Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w24 maí bls. 20-25
  • Hvernig geturðu fundið þér góðan maka?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvernig geturðu fundið þér góðan maka?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • AÐ FINNA GÓÐAN MAKA
  • TAKTU ÞÉR TÍMA TIL AÐ FYLGJAST MEÐ
  • AÐ HEFJA TILHUGALÍF
  • HVERNIG GETA AÐRIR STUTT EINHLEYPA ÞJÓNA GUÐS?
  • Hvernig getur tilhugalífið verið árangursríkt?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Grunnur að góðu hjónabandi
    Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn?
  • Hvernig get ég nýtt tilhugalífið sem best?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga
  • Sýnið hvort öðru tryggð
    Hamingjuríkt fjölskyldulíf
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
w24 maí bls. 20-25

NÁMSGREIN 21

SÖNGUR 107 Guð er fyrirmynd um kærleikann

Hvernig geturðu fundið þér góðan maka?

„Hver finnur góða konu? Hún er miklu dýrmætari en kóralar.“ – ORÐSKV. 31:10.

Í HNOTSKURN

Við skoðum meginreglur Biblíunnar sem geta hjálpað einstaklingi að finna góðan maka og hvernig aðrir í söfnuðinum geta stutt einhleypa sem langar til að gifta sig.

1, 2. (a) Hvað ættu einhleypir þjónar Guðs að hugleiða áður en þeir hefja tilhugalíf? (b) Hvað er átt við með orðinu tilhugalíf? (Sjá orðaskýringu.)

LANGAR þig til að gifta þig? Þótt hjónaband sé ekki nauðsynlegt til að vera hamingjusamur langar marga einhleypa þjóna Guðs, bæði unga og þá sem eru eldri, að eignast maka. Sá sem vill giftast ætti auðvitað að vera fjárhagslega og tilfinningalega tilbúinn og með sterkt samband við Jehóva áður en hann fer út í tilhugalíf.a (1. Kor. 7:36) Það stuðlar að hamingjusömu hjónabandi.

2 Það er samt ekki alltaf auðvelt að finna góðan maka. (Orðskv. 31:10) Og þótt þú komir auga á einhvern sem þig langar að kynnast betur er kannski ekki svo auðvelt að hefja tilhugalíf.b Í þessari námsgrein verður fjallað um ráð handa einhleypum þjónum Guðs til að finna maka og hefja tilhugalíf. Við skoðum líka hvernig aðrir í söfnuðinum geta stutt þá sem langar að gifta sig.

AÐ FINNA GÓÐAN MAKA

3. Hvað ætti einhleypur þjónn Guðs að skoða þegar hann leitar að lífsförunaut?

3 Ef þig langar til að gifta þig er best að vita að hverju þú leitar í fari maka áður en þú ferð út í tilhugalíf.c Annars gætirðu verið blindur fyrir mögulegum maka eða þá að þú gætir farið út í tilhugalíf með einhverjum sem er ekki góður fyrir þig. Mögulegur maki ætti að sjálfsögðu að vera skírður þjónn Jehóva. (1. Kor. 7:39) En það út af fyrir sig gerir ekki einhvern að góðum maka fyrir þig. Þú gætir spurt þig: Hver eru markmið mín í lífinu? Hvaða eiginleikar í fari maka eru nauðsynlegir að mínu mati? Hef ég raunhæfar væntingar?

4. Hvað hafa sumir nefnt í bænum sínum?

4 Þú hefur vafalaust nefnt það í bænum þínum ef það er löngun þín að gifta þig. (Fil. 4:6) Jehóva lofar að sjálfsögðu engum að hann eignist maka. En honum er annt um tilfinningar þínar og þarfir og getur hjálpað þér í leit þinni að maka. Haltu áfram að segja honum frá löngunum þínum og tilfinningum. (Sálm. 62:8) Biddu um þolinmæði og visku. (Jak. 1:5) Johnd er einhleypur bróðir frá Bandaríkjunum. Hann segir um bænir sínar: „Ég tala við Jehóva um þá eiginleika sem ég sækist eftir í fari eiginkonu. Ég bið um tækifæri til að hitta góða konu. Ég bið hann líka að hjálpa mér að þroska með mér eiginleika til að vera góður eiginmaður.“ Tanya, sem er systir frá Sri Lanka, segir: „Ég bið Jehóva að hjálpa mér að vera trúföst, jákvæð og glöð í leit minni að eiginmanni.“ Þótt þú finnir ekki hugsanlegan maka strax lofar Jehóva að halda áfram að annast líkamlegar og tilfinningalegar þarfir þínar. – Sálm. 55:22.

5. Hvaða tækifæri hafa einhleypir kristnir einstaklingar til að hitta einhvern sem elskar Jehóva? (1. Korintubréf 15:58) (Sjá einnig mynd.)

5 Í Biblíunni erum við hvött til að vera „önnum kafin í verki Drottins“. (Lestu 1. Korintubréf 15:58.) Þegar þú ert upptekinn í þjónustu Jehóva og notar tímann í félagskap mismunandi bræðra og systra nýturðu ekki bara góðs félagsskapar heldur færðu tækifæri til að hitta aðra einhleypa einstaklinga sem eru einbeittir í þjónustu Jehóva eins og þú. Og þegar þú gerir þitt besta til að gleðja Jehóva veitir það þér hamingju.

Myndir: 1. Einhleyp systir spjallar brosandi við eldri systur í boðuninni. 2. Einhleypa systirin gefur fólki að borða í byggingarframkvæmdum á vegum safnaðarins. 3. Einhleypur bróðir í hirðisheimsókn með öldungi hjá hjónum. 4. Einhleypi bróðirinn notar vélsög við sömu byggingarframkvæmdir.

Ef þú ert upptekinn í þjónustu Jehóva og hefur samskipti við mismunandi trúsystkini gætirðu hitt aðra sem hafa áhuga á hjónabandi. (Sjá 5. grein.)


6. Hverju ættu einhleypir þjónar Guðs að muna eftir þegar þeir leita sér að maka?

6 Gættu þess samt að vera ekki of upptekinn af því að leita þér að maka. (Fil. 1:10) Sönn hamingja ræðst ekki af því hvort þú sért giftur heldur af sambandi þínu við Jehóva. (Matt. 5:3) Og þú hefur mögulega meira frelsi til að auka þjónustu þína á meðan þú ert einhleypur. (1. Kor. 7:32, 33) Notaðu tímann vel. Jessica, systir frá Bandaríkjunum, gifti sig seint á fertugsaldri. Hún segir: „Ég var upptekin í boðuninni og það hjálpaði mér að vera ánægð þótt mig hafi langað til að gifta mig.“

TAKTU ÞÉR TÍMA TIL AÐ FYLGJAST MEÐ

7. Hvers vegna væri skynsamlegt af þér að fylgjast með mögulegum maka um tíma áður en þú tjáir áhuga þinn? (Orðskviðirnir 13:16)

7 Hvað ef þú heldur að þú hafir komið auga á einstakling sem gæti verið góður maki? Ættirðu þá strax að láta í ljós áhuga? Biblían segir að skynsamur maður afli sér þekkingar áður en hann framkvæmir. (Lestu Orðskviðina 13:16.) Það er því skynsamlegt að gefa sér tíma til að fylgjast með einstaklingi svo lítið beri á áður en maður lætur í ljós áhuga. „Tilfinningar geta verið fljótar að vakna en þær geta líka fljótt dofnað,“ segir Aschwin frá Hollandi. „Ef maður gefur sér tíma til að fylgjast með einstaklingi fer maður ekki út í tilhugalíf í fljótfærni.“ Auk þess gætirðu áttað þig á því að hann er ekki sá rétti fyrir þig.

8. Hvernig geturðu fylgst með einstaklingi sem þú hefur augastað á? (Sjá einnig mynd.)

8 Hvernig gætirðu borið þig að við að fylgjast með hugsanlegum maka? Á safnaðarsamkomum og þegar bræður og systur hittast tekurðu kannski eftir hvernig persónuleiki hans, hegðun og samband við Jehóva er. Hverjir eru vinir hans og hvað talar hann um? (Lúk. 6:45) Eru markmið hans svipuð þínum markmiðum? Þú gætir spurt öldungana í hans söfnuði eða þroskaða kristna bræður eða systur sem þekkja hann vel. (Orðskv. 20:18) Þú gætir spurt um orðspor hans og eiginleika. (Rut. 2:11) Forðastu að láta honum líða óþægilega þegar þú fylgist með honum. Virtu tilfinningar hans og einkalíf.

Myndir: Einhleypa systirin og bróðirinn á fyrri myndum fylgjast með hvort öðru á safnaðarsamkomum svo lítið beri á. 1. Systirin tekur eftir hvernig bróðirinn kemur fram við eldri hjón. 2. Bróðirinn fylgist með systurinni flytja nemendaverkefni á samkomu í miðri viku.

Fylgstu svo lítið beri á með einstaklingi um tíma áður en þú lætur í ljós áhuga. (Sjá 7. og 8. grein.)


9. Um hvað ættirðu að vera fullviss áður en þú ræðir við hugsanlegan maka?

9 Hversu lengi ættirðu að fylgjast með einstaklingi áður en þú lætur í ljós áhuga? Ef þú gerir það of fljótt gætirðu virst fljótfær. (Orðskv. 29:20) Ef þú dregur það of lengi gætirðu á hinn bóginn virst óákveðinn, sérstaklega ef hinn aðilinn hefur áttað sig á því að þú hefur áhuga. (Préd. 11:4) Mundu að þú þarft ekki að vera sannfærður um að þú viljir giftast viðkomandi áður en þú ferð og talar um málið. En þú ættir að vera viss um að þú sért tilbúinn að gifta þig og að þetta gæti verið maki fyrir þig.

10. Hvað ættirðu að gera ef þú finnur að einhver hefur áhuga á sambandi en það er ekki gagnkvæmt?

10 En hvað ef þú finnur að einhver hefur áhuga á að kynnast þér betur? Ef það er ekki gagnkvæmt skaltu reyna að koma því skýrt til skila. Það væri ekki kærleiksríkt að láta hann halda að hann hefði möguleika ef svo er ekki. – 1. Kor. 10:24; Ef. 4:25.

11. Hvaða ætti að hafa í huga þar sem hefð er fyrir því að tilhugalíf eða hjónaband sé skipulagt af öðrum en hjónaefnunum?

11 Í sumum löndum er gert ráð fyrir að foreldrar eða aðrir fullorðnir einstaklingar velji maka fyrir þá sem eru einhleypir í fjölskyldunni. Í öðrum löndum finna vinir eða ættingjar hugsanlegan maka og sjá svo til þess að þau hittist til að sjá hvort þau eigi saman. Ef þú ert beðinn um að taka slíkt að þér skaltu hugleiða vilja og þarfir þeirra beggja. Þegar þú hefur fundið mögulegan maka skaltu komast að eins miklu og þú getur um persónuleika, eiginleika og umfram allt samband hans við Jehóva. Náið samband við Jehóva er langtum mikilvægara en fjárhagsstaða, menntun eða þjóðfélagsstaða. Og ekki gleyma því að einhleypu einstaklingarnir ættu að hafa síðasta orðið um það hvort þau vilja giftast. – Gal. 6:5.

AÐ HEFJA TILHUGALÍF

12. Hvernig geturðu sagt einstaklingi að þú hafir áhuga á tilhugalífi með honum?

12 Hvernig gætirðu tjáð einstaklingi áhuga þinn ef þú vilt kynnast honum betur?e Þú gætir mælt þér mót við hann á almenningsvæði eða hringt í hann. Láttu skýrt í ljós að þú hafir áhuga á að kynnast betur. (1. Kor. 14:9) Gefðu honum tíma til að tjá sig um málið ef hann vill. (Orðskv. 15:28) Og ef hann hefur ekki áhuga á sambandi skaltu virða tilfinningar hans.

13. Hvað geturðu gert ef einhver lætur í ljós að hann sé hrifinn af þér? (Kólossubréfið 4:6)

13 Hvað ef einhver sýnir þér áhuga? Það kostaði trúlega hugrekki fyrir hann að koma að máli við þig. Vertu því vingjarnlegur og sýndu virðingu. (Lestu Kólossubréfið 4:6.) Segðu til ef þú þarft tíma til að hugsa málið. En reyndu samt að gefa svar eins fljótt og hægt er. (Orðskv. 13:12) Ef þú hefur ekki áhuga skaltu segja það vingjarnlega og skýrt. Hans er bróðir frá Ástralíu. Þegar systir kom að máli við hann sagði hann henni vingjarnlega en skýrt hvað honum bjó í brjósti. Hann gerði það strax vegna þess að hann vildi ekki vekja hjá henni falskar vonir. Hann passaði sig líka eftir á hvernig hann talaði og hegðaði sér í návist hennar. Ef þú hefur á hinn bóginn áhuga á tilhugalífi skaltu segja hvaða væntingar og tilfinningar þú hefur í sambandi við það. Væntingar þínar eru kannski aðrar en hjá hinum einstaklingnum út af menningarmun eða af öðrum ástæðum.

HVERNIG GETA AÐRIR STUTT EINHLEYPA ÞJÓNA GUÐS?

14. Hvernig getum við stutt einhleypa þjóna Guðs með því sem við segjum?

14 Hvernig getum við öll stutt einhleypa þjóna Guðs sem vilja gifta sig? Til dæmis með því að vanda tal okkar. (Ef. 4:29) Við gætum spurt okkur: Geri ég grín að þeim sem langar að gifta sig? Dreg ég þá ályktun að það sé eitthvað á milli einhleyps bróður og einhleyprar systur ef ég sé þau tala saman? (1. Tím. 5:13) Við ættum ekki að láta trúsystkini finnast þau vanti eitthvað ef þau eru ekki gift. Hans, sem áður er minnst á segir: „Sumir bræður segja: ‚Hvers vegna nærðu þér ekki í konu? Þú ert nú ekkert að yngjast.‘ Slíkar athugasemdir gera það að verkum að einhleypum einstaklingum finnst þeir ekki metnir að verðleikum og þeir finna fyrir meiri þrýstingi til að gifta sig.“ Það er miklu betra að koma auga á tækifæri til að hrósa einhleypum þjónum Guðs. – 1. Þess. 5:11.

15. (a) Hvað ættum við að hugleiða áður en við aðstoðum aðra við að finna sér maka með hliðsjón af meginreglunni í Rómverjabréfinu 15:2? (Sjá einnig mynd.) (b) Hvað lærðirðu af myndbandinu?

15 En hvað ef þú heldur að ákveðinn bróðir og ákveðin systir ættu vel saman sem hjón? Biblían hvetur okkur til að taka tillit til tilfinninga annarra. (Lestu Rómverjabréfið 15:2.) Margir einhleypir einstaklingar vilja ekki að aðrir kynni þá fyrir hugsanlegum maka og við ættum að virða það. (2. Þess. 3:11) Aðrir þiggja kannski einhverja aðstoð en við ættum ekki að skipta okkur af nema við séum beðin um það.f (Orðskv. 3:27) Sumir sem eru einhleypir kjósa óformlegri nálgun. Lydia er einhleyp systir frá Þýskalandi. Hún segir: „Það er hægt að hafa bróðurinn og systurina með í stærri hóp. Þannig skapar maður tækifæri fyrir þau til að hittast og lætur þau síðan sjálf um framhaldið.“

Einhleypa systirin og bróðirinn tala saman í boði.

Að hittast í stórum hópi er tækifæri fyrir einhleypa þjóna Guðs til að kynnast. (Sjá 15. grein.)


16. Hvað ættu einhleypir þjónar Guðs að muna?

16 Við getum öll átt ánægjulegt og innihaldsríkt líf hvort sem við erum einhleyp eða gift. (Sálm. 128:1) Ef þig langar að gifta þig en hefur ekki fundið mögulegan maka skaltu halda áfram að einbeita þér að þjónustunni við Jehóva. Systir frá Macau sem heitir Sin Yi segir: „Tíminn sem þú ert einhleypur er hlutfallslega stuttur í samanburði við tímann sem þú getur átt með makanum þínum í paradís. Njóttu þess og notaðu tímann vel.“ En hvað ef þú hefur fundið hugsanlegan maka og þið eruð í tilhugalífi? Í næstu námsgrein skoðum við hvernig tilhugalífið getur hjálpað þér að taka skynsamlegar ákvarðanir.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvað gætirðu gert ef þú ert að leita að maka?

  • Hvers vegna ætti maður að fylgjast með manneskju áður en stofnað er til kynna við hana með hjónaband í huga?

  • Hvernig geta aðrir í söfnuðinum stutt einhleypan einstakling sem langar að giftast?

SÖNGUR 137 Trúfastar konur og kristnar systur

a Sjá greinina „Stefnumót – 1. hluti: Er ég tilbúinn til að fara á stefnumót?“ á jw.org til að meta hvort þú sért tilbúin(n) að kynnast einhverjum betur.

b ORÐASKÝRING: Þegar talað er um tilhugalíf í þessari námsgrein og þeirri næstu er átt við þann tíma þegar karlmaður og kona kynnast betur til að komast að því hvort þau eigi saman sem hjón. Stundum er líka talað um að þau séu að kynnast, séu byrjuð saman eða séu á föstu. Tilhugalíf hefst þegar karlmaður og kona láta skýrt í ljós að þau séu hrifin hvort af öðru og það heldur áfram þangað til þau giftast eða ákveða að slíta sambandinu.

c Við munum til einföldunar tala um mögulegan maka sem bróður í tölugreinunum sem koma á eftir. Þessar meginreglur eiga að sjálfsögðu við um systur líka.

d Sumum nöfnum hefur verið breytt.

e Sum staðar í heiminum er það venjulega bróðir sem kemur til systur til að hefja tilhugalíf. Systir gæti samt líka kosið að nálgast bróður. (Rut. 3:1–13) Sjá greinina „Young People Ask … How Can I Tell Him How I Feel?“ í Vaknið á ensku 22. október 2004.

f Sjá myndbandið Þeir sem berjast fyrir trúnni og ná árangri – einhleypir þjónar Guðs.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila