Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w89 1.8. bls. 29-32
  • Ofsóknir í Búrúndí — loforð um trúfrelsi svikið!

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ofsóknir í Búrúndí — loforð um trúfrelsi svikið!
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svik stjórnvalda
  • Vottar Jehóva — barátta fyrir viðurkenningu
  • Trúarofsóknir hefjast
  • Það sem þú getur gert
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
w89 1.8. bls. 29-32

Ofsóknir í Búrúndí — loforð um trúfrelsi svikið!

Trúfrelsi er talið sjálfsagður hlutur víða á Vesturlöndum. Trúarofsóknir í Afríkuríkinu Búrúndí sýna hins vegar hve brotgjarnt þetta frelsi getur verið. Í raun getur enginn verið öruggur um réttindi sín svo lengi sem grundvallarmannréttindi einhvers hóps manna eru fótum troðin. Við hvetjum því lesendur okkar til að kynna sér það sem er að gerast í Búrúndí.

ÞANN 16. febrúar 1989 féll skuggi hinna myrku miðalda á Afríkuríkið Búrúndí. Þann dag hélt forseti lýðveldisins Búrúndí, Pierre Buyoya, fund með héraðsstjórum landsins. Í kjölfar fundarins hófust illskeyttar og útbreiddar trúarofsóknir á hendur vottum Jehóva. Innan tíðar voru karlar, konur og jafnvel börn orðin fórnarlömb ólöglegrar handtöku, barsmíðar, pyndingar og svelti.

Það er smánarlegt að slík hermdarverk skuli geta átt sér stað á okkar tímum. En ofsóknirnar í Búrúndí á hendur kristnum mönnum eru þó sérlega óhugnanlegar. Hvers vegna? Vegna þess að með þeim er verið að svíkja loforð um trúfrelsi.

Svik stjórnvalda

Búrúndí er lítið Afríkuríki rétt sunnan miðbaugs. Landið er fjöllótt og loftslag þægilegt. (Sjá kort.) Búrúndí var lítt þekkt í heiminum þar til í ágúst 1988 er það komst í heimsfréttirnar. Þá brutust út blóðug átök milli tveggja stærstu þjóðarhópanna, Tútsí- og Hútúmanna. Vafalaust hafa þessi átök gefið mörgum neikvæða mynd af Búrúndí.

Margt gott er þó hægt að segja um þetta land. Þar hafa verið góðar framfarir og landsmenn eru iðjusamir og duglegir. Í grein í The New York Times Magazine segir að enda þótt Búrúndí sé „fátækt land sé augljóst á ýmsum sviðum að þjóðfélagið starfi vel. Maurice Gervais, fulltrúi Alþjóðabankans þar í landi, kallar Búrúndímenn ‚mjög afkastamikla þjóð.‘“

Þetta góða mannorð Búrúndímanna er nú í hættu vegna hins trúarlega ástands í landinu. Um 80 af hundraði þjóðarinnar játa kristna trú, flestir rómversk-kaþólska. Pólitískar stjórnir landsins hafa hins vegar sýnt slíkt trúarlegt umburðarleysi að það er áhyggjuefni. Þann 16. október 1985 sagði í blaðinu The Christian Century: „Síðastliðið ár hefur stjórn Búrúndí gripið til ýmissa aðgerða er miða að því að grafa undan tilvist kirkjunnar . . . Rétturinn til opinberrar og einslegrar guðsdýrkunar og bænagerðar hefur verið stórlega skertur. Öllum kirkjum sumra kirkjudeilda . . . hefur verið lokað og starfsemin bönnuð, . . . tugir einstakra kristinna manna hafa verið fangelsaðir og sumir jafnvel pyndaðir . . . fyrir það eitt að notfæra sér rétt sinn til trúariðkunar.“

Menn voru því vonglaðir í september 1987 þegar ný stjórn undir forystu Pierre Buyoya forseta komst til valda í Búrúndí. Nýi forsetinn hét þjóðinni trúfrelsi og beið ekki boðanna að standa við orð sín. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins segir: „Á fyrsta stjórnarári sínu gerði Buyoya forseti róttækar breytingar á stjórnarstefnu Búrúndí gagnvart kirkjufélögum og aflétti þeim hömlum á trúariðkunum sem fyrri stjórn hafði sett. Buyoya sleppti öllum trúarlegum föngum; opnaði kirkjur sem lokað hafði verið; skilaði öllum eignum kirkjufélaga sem gerðar höfðu verið upptækar.“ Þessar stjórnvaldsaðgerðir áunnu Buyoya forseta virðingu frelsisunnandi manna um víða veröld.

En hvers vegna voru vottar Jehóva þá nýlega valdir úr og tekið að kúga þá?

Vottar Jehóva — barátta fyrir viðurkenningu

Kaþólska kirkjan hefur á löngum tíma „þróast upp í öflugt efnahags- og stjórnmálaveldi,“ segir The New York Times. Á nýlendutímabilinu var kirkjunni leyft „nánast að stjórna landinu“ og hún „gegndi aðalhlutverkinu á sviði heilsugæslu og menntunar.“ Það er því ekkert undarlegt að stjórnvöldum kunni að hafa fundist hinar stóru kirkjudeildir ógna sér.

En þegar vottar Jehóva hófu opinbert kristniboðsstarf sitt í Búrúndí árið 1963 gerðu þeir enga tilraun til að blanda sér í málefni ríkisins. Þeir einskorðuðu starf sitt við prédikun ‚þessa fagnaðarerindis um ríkið.‘ (Matteus 24:14) Þar eð Biblían segir að sannkristnir menn eigi ekki að ‚heyra heiminum til‘ varðveittu vottar Jehóva hlutleysi í stjórnmálum, en það er afstaða sem vottar Jehóva um allan heim halda sér við. — Jóhannes 17:16.

Samvisku sinnar vegna gengu vottarnir ekki í stjórnmálaflokka og tóku ekki þátt í að hrópa stjórnmálaslagorð. Ríkisstjórnir hafa oft misskilið þetta hlutleysi sem skort á þjóðerniskennd eða jafnvel talið það jaðra við undirróður. En svo er alls ekki. Vottar Jehóva um allan heim eru þekktir sem löghlýðnir fyrirmyndarborgarar. Þeir taka alvarlega það boð Biblíunnar að ‚vera undirgefnir‘ veraldlegum stjórnvöldum. (Rómverjabréfið 13:1) Enda þótt þeir forðist það að heilsa eða sýna með einhverjum öðrum hætti lotningu fyrir þjóðartáknum, svo sem fánanum, sýna þeir slíkum táknum alls enga óvirðingu. — 2. Mósebók 20:4, 5.

Árið 1975 höfðu vottar Jehóva sótt um lagalega viðurkenningu á starfi sínu. En árið 1976 steypti herinn stjórninni af stóli og setti Jean-Baptiste Bagaza forseta. Hann hét þjóðinni trúfrelsi. Þó var starf votta Jehóva opinberlega bannað í mars 1977! Vottar Jehóva um allan heim gerðu sitt ýtrasta til að skýra málið fyrir meðlimum stjórnar Bagaza, en bæði bréf, heimsóknir í sendiráð Búrúndí í Frakklandi og Belgíu og fundir með embættismönnum stjórnarinnar í Búrúndí reyndust árangurslausir. Árið 1987 var um 80 vottum í Búrúndí — bæði körlum og konum — haldið í fangelsi svo mánuðum skipti. Einn vottur dó þar.

Þá var framið valdarán aftur árið 1987 og Pierre Buyoya hershöfðingi komst til valda. Kaþólskir og mótmælendur nutu fljótlega góðs af umburðarlyndi hans í trúmálum — en ekki vottarnir.

Trúarofsóknir hefjast

Að loknum fundi Buyoya forseta með héraðsstjórum landsins þann 16. febrúar 1989 var tilkynnt í útvarpi að eitt af hinum stóru vandamálum, sem Búrúndí ætti við að glíma, væri vöxtur votta Jehóva. Héraðsstjórar í innhéruðum landsins hófu þá ofsóknir eins og gefið væri merki um árás. Enda þótt fregnir séu enn óljósar gefa eftirfarandi atvik nokkra hugmynd um það sem er að gerast þar:

Gitega-hérað: Yves Minani héraðsstjóri fyrirskipaði að lögregla og almenningur skyldu sameinast um að handtaka alla votta Jehóva. Kvöldið 22. mars 1989 braust öryggislögreglan inn á heimili Ntibatamabi Edmond, sem er kristniboði í fullu starfi, og handtók hann. Honum var synjað um mat meðan hann var í haldi. Oft leið yfir hann sökum hungurs. Hann var einnig pyndaður til að reyna að þvinga hann til að staðfesta orðróm þess efnis að vottar Jehóva leggðu sér mannablóð til munns sem er gróf lygi!

Eftir handtöku Edmonds voru Ntikarahera Aaron og Ntimpirangeza Prime, sem einnig eru vottar Jehóva, handteknir og varpað í fangelsið í Gitega. Þeir fengu svipaða grimmdarmeðferð.

Nijimbere Charlotte, eiginkona farandhirðis — umsjónarmanns sem ferðast um og heimsækir söfnuðina — frétti af neyð kristinna bræðra sinna. Hún reyndi að færa þeim mat í fangelsi en var handtekin þann 16. mars 1989 og haldið í gíslingu til að reyna að klófesta mann hennar.

Muramvya-hérað: Antoine Baza héraðsstjóri stefndi öllum þekktum vottum á sinn fund til að svara spurningum. Þann 4. mars fór hópur votta að beiðni hans. Þeir svöruðu spurningum hans með fullri virðingu en neituðu að hrópa stjórnmálaslagorð.

Þá hvatti héraðsstjórinn almenning til að ráðast á votta Jehóva. Þann 16. mars réðst lögreglan inn á heimili þekktra votta og misþyrmdi körlum og konum fyrir að neita að hrópa stjórnmálaslagorð. Verslun í eigu votts var tekin með valdi og lokað og fjölskyldan þar með svipt viðurværi sínu.

Þann 17. mars voru fjórar konur barðar fyrir að vilja ekki afneita trú sinni. Þeim var varpað í óloftræstan fangaklefa enda þótt ein þeirra ætti 20 daga gamalt barn.

Þann 20. mars réðst æstur múgur vopnaður stöfum og blysum inn á heimili sumra kvenna, sem voru vottar, barði þær og hrakti frá heimilum sínum. Meðal annars var ráðist á 75 ára gamla konu sem var að nema Biblíuna með vottum Jehóva, og fjölmarga unglinga undir 14 ára aldri!

Pierre Kibina-Kanwa, skólastjóri barnaskóla í Nyabihanga, reyndi að neyða vottabörn í skólanum til að heilsa þjóðfánanum. Þegar það mistókst rak hann þau úr skóla. Tuttugu og tveir vottar í þeim bæ neyddust til að flýja og skilja eftir allt sem þeir áttu. Meðal þeirra sem voru handteknir voru Ndayisenga Leonidas, Kanyambo Leanard, Ntahorwamamiye Abednego, Bankangumurindi P., Kashi Grégoire og Mbonihankuye Thadée.

Bujumbura-hérað: Sveitarstjórinn í Muhuta, Nahimana Macaire, kallaði Kavunzo Vincent, Ndabazaniye Sylvestre og Ndizwe-Nzaniye — sem allir eru vottar — til fundar við sig. Síðan sakaði hann þá um að hafa átt þátt í kynþáttaóeirðum í ágúst 1988. Þótt ljóst væri að vottar Jehóva hefðu þar hvergi komið nærri voru þeir eigi að síður barðir og handteknir.

Bubanza-héraði: Tveir vottar voru handteknir fyrir þá sök eina að eiga biblíurit. Þegar þeir neituðu að heilsa flokkskveðju lét Kimbusa Balthazar héraðsstjóri senda þá í herbúðir. Þar voru þeir pyndaðir með því að mölbrjóta fingur þeirra.

Það sem þú getur gert

Þessi ódæðisverk hafa flest verið framin í innhéruðum landsins, fjarri augum útlendinga. Þessari grein verður aftur á móti dreift um allan heim í liðlega 13 milljónum eintaka á meira en 105 tungumálum. Grimmdarverkunum í Búrúndí verður ekki haldið leyndum lengur. Frelsisunnandi fólki mun blöskra að svona gróf mannréttindabrot skuli eiga sér stað — brot á réttindum sem þúsundir Afríkumanna hafa barist fyrir.

Búrúndí tekur mikla áhættu með því að standa ekki við gefið loforð um trúfrelsi. Það tekur þá áhættu að spilla hinu góða mannorði sem það hefur lagt svo mikið kapp á að byggja upp. Vilja Búrúndímenn binda sér þann bagga að láta umheiminn líta á sig sem ofstækismenn og ofsækjendur trúarlegra minnihlutahópa, í stað þess að vera taldir framsæknir og iðjusamir? Við teljum að svo sé ekki. Við hljótum að gera ráð fyrir að Buyoya forseti hafi fengið alrangar upplýsingar og hafi látið ráðgjafa sína blekkja sig.

Þær ásakanir, sem beint er gegnt vottum Jehóva, eru fáránlegar lygar sem hafa það markmið eitt að vekja upp óskynsamlegan hugaræsing. Vottar Jehóva ógna ekki öryggi Búrúndístjórnar eða nokkurrar annarrar stjórnar. Þeir eru friðsamir og löghlýðnir og virða þjóðartákn. Gagnstætt orðrómi neita þeir algerlega að leggja sér til munns blóð í nokkurri mynd — jafnvel þótt líf þeirra liggi við. — Postulasagan 15:28, 29.

Sannkristnir menn um víða veröld munu því sem einn maður biðja fyrir bræðrum sínum í Búrúndí. (1. Tímóteusarbréf 2:1, 2) Margir lesenda þessa blaðs munu einnig finna sig knúna til að skrifa Pierre Buyoya forseta bréf og fara þess á leit með fullri virðingu að trúarofsóknunum verði hætt og að vottar Jehóva hljóti opinbera viðurkenningu sem trúfélag. Búrúndístjórn verður að láta skynsemina ráða ef hún ætlar sér að bjarga mannorði sínu í augum umheimsins.

His Excellency Major Pierre Buyoya

President of the Republic of Burundi

Bujumbura

REPUBLIC OF BURUNDI

[Kort á blaðsíðu 30]

[Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)

RÚANDA

ZAIRE

BÚRÚNDÍ

TANSANÍA

TANGANÍKAVATN

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila