Notið bæklinginn Kynning á orði Guðs til að koma af stað samræðum
1. Hvaða nýja hjálpargagn höfum við fengið til að nota í boðunarstarfinu?
1 Fremst í endurskoðaðri útgáfu Nýheimsþýðingarinnar er kafli sem hefur verið gefinn út á íslensku í formi bæklings og nefnist Kynning á orði Guðs. Hvernig getum við nýtt okkur þetta nýja hjálpargagn þegar við undirbúum kynningarorð fyrir boðunarstarfið? Biblíuvers eru flokkuð eftir umræðuefni í þessu riti á svipaðan hátt og í Rökræðubókinni. Þess vegna kemur það að góðum notum til að hefja umræður um Biblíuna.
2. Hvernig getum við notað ritið Kynning á orði Guðs í boðunarstarfinu?
2 Þú gætir notað spurningu 8 og sagt: „Við erum stuttlega að heimsækja fólk hér í hverfinu til að ræða um algenga spurningu: ,Eru þjáningar mannanna Guði að kenna?‘ [Á sumum svæðum er áhrifaríkara að sýna húsráðandanum spurningarnar.] Hefur þú velt þessu fyrir þér? [Gefðu kost á svari.] Það er hægt að fá svar við þessari spurningu í Biblíunni.“ Lestu beint upp úr Biblíunni eitt eða fleiri biblíuvers sem vitnað er í og ræddu um þau. Ef húsráðandinn sýnir áhuga gætirðu sýnt honum spurningarnar 20 í efnisyfirlitinu í Kynning á orði Guðs og boðið honum að velja eina spurningu til að ræða um þegar þú kemur næst. Þú gætir líka boðið eitt af námsritunum okkar sem fjallar nánar um umræðuefnið sem þú byrjaðir að tala um.
3. Hvernig gætum við notað ritið Kynning á orði Guðs til að hefja samræður á svæðum þar sem fólk tilheyrir trúarbrögðum sem eru ekki kristin?
3 Spurningar 4 og 13 til og með 17 henta sérlega vel á svæðum þar sem fólk tilheyrir trúarbrögðum sem eru ekki kristin. Þú gætir til dæmis notað efnið í spurningu 17 og sagt: „Við erum að heimsækja fólk stuttlega til að benda á gagnlegt efni fyrir fjölskyldur. Ertu ekki sammála því að fjölskyldur séu almennt undir miklu álagi? [Gefðu kost á svari.] Mörgum hjónum hefur fundist hjálp í að fylgja þessum ráðum: „Konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ [Þú þarft ekki að minnast á að þetta sé í Efesusbréfinu 5:33. Ef þú talar við konu gætirðu vitnað í Efesusbréfið 5:28.] Heldur þú að það sé gagnlegt fyrir hjón að fylgja þessu ráði?“
4. Hvernig gætirðu lokið samtali við húsráðanda sem tilheyrir trúarbrögðum sem eru ekki kristin?
4 Í lok samtalsins skaltu bjóðast til að koma aftur til að halda samræðunum áfram. Þú gætir boðist til að ræða um eitt af hinum biblíuversunum við spurninguna sem þú notaðir. Láttu húsráðandann vita, þegar við á, að þessi skynsamlegu ráð, sem þú hefur verið að benda honum á, séu í Biblíunni. Í ljósi samræðna ykkar og viðhorfs húsráðandans til Biblíunnar skaltu bjóða honum rit sem þú heldur að höfði til hans. – Sjá viðauka Ríkisþjónustu okkar í desember 2013.