HVERNIG ERU FRAMLÖGIN NOTUÐ?
Sagan af lífi og starfi Jesú – á bak við tjöldin
1. OKTÓBER 2024
Sá atburður sem vottar Jehóva hafa hlakkað hvað mest til á þessu ári er útgáfa fyrsta þáttar kvikmyndarinnar Sagan af lífi og starfi Jesú. Milljónir manna hafa þegar séð hana. En hann er bara sá fyrsti af 18 þáttum. Hvað á sér stað á bak við tjöldin sem gerir útgáfu þessarar þáttaraðar mögulega? Hvernig hefur þú lagt fram stuðning þinn?
Séð fyrir þörfum leikara og tökuliðs
Stærsti hluti þáttaraðarinnar er tekinn upp við deildarskrifstofuna í Ástralasíu. Tökulið og leikarar eru á bilinu 50 til 80 í hverri töku.a Hádegisverður, kvöldverður og hressingar eru bornar fram handa öllum þátttakendum. Máltíðirnar eru skipulagðar með góðum fyrirfara. „Við kaupum matvæli frá mismunandi birgjum þannig að við getum fengið gæðahráefni á hagstæðu verði,“ segir Esther sem vinnur í matardeildinni. „Við breytum stöðugt uppskriftunum okkar til að varast matarsóun.“ Við notum um það bil fjóra bandaríkjadali í mat á mann á dag.
Leikararnir og tökuliðið þarfnast ekki bara matar heldur líka verndar. Verndar frá hverju? Í Ástralíu er oft sólríkt og heitt í veðri og jafnframt hátt gildi útfjólublárra geisla. Til að draga úr hættunni og koma í veg fyrir örmögnun hafa aðstoðarmenn tökuliðsins komið fyrir tjöldum og aðstöðu til að kæla sig. Þeir sjá til þess að nóg sé til af sólarvörn, sólhlífum og vatni. „Flestir bræðurnir sem vinna að töku þáttaraðarinnar eru Betelítar sem búa í eigin húsnæði. Þeir vinna þetta starf og mörg önnur af gleði og auðmýkt. Án þeirra væri ógerningur að vinna verkið,“ segir Kevin sem vinnur í hljóð- og myndbandadeildinni.
Unnið á tökustað
Sum atriði er ekki hægt að taka upp í stúdíói á Betel né í næsta nágrenni. Þegar svo háttar til er haldið á tökustað. Oft þarf að fara á afskekkta staði þegar mynda á atriði frá biblíutímanum þegar ekki voru til raflínur, malbikaðir vegir og nútímabyggingar. Þá þarf að pakka saman búningum og leikmunum, flytja þá og varðveita á tökustað. Áður en tökur hefjast sjá aðstoðarmenn vinnslunnar til þess að rafalar, drykkjarvatn og snyrtiaðstaða sé til staðar. Tökuliðið og leikararnir gista heima hjá gestrisnum trúsystkinum, í húsbílum, á hótelum eða í smáhýsum.
Myndatökur á tökustað hafa ýmsar áskoranir í för með sér.
Það getur verið dýrt, tímafrekt og lýjandi að kvikmynda á tökustað og það getur reynt á alla sem koma að verkinu. Þess vegna samþykkti hið stjórnandi árið 2023 að keyptur væri sérstakur vídeóveggur upp á 2,5 milljónir bandaríkjadala. Þessi tækni styðst við skjái með hágæða upplausn og hún fínstillir ljósmagn til að líkja eftir aðstæðum utandyra. Þessi búnaður sparar okkur oft kostnaðarsamar upptökur utandyra. Darren, sem er í deildarnefndinni við deildarskrifstofuna í Ástralasíu, útskýrir málið: „Myndataka með vídeóvegg dregur úr þreytu hjá tökuliðinu og gerir því kleift að taka upp ákveðin atriði eins oft og þörf krefur. Þegar við myndum utandyra höfum við bara fáeinar mínútur til að ná mynd af sólarlagi. En með vídeóveggnum getum við endurskapað sólarlagið eins oft og þörf er á þangað til við höfum náð töku sem við erum ánægð með.“
Stillingar og prufur á nýjum vídeóvegg áður en tökur hefjast.
„Mér fannst þetta alls engin fórn“
Það þarf hundruð leikara og enn þá fleiri aðstoðarmenn til að mynda hvern þátt í myndaröðinni um líf og starf Jesú. Hvað finnst þeim um alla vinnuna sem þeir leggja á sig?
Amber ferðaðist yfir 700 km frá heimili sínu í Melbourne til að taka þátt í verkefninu. Hún segir: „Frá þeirri stundu sem ég kom á flugvöllinn önnuðust Betelítarnir mig svo vel. Margir buðu mér heim í mat eða í te. Á tökustað sáu þeir til þess að mér liði mjög vel og að ég fyndi fyrir kærleika þeirra. Ferð mín færði mér margvíslega blessun og mér fannst þetta alls engin fórn.“
Derek, sem vinnur í vinnsluteyminu, segir: „Það voru svo margar deildir sem studdu við bakið á okkur alveg frá upphafi. Ég er svo þakklátur að vera umkringdur bræðrum og systrum sem hafa fórnað tíma sínum, fjármunum og kröftum fyrir þetta verkefni. Þau styðja það heils hugar, sýna fúsleika og eru vingjarnleg. Jehóva hefur vissulega blessað þau og okkur. Ég er sannfærður um að honum sé ekki bara umhugað um árangurinn af verki okkar heldur líka hvernig hefur verið staðið að því.“
Við þökkum ykkur fyrir að styðja gerð þessarar myndaraðar með framlögum ykkar, þar á meðal framlögum á donate.jw.org.
a Deildarskrifstofan í Ástralasíu hefur umsjón með starfi okkar í mörgum löndum, þar á meðal Ástralíu og öðrum löndum í sunnanverðu Kyrrahafi. Skrifstofan er í úthverfi Sydney í Ástralíu.