Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w89 1.12. bls. 13-17
  • „Hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Góðir mannasiðir vegsama Jehóva
  • Í Ríkissalnum
  • Í opinberri þjónustu okkar
  • Góðir mannasiðir byrja á heimilinu
  • Vel siðað fólk
  • Ræktaðu góða, kristna mannasiði í ruddalegum heimi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Mannasiðir einkenna guðrækna menn
    Ríkisþjónusta okkar – 2001
  • Þjónar Guðs eiga að sýna góða mannasiði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Skipta mannasiðir máli?
    Ungt fólk spyr
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
w89 1.12. bls. 13-17

„Hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu“

„Hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 1:27.

1. Hvaða jákvæð orð lét borgarstjórinn í New York falla eftir atburð sem átti sér stað í borginni? (Rómverjabréfið 13:3)

„YFIR eitt þúsund vottar“ komu til ráðhússins í Manhattan þann 29. september 1988, að sögn The New York Times. Með því vildu þeir sýna stuðning sinn við tillögu sem lá fyrir skipulagsnefnd borgarinnar. Tillögunni, sem fjallaði um byggingu nýs íbúðarhúss við aðalstöðvar votta Jehóva, var hafnað en borgarstjórinn „hrósaði vottum Jehóva fyrir að vera ‚sérstaklega snyrtilegir‘ og sagði að þeir væru ‚mjög aðdáunarverðir.‘“

2. Hvernig eru vottar Jehóva ólíkir öðrum í hegðun sinni og hvers vegna?

2 Hvers er yfirleitt að vænta þegar yfir þúsund manns koma saman til stuðnings óvinsælum málstað? Hróp og köll, hrindingar, slagsmál og jafnvel ofbeldi er ekki óalgengt. Hvers vegna eru vottar Jehóva frábrugðnir öðrum? Það er vegna þess að þeir gera sér ljóst að menn setja hegðun þeirra alltaf í samband við trú þeirra. Þeir muna vel áminningu Ritningarinnar: „Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðamönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.“ — 1. Pétursbréf 2:12.

Góðir mannasiðir vegsama Jehóva

3. Hvernig eru góðir mannasiðir okkar Jehóva til heiðurs?

3 Það er greinilega hluti af kristinni ábyrgð okkar að vegsama Jehóva Guð með góðri breytni. (Matteus 5:16) Góð breytni felur að sjálfsögðu margt í sér — meðal annars heiðarleika, iðjusemi og gott siðferði. En yfirleitt taka einungis þeir sem þekkja okkur vel eða við umgöngumst reglulega, svo sem vinir okkar, ættingjar, vinnuveitendur, vinnufélagar og kennarar, eftir því. Hvað um annað fólk sem við höfum tengsl við aðeins af og til? Það er í samskiptum við það sem góðir mannasiðir skipta sérlega miklu máli. Líkt og aðlaðandi umbúðir geta gert verðmæta gjöf enn verðmætari, eins gera góðir mannasiðir það sem við höfum fram að færa enn meira aðlaðandi. Aðrir kristnir eiginleikar, sem við kunnum að vera gædd, og göfugustu markmið eru lítils virði ef mannasiðir okkar eru ekki góðir. Hvernig getum við þá vegsamað Jehóva með góðum mannasiðum okkar?

4. Á hvaða sviðum lífsins ber okkur að gefa gaum að mannasiðum okkar?

4 „En hvað sem öðru líður, þá hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu,“ segir Páll. (Filippíbréfið 1:27) Þetta felur að sjálfsögðu í sér kristna þjónustu okkar. En hegðun okkar og mannasiðir á tilbeiðslustað, í hverfinu þar sem við búum, í vinnunni, í skólanum, já, hvar sem við erum, hefur bein áhrif á það hversu áhrifarík þjónusta okkar er. „Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar,“ skrifar Páll. (2. Korintubréf 6:3) Hvernig getum við fullvissað okkur um að við fylgjum þessari leiðbeiningu? Hvað getum við gert til að hjálpa hvert öðru, einkum hinum ungu okkar á meðal, að sýna af sér góða, kristna mannasiði öllum stundum?

Í Ríkissalnum

5. Hvað ættum við að hafa hugfast þegar við erum í Ríkissalnum?

5 Ríkissalurinn er tilbeiðslustaður okkar. Við sækjum hann í boði Jehóva og sonar hans, Jesú Krists. Í þeim skilningi erum við gestir í húsi Jehóva. (Sálmur 15:1; Matteus 18:20) Ert þú góður gestur þegar þú kemur í Ríkissalinn? Til að vera það þarft þú að sýna viðeigandi tillitssemi og virðingu ekki aðeins gestgjafanum heldur líka öðrum gestum. Hvað felur það í sér?

6. (a) Um hvað er það merki ef við erum alltaf sein á samkomur? (b) Hvað er hægt að gera til að yfirstíga vandann?

6 Fyrst er að nefna það að vera stundvís. Það er að vísu ekki alltaf auðvelt. Sumir eiga langt að fara til Ríkissalarins og aðrir hafa börn sem þarf að þvo og klæða. Þeir eiga hrós skilið fyrir viðleitni sína til að koma tímanlega á kristnar samkomur. Sumir hafa hins vegar gert sér að venju að vera seinir á samkomur. Hvað er hægt að gera til að breyta þeirri venju? Í fyrsta lagi verðum við að gera okkur ljóst að við getum ekki alltaf sett jafnaðarmerki milli þess að vera venjulega seinn á samkomurnar og að meta þær ekki að verðleikum. Sumir, sem eru að jafnaði seinir á vettvang, virðast njóta samkomanna jafnvel og allir aðrir — þegar þeir mæta loksins. Hjá þeim virðist vandinn felast í skipulags- og tillitsleysi gagnvart kristnum bræðrum sínum. Ein af ástæðunum fyrir því að við erum hvött til að ‚vanrækja ekki safnaðarsamkomurnar‘ er sú að við „hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Við getum tæplega gert það ef við komum aftur og aftur of seint á samkomur og truflum með því aðra. Sérfræðingar mæla með því að sá sem er yfirleitt of seinn setji sér það markmið að koma vel tímanlega í stað þess að koma á mínútunni. Þarft þú að notfæra þér þetta ráð?

7. Hvers vegna tilheyrir það góðum mannasiðum að fylgjast vel með á samkomum?

7 Góðir mannasiðir krefjast þess að við hlustum af athygli þegar fólk talar við okkur. (Orðskviðirnir 4:1, 20) Það á einnig við á kristnum samkomum þar sem þjónar Guðs tala til að veita okkur andlega gjöf til uppbyggingar. Það bæri vott um mjög slæma mannasiði af okkar hálfu ef við leyfðum okkur að dotta, værum sífellt að hvísla að sessunaut okkar, tyggðum tyggigúmi eða sælgæti, værum að lesa eitthvað annað eða sinna öðrum málum meðal samkoman stæði yfir. Hinn ungi Elíhú sat ekki bara þolinmóður meðan Job og vinir hans þrír fluttu ræður sínar heldur ‚gaf gaum‘ og „hlustaði á röksemdir“ þeirra. (Jobsbók 32:11, 12) Góðir kristnir mannsiðir munu koma okkur til að sýna ræðumanninum og biblíulegum boðskap hans tilhlýðilega virðingu með því að veita ræðu hans óskipta athygli.

8. Hvernig getum við sýnt að við erum lærisveinar Jesú Krists?

8 Fyrir og eftir samkomur fela góðir mannasiðir í sér að sýna öðrum, sem viðstaddir eru í Ríkissalnum, áhuga. Páll benti á að smurðir meðlimir kristna safnaðarins væru „ekki framar gestir og útlendingar, heldur . . . heimamenn Guðs.“ (Efesusbréfið 2:19) Kemur þú fram við trúbræður þína eins og gesti og útlendinga eða meðlimi sömu fjölskyldu? Alúðleg kveðja, hlýlegt handaband, vingjarnlegt bros — þetta eru kannski smáatriði en þau hjálpa okkur að sýna að við erum lærisveinar Jesú Krists. Ef við erum vingjarnlegir þegar við hittum ókunnuga, ættum við þá ekki að vera sérstaklega vingjarnlegir þegar við hittum ‚trúbræður okkar‘? — Galatabréfið 6:10.

9. Hvernig er hægt að kenna börnum að sýna öðrum en jafnöldrum sínum áhuga?

9 Er hægt að kenna börnum að sýna öðrum en jafnöldrum sínum áhuga af þessu tagi? Sumum fullorðnum getur kannski fundist að börnin þeirra þurfi að fara og leika sér við vini sínu af sömu stærðargráðu eftir að hafa setið í eina eða tvær stundir á samkomu. En Ríkissalurinn er ekki leikvöllur. (Prédikarinn 3:1, 17) Þegar kennarinn spurði fjögurra og hálfs árs gamlan pilt hve marga bræður og systur hann ætti svaraði hann: „Þau eru svo mörg að ég get ekki talið þau.“ Síðar sagði drengurinn foreldrum sínum til nánari skýringar: „Ég veit ekki hvað ég á marga bræður og systur. Það eru svo margir í Ríkissalnum.“ Hann leit á alla, sem sóttu samkomurnar, sem bræður sína og systur.

Í opinberri þjónustu okkar

10. Hvaða leiðbeiningar Jesú geta hjálpað okkur að ‚hegða okkur eins og samboðið er fagnaðarerindinu‘ þegar við erum úti í þjónustunni?

10 Þegar við tökum þátt í hinni opinberu þjónustu ber okkur að sjálfsögðu einnig að ‚hegða okkur eins og samboðið er fagnaðarerindinu.‘ Við verðum að hafa í huga að við höfum friðarboðskap að færa og það ætti að endurspeglast í góðum mannasiðum. (Efesusbréfið 6:15) Jesús gaf þessi fyrirmæli: „Þegar þér komið í hús, þá árnið því góðs, og sé það verðugt, skal friður yðar koma yfir það.“ Með því að sýna hlýju, vinsemd og virðingu sendum við húsráðanda þann boðskap að við höfum ósvikinn áhuga á honum. En stundum er sá sem kemur til dyra óvingjarnlegur eða lætur jafnvel ófriðlega. Eigum við að láta það koma okkur úr jafnvægi og gjalda í sömu mynt? Jesús hélt áfram: „En sé [húsið] ekki verðugt, skal friður yðar aftur hverfa til yðar.“ (Matteus 10:12, 13) Framkoma okkar við dyrnar hjá fólki ætti alltaf að vera samboðin „þjónustu sáttargjörðarinnar.“ — 2. Korintubréf 5:18.

11. Hvaða þýðingu hefur klæðnaður okkar og ytra útlit í starfi okkar sem þjónar Guðs?

11 Mannasiðir okkar tala líka skýru máli um okkur á aðra vegu. Er ytra útlit okkar til dæmis samboðið okkur sem þjónum orðs Guðs? Hvað um það sem við höfum meðferðis — töskuna, Biblíuna og biblíuritin? Blaðamaður gefur kaupsýslumönnum þetta ráð: „Klæddu þig eins og kaupsýslumaður, ekki eins og þú sért að fara í veislu, óformlegt samkvæmi eða á íþróttakappleik.“ Hvers vegna? Vegna þess að klæðnaður og ytra útlit „sendir öðrum hraðboð um það hver eða hvað þú ert og á hvaða hillu þú ert.“ Þegar við förum út í þjónustuna ættum við aldrei að vera druslulega eða ósnyrtilega til fara og ekki heldur eins og klippt út úr tískublaði eða í rándýrum fötum. Við ættum alltaf að klæða okkur „eins og samboðið er fagnaðarerindinu.“ — Samanber 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10.

12. Hvernig getum við sýnt góða mannasiði með því að virða réttindi og eigur húsráðandans?

12 Enda þótt við ættum alltaf að vera ‚reiðubúin til að svara hverjum manni‘ og verja fagnaðarerindið ber okkur að sýna góða mannasiði og gera það „með hógværð og virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:15, 16) Það felur í sér virðingu fyrir réttindum og eignum húsráðandans. Skipuleggjum við þjónustu okkar þannig að við heimsækjum fólk á skynsamlegum tíma? Tökum við tillit til þess ef við erum að trufla fólk frá mikilvægu verki? Erum við kurteis og vingjarnleg? Erum við óspör á orðalag eins og „mætti ég,“ „með leyfi“ og „takk fyrir“? Reynum við að draga húsráðandann inn í samræðurnar eða reynum við að koma í veg fyrir að hann komist að, af ótta við að annars fáum við ekki sagt allt sem við ætluðum okkur?

13. Nefndu dæmi um hvernig góðir mannasiðir úti í þjónustunni geta skilað góðum árangri.

13 Góðir mannasiðir, samfara einlægri umhyggju, opna oft leiðina fyrir góðan vitnisburð. Þess vegna geta vel siðuð börn oft náð athygli og áhuga húsráðandans þótt fullorðnum takist það ekki. Þrettán ára vottur í Mexikó hitti unga stúlku sem vildi gjarnan nema Biblíuna. Stúlkan sagðist þó myndu verða að gera það án vitundar föður síns. Unga boðberanum fannst eigi að síður rétt að sýna föðurnum virðingu með því að biðja hann leyfis og bauðst til að tala við hann. Boðberinn, sem var stúlka, sagði föðurnum að það sem þær ætluðu að nema saman væri mjög mikilvægt. Það gladdi föðurinn að hún skyldi hafa snúið sér til hans og hann veitti athygli alvöru hennar. Hann sagði: „Ef það er svona mikilvægt þá ætti öll fjölskyldan að lesa þetta.“ Árangurinn varð sá að þessi þrettán ára stúlka stofnaði biblíunám með allri fjölskyldunni, meðal annars syni og tengdadóttur og öðrum fullvaxta börnum.

Góðir mannasiðir byrja á heimilinu

14. Hvar er lagður grundvöllur góðra mannasiða og hvað er þýðingarmikið?

14 Góðir mannasiðir ungra boðbera eru merki þess að þeir hafi fengið gott uppeldi heima fyrir. Góðir mannasiðir okkar endurspegla það líf sem við lifum. Þess vegna ber einnig að leggja áherslu á góða mannasiði heima fyrir — ólíkt því sem sumir halda. Í þessu efni, sem og á öðrum sviðum fjölskyldulífsins, skiptir fordæmi foreldranna mestu máli. (2. Tímóteusarbréf 1:5) Það er ekki hægt að kenna börnum góða mannasiði með því að segja: „Gerðu eins og ég segi, ekki eins og ég geri.“ Hin mörgu smáatriði, sem felast í góðum mannasiðum, lærast ekki einfaldlega með því að segja börnunum fyrir verkum heldur með því sem þau sjá til foreldra sinna og líkja eftir þeim. „Foreldrarnir eru ekki bara aðalkennararnir; þeir eru líka fyrirmyndir því að börnin læra með því að líkja eftir okkur,“ segir Beverly Feldman, höfundur bókarinnar Kids Who Succeed. Hvers konar mannasiði sjá börnin í fari þínu?

15. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að temja sér góða mannasiði sem munu koma þeim að gagni alla ævi?

15 „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði,“ ráðleggur Biblían. (Efesusbréfið 6:4) Það ertir börnin og reitir til reiði ef þeim er sagt að vera vingjarnleg og tillitssöm en sjá og heyra foreldra sína rífast, slúðra, vera ruddaleg eða uppstökk. Er hægt að ásaka börnin ef þau gera eins og foreldrarnir? Biblían heldur áfram: „Heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ Það felur í sér undirstöðureglur góðra mannasiða, svo sem að heilsa fólki, þakka fyrir sig, afsaka sig, sýna þeim sem eldri eru virðingu og deila því sem við höfum með öðrum. (3. Mósebók 19:32; Rómverjabréfið 16:3-7) Börnin njóta góðs af því alla ævi ef þau læra það í æsku. — Orðskviðirnir 22:6.

16. Hvað verða foreldrarnir að gera og hvaða árangri mun það skila?

16 Jafnt foreldrar sem börn ættu því að iðka góða mannasiði dags daglega en ekki aðeins við sérstök tækifæri. Foreldrarnir verða að vera þolinmóðir og umburðarlyndir þegar börnin gera mistök. Segið þeim frá því hve þýðingarmikið það er fyrir ykkur að þau hegði sér vel og verið fljót til að hrósa þeim þegar þau taka framförum. Að sjálfsögðu kostar það mikla vinnu, en segir ekki Ritningin að foreldrar eigi að innræta börnum sínum meginreglur Guðs ‚þegar þeir eru heima og þegar þeir eru á ferðalagi, þegar þeir leggjast til hvíldar og þegar þeir fara á fætur‘? (5. Mósebók 6:7) Sé þessum leiðbeiningum fylgt skapar það heilbrigt og ástríkt andrúmsloft á heimilinu sem hefur mikla þýðingu til að börnin geti verið hjálpsamir, umhyggjusamir og vel siðaðir einstaklingar þegar þau vaxa úr grasi. Þá verða þau foreldrum sínum og skaparanum, Jehóva Guði, til lofs og heiðurs.

Vel siðað fólk

17. Hverju taka menn eftir í Ríkissölum votta Jehóva?

17 Þeir „yfir eitt þúsund vottar,“ sem komu saman fyrir utan ráðhúsið í New York í september árið 1988, voru aðeins lítið sýnishorn af því hvernig vottar Jehóva hegða sér dags daglega. Annars staðar sagði maður eftir sína fyrstu heimsókn í Ríkissalinn: „Á einum degi hef ég hitt fleiri bláókunnuga einstaklinga, sem sýndu ósvikinn kærleika, en ég hef hitt alla ævi í kirkjunni sem ég ólst upp í.“ Hvaða áhrif hafði það á hann? „Mér varð ljóst að ég hafði fundið sannleikann,“ sagði hann. Þessi maður breytti um lífsstefnu og sjö mánuðum síðar vígði hann Jehóva líf sitt og lét skírast. — Samanber 1. Korintubréf 14:25.

18. Hvaða áhrif hafa góðir mannasiðir votta Jehóva á þá sem fyrir utan standa?

18 Margir hafa hrósað vottum Jehóva fyrir góða mannasiði og fyrirmyndarhegðun á bæði stórum og smáum mótum. Í tengslum við mót, sem nýlega var haldið í Japan, sagði leiðsögumaður í langferðabíl: „Þegar þið stiguð út úr bílnum þakkaði hver einasti mér kærlega fyrir, meðal annars börnin. Það gladdi mig mjög mikið!“ Í tengslum við mót annars staðar sagði starfsmaður á járnbrautarstöð þar í grenndinni við einn vottanna: „Það var algert öngþveiti hérna þegar síðast komu saman 12.000 manns í Kastalasalnum í Osaka. Svo bætti hann við: „Það var okkur mikill léttir að sjá að þið [vottar Jehóva] farið eftir settum reglum. Viltu skila kveðju frá okkur til þess sem stjórnar þessu.“

19. Hverju ættum við öll að vera staðráðin í?

19 Hvað sýna athugasemdir af þessu tagi? Að vottar Jehóva í heild ‚hegða sér eins og samboðið er fagnaðarerindinu.‘ Hvað um okkur sem einstaklinga? Megum við öll, bæði ung og gömul, horfa upp til hins himneska föður okkar, Jehóva, alveg eins og börn sem horfa upp til ástríks föður, þannig að hann megi kenna okkur góða mannasiði þótt við búum í ruddafengnum heimi. — 5. Mósebók 8:5; Orðskviðirnir 3:11, 12.

Manst þú?

◻ Hvers vegna eru góðir mannasiðir nauðsynlegir?

◻ Hvaða góðir mannasiðir eiga við á tilbeiðslustað okkar?

◻ Hvernig er hægt að sýna góða mannasiði í þjónustunni á akrinum?

◻ Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að þroska með sér góða mannsiði?

◻ Hvaða háum staðli ber okkur að fylgja?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila