Stíðsvélar: Anton Petrus/Moment via Getty Images; peningar: Wara1982/iStock via Getty Images Plus
HALTU VÖKU ÞINNI
Billjónum eytt í stríð – hver er kostnaðurinn í raun?
Stríð eru gríðarlega kostnaðarsöm.
„Á síðasta ári slógu stjórnvöld heimsins met með því að eyða 2,2 billjónum Bandaríkjadala í stríð.“ – The Washington Post, 13. febrúar 2024.
En kostnaðurinn er miklu meiri en bara peningar. Tökum stríðið í Úkraínu sem dæmi.
Hermenn. Sumir sérfræðingar áætla að hátt í 500.000 hermenn hafi fallið eða særst frá því að stríðið hófst fyrir tveim árum.
Almennir borgarar. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hafa meira en 28.000 látið lífið eða særst. Háttsettur embættismaður hjá Sameinuðu þjóðunum sagði: „Áhrif þessa hræðilega stríðs á almenna borgara eru ómælanleg.“a
Þjáningar fólks af völdum stríðs og átaka um allan heim eru gríðarlegar.
114 milljónir. Fjöldi þeirra sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna ofbeldis og styrjalda frá september 2023.
783 milljónir. Fjöldi þeirra sem búa við stöðugt hungur. „Átök eru enn meginástæða hungurs í heiminum. Sjötíu prósent hungraðra búa á átakasvæðum.“ – Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Munu stríð einhvern tíma taka enda? Er hægt að vonast eftir friði? Verða auðlindir jarðarinnar einhvern tíma nýttar til að binda enda á hungur og fátækt? Hvað segir Biblían?
Stríðstímar
Biblían sagði fyrir um stríð um allan heim og lýsti þeim á táknrænan hátt sem reiðmanni á hesti.
„Þá kom fram annar hestur, eldrauður, og þeim sem sat á honum var gefið vald til að taka friðinn burt af jörðinni svo að menn stráfelldu hverjir aðra, og honum var fengið stórt sverð.“ – Opinberunarbókin 6:4.
Tveir aðrir koma á eftir þessum táknræna reiðmanni. Annar táknar víðtæka hungursneyð og hinn dauða af völdum drepsótta eða annarra orsaka. (Opinberunarbókin 6:5–8) Lestu greinina „Riddararnir fjórir – hverjir eru þeir?“ til að fræðast meira um þennan spádóm Biblíunnar og hvernig við getum verið fullviss um að hann sé að rætast nú á dögum.
Friðsæl framtíð
Innan skamms verða auðlindir jarðarinnar ekki lengur notaðar í stríð. En menn koma því ekki til leiðar. Biblían segir:
Guð „stöðvar stríð um alla jörð“. – Sálmur 46:9.
Guð gerir að engu hörmuleg áhrif stríða. „Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra og dauðinn verður ekki til framar. Engin sorg, angistaróp né kvöl verður heldur til. Það sem áður var er horfið.“ – Opinberunarbókin 21:4.
Guð tryggir öllum varanlegan frið. „Fólk mitt mun búa í friðsælu landi, í öruggu húsnæði og á kyrrlátum hvíldarstöðum.“ – Jesaja 32:18.
Spádómar Biblíunnar sýna að stríð og fleiri atburðir sem við sjáum núna gefi til kynna að þessi friðsæli tími sé skammt undan.
Hvernig kemur Guð þessari friðsælu framtíð til leiðar? Með himneskri stjórn sinni, eða ríki. (Matteus 6:10) Horfðu á stutta myndbandið Hvað er ríki Guðs? til að komast að því hvað þetta ríki er og hvaða þýðingu það hefur fyrir þig.
a Miroslav Jenca, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu, 6. desember 2023.