VIRGILIJUS PUDŽIUVYS | ÆVISAGA
Jehóva sér alltaf fyrir útgönguleið
Fjölskylda okkar mun ávallt vera þakklát fyrir einstaka heimsókn sem við fengum árið 1976 þegar frænka mín og frændi komu til okkar. Móðurbróðir minn, sem var að kynna sér Biblíuna með hjálp Votta Jehóva, sagði foreldrum mínum að hann hafði lært alveg ný sannindi frá Biblíunni. Fyrst sagði hann þeim hvað Jesús sagði um trúarleiðtoga síns tíma og lesa má í Matteusi 23. kafla. Síðan benti hann þeim á hvað væri líkt með þeim og trúarleiðtogum okkar tíma. Móðir mín sem var kaþólsk og heitttrúuð átti bágt með að trúa því að Jesús hafi verið svona berorður þegar hann talaði um trúarleiðtogana. Hún var því staðráðin í að komast að því sjálf hvað Biblían segði.
Við áttum heima í Litáen sem var hluti fyrrum Sovétríkjanna á þessum tíma. Mjög fáir áttu Biblíuna vegna þess að stjórnvöld lögðu strangar hömlur á trúfrelsi. Mamma fékk því lánaða biblíu í kirkjunni og las beint upp úr henni og fékk þannig staðfestingu á því að Jesús hafi fordæmt trúarleiðtoga síns tíma fyrir hræsni þeirra. Þetta vakti forvitni hennar og hún velti fyrir sér hvað fleira Biblían hefði að geyma. Hún varð sér úti um rit hjá vottunum sem voru að lesa með frænda mínum.
Það leið ekki á löngu þar til við fjölskyldan fórum að sækja samkomur Votta Jehóva. En starfsemi þeirra var bönnuð og þeir þurftu því að hittast á mismunandi stöðum í hvert skipti. Stundum hittust þeir í skógi í grenndinni. Mamma og við tvíburasystir mín, Danguolė, létum skírast sem vottar árið 1978. Við vorum 15 ára gömul. Pabbi lét skírast fáeinum árum síðar.
Ásamt tvíburasystur minni Dangoulė, þegar við vorum fjögurra ára.
Jehóva sá mér fyrir leið út þegar ég var unglingur
Mánuði eftir að við létum skírast urðum við Danguolė fyrir ofsóknum í skólanum. Það var við sérstakan viðburð í sal skólans að kennararnir tóku eftir að við stóðum ekki upp þegar sovéski þjóðsöngurinn var sunginn, vegna kristins hlutleysis okkar. Kennararnir gáfu upp nöfn okkar til skólastjórans. Hann lét leyniþjónustuna, sem er þekkt sem KGB, vita af þessu og ekki leið á löngu áður en fulltrúar hennar komu á heimili okkar og yfirheyrðu okkur.
Við Danguolė þurftum líka að standa gegn stöðugum þrýstingi vegna guðlauss áróðurs. Þegar ég var 16 ára gamall átti bekkurinn okkar til dæmis að skrifa ritgerð sem fjallaði um stefið: „Hvers vegna ég trúi ekki á Guð“. Þar sem ég var ósammála þessu stefi skrifaði ég: „Ég trúi á Guð“ á blaðsnepil og lagði hann á borðið. Þegar kennarinn sá blaðið reiddist hún og hrópaði: „Þá skaltu skrifa hvers vegna þú trúir.“ Ég var ánægður með að hafi leyfi til að skrifa um trú mína og systir mín fór líka að segja frá trú sinni. Þegar tvær bekkjarsystur sáu hvað við vorum að skrifa um fóru þær líka að greina frá því hvers vegna þær trúðu á Guð. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum sem ég upplifði um það hvernig Jehóva getur séð „fyrir leið út úr“ erfiðum aðstæðum. – 1. Korintubréf 10:13.
Bræðurnir sem fóru með forystu á okkar svæði lánuðu okkur bókina Frá hinni týndu paradís til hinnar endurheimtu paradísar í mánuð, en þetta er bók sem Vottar Jehóva gáfu út. Eftir því sem ég best veit voru ekki til nema fjögur eða fimm eintök af bókinni í Litáen á þessum tíma. „Bara að við gætum átt bókina“ sögðum við Danguolė. En þar sem það var útilokað gerðum við það sem var næstbest – við handskrifuðum afrit af henni. Okkur verkjaði í hendurnar en við vorum himinlifandi yfir að eiga efni bókarinnar sem byggði upp trú okkar.
Árið 1982, skömmu eftir að ég varð 19 ára var ég dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að neita að ganga í herinn. Mér fannst erfitt að vera innan um harðnaða glæpamenn í fangelsinu. En ég var þakklátur fyrir að geta stundum hitt annan vott sem var í sömu búðunum og ég. Ég afplánaði fangavist mína en þetta átti ekki eftir að vera í síðasta skiptið sem ég sæi fangelsi að innanverðu.
Blessunin að eignast trúfasta eiginkonu
Við Lidija skömmu fyrir brúðkaup okkar.
Eftir að ég losnaði úr fangelsi árið 1984 hitti ég Lidiju, fallega og andlega sinnaða systur sem átti heima í Úkraínu. Eftir brúðkaupið yfirgaf Lidija heimaland sitt og flutti til mín í Litáen. Hún hafði mátt þola harðar ofsóknir meðan hún var í skóla vegna trúar sinnar og fjölskyldu sinnar. Meðan á þessum prófraunum stóð sótti hún styrk í reynslu þeirra sem höfðu staðist ofsóknir nasista og þeirra sem höfðu verið sendir í útlegð til Síberíu.
Starfsemi votta Jehóva var enn þá bönnuð í Litáen á níuna áratugnum. Brúðkaup vottanna voru því oft notuð til að halda tveggja daga mót. Þannig var háttað um okkar brúðkaup. Gestirnir óskuðu okkur til hamingju en við hlustuðum líka á margar ræður, sungum tugi söngva og horfðum á fjögur leikrit þar sem leikararnir voru í leikbúningum. Eins og ég man atburðinn þá voru um 450 manns viðstaddir, þar á meðal voru ættingjar alls staðar að úr Sovétríkjunum og meira að segja óboðnir KGB njósnarar sem sumir bræðra okkar könnuðust við.
Brúðkaup okkar fór fram meðan á tveggja daga móti stóð. Tvenn brúðhjón eru á sviðinu þar sem frænka mín og unnusti hennar giftu sig samtímis okkur.
Aftur í réttarsalinn
Ef ein fangavist dugði ekki til við að snúa vottum inn á stefnu Sovétríkjanna voru þeir stundum dæmdir á ný. Þess vegna var ég kallaður aftur í réttarsal innan árs frá brúðkaupi okkar. Ég var einn dag í réttarsalnum. En á meðan var Lidija, sem var ófrísk, á spítala í grenndinni. Ég mátti ekki heimsækja hana meðan á réttarhöldunum stóð. En ég gat gengið að spítalanum meðan hlé var á réttarhöldunum og staðið við gluggann hennar. Hún opnaði gluggann og við áttum nokkur dýrmæt augnablik saman sem við notuðum til að uppörva hvort annað. Seinna um daginn var ég dæmdur í þriggja ára fangelsisvist.
Því miður missti Lidija fóstrið tveim dögum síðar. Hún segir að það hafi verið eins og að tilfinningalegar þjáningar hennar hafi slitið hana í sundur. Auk þess að þurfa að þola þennan harm var Lidija að aðlagast lífinu í öðru landi og því að búa með foreldum mínum sem kunnu hvorki mikið í úkraínsku né í rússnesku en það voru málin sem hún talaði. En Lidija reiddi sig algerlega á Jehóva og foreldrar mínir gerðu sitt besta til að veita henni hlýju og styðja hana tilfinningalega á þessu erfiða tímabili.
Jehóva hélt áfram að sjá fyrir útgönguleið
Fyrsta fangavist mín undirbjó mig fyrir þá næstu. Eitt af því sem hjálpaði mér að þrauka var að prédika fyrir öðrum. Á leiðinni í fangelsið var föngunum troðið í ökutæki og lestir. Stundum voru 15 til 20 manns neyddir til að vera í rými sem var aðeins ætlað fimm til sex manns. Ég notaði þetta tækifæri til að tala við aðra fanga um boðskap Biblíunnar. Ég útskýrði hvers vegna ég væri hlutlaus í stjórnmálum og hvernig það hafði leitt til handtöku minnar og fangelsunar. Ég sagði þeim líka hvers vegna mér fyndist rökrétt að trúa á Guð.
Ég afplánaði dóminn í Marijampolė.a Ég veit ekki betur en að ég hafi verið eini votturinn innan um 2.000 harðnaða glæpamenn. Einu sinni var ég barinn til óbóta en það var alvanalegt að föngum væri hótað, þeir lamdir og jafnvel drepnir. Þrátt fyrir ómannúðlegar aðstæður reyndi ég að hughreysta þá sem voru niðurbrotnir og sýna þeim samúð, sem var sjaldséð viðmót í fangelsinu.
Útsendarar KGB beittu okkur líka sálfræðinni til að þrýsta á okkar. Einhvern veginn tókst þeim að njósna um samtöl fjölskyldu minnar inni á heimili þeirra og þeir sögðu mér frá þessum samtölum. Hins vegar sneru þeir úr orðum þeirra þannig að það liti út eins og þau hefðu verið að rífast og væru ósátt. Þó að ég hafi aldrei trúað orðum þeirra þá var það ekki fyrr en ég losnaði úr fangelsinu að ég gat borið saman orð KGB manna við það sem fjölskylda mín hafði sagt í raun og veru. – Matteus 10:16.
Eitt sinn bað systir nokkur nágranna sinn, sem var fangavörður sem hún þekkti vel, að lauma til mín lítilli rússneskri biblíu. Á kvöldin afritaði ég nokkur vers úr fjallræðunni á bréfsnepil þannig að daginn eftir gat ég lesið þau aftur og aftur í verksmiðju fangelsisins á meðan enginn sá til. Þannig lærði ég fjallræðuna utan að á rússnesku þó að hún væri ekki móðurmál mitt. Á endanum fundu fangaverðirnir biblíuna og hún var tekin af mér. En þá voru orð Jesú þegar búin að taka sér bólfestu í huga mínum og hjarta.
Lidija veitti mér líka ómetanlegan stuðning með því að senda mér uppörvandi bréf næstum daglega. En ég mátti bara svara henni tvisvar á mánuði. Engu að síður sagði hún mér að bréfin mín fullvissuðu hana um það þrennt sem mestu máli skipti: ég var á lífi, ég var Jehóva trúfastur og ég var enn ástfanginn af henni.
Jehóva opnaði útgönguleið með hjálp bænarinnar
Eitt sinn krafðist hópur fanga þess að fangayfirvöld bættu vinnuaðstæður okkar. Á meðan lögðu þeir niður vinnu. Þessir fangar fengu að sjálfsögðu þunga refsingu fyrir uppreisnina. Í kjölfarið upplýsti stjórn fangelsisins mig og aðra um að við hefðum verið skipaðir í nýjan vinnuhóp þar sem þeir sem höfðu gert uppreisn yrðu ekki með í hópnum.
Ef ég hafnaði þessari skipun yrði mér refsað harðlega. En ef ég tæki henni myndu fangarnir líta á mig sem svikara sem oft hefði í för með sér að verða misþyrmt og jafnvel stunginn til bana. Ég fann fyrir gríðarlegum þrýstingi, mér leið eins og ég væri í skrúfustykki og vissi ekki hvað til bragðs skyldi taka. (2. Kroníkubók 20:12) Ég bað Jehóva því stöðugt um að hjálpa mér.
Skyndilega safnaði einn fanginn í fyrrverandi vinnuhópi mínum okkur saman til að hitta verkstjórann að máli. Þessi fangi var ekki vinur minn, hann var bara vinnufélagi. Engu að síður bað hann um að ég fengi að vera í gamla hópnum mínum. Af þessu hlaust mikil reiði og rifrildi við verkstjórann. En úr varð að verkstjórinn – sem aldrei lét sig – rak okkur úr skrifstofu sinni og leyfði mér að vera áfram í gamla hópnum mér til ósegjanlegs léttis. (2. Pétursbréf 2:9) Öll þessi ár sem ég var í fangelsi sá ég aldrei fanga styðja annan af slíkum ákafa. Þessi reynsla sýndi mér að Jehóva getur notað hvern sem er til að hjálpa okkur og svara þannig bænum okkar.
Jehóva opnaði Lidiju leiðina
Nú er rétt að greina frá því sem Lidija mátti þola meðan ég var í burtu. Hún þurfti að finna vinnu. En þar sem ég var í fangelsi vildu vinnuveitendur almennt ekki ráða hana af ótta við KGB menn. Loks fékk hún vinnu sem fólst í því að annast 30 börn 12 klukkustundir á dag. Hún var úrvinda. En Jehóva gaf henni styrk til að ganga til sinna daglegu starfa. Þar að auki komu bræður og systur alls staðar að í Litáen keyrandi til að hughreysta hana, vera með henni og færa henni rit á rússnesku. Hún var aldrei einmana.
Við þjónum Jehóva sem fjölskylda
Eftir að ég losnaði úr fangelsi hjálpaði ég til við að skipuleggja neðanjarðar þýðingarstaf á ritum okkar á litáísku. Fáeinum árum síðar liðu Sovétríkin undir lok og starfsemi okkar var löglega skráð í Litáen. Í kjölfarið var komið á þýðingastofu í landinu. Þó að við ættum heima í yfir hálfs annars klukkutíma fjarlægð frá skrifstofunni var ég meira en fús til að keyra þangað. Þetta gerði ég í hverri viku í fimm ár til að hjálpa til við þýðingar.
Í ágúst árið 1997 var okkur Lidiju boðið að þjóna á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Litáen, sem gengur undir nafninu Betel. Við vorum djúpt snortin af þessu boði. Við áttum tvær dætur Oksönu sem var níu ára og Svajūnė sem var fimm ára. Við fengum þrjá daga til að flytja í íbúð nálægt Betel og skrá Oksönu í nýjan skóla.
Við vildum að tilbeiðslustund fjölskyldunnar væri bæði fræðandi og ánægjuleg eins og sést af senunni af Ahasverusi, Ester og Mordekaí.
Hvernig gekk okkur að annast þessa tvíþættu ábyrgð? Snemma á hverjum morgni fór ég á Betel og Lidija mætti svo til starfa eftir að stelpurnar voru farnar í skólann. Lidija fór svo aftur heim áður en stelpurnar komu úr skólanum þannig að þær kæmu heim í notalegar heimilisaðstæður.
Við klæddumst þjóðbúningi Litáa þegar haldið var upp á vígslu stækkunar litáísku deildarskrifstofunnar árið 2003.
Öll fjölskyldan hlakkaði til föstudagskvölda. Við elduðum, þrifum eftir okkur og höfðum tilbeiðslustund og skemmtum okkur saman. Við skipulögðum líka ferðir upp í fjöll, út að sjó og heimsóttum Betelheimili í Evrópu svo að dætur okkar gætu notið sköpunarverks Jehóva og séð hið alþjóðlega bræðralag af eigin raun. Við Lidija erum svo stolt af dætrum okkar sem báðar hófu brautryðjendastarf 15 ára gamlar. Í dag vinna Oksana og maður hennar, Jean-Benoit, á þýðingastofunni í Litáen og Svajūnė og maður hennar, Nicolas, þjóna á Betel í Frakklandi.
Við Lidija höfum orðið „eitt“ aðallega vegna þess að þjónustan við Jehóva hefur alltaf verið það mikilvægasta í lífi okkar. (Efesusbréfið 5:31; Prédikarinn 4:12) Þó að við værum ‚aðþrengd‘ og ofsótt árum saman vorum við samt aldrei ‚yfirgefin‘ né ‚innikróuð með öllu‘. (2. Korintubréf 4:8, 9) Við höfum margsinnis séð hvernig Jehóva hefur séð okkur fyrir útgönguleið og við erum sannfærð um að hann muni alltaf gera það.
Ásamt minni yndislegu eiginkonu, Lidiju.
a Hét Kapsukas á árunum 1955 til 1990.