Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w23 apríl bls. 20-25
  • Hvetjum hvert annað á safnaðarsamkomum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvetjum hvert annað á safnaðarsamkomum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVETJUM HVERT ANNAÐ Í LITLUM SÖFNUÐI
  • HVETJUM HVERT ANNAÐ Í STÓRUM SÖFNUÐI
  • FLEIRI LEIÐIR TIL AÐ HVETJA HVERT ANNAÐ
  • Lofum Jehóva í söfnuðinum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
  • Lofum Jehóva „í söfnuðinum“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Haltu fast við játningu vonar þinnar án þess að hvika
    Ríkisþjónusta okkar – 1994
  • Byggjum hvert annað upp með því að svara á samkomum
    Ríkisþjónusta okkar – 1998
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
w23 apríl bls. 20-25

NÁMSGREIN 18

Hvetjum hvert annað á safnaðarsamkomum

„Berum umhyggju hvert fyrir öðru … hvetjum hvert annað.“ – HEBR. 10:24, 25.

SÖNGUR 88 Vísaðu mér veg þinn

YFIRLITa

1. Hvers vegna svörum við á samkomum?

HVERS vegna sækjum við safnaðarsamkomur? Fyrst og fremst til að lofa Jehóva. (Sálm. 26:12; 111:1) Við gerum það líka til að hvetja hvert annað á þessum erfiðu tímum. (1. Þess. 5:11) Þegar við réttum upp hönd og svörum gerum við hvort tveggja.

2. Hvaða tækifæri höfum við til að svara á samkomum?

2 Við höfum tækifæri til að svara á samkomu í hverri viku. Um helgar getum við til dæmis tekið þátt í Varðturnsnáminu. Á samkomum í miðri viku getum við tjáð okkur í dagskrárliðnum „Andlegir gimsteinar“, safnaðarbiblíunáminu eða öðrum hluta samkomunnar sem fela í sér þátttöku úr salnum.

3. Hvers vegna getur verið erfitt að svara á samkomum og hvernig getur Hebreabréfið 10:24, 25 hjálpað okkur?

3 Við viljum öll lofa Jehóva og hvetja trúsystkini okkar. En hvað getur gert okkur erfitt fyrir? Við kvíðum kannski fyrir að svara eða þá að okkur langar að taka meiri þátt í umræðunum en fáum ekki tækifæri eins oft og við vildum. Hvernig getum við brugðist við í þessum aðstæðum? Við sjáum vísbendingu um það í bréfi Páls til Hebrea. Þegar hann ræddi mikilvægi þess að koma saman var áherslan á að „hvetja hvert annað“. (Lestu Hebreabréfið 10:24, 25.) Það getur verið auðveldara að rétta upp hönd þegar við gerum okkur grein fyrir því að einfalt svar sem endurspeglar trú okkar getur hvatt aðra. Og ef við fáum ekki að svara eins oft og við vildum getum við glaðst yfir því að aðrir í söfnuðinum fái tækifæri til að svara. – 1. Pét. 3:8.

4. Hvað þrennt ræðum við í þessari námsgrein?

4 Í þessari grein ræðum við fyrst hvernig við getum hvatt hvert annað í litlum söfnuði þar sem fáir svara. Síðan skoðum við hvernig við getum verið hvert öðru til hvatningar í stórum söfnuði þar sem margir rétta upp höndina til að svara. Að lokum ræðum við hvernig við getum hvatt aðra með því að huga að innihaldinu í svörum okkar.

HVETJUM HVERT ANNAÐ Í LITLUM SÖFNUÐI

5. Hvernig getum við hvatt hvert annað ef fáir eru í söfnuðinum?

5 Í litlum söfnuði eða hópi hefur sá sem stýrir umræðum ekki úr mörgum að velja. Stundum þarf hann kannski að bíða aðeins áður en einhver réttir upp hönd. Samkoman getur þá virst langdregin, sem er ekki mjög hvetjandi. Hvað geturðu gert? Vertu tilbúinn að rétta oft upp hönd. Þannig hveturðu aðra til að taka meiri þátt í umræðunum.

6, 7. Hvernig má draga úr kvíða fyrir því að svara á samkomum?

6 En hvað ef bara tilhugsunin um að svara gerir þig taugaóstyrkan? Það á við um marga. En hvernig væri að skoða leiðir til að draga úr kvíða við að svara til að vera trúsystkinum þínum til meiri hvatningar? Hvernig gætirðu gert það?

7 Þér gæti fundist gagnlegt að rifja upp tillögur sem hafa birst áður í Varðturninum.b Undirbúðu þig vel. (Orðskv. 21:5) Því betur sem þú þekkir efnið þeim mun auðveldara er að rétta upp hönd og vera tilbúinn að svara. Hafðu líka svörin stutt. (Orðskv. 15:23; 17:27) Þegar svarið er stutt er minna til að hafa áhyggjur af. Stutt svar, kannski ein eða tvær setningar, getur jafnvel verið auðveldara fyrir trúsystkini þín að meðtaka en langt svar sem inniheldur margar hugmyndir. Þegar þú gefur stutt svar með eigin orðum sýnirðu að þú ert vel undirbúinn og skilur efnið.

8. Hvernig lítur Jehóva á það þegar við gerum okkar besta?

8 En hvað ef þú reynir að fara eftir sumum af tillögunum og þér finnst enn stressandi að hugsa um að svara oftar en einu sinni eða tvisvar? Þú getur verið viss um að Jehóva kann að meta það þegar þú leggur þig einlæglega fram um að gera þitt besta. (Lúk. 21:1–4) Hann ætlast ekki til meira af þér en þú getur. (Fil. 4:5) Ákveddu hvað þú getur, settu þér markmið í samræmi við það og biddu Jehóva að gefa þér hugarró. Til að byrja með gæti markmið þitt verið að gefa eitt stutt svar.

HVETJUM HVERT ANNAÐ Í STÓRUM SÖFNUÐI

9. Hvaða staða getur komið upp í stórum söfnuði?

9 Ef margir boðberar eru í söfnuðinum þarftu kannski að takast á við aðrar aðstæður. Vera má að þú komist lítið að vegna þess að mörg trúsystkini rétta upp hönd til að svara. Danielle hefur alltaf notið þess að svara á samkomum.c Hún lítur á það sem þátt í tilbeiðslunni, tækifæri til að hvetja aðra og leið til að styrkja trú sína á það sem Biblían kennir. En þegar hún flutti í stærri söfnuð fékk hún sjaldnar tækifæri til að svara, stundum bara einu sinni á heilli samkomu. „Mér fannst það svekkjandi,“ segir hún. „Mér fannst eins og ég hefði misst eitthvað dýrmætt. Þegar það gerist aftur og aftur fer manni að finnast það viljandi gert.“

10. Hvernig getum við aukið líkurnar á að fá tækifæri til að svara?

10 Hefur þér liðið eins og Danielle? Þá gæti þér fundist freistandi að gefast upp og einbeita þér bara að því að hlusta á samkomunum. En ekki hætta að reyna. Það gæti verið hjálplegt að undirbúa nokkur svör fyrir hverja samkomu. Ef þú færð ekki tækifæri til að svara snemma eru samt fleiri möguleikar seinna á samkomunni. Hugsaðu um hvernig hver tölugrein tengist stefi námsgreinarinnar þegar þú býrð þig undir Varðturnsnámið. Þá hefurðu líklega eitthvað til málanna að leggja út í gegnum námið. Það gæti líka verið gott að búa sig undir að svara þegar fjallað er um dýpri sannindi sem er erfiðara að útskýra. (1. Kor. 2:10) Hvers vegna? Venjulega rétta þá færri trúsystkini upp hönd. En hvað nú ef þú reynir allt þetta og finnur samt eftir nokkrar samkomur að þú hefur ekki fengið tækifæri til að svara? Þá gætirðu talað við bróðurinn sem stýrir umræðunum og nefnt hvaða spurningu þig langar að svara.

11. Hvað erum við hvött til í Filippíbréfinu 2:4?

11 Lestu Filippíbréfið 2:4. Undir innblæstri hvatti Páll postuli kristna menn til að hugsa um hag annarra. Hvernig getum við gert það á samkomum? Með því að muna að aðrir vilja líka svara rétt eins og við.

Fáein trúsystkini borða saman. Bróðir talar meðan hin trúsystkinin hlusta af athygli.

Leyfum öðrum að fá tækifæri til að svara á samkomu rétt eins og við leyfum öðrum að tjá sig þegar við eigum samræður við þá. (Sjá 12. grein.)

12. Hvernig getum við hvatt aðra á samkomum? (Sjá einnig mynd.)

12 Tökum dæmi. Þegar við tölum við vini okkar, myndum við þá tala það mikið að þeir kæmust lítið að? Auðvitað ekki. Við viljum að þeir taki þátt í samtalinu. Á svipaðan hátt viljum við að eins margir og hægt er fái tækifæri til að svara. Að gefa öðrum tækifæri til að tjá trú sína er reyndar ein besta leiðin til að hvetja þá. (1. Kor. 10:24) Skoðum hvernig við getum gert það.

13. Hvernig getum við stuðlað að því að fleiri fái tækifæri til að svara?

13 Höfum svör okkar stutt og leyfum öðrum þannig að komast að. Öldungar og aðrir reyndir boðberar geta sett öðrum gott fordæmi. Forðastu að nefna of margar hugmyndir, jafnvel þegar svarið er stutt. Ef farið er yfir allt í tölugreininni í einu svari er lítið eftir fyrir aðra til að tjá sig um. Í þessari tölugrein eru til dæmis nefndar tvær tillögur – að hafa svörin stutt og að fara ekki um víðan völl í svari okkar. Ef þú færð fyrstur tækifæri til að svara spurningunni hvers vegna ekki að nefna bara aðra tillöguna?

Myndir: 1. Einn af bræðrunum sem var á myndinni á undan réttir upp hönd til að svara á samkomu. 2. Síðar réttir bróðirinn ekki upp hönd þegar aðrir í salnum gera það.

Hvenær gætum við kosið að rétta ekki upp höndina á samkomu? (Sjá 14. grein.)f

14. Hvernig getum við metið hversu oft við viljum rétta upp hönd? (Sjá einnig mynd.)

14 Sýndu dómgreind þegar þú ákveður hversu oft þú vilt rétta upp hönd. Ef við gerum það of oft gæti bróðurnum sem stýrir umræðunum fundist hann tilneyddur til að gefa okkur tækifæri til að svara endurtekið þótt aðrir hafi ekki enn komist að. Það gæti latt aðra þess að rétta upp höndina. – Préd. 3:7.

15. (a) Hvernig ættum við bregðast við ef við erum ekki valin til að svara? (b) Hvernig geta námsstjórar tekið tillit til allra? (Sjá rammann „Stýrir þú umræðum?“)

15 Þegar margir rétta upp höndina fáum við kannski ekki að svara eins oft og við vildum. Stundum má vera að stjórnandinn geti ekki gefið okkur tækifæri. Það getur verið svekkjandi en það er gott að reyna að taka það ekki persónulega. – Préd. 7:9.

Stýrir þú umræðum

Ef þú stýrir dagskrárlið með spurningum og svörum skaltu reyna að gefa eins mörgum og hægt er tækifæri til að svara. Hvernig geturðu gert það?

  • Talaðu ekki of mikið. Hafðu inngang og lokaorð stutt og láttu athugasemdir þínar meðan á umræðunum stendur vera fáar og vel valdar.e Það er óþarfi að hafa inngang að hverri tölugrein áður en hún er lesin.

  • Hinkraðu aðeins eftir að hafa lesið spurninguna til að gefa fleiri boðberum tíma til að rétta upp hönd. Leyfðu ekki sömu boðberum að svara endurtekið ef aðrir sem rétta upp höndina hafa ekki enn fengið tækifæri. Mundu að það getur verið svekkjandi fyrir jafnvel reynda boðbera ef litið er fram hjá þeim.

  • Forðastu að segja „Það væri gaman að sjá nýjar hendur“ eða spyrja „Hverjir hafa ekki enn svarað?“

  • Ef þú stýrir dagskrárlið með spurningum og svörum á seinni hluta samkomunnar, reyndu þá að muna hverjir hafa þegar svarað fyrr á samkomunni og gefðu öðrum tækifæri.

  • Hugsaðu vel um tímann. Ef þú notar of mikinn tíma í fyrstu tölugreinarnar má vera að þú þurfir að flýta þér að fara yfir seinni hluta efnisins og að lítill tími verði eftir til að gefa fleiri boðberum tækifæri til að svara.

16. Hvernig getum við hvatt trúsystkini okkar sem svara á samkomu?

16 Ef þú færð ekki að svara eins oft og þú vildir, hvers vegna ekki að hlusta vandlega þegar aðrir svara og hrósa þeim síðan eftir samkomuna fyrir svör þeirra? Það má vera að trúsystkinum þínum finnist hrós þitt jafn hvetjandi og svar sem þú hefðir annars gefið. (Orðskv. 10:21) Að hrósa er góð leið til að hvetja hvert annað.

FLEIRI LEIÐIR TIL AÐ HVETJA HVERT ANNAÐ

17. (a) Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum sínum að undirbúa svör sem hæfa aldri þeirra? (b) Hvaða fjögur skref eru innifalin í því að undirbúa svör samkvæmt því sem kemur fram í myndbandinu? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

17 Hvað fleira getum við gert til að hvetja hvert annað á samkomum? Ef þú ert foreldri geturðu hjálpað börnunum þínum að undirbúa svör sem hæfa aldri þeirra. (Matt. 21:16) Stundum eru alvarleg mál til umræðu en líklega er hægt að finna eina eða tvær tölugreinar sem barn getur tjáð sig um. Hjálpaðu líka börnunum þínum að skilja hvers vegna þau fái líklega ekki tækifæri til að svara í hvert skipti sem þau rétta upp hönd. Það getur komið í veg fyrir að þau verði svekkt þegar aðrir fá að svara í staðinn fyrir þau. – 1. Tím. 6:18.d

18. Hvernig getum við forðast að draga athygli að sjálfum okkur þegar við svörum? (Orðskviðirnir 27:2)

18 Við getum öll undirbúið uppbyggjandi svör sem heiðra Jehóva og uppörva trúsystkini okkar. (Orðskv. 25:11) Við segjum kannski stundum frá eigin reynslu en við ættum að forðast að tala of mikið um okkur sjálf. (Lestu Orðskviðina 27:2; 2. Kor. 10:18) Við reynum öllu heldur að beina athyglinni að Jehóva, orði hans og fólki hans í heild. (Opinb. 4:11) En ef spurningin í greininni er persónuleg er auðvitað viðeigandi að svara í samræmi við það. Í næstu tölugrein er dæmi um það.

19. (a) Hvað hlýst af því þegar við hugsum um hag allra viðstaddra á samkomum? (Rómverjabréfið 1:11, 12) (b) Hvað kannt þú að meta við að svara á samkomum?

19 Við höfum ekki ósveigjanlegar reglur um það hvernig við eigum að svara en við getum öll lagt okkur fram um að hafa svörin okkar hvetjandi. Það gæti falið í sér að svara aðeins oftar. Eða það gæti þýtt að vera ánægð með þau tækifæri sem við fáum til að svara og gleðjast yfir því að fleiri kunni vel að meta að fá að svara. Þegar við hugsum um hag annarra á samkomum getum við öll notið þess að ‚uppörva hvert annað‘. – Lestu Rómverjabréfið 1:11, 12.

HVERNIG GETUM VIÐ BORIÐ UMHYGGJU HVERT FYRIR ÖÐRU ÞEGAR …

  • fáir rétta upp hönd til að svara?

  • margir rétta upp hönd til að svara?

  • við undirbúum svör okkar?

SÖNGUR 93 Blessaðu samkomuna

a Við hvetjum hvert annað þegar við svörum á samkomum. En sumir kvíða fyrir því að svara. Öðrum finnst ánægjulegt að svara en vildu oftar fá tækifæri til þess. Hvernig getum við borið umhyggju hvert fyrir öðru öllum til hvatningar hverjar sem aðstæður okkar eru? Og hvernig getum við svarað þannig að við hvetjum bræður okkar og systur til kærleika og góðra verka? Við skoðum það í þessari námsgrein.

b Finna má fleiri tillögur í Varðturninum janúar 2019 bls. 8–13 og 1. desember 2003 bls. 8–10.

c Nafni hefur verið breytt.

d Horfðu á myndbandið Vertu vinur Jehóva – undirbúið svörin ykkar á jw.org.

e Sjá Varðturninn 15. júlí 2013, bls. 32 og 1. desember 2003, bls. 9, 10.

f MYNDIR: Bróðir í stórum söfnuði sem hefur þegar svarað á samkomu leyfir öðrum að fá tækifæri til þess.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila