Sameinuðu þjóðirnar – hafa þær sameinað þjóðirnar?
„HVER mun koma á varanlegum friði og hvenær?“ Vottar Jehóva spurðu þessara spurningar í bæklingi sem var nefndur Peace — Can It Last? (Friður — getur hann varað?) gefin út árið 1942. Vegna síðari heimsstyrjaldarinnar var Þjóðabandalagið óvirkt eða ‚í undirdjúpi‘ eins og Biblían orðar það. (Opinberunarbókin 17:8) Þeirri spurningu var líka varpað fram hvort Þjóðabandalagið myndi liggja í gröf sinni til frambúðar.
Þá þegar fundu vottarnir svarið í Biblíunni. Meðan síðari heimsstyrjöldin var í algleymingi bar áðurnefndur bæklingur fram eftirfarandi spá: „Samtök veraldlegra þjóða mun rísa aftur.“ Rættist sú spá?
Í apríl 1945 var haldin ráðstefna í San Francisco til að samþiggja stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Í bókinni The Great Design lýsir Cornelia Meigs því sem gerðist þegar koma að því að fundurinn hæfist: „Haldin var mikil og hrífandi guðsþjónusta í Washington-dómkirkjunni, til að biðja um hjálp Guðs við hið nýja viðfangsefni. . . . Eftirtekt vakti á ráðstefnunni sjálfri hversu margir af helstu ræðumönnunum ákölluðu Guð, bæði í upphafs- og lokaávörpum sínum, um hjálp við það sem þeir væru nú að takast á hendur.“
Sumir vildu að guðdómurinn yrði nefndur í stofnskránni. Aðrir vildu það ekki. Þjóðirnar voru ekki sameinaðar svo að „Guð“ var undanskilin. Þessi skoðanaágreiningur hefði átt að vera ein viðvörun um það sem á eftir kæmi. Hvað sem því leið undirritaði 51 ríki stofnskrána, og hið látna Þjóðabandalag reis úr öskunni.
Í hverju hafa Sameinuðu þjóðirnar verið frábrugðar Þjóðabandalaginu? Hefur þeim vegnað betur í því að viðhalda friði? Hafa þær í sannleika sameinað þjóðirnar?
Framkvæmdastjórinn
Grunnurinn að sterkari og áhrifameiri samtökum var lagður af Franklin D. Roosevelt, Winston Churchill, Joseph Stalin og ráðgjöfum þeirra. Þessir menn voru fulltrúar risanna þriggja — Bandaríkjanna, Bretlandi og Sóvétríkjunum — á ráðstefnur sem haldnar voru í Moskvu, Teheran, Yalta og Dunbarton Oaks (í Washington D.C.). Reyndar var það Roosevelt bandaríkjaforseti sem valdi nafnið Sameinuðu þjóðirnar.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hélt sinn fyrsta fund í janúar 1946. Þann 1. febrúar höfðu samtökin skipað sinn fyrsta framkvæmdastjóra, normanninn Tryggve Lee. Hvernig leit hann á útnefningu sína? „Mér hafði hreinlega verið slöngvað í framkvæmdastjórasæti þessara nýju alþjóðasamtaka, til að viðhalda friði og stuðla að framförum í heimi alteknum ólgu, fátækt og stórveldasamkeppni. Þetta var ögrandi viðfangsefni sem ég hafði aldrei vogað mér að dreyma um; en það var líka martröð. . . . Ég spurði sjálfan mig aftur og aftur: Hvers vegna hafði þetta ógnvekjandi verkefni komið í hlut verkalýðs lögfræðings frá Noregi?“
Ekki var vænst mjög mikils af framkvæmdastjóra samtakanna frekar en verið hafði hjá Þjóðabandalaginu. Af því er rithöfundurinn Andrew Boyd segir gerðu stofnendur Sameinuðu þjóðanna sér ekki grein fyrir hversu víðtækt vald framkvæmdastjórans myndi verða. Boyd segir í bók sinni Fifteen Men On A Powder Keg: „Þeim [risunum þrem] kom aldrei einu sinni í hug sá möguleiki að æðsti maður hinna nýju alþjóðasamtaka myndi þurfa að stjórna alþjóðasveitum hans.“ Hann bætir við: „Þeir sáu hann sem sína sköpun, meira að segja óframfærna sköpun.“
Samt sem áður stóð skýrt og greinilega í 99. grein stofnskrárinnar: „Framkvæmdastjórinn getur vakið athygli Öryggisráðsins á hverju því máli sem getur, að hans mati, ógnað friði og öryggi á alþjóðavettvangi.“ (Leturbreyting okkar.) Eins og Tryggve Lee skrifaði: „Þessi grein leggur framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á herðar pólitíska ábyrgð sem enginn einstaklingur, engin fulltrúi einstakrar þjóðar, hefur borið áður.“ Hann ætlaði því að vera afl sem taka þyrfti tillit til.
Áhrif framkvæmdastjórans sem sáttasemjara í erfiðum deilum jukust meira að segja svo, að í Kongódeilunni, árið 1961 kallaði Dag Hammerskjöld, sem tók við af Tryggve Lee, saman 20.000 manna friðargæslusveit frá 18 löndum til að stuðla að því að setja niður deiluna. Árið 1964 stýrði U Thant, sem þá fór með framkvæmdastjóraembættið, þrem friðargæslusveitum Sameinuðu þjóðanna samtímis.
Núverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, perúmaðurinn Javier Perez de Quellar, heldur úti friðargæslusveitum sem enn eru starfandi á Kýpur og í Miðausturlöndum. Hann er einnig yfirmaður skrifstofa sem nú hafa um 7400 manna starfslið í aðalstöðvunum í New York. Um 19.000 manns í viðbót starfa á vegum Sameinuðu þjóðanna í öðrum löndum. En hafa Sameinuðu þjóðirnar, með öllum þessum mannafla, reynst öflugt verkfæri til að koma í veg fyrir styrjaldir síðastliðna fjóra áratugi?
Þær gelta en geta ekki bitið
Svarið við síðustu spurningunni hlýtur að vera bæði já og nei. Tuttugu árum eftir að Þjóðabandalagið var stofnað árið 1919 hlaut það hægt andlát þegar síðari heimsstyrjöldin braust út. Fjörutíu árum eftir stofnun sína standa Sameinuðu þjóðirnar enn í fæturna. En þótt þriðja heimsstyrjöldin hafi ekki enn brotist út hafa vissulega verið háðar margar hræðilegar styrjaldir og milljónir manna mátt þola afleiðingarnar af þeim. Stríðið í Kóreu (1950-53), í Miðausturlöndum (1948-49, 1967 og 1973) og í Indókína/Víetnam (1945-54 og 1959-75) koma samstundis upp í hugann. Sú spurning hlýtur að vakna hvers vegna Sameinuðu þjóðirnar hafi verið ófærar um að koma í veg fyrir þessi stríð.
Embættismenn Sameinuðu þjóðanna svara því til að samtökin séu aldrei sterkari en aðildarríkin leyfi þeim að vera. Stefan Olszowski, utanríkisráðherra Póllands, sagði í bréfi dagsettu 9. maí 1985: „Jafnvel fullkomnar ákvarðanir samtakanna geta ekki skilað þeim árangri, sem vænst er, fyrr en þær njóta stuðnings í gegnum pólitískan vilja aðildarríkjanna. Ég treysti því að mannkyninu takist að stöðva og snúa við för okkar í átt að hengifluginu.“
Sameinuðu þjóðirnar geta því aðeins haft fortöluvald, ekki lögregluvald og handtökuheimild. Þær eru í rauninni umræðuvettvangur heimsins, deiluvettvangur þar sem þjóðirnar bera upp klögumál sín — ef það hentar þeim. Fyrrverandi framkvæmdastjóri samtakanna, Kurt Waldheim, skrifaði: „Ef þjóðir eru ekki reiðubúnar að leggja vandamál sín fyrir Öryggisráðið geta Sameinuðu þjóðirnar lítið hjálpað þeim. . . . Að sniðganga eða virða Öryggisráðið að vettugi grefur undan áliti þess og veikir stöðu þess . . . Ég álít að þetta geti verið einhver hættulegasta þróunin í sögu Sameinuðu þjóðanna.“
Ef þjóðir aftur á móti viðra vandamál sín á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er það oft gert í þeim tilgangi að ásaka og koma með gagnásakanir. Sameinuðu þjóðirnar verða þar með vettvangur stjórnmálaáróðurs. Því má spyrja hvernig samtökin geti beitt áhrifum sínum til að stuðla að friði.
Embættismenn Sameinuðu þjóðanna svara því til að samtökin veki athygli á deilumálum og reyni að hafa þau áhrif á almenningsálitið í heiminum að stjórnvöld viðkomandi landa fari eftir því. Samtökin geta þó ekki beitt vopnavaldi til að koma í veg fyrir eða binda enda á styrjaldir. Hvaða hlutverki gegna þá þeir herir sem Sameinuðu þjóðirnar gera út?
Rit á vegum Sameinuðu þjóðanna svarar: „Algengt er að þessar hersveiti [ef talið það af Öryggisráðinu eða Allsherjarþinginu] aðstoði við að koma í veg fyrir að átök hefjist að nýju, að koma aftur á og viðhalda reglu og stuðla að því að líf færist í eðlilegt horf. Til að svo geti orðið hafa friðargæslusveitirnar vald til að beita samningaviðræðum, fortölum, athugunum og upplýsingaöflun eins og nauðsynlegt er talið. . . . Þótt sveitirnar séu vopnaðar er þeim leyft að beita vopnum sínum aðeins í sjálfsvörn.“ (Leturbreyting okkar) Tilgangur sveitanna er því sá að telja aðra af því að berjast og forðast það sjálfar.
Hvað gerir þetta í reyndinni úr Sameinuðu þjóðunum? Þetta gerir þær að varðhundi sem leyft er að gelta en má ekki bíta. En hundur sem geltir varar þó að minnsta kosti við aðsteðjandi hættu. Hvers vegna virðast Sameinuðu Þjóðirnar þá áorka svona litlu?
Þar sem valdið er
Að því er Andrew Boyd segir voru vandamál Sameinuðu þjóðanna innbyggð í stofnskrá þeirra að tilhlutan risanna þriggja. Hann segir: „Þeir sögðu hinum lítilfjörlegri þjóðum blákalt að þeir hefðu þegar ákveðið öryggisuppbyggingu Sameinuðu þjóðanna sem stórveldin myndu ráða algerlega. . . . Roosevelt, Churchill og Stalin höfðu verið fullkomlega sammála um að hin áformuðu samtök, Sameinuðu þjóðirnar, skyldu vera verkfæri til að framkvæma sameiginlegar ákvarðanir risanna þriggja. (Með kínverja og Frakka sem sérstaka félaga).“
Boyd heldur áfram: „Augljóst er að kerfi mótað af risunum þrem sjálfum myndi ekki verða til þess að þeir þyrftu að afsala sér einhverju af sínum gífurlega hernaðarmætti undir stjórn samtakanna allra, í hendur framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna . . . eða Alþjóðadómstólsins eða nokkurs annars.“ Hvernig fóru þeir að því að vernda valdaeinokun sína?
Boyd segir: „Risarnir þrír treystu ekki hver öðrum. Neitunarvaldið skyldi vera skjöldur þeirra hver fyrir öðrum, svo og gegn höfðatöluvaldi smærri ríkja.“ Þetta neitunarvald er rétturinn til að fella tillögu eða ákvörðun. Fimm fastaaðilar Öryggisráðsins, sem fimmtán ríki eiga sæti í, hafa þetta neitunarvald. Það eru Kína, Frakkland, Sovétríkin, Bretland og Bandaríkin. Til að tillaga Öryggisráðsins nái fram að ganga þarf hún því að hljóta að minnsta kosti níu atkvæði, þar á meðal allra fimm ofangreindra ríkja. Það telst þó ekki beiting neitunarvalds þótt eitt þeirra sitji hjá.
Með þessu neitunarvaldi endurspeglaði stofnskrá Sameinuðu þjóðanna „að reiknað væri með að stórveldin myndu deila.“ Slík byrjun „sameinaðra“ þjóða var ekki sérlega glæsileg.
Þrátt fyrir allt þetta er árið 1986 runnið upp og enn sem komið er hefur tekist að afstýra þriðju heimsstyrjöldinni. Sameinuðu þjóðirnar gegna enn stóru hlutverki í gangi heimsmálanna. Því má spyrja hvort rökrétt sé að ætla að Sameinuðu þjóðirnar geti verið leið Guðs til friðar?
[Rammi/tafla á blaðsíðu 6]
Framkvæmdastjóri S.Þ. og nokkur af vandamálum hans
Trygve Lie (1946-53) Stríð í Kóreu; Miðausturlöndum;
Berlínarmúrinn
Dag Hammarskjöld (1953-61) Stríð í Kongó; íhlutun
Sovétmanna í Ungverjalandi;
Miðausturlönd.
U Thant (1961-71) Stríð í Víetnam; borgarastríð í
Nígeríu/Bíafra; kreppa í Ródesíu;
stríð Indverja og Pakistana;
íhlutun Sovétmanna í
Tékkóslóvakíu; Miðausturlönd;
Kýpur; Kúbudeilan.
Kurt Waldheim (1972-81) Stríð í Víetnam; Kampútseu;
Afghanistan; Miðausturlöndum.
Javier Pérez de Cuéllar (1982-) Stríð í Líbanon;
Afghanistan; milli Íraka og
írana.
[Mynd á blaðsíðu 4]
Trygve Lie spurði: ‚Hvers vegna hefur þetta ógnvekjandi verkefni komið í minn hlut?‘
[Rétthafi]
Sameinuðu þjóðirnar
[Mynd á blaðsíðu 5]
U Thant stýrði samtímis þrem friðargæslusveitum.
[Rétthafi]
Sameinuðu þjóðirnar
[Mynd á blaðsíðu 7]
Javier Pérez de Cuéllar veitir forstöðu um 26.000 manna starfsliði.
[Rétthafi]
Sameinuðu þjóðirnar
[Mynd á blaðsíðu 7]
Kurt Waldheim skrifaði um ‚einhverja hættulegustu þróun í sögu Sameinuðu þjóðanna.‘
[Rétthafi]
Sameinuðu þjóðirnar