til dæmis var þjófi ekki varpað í fangelsi þar sem hann yrði byrði á vinnusömu og löghlýðnu fólki. Hann þurfti að vinna og endurgreiða tvöfalt eða gott betur það sem hann hafði stolið. Fórnarlambið varð því ekki fyrir tjóni. Ef þjófurinn neitaði að vinna og endurgreiða skuld sína var hann seldur í þrældóm uns skaðabæturnar voru greiddar. Ef hann hélt áfram að þrjóskast við var hann líflátinn. Fórnarlambið naut þannig réttlætis og þessi ákvæði voru áhrifamikill hemill á að menn leiddust út í þjófnað. (2. Mósebók 22:1, 3, 4, 7; 5. Mósebók 17:12) Lífið var heilagt í augum Guðs og sérhver morðingi var líflátinn. Þannig var morðgjörnum misyndismönnum útrýmt úr þjóðinni. Þó var þeim sem óviljandi varð manni að bana sýnd miskunn. — 4. Mósebók 35:9-15, 22-29, 33.

6. Til hvaða niðurstöðu leiðir rannsókn á lögum Ísraels?

6 Hver getur neitað því að réttlæti hafi einkennt öll réttarsamskipti Guðs við Ísraelsþjóðina? Það er okkur því mikil hughreysting og fyllir okkur von að ígrunda hvernig fyrirheit Guðs í Jesaja 42:1 muni verða að veruleika fyrir milligöngu Krists Jesú. Þar fáum við þetta fyrirheit: „Hann mun boða þjóðunum rétt.“

Réttlæti í jafnvægi við miskunn

7. Lýstu miskunnsemi Jehóva í garð Ísraelsmanna.

7 Réttlæti Guðs er í jafnvægi við miskunn hans. Það kom greinilega í ljós þegar Ísraelsmenn tóku að gera uppreisn gegn réttlátum vegum Guðs. Hlýðum á lýsingu Móse á miskunnsamri umhyggju Jehóva fyrir þeim á 40 ára eyðimerkurgöngu þeirra: „Hann fann hann í eyðimerkurlandi og í óbyggðum, innan um öskrið á öræfunum. Hann verndaði hann, hugði að honum, hann varðveitti hann sem sjáaldur auga síns. Eins og örn, sem vekur upp hreiður sitt og svífur yfir ungum sínum, svo útbreiddi hann vængi sína, tók hann upp og bar hann á flugfjöðrum sínum. [Jehóva] einn leiddi hann.“ (5. Mósebók 32:10-12) Síðar, þegar þjóðin gerðist fráhverf Jehóva, sárbændi hann hana: „Snúið yður frá yðar vondu breytni og frá yðar vondu verkum.“ — Sakaría 1:4a.

8, 9. (a) Í hvaða mæli sýndi Guð Gyðingum miskunn og réttlæti? (b) Hvaða ógæfa reið yfir þá og hvað er hægt að segja um framkomu Guðs gagnvart þeim?

8 En þótt Jehóva byði fram miskunn sína talaði hann fyrir daufum eyrum. Guð sagði fyrir munn spámannsins Sakaría: „En þeir hlýddu ekki og gáfu engan gaum að mér — segir [Jehóva].“ (Sakaría 1:4b) Réttlæti Guðs og miskunn fékk hann þess vegna til þess að senda eingetinn son sinn til að hjálpa þeim að snúa aftur til hans. Jóhannes skírari kynnti son Guðs með þessum orðum: „Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.“ (Jóhannes 1:29) Í nokkur ár starfaði Jesús þrotlaust við að kenna Gyðingum réttláta vegu Guðs og gerði óteljandi kraftaverk til þess að sanna að hann væri sá lausnari sem spáð hafði verið. (Lúkas 24:27; Jóhannes 5:36) En fólkið hvorki hlustaði né trúði. Jesús fann sig því knúinn til að segja: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið.“ — Matteus 23:37, 38.

9 Guð beið í 37 ár í viðbót með að fullnægja dómi sínum á Gyðingum, en árið 70 leyfði hann Rómverjum að leggja Jerúsalem í rúst og hneppa þúsundir Gyðinga í ánauð. Þegar við íhugum langlundargeð Jehóva um margra alda skeið, getur það þá farið fram hjá nokkrum að réttlæti hafi einkennt öll samskipti hans við Ísraelshús?

Réttlæti handa öllum þjóðum

10. Hvernig atvikaðist það að réttlæti Guðs tók að ná til allra þjóða?

10 Eftir að Ísraelsmenn höfðu hafnað Jesú sagði Jakob: „Sá [Guð] til þess í fyrstu [í fyrsta sinn, NW] að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða, er bæri nafn hans.“ (Postulasagan 15:14) Þessi ‚lýður,‘ meðal annars þeir fáu Gyðingar sem tóku við Jesú sem Messíasi, myndar saman andlegan „Ísrael Guðs“ er telur 144.000 andagetna fylgjendur Krists Jesú. (Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 7:1-8; 14:1-5) Kornelíus var fyrsti óumskorni heiðinginn sem tók trú. Þegar hann og heimilisfólk hans tóku við hjálpræðisleið Guðs sagði Pétur: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Páll vekur nánar athygli á óhlutdrægni Jehóva er hann segir: „Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú. En ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.“ — Galatabréfið 3:28, 29.

11. Hvaða loforð var Abraham gefið og hvernig verður það uppfyllt?

11 Hér erum við minnt á dásamlegt fyrirheit sem Jehóva gaf Abraham. Þegar ættfaðirinn sýndi að hann var fús til að fórna ástkærum syni sínum, Ísak, sagði Guð við hann: „Fyrst þú gjörðir þetta og synjaðir mér eigi um einkason þinn, þá skal ég ríkulega blessa þig . . . og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 22:16-18) Hvernig mun þetta fyrirheit uppfyllast? „Niðjar Abrahams,“ Jesús Kristur og 144.000 smurðir fylgjendur hans sem reynast trúfastir allt til dauða, munu ríkja yfir mannkyninu af himnum ofan í þúsund ár. (Opinberunarbókin 2:10, 26; 20:6) Jehóva fullvissar okkur um þetta varðandi þessa blessunarríku tíma: „Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“ Hvers vegna? Vegna þess að ‚höfðingjadómur‘ þessa messíasarríkis verður efldur ‚með réttvísi og réttlæti að eilífu.‘ — Jesaja 9:7.

12. Í hvaða mæli fá menn nú þegar að reyna blessanir Abrahamssáttmálans?

12 En við þurfum ekki að bíða uns þúsundáraríki Jesú Krists hefst til að geta notið blessunar Abrahamssáttmálans. „Mikill múgur“ manna ‚af öllum þjóðum, kynkvíslum, lýðum og tungum‘ nýtur nú þegar þeirrar blessunar. Með því að ‚þvo skikkjur sínar og hvítfága þær í blóði lambsins‘ á táknrænan hátt hafa þessir menn öðlast réttláta stöðu frammi fyrir Jehóva. Líkt og Abraham verða þeir vinir Jehóva! Réttlæti einkennir sannarlega hjálpræðisveg Jehóva fyrir milljónir manna af öllum þjóðum. — Opinberunarbókin 7:9, 14.

Hvernig bregst þú við réttlátum vegum Guðs?

13, 14. (a) Hvaða rannsókn á eigin hjarta ættum við öll að gera? (b) Hvernig getum við látið þakklæti til Jehóva í ljós?

13 Hefur það réttlæti og sá kærleikur, sem Guð sýndi með því að gefa eingetinn son sinn sem lausnargjald fyrir þig, snortið og haft djúp áhrif á hjarta þitt? Reyndu að gera þér í hugarlund tilfinningar Abrahams þegar Jehóva bað hann að fórna syni sínum sem hann unni svo heitt! En tilfinningar Guðs eru miklu dýpri. Hugsaðu þér tilfinningar Jehóva er hinn elskaði sonur hans mátti þola niðurlægingu, hrakyrði þeirra sem fram hjá fóru og óbærilegar þjáningar á kvalastaurnum. Ímyndaði þér viðbrögð Guðs við hrópi Jesú: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ (Matteus 27:39, 46) Réttlætið krafðist þess samt sem áður að Jehóva leyfði syni sínum að deyja á þennan hátt til að sanna hollustu sína til varnar réttlæti Guðs. Auk þess opnaði Jehóva okkur hjálpræðisleið með því að leyfa að sonur hans dæi.

14 Þakklæti okkar til Jehóva og sonar hans ætti svo sannarlega að fá okkur til að viðurkenna opinberlega: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ (Opinberunarbókin 7:10) Með slíkum jákvæðum viðbrögðum sýnum við að við trúum orðum Móse: „Allir vegir hans eru réttlæti.“ (5. Mósebók 32:4) Við hljótum að vekja mikla gleði í hjarta Jehóva og sonar hans þegar við viðurkennum og líkjum eftir réttlátum vegum Jehóva til hjálpræðis mönnum!

15. Hve mikilvæg eru orð Jesú til Níkódemusar fyrir okkur?

15 Erum við ekki ánægð yfir því að trúbræður okkar skyldu halda fast við sannfæringu sína í deilunni um lausnarfórnina á áttunda tug síðustu aldar? Erum við ekki glöð yfir því að tilheyra núna skipulagi sem er jafnákveðið í því að halda fast við réttláta og kærleiksríka vegu Jehóva til hjálpræðis mönnum? Ef svo er ættum við að gefa sérstakan gaum því sem Jesús sagði Níkódemusi: „Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann. Sá sem trúir á hann, dæmist ekki. . . . En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð.“ Til að umflýja óhagstæðan dóm Guðs verðum við að sanna trú okkar á soninn með því að vinna verk okkar ‚í Guði gjörð.‘ — Jóhannes 3:17, 18, 21.

16. Hvernig geta lærisveinar Jesú upphafið föðurinn á himnum?

16 Jesús sagði: „Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir. Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“ (Jóhannes 15:8, 10) Hver eru þessi boðorð? Eitt þeirra er að finna í Jóhannesi 13:34, 35 þar sem Jesús sagði lærisveinunum: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan . . . Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, er þér berið elsku hver til annars.“ Ávöxtur kærleikans er augljós meðal votta Jehóva. Jesús bauð einnig: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Ert þú persónulega að vinna þessi ‚verk í Guði gjörð‘?

17. Hvaða árangur sýnir að prédikunar- og kennslustarfið er óræk sönnun um réttlæti Jehóva?

17 Réttlæti Jehóva í því að leyfa fylgjendum Jesú að vinna þetta prédikunar- og kennslustarf kemur skýrt í ljós er við íhugum hverju vottar Jehóva hafa afkastað á aðeins einu ári. Árið 1988 voru 239.268 nýir lærisveinar skírðir. Vekur það ekki fögnuð í hjarta þér?

Guð réttlætisins mun ganga skjótlega til verks

18. Hvaða spurninga mætti spyrja með tilliti til ofsókna á hendur þjónum Jehóva?

18 Vitnisburðarstarfið hefur ekki verið unnið mótstöðulaust. Jesús sagði fylgjendum sínum: „Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður.“ (Jóhannes 15:20) Nútímasaga votta Jehóva staðfestir sannleiksgildi þessara orða. Í einu landi af öðru hefur starfsemi vottanna verið bönnuð og þeir hafa mátt þola fangavist, barsmíð og jafnvel pyndingar. Spádómsorð Habakkuks koma aftur upp í hugann: „Fyrir því verður lögmálið magnlaust og fyrir því kemur rétturinn aldrei fram.“ Þar af leiðandi koma þær stundir að jafnvel fólki Jehóva finnst það geta spurt: ‚Hví horfir Jehóva á svikarana? Hvers vegna þegir hann þegar hinn óguðlegi uppsvelgir þann sem er honum réttlátari?‘ — Habakkuk 1:4, 13.

19. Hvaða dæmisögu sagði Jesús til að hjálpa okkur að sjá hlutina frá sjónarhóli Guðs?

19 Jesús sagði dæmisögu sem hjálpar okkur að svara slíkum spurningum og sjá hlutina frá sjónarhóli Guðs. Í Lúkasi 17:22-37 lýsti Jesús því ofbeldisástandi sem einkenna myndi endalok þessa heimskerfis. Hann sagði að ástandið yrði sambærilegt því sem var fyrir flóðið á dögum Nóa og fyrir eyðingu Sódómu og Gómorru á dögum Lots. Þá sneri Jesús sér til lærisveinanna, eins og lýst er í Lúkasi 18:1-5, og „sagði . . . þeim dæmisögu um það, hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast.“ Jesús sagði frá ekkju í mikilli nauð og ‚dómara nokkrum‘ sem var í aðstöðu til að bæta úr þörfum hennar. Ekkjan bað hann gengdarlaust: „Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum.“ Vegna þrautseigju ekkjunnar ‚rétti dómarinn hlut hennar‘ að lokum.

20. Hvaða lexíu kennir dæmisaga Jesú okkur?

20 Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Jesús bar hinn óréttláta dómara saman við Jehóva og sagði: „Heyrið hvað rangláti dómarinn segir. Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim? Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra.“ — Lúkas 18:6-8a.

21. Hvaða viðhorf ættum við að hafa til persónulegra vandamála okkar og hvernig ættum við að meðhöndla þau?

21 Þegar persónuleg vandamál okkar eru annars vegar skulum við alltaf muna að enda þótt einhver töf virðist á svari við áköllum okkar stafar hún ekki af því að Guð sé ófús til að hjálpa okkur. (2. Pétursbréf 3:9) Ef við þurfum að þola einhvers konar ofsóknir eða óréttlæti, eins og þessi ekkja, getum við sýnt trú okkar á að Guð muni láta réttlætið ná fram að ganga um síðir. Hvernig getum við sýnt slíka trú? Með því að biðja án afláts og fylgja síðan bænum okkar eftir með því að halda áfram að sýna trúfesti í allri hegðun. (Matteus 10:22; 1. Þessaloníkubréf 5:17) Með trúfesti okkar munum við sanna að trú er til á jörðinni, og að til eru menn sem í sannleika elska réttlætið og að við erum þeirra á meðal. — Lúkas 18:8b.

„Vegsamið, þjóðir, lýð hans!“

22. Hvaða sigurtónn er í síðustu ljóðlínum í söngkvæði Móse?

22 Fyrir mörgum öldum lauk Móse ljóði sínu með þessum orðum: „Vegsamið, þjóðir, lýð hans! því að hann hefnir blóðs þjóna sinna. Hann efnir hefnd við mótstöðumenn sína og friðþægir fyrir land síns lýðs.“ (5. Mósebók 32:43) Hefndardagur Jehóva færist sífellt nær. Við erum innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli enn sýna langlyndi sitt ásamt réttlæti!

23. Hvaða hamingja bíður þeirra sem taka þátt í fögnuði lýðs Guðs?

23 Leiðin stendur enn opin mönnum af öllum þjóðum ‚til að komast til iðrunar,‘ en þeir mega engan tíma missa. Pétur aðvaraði: „Dagur [Jehóva] mun koma sem þjófur.“ (2. Pétursbréf 3:9, 10) Réttlæti Guðs krefst þess að núna innan skamms verði þessu illa heimskerfi eytt. Þegar það gerist, megum við þá vera í hópi þeirra sem bregðast jákvætt við kallinu: ‚Fagnið, þið þjóðir, með lýð hans.‘ Já, megum við vera meðal hinna hamingjusömu manna sem hafa ekki látið það fram hjá sér fara að réttlæti einkennir alla vegu Guðs!

Hvernig svarar þú?

◻ Hvers vegna ættu móselögin að styrkja trú okkar á réttlæti Guðs?

◻ Hvað ætti að knýja okkur til að bregðast jákvætt við réttlátum vegum Guðs?

◻ Hvernig er hægt að upphefja Jehóva?

◻ Hvar er sanna hamingju að finna nú á tímum?

[Mynd á blaðsíðu 24]

„Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Guð mun láta útvalda þjóna sína, sem ákalla hann, njóta réttlætis.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila