Hví að leita sannleikans?
MÖRG trúfélög staðhæfa að þau hafi sannleikann og bjóða öðrum hann með miklum ákafa. En það eru æði margar og ruglingslegar útgáfur af „sannleikanum“ sem þau bjóða fram. Er það bara enn eitt merki þess að allur sannleikur sé afstæður og að það sé enginn algildur sannleikur til? Nei.
Í bók sinni The Art of Thinking lætur prófessor V. R. Ruggiero í ljós undrun sína yfir því að jafnvel skynsamt fólk skuli stundum segja að sannleikur sé afstæður. Hann segir sem svo: „Ef hver og einn ákveður sjálfur hvað sé sannleikur, þá getur hugmynd eins ekki verið betri en annars. Allar hljóta að vera jafnar. Og ef allar hugmyndir eru jafnar, hvaða tilgangi þjónar það þá að rannsaka eitthvað? Til hvers að grafa í jörðina og leita svara við spurningum fornleifafræðinnar? Til hvers að grafast fyrir um orsakir spennunnar í Miðausturlöndum? Til hvers að leita að lækningu við krabbameini? Til hvers að rannsaka vetrarbrautina? Það er ekkert vit í neinu af þessu nema sum svör séu betri en önnur, nema sannleikur sé óháður einstaklingsbundnum sjónarmiðum og yfir þau hafinn.“
Í rauninni trúir enginn í alvöru að það sé enginn sannleikur til. Þegar áþreifanlegur veruleiki er annars vegar, svo sem læknisfræði, stærðfræði eða lögmál eðlisfræðinnar, trúir jafnvel gallharðasti afstæðishyggjumaður að sumt sé sannleikur. Hver okkar myndi voga sér upp í flugvél ef hann tryði ekki að lögmál loftaflfræðinnar væru alger sannleikur? Til eru sannindi sem hægt er að sannprófa. Þau eru allsstaðar í kringum okkur og við treystum þeim fyrir lífi okkar.
Afstæðishyggjan er dýrkeypt
Það er á vettvangi siðferðismála sem villur afstæðishyggjunnar eru hvað skýrastar, því að þar hafa hugmyndir hennar valdið mestu tjóni. Alfræðibókin The Encyclopedia Americana bendir á: „Það hefur verið dregið mjög í efa að þekking, eða hvaðeina sem kallað er sannleikur, sé innan mannlegrar seilingar . . . Víst er þó að þegar sannleika og þekkingu er hafnað sem fjarstæðu eða sem skaðlegum fer mannlegu samfélagi hnignandi.“
Vera má að þú hafir tekið eftir slíkri hnignun. Siðferðiskenningar Biblíunnar, sem segja greinilega að kynferðislegt siðleysi sé rangt, eru mjög sjaldan álitnar sannar nú orðið. Flestir aðhyllast tækifærissiðfræði — „ákveddu hvað sé rétt fyrir þig.“ Getur nokkur fullyrt að þessi afstæðisstefna hafi ekki valdið þjóðfélagshnignun? Heimsfaraldur samræðissjúkdóma, sundraðra heimila og þungana meðal unglinga tala vissulega sínu máli.
Hver er sannleikurinn?
Við skulum yfirgefa gruggugt vatn afstæðishyggjunnar og rannsaka stutta stund það sem Biblían kallar hið hreina vatn sannleikans. (Jóhannes 4:14; Opinberunarbókin 22:17) Í Biblíunni er „sannleikur“ alls ekki eins og hið óhlutstæða, torræða hugtak sem heimspekingar þrátta um.
Þegar Jesús sagði að tilgangurinn með lífi hans væri sá að tala um sannleikann var hann að tala um hluti sem trúfastir Gyðingar höfðu metið mikils um aldaraðir. Í helgiritum sínum höfðu Gyðingar lengi lesið að „sannleikur“ væri raunveruleiki, ekki fræðilegt fyrirbæri. Í Biblíunni er orðið „sannleikur“ þýðing hebreska orðsins ʼemeþʹ en það táknar það sem er fast, traust og síðast en ekki síst áreiðanlegt.
Gyðingar höfðu ærið tilefni til að líta sannleika þeim augum. Þeir kölluðu Guð sinn, Jehóva, „Guð sannleikans.“ (Sálmur 31:5, NW) Það var vegna þess að Jehóva gerði allt sem hann sagðist ætla að gera. Þegar hann lofaði einhverju stóð hann við það. Þegar hann innblés spádóma rættust þeir. Þegar hann felldi lokadóm var honum fullnægt. Milljónir Ísraelsmanna höfðu orðið sjónarvottar að þessum veruleika. Innblásnir ritarar Biblíunnar færðu þetta í letur sem óvéfengjanlegar sögustaðreyndir. Ólíkt öðrum bókum, sem álitnar eru helgar, er Biblían ekki skrifuð með munnmæli eða goðsagnir að bakhjarli. Hún stendur föstum fótum á sannanlegum staðreyndagrundvelli mannkynssögu, fornleifafræði, vísinda og þjóðfélagsfræði. Engin furða er að sálmaritarinn skyldi segja um Jehóva: „Lögmál þitt er sannleikur. . . . Öll boðorð þín eru sannleikur. . . . Inntak orðs þíns er sannleikur.“ — Sálmur 119:142, 151, 160, NW.
Jesús Kristur endurómaði orð þessa sálms er hann sagði í bæn til Jehóva: „Þitt orð er sannleikur.“ (Jóhannes 17:17) Jesús vissi að allt, sem faðir hans talaði, var fullkomlega traust og áreiðanlegt. Jesús var líka „fullur . . . sannleika.“ (Jóhannes 1:14) Sem sjónarvottar lærðu fylgjendur hans að allt sem hann sagði var fullkomlega traust, sannleikurinn, og skráðu það handa komandi kynslóðum.a
Þegar Jesús sagði Pílatusi að hann hefði komið til jarðar til að tala sannleikann hafði hann þó sérstakan sannleika í huga. Jesús mælti þessi orð til svars við spurningu Pílatusar: „Þú ert þá konungur?“ (Jóhannes 18:37) Ríki Guðs og hlutverk Jesú sjálfs sem konungs þess var kjarninn í kenningu Jesú meðan hann var á jörðinni. (Lúkas 4:43) Að þetta ríki helgi nafn Jehóva, upphefji drottinvald hans og veiti trúföstu mannkyni eilíft líf og hamingju, það er „sannleikurinn“ sem allir sannkristnir menn vona á. Þar eð Jesús gegnir svo veigamiklu hlutverki í uppfyllingu allra fyrirheita Guðs, og þar eð öll fyrirheit Guðs verða „amen“ eða sönn fyrir hans tilverknað, þá gat Jesús vel sagt: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ — Jóhannes 14:6; 2. Korintubréf 1:20; Opinberunarbókin 3:14.
Það hefur geysimikla þýðingu fyrir kristna nútímamenn að viðurkenna þennan sannleika sem fullkomlega áreiðanlegan. Það þýðir að trú þeirra á Guð og von á fyrirheit hans er byggð á staðreyndum, á veruleika.
Sannleikur í verki
Það kemur ekki á óvart að Biblían skuli tengja sannleika og verk. (1. Samúelsbók 12:24; 1. Jóhannesarbréf 3:18) Sannleikur var ekki heimspekilegt viðfangsefni hjá guðhræddum Gyðingum, hann var lífsbraut. Hebreska orðið fyrir „sannleikur“ gat líka þýtt „trúfesti“ og var notað til að lýsa þeim sem hægt var að treysta til að standa við orð sín. Jesús kenndi fylgjendum sínum að sjá sannleika í sama ljósi. Af miklum tilfinningahita fordæmdi hann hræsni faríseanna, hið mikla hyldýpi milli sjálfbirgingslegra orða þeirra og ranglátra verka. Og hann gaf fordæmið með því að lifa eftir sannleikanum sem hann kenndi.
Allir fylgjendur Krists ættu að hafa sömu afstöðu. Í þeirra huga er sannleikurinn í orði Guðs, hið hressandi fagnaðarerindi um ríki Guðs undir stjórn Jesú Krists, meira, margfalt meira en bara upplýsingar. Þessi sannleikur knýr þá til verka þannig að þeir lifa eftir honum og segja öðrum frá honum. (Samanber Jeremía 20:9.) Sú lífsstefna, sem fylgjendur Krists í frumkristna söfnuðinum fylgdu, var stundum kölluð einfaldlega ‚sannleikurinn‘ eða ‚vegur sannleikans.‘ — 2. Jóhannesarbréf 4; 3. Jóhannesarbréf 4, 8; 2. Pétursbréf 2:2.
Ómetanlegur fjársjóður
Það kostar vissulega eitthvað að viðurkenna sannleikann í orði Guðs. Í fyrsta lagi getur það eitt að kynnast sannleikanum komið okkur algerlega úr jafnvægi. Alfræðibókin The Encyclopedia Americana segir: „Sannleikurinn er okkur oft á móti skapi af því að hann styður ekki fordóma eða bábiljur.“ Að sjá trúarskoðanir okkar afhjúpaðar getur gert okkur vonsvikin, einkum ef við lærðum þær hjá trúarleiðtogum sem við treystum. Sumir myndu kannski líkja því við það að uppgötva að foreldrar manns væru glæpamenn á laun. En er ekki betra að finna sannleikann í trúmálum en lifa í blekkingu? Er ekki betra að þekkja staðreyndir en láta ráðskast kænlega með sig með lygum?b — Samanber Jóhannes 8:32; Rómverjabréfið 3:4.
Í öðru lagi getur það að lifa eftir trúarlegum sannleika kostað okkur viðurkenningu sumra sem áður voru vinir okkar. Í heimi, þar sem margir hafa „skipt á sannleika Guðs og lyginni,“ virðast þeir sem fylgja staðfastlega sannleika orðs Guðs vera skrýtnir og eru stundum sniðgengnir og misskildir. — Rómverjabréfið 1:25; 1. Pétursbréf 4:4.
En sannleikurinn er þess virði að greiða þetta tvöfalda verð fyrir hann. Að þekkja sannleikann frelsar okkur úr fjötrum lyga, blekkinga og hjátrúar. Og þegar við lifum eftir sannleikanum styrkir hann okkur til að þola erfiðleika. Sannleikur Guðs er svo áreiðanlegur og traustur og hann veitir okkur slíka von að við erum fær um að standast hvaða prófraun sem vera skal. Það er engin furða að Páll postuli skyldi líkja sannleikanum við breitt, sterkt leðurbelti sem hermenn gyrtu sig í bardaga. — Efesusbréfið 6:13, 14.
Einn af orðskviðum Biblíunnar segir: „Kaup þú sannleika, og sel hann ekki, visku, aga og hyggindi.“ (Orðskviðirnir 23:23) Með því að hafna sannleika sem afstæðum eða alls ekki til erum við að missa af mest spennandi og verðmætustu leit sem lífið býður upp á. Að finna sannleikann er að finna vonina; að þekkja hann og elska er að þekkja og elska skapara alheimsins og eingetinn son hans; að lifa eftir honum er að hafa tilgang í lífinu og hugarfrið, nú og um eilífð. — Orðskviðirnir 2:1-5; Sakaría 8:19; Jóhannes 17:3.
[Neðanmáls]
a Á yfir 70 stöðum í guðspjöllunum er frá því greint að Jesús hafi notað sérstakt orðalag til að leggja áherslu á sannleiksgildi orða sinna. Oft sagði hann „amen“ („sannlega“) í upphafi málsgreinar. Hið samsvarandi hebreska orð merkti „viss, sannur.“ Biblíuorðabókin The New International Dictionary of New Testament Theology segir: „Með því að hafa amen sem inngang að orðum sínum gaf Jesús til kynna að þau væru örugg og áreiðanleg. Hann stóð við orð sín og gerði þau bindandi fyrir sig og áheyrendur sína. Þau lýsa hátign hans og myndugleik.“
b Gríska orðið aleʹþeia, sem þýtt er „sannleikur,“ er komið af orði sem merkir „ekki dulið,“ þannig að sannleikurinn felur oft í sér opinberun þess sem áður var dulið. — Samanber Lúkas 12:2.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Breytist sannleikurinn nokkurn tíma?
ÞETTA er spurning sem V. R. Ruggiero varpar fram í bók sinni, The Art of Thinking. Hann svarar spurningunni neitandi og gerir síðan nánari grein fyrir svarinu: „Hann virðist stundum breytast en við nánari athugun kemur í ljós að svo er ekki.
Tökum sem dæmi spurninguna um höfund fyrstu bókar Biblíunnar, 1. Mósebókar,“ segir hann. „Um aldaraðir trúðu jafnt kristnir menn sem Gyðingar að þessi bók ætti sér einn höfund. Síðar var þetta sjónarmið véfengt og sú skoðun varð ofan á að allt að fimm höfundar hafi lagt til efni í bókina. Þá, árið 1981, voru birtar niðurstöður fimm ára málgreiningar á 1. Mósebók þar sem sagðar voru 82 prósent líkur á að höfundur hennar væri einn eins og upphaflega var haldið.
Hafði sannleikurinn um höfund 1. Mósebókar breyst? Nei, það var bara trú okkar sem breyttist. . . . Sannleikurinn breytist ekki eftir þekkingu okkar eða vanþekkingu.“
[Rammi á blaðsíðu 7]
Lotning fyrir sannleikanum
„LOTNING fyrir sannleikanum er ekki bara gervitortryggni okkar tíma sem reynir að ‚afhjúpa‘ hvaðeina í þeirri trú að enginn geti í alvöru fullyrt að hann þekki sannleikann. Hún er það viðhorf sem sameinar það gleðilega traust að hægt sé að finna sannleikann, og auðmjúka undirgefni við sannleikann hvenær og hvar sem hann kemur fram. Þeir sem tilbiðja Guð sannleikans verða að vera svona opnir fyrir sannleikanum en aftur á móti tryggir tilhlýðileg lotning fyrir sannleikanum heiðarleika í samskiptum manns við náunga sinn, bæði í orði og verki. Þetta er það viðhorf sem við sjáum að bæði Gamla og Nýja testamentið bera vitni um.“ — The New International Dictionary of New Testament Theology, 3. bindi, bls. 901.
[Myndir á blaðsíðu 7]
Vísindaframfarir byggjast á uppgötvun vísindalegra sanninda.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Sannleikurinn fjallar um Guðsríki og þá blessun sem það veitir.