„Hvað er sannleikur?“
MENNIRNIR tveir gátu varla ólíkari verið. Annar var tortrygginn, metnaðargjarn og auðugur stjórnmálamaður, reiðubúinn að gera hvað sem var til að koma sér áfram. Hinn var kennari sem hafnaði auði og virðingu og var reiðubúinn að fórna lífi sínu til að bjarga öðrum. Það liggur í augum uppi að þessir tveir menn höfðu ólík sjónarmið. Í einu máli sérstaklega voru þeir algerlega á öndverðum meiði — hvað væri sannleikur.
Mennirnir voru Pontíus Pílatus og Jesús Kristur. Jesús stóð frammi fyrir Pílatusi sem fordæmdur glæpamaður. Af hverju? Jesús útskýrði að ástæðan fyrir því — og reyndar ástæðan fyrir því að hann kom til jarðar og tókst á hendur þá þjónustu sem hann gerði — væri í rauninni aðeins ein: sannleikur. „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn,“ sagði hann, „að ég beri sannleikanum vitni.“ — Jóhannes 18:37.
Pílatus svaraði með mjög svo eftirminnilegri spurningu: „Hvað er sannleikur?“ (Jóhannes 18:38) Vildi hann raunverulega fá svar? Sennilega ekki. Jesús var maður sem gat svarað hvaða spurningu sem hann var spurður í einlægni, en hann svaraði ekki Pílatusi. Og Biblían segir að Pílatus hafi yfirgefið áheyrnarsalinn strax eftir að hann bar spurninguna fram. Rómverski landstjórinn spurði líklega í háðskri vantrú, rétt eins og hann væri að segja: „Sannleikur? Hvað er nú það? Það er enginn sannleikur til!“a
Það er býsna algengt nú á dögum að menn séu álíka efagjarnir á sannleika og Pílatus var. Margir telja að sannleikur sé afstæður — með öðrum orðum að það sem sé einum manni sannleikur sé öðrum manni ósannindi, þannig að báðir geti haft „rétt“ fyrir sér. Þessi trú er svo útbreidd að það er til orð yfir hana — „afstæðishyggja.“ Er það þannig sem þú lítur á sannleika? Ef svo er, getur þá hugsast að þú hafir tileinkað þér þetta viðhorf án þess að efast nokkurn tíma um réttmæti þess? Og þótt þú hafir ekki tileinkað þér þessa lífsskoðun, gerirðu þér þá grein fyrir þeim áhrifum sem hún hefur á líf þitt?
Árás á sannleikann
Pontíus Pílatus var ekki sá fyrsti sem véfengdi hugmyndina um algildan sannleika. Sumir heimspekingar Forn-Grikkja höfðu það nánast sem ævistarf að kenna slíkar efasemdir. Fimm öldum fyrir daga Pílatusar áleit Parmenídes (sem hefur verið talinn faðir evrópskrar frumspeki) að raunveruleg þekking væri utan seilingar. Demókrítus, kallaður „mestur fornra heimspekinga,“ fullyrti: „Sannleikur liggur djúpt grafinn. . . . Við vitum ekkert með vissu.“ Sókrates, sem er kannski dáðastur þeirra allra, sagðist vita það eitt að hann vissi ekki neitt.
Sú hugmynd að það sé hægt að vita sannleikann hefur sætt árásum allt fram á okkar dag. Sumir heimspekingar segja til dæmis að úr því að vitneskja berist okkur gegnum skilningarvitin, sem hægt sé að blekkja, þá sé ekki hægt að færa sönnur á neina vitneskju eða þekkingu. Franski heimspekingurinn og stærðfræðingurinn René Descartes ákvað að rannsaka alla hluti sem hann taldi sig vita með öruggri vissu. Hann kastaði fyrir róða öllum sannleika nema einum sem hann taldi óhrekjanlegan: „Cogito ergo sum” eða: „Ég hugsa, þess vegna er ég.“
Afstæðishyggjan
Afstæðishyggjan takmarkast engan veginn við heimspekinga. Trúarleiðtogar kenna hana, skólarnir innræta hana og fjölmiðlarnir útbreiða hana. Biskupakirkjubiskupinn John S. Spong sagði fyrir fáeinum árum: „Við verðum . . . að breyta þeim hugsunarhætti að við höfum sannleikann, að aðrir verði að tileinka sér okkar viðhorf, og gera okkur ljóst að endanlegur sannleikur sé utan seilingar okkar allra.“ Með afstæðishyggju sinni eiga Spong og svo margir klerkar nútímans það sammerkt að vera fljótir til að sleppa siðferðiskenningum Biblíunnar í skiptum fyrir þá heimspeki að „hver sé sjálfs sín herra.“ Til að kynvillingum geti verið „rótt“ innan biskupakirkjunnar skrifaði Spong til dæmis bók þar sem hann fullyrti að Páll postuli hafi verið kynvilltur.
Menntastofnanir víða um lönd ýta undir áþekkar hugmyndir. Allan Bloom sagði í bók sinni The Closing of the American Mind: „Eitt getur prófessor verið handviss um: nálega allir stúdentar, sem innritast í háskólann, trúa eða segjast trúa því að sannleikur sé afstæður.“ Bloom komst að raun um að þegar hann véfengdi sannfæringu nemenda sinna í þessu máli urðu þeir furðu lostnir, „rétt eins og hann væri að véfenga að 2 + 2 = 4.“
Sömu hugmynd er komið á framfæri á ótal aðra vegu. Fréttamenn sjónvarps og dagblaða virðast til dæmis oft hafa meiri áhuga á að skemmta áhorfendum og lesendum en að segja satt og rétt frá atburðum. Stundum hafa sjónvarpsmenn jafnvel „lagfært“ eða falsað fréttamyndir til að gera þær áhrifameiri. Og í skemmtanaiðnaðinum sætir sannleikurinn enn harðari árásum. Margir álíta þau lífsgildi og siðferðissannindi, sem foreldrar okkar og afar og ömmur lifðu eftir, úrelt og gera óspart gys að þeim.
Sumir halda því kannski fram að afstæðishyggjan sé að mestu leyti víðsýnismerki og hafi þar af leiðandi jákvæð áhrif á mannlegt samfélag. En er raunin sú? Og hvaða áhrif hefur hún á þig? Trúir þú að sannleikur sé afstæður eða alls ekki til? Ef svo er telurðu kannski hreina tímasóun að leita hans. Slík afstaða hefur áhrif á framtíð þína.
[Neðanmáls]
a Samkvæmt biblíufræðingnum R. C. H. Lenski bar „raddblær [Pílatusar] vott um áhugaleysi veraldlegs manns er ætlar sér með spurningu sinni að segja að hvaðeina, sem kallast trúarlegur sannleikur, sé gagnslausar vangaveltur.“