Leitum í einlægni að biblíunemendum
1 Það er sífellt fleira sem ber því vitni að tími þessa gamla heims sé að renna út. (2. Tím. 3:1-5) Hvað þýðir það? Það þýðir að líf fólks er í húfi. Það er hins vegar á okkar valdi að hjálpa sumum að bjargast. (Orðskv. 3:27) Í því augnamiði ættum við í einlægni að leitast við að stofna og stýra biblíunámum.
2 Með því að dreifa biblíuritum okkar hefur mörgu góðu verið komið til leiðar. En það sem fólk þarf mest á að halda er persónulega aðstoðin sem því veitist þegar haft er reglulegt biblíunám með því. Hvernig getum við hjálpað því að skilja það?
3 Við getum borið fram spurningar sem varða marga. Slíkar spurningar gætu beinst að því hvers vegna siðferði hefur hrakað óhemjulega, hvers vegna fjölskyldulífið er svona fallvalt, hvers vegna ógnun ofbeldis og glæpa er orðin svo mikil, hvers vegna kærleiksríkur Guð leyfir núverandi ástand og svo framvegis. Vertu vakandi fyrir málum og atburðum sem fólk á þínu svæði hefur sérstaklega áhuga á. Bentu á skýr svör Biblíunnar við þessum spurningum. Sýndu hvernig ritin, sem við dreifum, geti hjálpað þeim að fræðast um hvað Biblían segir um þessi mikilvægu mál og önnur sem hafa áhrif á okkur öll.
4 Mikilvægt er að draga húsráðandann inn í samræðurnar. Vertu vakandi fyrir því að koma auga á hvað hann hugsar um. Láttu samræðurnar snúast í kringum áhugamál hans og áhyggjuefni. Vektu athygli á upplýsingum í bók, bæklingi, blaði eða smáriti sem útskýrir lausn Biblíunnar á vandamálum mannkynsins. Áður en þú kveður skaltu bera fram eina eða tvær spurningar sem gætu látið hann hlakka til næstu heimsóknar þinnar. Gættu þess, þegar þú kemur aftur, að minna hann á þessar spurningar og notaðu síðan ritin til að hjálpa honum að finna svör Biblíunnar.
5 Ef við stofnum biblíunám og stýrum þeim reglulega getur það breytt lífi manna. Við þurfum að sýna ósvikinn áhuga á áhyggjuefnum þeirra sem við hittum. Það þarf góðan undirbúning til að geta örvað áhuga þeirra stig af stigi. Það þarf þolinmæði til að halda áfram að koma aftur uns þeir hafa verið vandir á að nærast reglulega á andlegri fæðu. Það þarf kærleiksríkan áhuga á fólkinu sjálfu. Við verðum í einlægni að vilja hjálpa því að forðast hina yfirvofandi eyðingu. Við ættum reglulega og í einlægni að gera biblíunámsstarfið að bænarefni okkar. — 1. Þess. 5:17.
6 Það er mjög uppörvandi að sjá að næstum ein milljón manna hefur látið skírast síðastliðin þrjú ár. (Matt. 28:19, 20) Við stýrum núna um það bil fjórum og hálfri milljón biblíunáma í hverjum mánuði og það sýnir umhyggju okkar fyrir lífi annarra. Hvað um þig? Hefur þú í einlægni lagt þig fram um að taka þátt í biblíunámsstarfinu? Munum að líf okkar og annarra veltur á trúfesti okkar hvað þetta varðar. — Esek. 3:17-19.