GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI BARNA
Börn og samfélagsmiðlar – fyrri hluti: Ætti barnið mitt að nota samfélagsmiðla?
Könnun nokkur leiddi í ljós að 97 prósent unglinga notar samfélagsmiðla. Langar barnið þitt til að slást í hópinn? Þá eru nokkur atriði sem þú ættir að hugleiða.
Í þessari grein
Hvernig ver barnið tíma sínum?
„Samfélagsmiðlar eru hannaðir til að grípa athygli þína og halda henni og fá þig til að líta reglulega á tækið þitt til að sjá nýjar uppfærslur,“ segir á vefsíðu sem heitir HelpGuide.
„Mínúturnar verða að klukkustundum meðan ég skruna í gegnum endalausar færslur. Það getur verið mjög erfitt að leggja frá sér símann og fara að gera eitthvað af viti.“ – Lynne, 20 ára.
Spyrðu þig: Mun barnið mitt hafa næga sjálfstjórn til að virða þau mörk sem ég set um notkun samfélagsmiðla? Er barnið nógu þroskað til að setja sér sín eigin mörk og fara eftir þeim?
Meginregla Biblíunnar: ‚Gætið þess vandlega að hegða ykkur eins og skynsamar manneskjur og notið tímann sem best.‘ – Efesusbréfið 5:15, 16.
Að leyfa barni þínu að nota samfélagsmiðla án þess að gefa því leiðsögn er eins og að láta það fara á hestbak án nokkurrar þjálfunar.
Viðhorf barnsins til vináttu
Hugtakið „samfélagsmiðill“ gefur til kynna að notendur eigi vini eða séu í tengslum við fólk sem þeir þekkja. En oft á tíðum eru tengslin yfirborðsleg.
„Ég hef tekið eftir því að margt ungt fólk hefur þá ranghugmynd að ef það fær mörg ‚læk‘ eða fylgjendur þýði það að fólki sé annt um það, jafnvel þótt það viti varla frá hverjum þau koma.“ – Patricia, 17 ára.
Spyrðu þig: Hefur barnið mitt þroska til að leggja ekki of mikið upp úr því að fá fylgjendur eða „læk“? Hversu vel gengur því að rækta vináttu í raunheimum?
Meginregla Biblíunnar: „Sannur vinur elskar alltaf og er sem bróðir á raunastund.“ – Orðskviðirnir 17:17.
Áhrif á tilfinningar barnsins
Rannsóknir hafa leitt í ljós að tengsl eru á milli mikillar notkunar samfélagsmiðla og einmanaleika, kvíða og jafnvel þunglyndis.
„Það er ekki mjög upplífgandi að sjá hvað vinir þínir eru að gera ásamt öðrum vinum þínum ef þú ert ekki með í hópnum.“ – Serena, 19 ára.
Spyrðu þig: Hefur barnið mitt þroska til að verða ekki upptekið af sjálfu sér, keppa við aðra, eða vera óþarflega viðkvæmt fyrir því sem það sér aðra vera að gera á samfélagsmiðlunum?
Meginregla Biblíunnar: „Lítum ekki of stórt á sjálf okkur þannig að við förum að keppa hvert við annað og öfunda hvert annað.“ – Galatabréfið 5:26.
Netnotkun barnsins
Samfélagsmiðlar geta opnað fyrir rafrænt einelti, kynferðisleg smáskilaboð og klám. Jafnvel þó að barnið leiti ekki eftir slíku efni gæti það birst á skjánum.
„Ég tók eftir því að umfjöllun á samfélagsmiðlum getur auðveldlega farið úr böndunum. Það er mikið um gróft tal og óviðeigandi tónlist.“ – Linda, 23 ára.
Spyrðu þig: Hefur barnið mitt þroska til að vera góður netverji? Mun það hafa siðferðisþrek til að hafna óviðeigandi efni?
Meginregla Biblíunnar: „Kynferðislegt siðleysi og hvers kyns óhreinleiki eða ágirnd á ekki einu sinni að koma til tals meðal ykkar … Forðist líka skammarlega hegðun, heimskulegt tal og grófa brandara.“ – Efesusbréfið 5:3, 4.
Eru samfélagsmiðlar nauðsyn?
Samfélagsmiðlar eru ekki lífsnauðsyn. Við þörfnumst þeirra ekki einu sinni til að lífið sé þægilegt og hamingjuríkt. Margt ungt fólk er fullkomlega sátt við að nota ekki samfélagsmiðla, þar á meðal sumir sem hafa ákveðið að hætta að nota þá.
„Þegar ég sá hvað samfélagsmiðlar höfðu neikvæð áhrif á systur mína ákvað ég að hætta að nota þá. Upp frá því hef ég verið hamingjusamari og mér finnst ég vera að fá meira út úr lífinu.“ – Nathan, 17 ára.
Kjarni málsins: Áður en þú leyfir barni þínu að nota samfélagsmiðla skaltu fullvissa þig um að það hafi þroska til að hlýða tímamörkum, vera í heilbrigðum samskiptum við vini sína og forðast óviðeigandi efni.
Meginregla Biblíunnar: „Skynsamur maður íhugar hvert skref.“ – Orðskviðirnir 14:15.