Treystir þú á raunverulegan Guð?
Leiðangur á vegum Náttúrusögusafns Bandaríkjanna var lagður af stað til að rannsaka landsvæði við norðurheimskaut sem könnuðurinn Robert E. Peary kvaðst hafa séð um sjö árum áður, árið 1906.
PEARY taldi sig hafa séð hvíta tinda fjarlægs lands frá Colgatehöfða á norðvesturodda Norður-Ameríku og skírði það Crockerland í höfuðið á einum fjárstuðningsmanna sinna. Leiðangursmennirnir, sem á eftir komu, hljóta að hafa verið himinlifandi þegar þeir sáu fjöllum, dölum og snæviþöktum tindum bregða fyrir framundan. En brátt rann upp fyrir þeim að þetta voru aðeins heimskautahillingar. Ljósbrot í gufuhvolfinu hafði villt Peary sýn, og nú höfðu þeir varið tíma sínum, kröftum og efnum í að rannsaka eitthvað sem var ekki raunverulegt.
Margir nútímamenn sýna guðum, sem þeir álíta raunverulega, hollustu og gefa þeim af tíma sínum. Þegar postular Jesú voru uppi voru guðir eins og Hermes og Seifur tilbeðnir. (Postulasagan 14:11, 12) Núna skipta guðir sjintótrúarmanna, hindúa og annarra trúarbragða heims milljónum. Það eru til „margir guðir og margir herrar“ eins og Biblían réttilega segir. (1. Korintubréf 8:5, 6) Eru þetta allt raunverulegir guðir?
Guðir sem ‚eigi geta hjálpað‘
Tökum sem dæmi notkun líkneskja eða trúartákna við tilbeiðslu. Í augum þeirra sem treysta skurðgoðum eða biðja til þeirra eru þau bjargvættir, gæddir ofurmannlegum kröftum, og umbuna fólki eða frelsa það frá hættu. En geta þau raunverulega bjargað fólki? Sálmaritarinn söng: „Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna. Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki, þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.“ Þau eru guðir sem ‚eigi geta hjálpað.‘ — Sálmur 135:15-17; Jesaja 45:20.
Skurðgoðasmiðir segja kannski að handverk sín búi yfir lífi og mætti. Og skurðgoðadýrkendur setja traust sitt á þau. „Þeir lyfta honum [skurðgoðinu] á axlir sér,“ segir Jesaja spámaður, „bera hann og setja hann á sinn stað.“ Síðan bætir hann við: „Þar stendur hann og víkur ekki úr stað. Og þótt einhver ákalli hann, þá svarar hann ekki, hann frelsar eigi úr nauðum.“ (Jesaja 46:7) Sannleikurinn er sá að skurðgoð er lífvana, hversu heitt sem menn trúa og treysta á það. Slíkar skurðmyndir og líkneski eru ‚mállausir guðir.‘ — Habakkuk 2:18.
Það er líka algengt nú á tímum að menn upphefji, vegsami og dýrki skemmtikrafta, íþróttamenn, stjórnmálakerfi og vissa trúarleiðtoga. Og hjá mörgum eru peningar guð. Í öllum tilfellum eru þessi skurðgoð látin líta út fyrir að vera annað en þau eru. Þau geta ekki staðið undir öllum væntingum þeirra sem á þau trúa og munu ekki geta það. Svo dæmi sé tekið getur auður virst lausnin á mörgum vandamálum, en auðæfin eru tál. (Markús 4:19) Rannsóknarmaður spurði: „Hvernig eigum við að skýra það að áhrif einhvers, sem margir þrá svo ákaft og talið er allra meina bót, skuli liggja einhvers staðar á bilinu frá vonbrigðum til áfalla?“ Eftirsókn í auð getur kostað mann það sem hefur raunverulegt gildi, svo sem gott heilsufar, ánægjulegt fjölskyldulíf, náin vináttubönd eða dýrmætt samband við skaparann. Guð hans reynist þá ‚fánýtt falsgoð.‘ — Jónas 2:9.
„Ekkert svar“
Það er heimskulegt að kalla eitthvað raunverulegt sem er það ekki. Það fengu dýrkendur guðsins Baals á tímum Elía spámanns að læra í hörðum skóla reynslunnar. Þeir trúðu því statt og stöðugt að Baal gæti látið eld falla af himni og brenna upp dýrafórn. Þeir ákölluðu meira að segja „nafn Baals frá morgni og til hádegis og sögðu: ‚Baal, svara þú oss!‘“ Hafði Baal eyru til að heyra með og munn til að mæla með? Frásagan segir: „Þar var steinhljóð og ekkert svar.“ Nei, það var „engin áheyrn.“ (1. Konungabók 18:26, 29) Baal var hvorki raunverulegur, lifandi né starfandi.
Það er brýnt að við kynnumst Guði sem er raunverulegur og tilbiðjum hann. En hver er hann? Og hvernig er það okkur til góðs að treysta á hann?
[Mynd á blaðsíðu 3]
Egingwah, félagi Pearys, grannskoðar sjóndeildarhringinn í leit að landi.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Robert E. Peary
[Credit line]
Egingwah: Úr bókinni The North Pole: Its Discovery in 1909 Under the Auspices of the Peary Arctic Club, 1910; Robert E. Peary: NOAA
[Myndir á blaðsíðu 4]
Margir láta blekkjast af því sem heimurinn dýrkar.