HVERNIG ERU FRAMLÖGIN NOTUÐ?
Vistvænar leiðir til góðs fyrir trúsystkini okkar og jörðina
1. APRÍL 2025
Vottar Jehóva trúa því að Jehóva Guð grípi bráðum inn í til að bjarga jörðinni frá eyðileggingunni af völdum manna. (Opinberunarbókin 11:18) Samt sem áður gerum við líka það sem við getum til að hugsa vel um umhverfið og jörðina. Við höfum til dæmis notað vistvænar lausnir við byggingaframkvæmdir á vegum safnaðarins.
Grænar eða vistvænar leiðir eru verkefni sem miða að því að lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið. Hvaða vistvæn verkefni höfum við ráðist í? Og hvernig hafa þau stuðlað að því að við notum frjálsu framlögin á sem bestan hátt?
Svöl lausn fyrir mótshöll
Upphaflega var mótshöllin í Matola í Mósambík byggð með opnum hliðum og einföldu þaki úr málmplötum. Þakið hitnaði ótæpilega í sólinni svo að það varð ofurheitt í salnum. Bróðir sem býr þarna segir: „Við vorum í svitabaði! Í lok samkomunnar þutu allir út til að kæla sig niður og fá ferskt loft.“ Hvernig var hægt að bæta úr þessu svo að trúsystkini okkar gætu haft betra námsumhverfi?
Við fórum vistvænu leiðina og settum upp vindknúnar þakviftur og komum fyrir einangrun. Einangrunin gerir það að verkum að minni hiti frá sólinni berst inn í húsið og vifturnar sjá um jafna dreifingu fersks lofts um salinn. Vifturnar þurfa ekki rafmagn heldur nýta vind og náttúrulegt hitauppstreymi til að fjarlægja heita loftið sem myndast í salnum. Þessar viftur kosta um 50 bandaríkjadali stykkið.
Vindknúnar þakviftur í mótshöllinni í Matola.
Þessi lausn hefur bætt loftgæði mótshallarinnar umtalsvert. Þar sem loft er sífellt á hreyfingu hefur raka- og myglumyndun minnkað. Minna koltvíoxíð safnast upp í byggingunni og súrefnisflæði er meira. Mótsgestirnir geta nú einbeitt sér betur að dagskránni og þeim líður betur. Bróðirinn sem vitnað var í áður segir: „Núna þjótum við ekki út um leið og dagskránni lýkur heldur erum við áfram inni í salnum í hádegishléinu og röbbum saman. Að sitja undir nýja þakinu er eins og að sitja undir notalegu stóru tré.“
Trúsystkini okkar njóta nú mótanna enn betur.
Endurnýjanlegur orkugjafi nýttur
Við höfum sett upp ljósspennukerfi í byggingum okkar víða um heim. Þessi aðferð nýtir sólarsellur til að breyta sólarorkunni – endurnýjanlegum orkugjafa – í rafstraum. Þar af leiðandi reiðum við okkur minna á raforku frá kolum, olíu og gasi sem menga umhverfið. Ljósspennukerfi valda minni mengun og sparar frjálsu framlögin sem berast.
Árið 2023 var ljósspennukerfi komið upp á deildarskrifstofunni í Slóveníu. Það sér deildarskrifstofunni fyrir 30 prósentum af orkuþörf hennar. Ef kerfið framleiðir á einhverjum tímapunkti meiri orku en þörf er á er hægt að nýta umframorkuna fyrir bæjarbúa. Ljósspennukerfið kostar um 360.000 bandaríkjadali. En þar sem rafmagnsreikningar deildarskrifstofunnar hafa lækkað er gert ráð fyrir að kerfið borgi framkvæmdakostnaðinn á fjórum árum.
Deildarskrifstofan í Slóveníu.
Árið 2024 settum við upp sólarsellur og stóra rafhlöðu á deildarskrifstofunni í Srí Lanka. Framkvæmdin kostaði um 3 milljónir bandaríkjadala og sér deildarskrifstofunni fyrir 70 prósentum af raforkuþörf hennar. Verkefnið mun hafa borgað sig upp á innan við þrem árum. Sama ár settum við líka upp ljósspennukerfi á deildarskrifstofunni í Hollandi. Þetta kerfi kostar um 1,1 milljón bandaríkjadala og sér deildarskrifstofunni fyrir 35 prósentum af raforkuþörfinni. Kerfið mun borga sig upp á níu árum.
Deildarskrifstofan í Hollandi.
Við höfum líka komið upp ljósspennukerfum á mörgum þýðingaskrifstofum í Mexíkó. Sem dæmi má nefna þýðingaskrifstofuna fyrir tungumálið tarahumara (mið) í Chihuahua-fylki. Á veturna getur hitastigið farið undir 0 gráður á selsíus og á sumrin yfir 40 gráður! En þar sem rafmagn er mjög dýrt hafa trúsystkini okkar forðast að nota loftræstikerfið. Jonathan, bróðir sem starfar á þýðingaskrifstofunni, segir: „Við notuðum teppi og klæddum okkur í hlý föt á veturna og opnuðum gluggana á sumrin.“
Árið 2024 var ljósspennukerfi sett upp á þýðingaskrifstofunni. Kerfið kostaði 21.480 bandaríkjadali en það mun borga sig upp á innan við fimm árum. Nú geta trúsystkini notað loftræstikerfið oftar. Jonathan segir: „Við njótum vinnunnar betur núna og erum afkastameiri. Og okkur finnst gott að vita að þýðingaskrifstofan notar fjármuni safnaðarins skynsamlega og á umhverfisvænan hátt.“
Þýðingarteymið fyrir tarahumara (mið) hefur fengið þægilegra vinnuumhverfi.
Regnvatni safnað
Sumir ríkissalir í Afríku hafa ekki aðgang að fersku vatni. Trúsystkini þar þurfa því að bera vatn nokkra kílómetra í ríkissalinn. Aðrir ríkissalir kaupa vatn sem er keyrt að dyrum. Það er bæði dýrt og óumhverfisvænt.
Til að trúsystkini okkar hafi aðgang að vatni höfum við sett upp þakrennur og stóra vatnstanka fyrir utan marga ríkissali vítt og breitt um Afríku. Áður en slíkur búnaður er settur upp kynna bræðurnir sér staðbundið loftslag til að hanna vatnskerfi sem virkar sem best fyrir tiltekinn ríkissal. Slíkar framkvæmdir kosta á bilinu 600 til 3.000 bandaríkjadali fyrir hvern ríkissal. En þetta kerfi dregur úr rekstrarútgjöldum ríkissala þar sem bræðurnir þurfa ekki lengur að kaupa vatn.
Vatnstankur í ríkissal í bænum Phuthaditjhaba í Suður-Afríku.
Þessi nýting á regnvatni er til góðs fyrir bræður okkar og systur. Noemia, systir frá Mósambík, segir: „Áður þurftum við að sækja vatn langar vegalengdir. Þegar við komum í ríkissalinn vorum við örþreytt og uppgefin. Og þar sem vatn var af skornum skammti var líka erfitt að halda uppi góðu hreinlæti. Núna geta allir þvegið sér um hendurnar. Þegar við mætum í ríkissalinn erum við ekki það þreytt að við getum ekki notið samkomunnar. Takk innilega fyrir!“
Mæðgin í Suður-Afríku nota regnvatn til handþvottar.
Hvernig er staðinn straumur af kostnaðinum á þessum grænu verkefnum? Með frjálsum framlögum til alþjóðastarfsins. Nánari upplýsingar um mismunandi leiðir til að gefa framlag er að finna á donate.jw.org. Kærar þakkir fyrir rausnarleg framlög ykkar!