Sameinuðu þjóðirnar – hugsjón manns
FLUGVÉLIN Albertina, sem var fjögurra hreyfla af gerðinni DC-6B, flaug lágt yfir kjarrivöxnu landi í Afríku. Vélin var nýbúin að fljúga yfir Endóla-flugvöllinn í Norður-Rhódesíu (nú Zambía). Einn hinna 16, sem í vélinni voru, var einn af þýðingarmestu mönnum veraldar á þeim tíma.
Flugstjórinn tók beygju í náttmyrkrinu og bjóst til lendingar. „Fáeinum andartökum síðar skáru skrúfublöðin trjátoppana . . . annar vængendinn rifnaði af, og á næstu fáeinu sekúndum rifnaði meira og meira af vængnum. . . . næstum 800 fetum frá þeim stað, þar sem vélin snerti trjátoppana fyrst, lenti búturinn af vinstri vængenda Albertina á fæti mauraþúfu. Flugvélin snarsnerist til vinstri uns hún lenti í ljósum logum á jörðinni snúandi trjónu í öfuga átt miðað við flugstefnu.“
Þegar björgunarmenn loksins komust að vélinni fundu þeir lík 14 manna sem höfðu látist í eldinum. Sá eini, sem lifði af, lést eftir 5 daga. Fáeinum metrum frá brakinu lá lemstrað lík framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna — Dags Hammerskjölds. Æðsti opinberi starfsmaður veraldar, „Mr. U.N.“ eins og sumir kölluðu hann, var látinn. — The Mysterious Death of Dag Hammerskjöld eftir Arthur L. Gavshon.
Sameinuðu þjóðirnar og kirkjurnar
Dauði Dags Hammerskjölds kom heiminum í opna skjöldu. Sumir efuðust um að Sameinuðu þjóðirnar gætu starfað án forystu þessa fáláta, gáfaða manns sem hafði mótað svo mjög hlutverk framkvæmdastjórans.
Hammerskjöld hefur verið lýst sem kristnum dulspekingi. Rit hans benda til að hann hafi trúað að hann væri kallaður af Guði til þessa starfs hjá Sameinuðu þjóðunum. Þegar hann ávarpaði fulltrúa kirkjufélaga sagði hann að trú á Guð og Sameinuðu þjóðirnar ætti að haldast í hendur. Einu sinni sagði hann: „Sameinuðu þjóðirnar og kirkjurnar standa hlið við hlið sem þátttakendur í viðleitni allra góðviljaðra manna, óháð trúarbrögðum þeirra eða tilbeiðsluformi, um að koma á friði á jörðu.“ Hann fullyrti líka: „Þrátt fyrir ólíkt eðli sitt og ábyrgð hafa kirkjufélögin og Sameinuðu þjóðirnar sameiginlegt markmið og starfssvið þar sem þær geta unnið hlið við hlið.“
Hammerskjöld lét einnig gera hugleiðingarstofuna sem er í hinum almenna forsal byggingar Sameinuðu þjóðanna. Hún var gerð fyrir fé safnað frá ýmsum hópum múhameðstrúarmanna, Gyðinga, kaþólskra og mótmælenda. Í íburðarlausri stofunni niðri er gljáfægð járnsteinssúla lýst upp með mjóum ljósgeisla.
Hvað hafði Hammerskjöld í huga með steinssúlunni? Hann skrifaði: „Við getum séð hana sem altari, tómt, ekki af því að enginn Guð sé til, ekki heldur vegna þess að hún sé altari helgað ókunnum Guði, heldur vegna þess að það er helgað þeim Guði sem maðurinn tilbiður undir mörgum nöfnum og í mörgum myndum.“
Milljarða manna trúa á Guð. Margir hafa séð Jóhannes páfa 23., Pál páfa 6. og Jóhannes Pál 2. auk klerkastéttar mótmælenda ljá þessum friðarsamtökum stuðning sinn og blessun. Páfagarður á meira að segja fastan áheyrnarfulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum. Sökum þessa stuðnings kirkjufélaganna álíta sumir að Sameinuðu þjóðirnar geti í sannleika sagt verið leið Guðs til að koma á friði og öryggi á jörðinni. Þeir binda ýmsar vonir við hið „alþjóðlega friðarár“ Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur.
Trúir þú að Sameinuðu þjóðirnar séu leið Guðs til að koma á friði á jörðinni? Álítur þú að 40 ára saga þessa samtaka beri þess merki að Guð hafi belssað aþu? Hafa Sameinuðu þjóðirnar sameinað þjóðir jarðar í friði?
[Mynd á blaðsíðu 3]
Dag Hammerskjöld leitaði stuðnings kirkjufélagana við Sameinuðu þjóðirnar.
[Rétthafi]
Mynd frá Sameinuðu þjóðunum