Sameinuðu þjóðirnar — leið Guðs til friðar?
„Ég er sannfærður um að Sameinuðu þjóðirnar eru besti vegurinn til framtíðar fyrir þá sem treysta getu okkar til að móta örlög okkar á þessari reikistjörnu.“
FYRRVERANDI framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Kurt Waldheim, lét þessa sannfæringu í ljós í bók sinni The Challenge of Peace. Þótt hann viðurkenndi galla samtakanna sagði hann: „Menn ættu að gera sér ljóst að Sameinuðu þjóðirnar eru, þegar öllu er á botninn hvolft, heimurinn í hnotskurn. Veikleika samtakanna hlýtur því að mega rekja fyrst og fremst til heimssamfélagsins sjálfs.“ Hann bætir við: „Ég vil benda á að samtökin eru ekkert annað en spegill þess heims sem þau þjóna. Heimurinn er sundurleitt samsafn afar mismunandi, oft óstýrilátra, uppstökkra og fjandsamlegra þjóða.“ En ekki sjá allir Sameinuðu þjóðirnar í svona jákvæðu ljósi.
Í bók sinni A Dangerous Place — The United Nations as a Weapon in World Politics (Hættulegur staður — Sameinuðu þjóðirnar sem vopn í alþjóðastjórnmálum) færa prófessorarnir Yeselson og Gaglione rök fyrir því að allt frá upphafi hafi Sameinuðu þjóðirnar verið vettvangur til að láta í ljós ófriðargirni, og að þær séu púðurtunna fjandskapar og pólitísks baktjaldamakks sem getur einungis kynt undir loga alþjóðlegra átaka. Og hvað um heiminn sem þær starfa í? „Það er ljótur en þó einfaldur sannleikur að heimsstjórnmálin eru afskaplega lík frumskógi. Hegðun þjóða byggist í grundvallaratriðum á því að þjóna eigin hagsmunum og bjarga sjálfum sér. Í samskiptum þjóða er hið síðarnefnda orðið að þráhyggu. Þjóðríkjakerfið býr þar með bæði við lögmál frumskógarins og siðferði hans.“ Af því leiðir að „stríð eru orðin fastur þáttur alpjóðasamskipta.“
Það er mikill munur á þessu og þeim björtu vonum sem menn báru í brjósti þegar stofnskrá Sameinuðu þjóðanna var undirrituð árið 1945! Í formála hennar sagði: „VÉR, ÞEGNAR HINNA SAMEINUÐU ÞJÓÐA, ÁKVÁÐUM að bjarga komandi kynslóðum undan plágum styrjalda sem hafa tvívegis á ævi vorri leitt ólýsanlegar sorgir yfir mannkynið . . . HÖFUM EINSETT OKKUR AÐ SAMEINA KRAFTA OKKAR TIL AÐ NÁ ÞESSUM MARKMIÐUM.“
Fjörutiú árum síðar virðast þessi orð hálf innantóm. Þjóðirnar sundra í stað þess að sameina. Enn eru styrjaldir daglegt hlutskipti milljóna manna einhvers staðar á jörðinni! Hvern einasta dag þjáist fólk og deyr sem fórnarlömb styrjalda — þrátt fyrir tilvist Sameinuðu þjóðanna.
Hver stendur í raun að baki Sameinuðu þjóðunum
Þótt bækurnar tvær, sem vitnað var í fyrr í greininni, túlki ólíkar skoðanir ná þær saman í einu óvenjulegu atriði. Waldheim segir að Sameinuðu þjóðirnar ‚séu spegill heimsins sem þær þjóna‘ og Yeselson og Gaglione líkja þeim pólitíska heimi við frumskóg. Sameinuðu þjóðirnar hljóta því að endurspegla sama lögmál hins pólitíska frumskógar sem aðildarríki þeirra byggja.
Með þetta í huga er mjög athyglisvert að gefa gaum táknmáli sem fyrir kemur í Biblíunni. Biblían talr um „dýr“ og einnig „líkneski“ þess sem annrs staðar birtist sem ‚skarlatsrautt dýr.‘ (Opinberunarbókin 13:1, 2, 14; 17:3, 8, 11) Fyrsta villidýrið táknar allt skipulag heimsstjórnamálanna sem hefur þróast síðastliðin 4000 ár og náð hátindi í þeirri pólitísku fjölbreytni sem fyrir augu ber í heiminum núna.a En hvað hlýtur þá „líkneski“ þessa dýrs að tákna?
Samkvæmt þeim hemildum, sem vitnað er í hér á undan, hvaða stofnum eða samtök endurspegla hið núverandi stjórnmálakerfi? Að sjálfsögðu Sameinuðu þjóðirnar með sínum 159 aðildarríkjum sem eru nánast öll ríki heims. (Sjá bls. 11.) Og táknmyndir Biblíunnar um villidýr koma vel heim og saman við ímyndina um ‚pólitískan frumskóg.‘ Það er hryggilegt en satt að margir stjórnmálamenn hafa komið og koma enn stjórnmálahugmyndum sínum í framkvæmd eins og villidýr — með villimannlegu drápi á milljónum manna, bæði hermanna og óbreyttra borgara, í styrjöldum sínum og pólitískum hreinsunum. Pyndinga- og dauðasveitir hafa verið og eru enn verkfæri til pólitískrar kúgunar. Og flestar slíkar stjórnir og hugmyndastefnur eiga sér virðulega fulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum.
Er rökrétt að ætla, í ljósi þessa, að Sameinuðu þjóðirnar geti verið leið Guðs til friðar, einkum þegar haft er í huga að samkvæmt einföldustu skilgreiningu ‚er Guð kærleikur‘? (1. Jóhannesarbréf 4:8) En ef Sameinuðu þjóðirnar eru ekki lausn Guðs á vandamálum heimsins, hver stendur þá í raun á bak við Sameinuðu þjóðirnar?
Biblían lætur okkur ekki ganga þess dulin hvaðan „dýrið,“ stjórnmálakerfið, og „líkneski“ þess, Sameinuðu þjóðirnar, séu komnar. Í Opinberunarbókinni 13:2 lesum við: „Drekinn gaf því mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið.“ Hvern táknar „drekinn“? Sami biblíuritari skýrir frá því að „drekinn“ sé ‚sá sem heitir djöfull og Satan, hann sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina.‘ En á hvaða hátt afvegaleiðir Satan allan heiminn? — Opinberunarbókin 12:9.
Með hvers kyns stjórnmálaáformum og hugmyndafræði, þar á meðal Sameinuðu þjóðunum, beinir Satan, hinn upphaflegi lygari, athygli mannkynsins frá eina sanna veginum til friðar og öryggis — stjórn Guðsríkis yfir jörðinni. (Jóhannes 8:44) Í nærfellt 2000 ár hafa þeir sem játuðu kristna trú beðið: „Til komi þitt ríki.“ Fæstir höfðu þó meira en óljósa mynd af því hvað átt væri við með hugtakinu Guðsríki. Hvað merkir það fyrir þig? Núna, þegar þetta ríki er svo nálægt, er brýnt að hafa réttan skilninga á því. — Matteus 6:9, 10.
Þeir sem skrifa greinar í Vaknið! vita af eigin reynslu að fjölmargt einlægra manna vinnur að því að markmið Sameinuðu þjóðanna náist. Þessir einlægu menn gera sér líka grein fyrir veikleikum samtakanna, en eins og Kurt Waldheim og fleiri trúa þeir að þau séu eina von mannkynsins um varnalegan frið og öryggi. Þeim er ekki kunnugt um neina betri lausn. En það er til önnur lausn sem þeir hafa kannski látið sér yfirsjást — stjórn Guðsríkis. — Opinberunarbókin 11:15.
Eini vegurinn til friðar
Biblían sýnir fram á að ríki Guðs sé himnesk stjórn, það er að segja stjórn af himnum ofan yfir jörðinni. (Daníel 2:44; Opinberunarbókin 21:1-4) Þessi stjórn Guðsríkis í höndum Krists er þegar starfandi um allan heim og er að búa fólk af öllum þjóðum undir eilíft líf undir stjórn sinni. Þessi hópur manna af öllum þjóðum og tungumálum er fullkomlega sameinaður og þekktur undir heitinu vottar Jehóva. Þeir eru í sannleika „sameinaðar þjóðir“ sem hafa nú þegar ‚smiðað plógjárn úr sverðum sínum.‘ Þeir hafa líka slitið af sér fjötra kynþáttamisréttis og þröngsýnnar þjóðernishyggju sem hefur verið kölluð „sterkasta og hættulegasta afl í alþjóðastjórnmálum.“ Þessir fjötrar binda enn hendur Sameinuðu þjóðanna. — Jesaja 2:2-4.
Í gegnum einkanám í Bibíunni vita vottar Jehóva að einungis ríki Guðs getur fært þessari jörð sannan og varanlegan frið, og að sá tími er mjög nálægur að Guðsríki láti til skarar skríða. (Lúkas 21:31-33; Opinberunarbókin 16:14, 16) Þér kann að vera spurn hvaða aðgerðir hér sé átt við. Átt er við eyðingu þeirra sem eru af ásetningi að leggja jörðina í rúst. (Opinberunarbókin 11:18) Það felur í sér að knosa öll stjórnmálaöfl sem valda sundrung. (Daníel 2:44) Vottar Jehóva hafna því gervilausn Satans — Sameinuðu þjóðunum — sem ófullnægjandi. En hvers vegna eru þær ófullnægjandi?
Hinn hollenski 17. aldar heimspekingur Spinoza skilgreindi frið sem annað og meira en aðeins það ástand að ekki sé stríð. Hann sagði: „Hann er dyggð, hugarástand, hneigð til góðvildar, trausts, réttvísi.“ Slíku verður einungis náð með því að uppfræða fólk í kærleika og samlyndi í stað haturs og sundrungar. Biblíuritarinn Jakob skrifaði: „Ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja.“ (Jakobsbréfið 3:18) Með fræðslustarfi sínu um allan heim eru votta Jehóva að kenna fólki friðarvegu Guðs, því að orð hans segir: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ — Jesaja 54:13.
Ef þig langar til að vita meira um Guðsríki og stjórn þess skalt þú ekki hika við að hafa samband við votta Jehóva í þínu byggðarlagi. Þeir munu fúslega hjálpa þér að kynnast vegi Guðs til friðar.
[Neðanmáls]
a Nánari skýringar á þessum táknmyndum Biblíunnar er að finna í bókinni „Then Is Finished the Mystery of God,“ 22. og 23. kafla, útgefin af Watchtower Bible an Tract Society og New York, Inc. Sjá einnig Varðturninn 1. mars 1986, bls. 3-7.
[Rammagrein á blaðsíðu 11]
Nokkur þeirra helstu vandamála sem varða mörg aðildarríki Sameinuðu þjóðanna
1. Kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaup og árekstrar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.
2. Efnahagslegt ójafnvægi milli norðurs og suðurs; erlend skuldakreppa þróunarlandanna.
3. Hungur og fátækt í Afríku, hægfara breyting meginlandsins í eyðimörk.
4. Alþjóðaverslun með fíkniefni.
5. Alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi.
6. Aðskilnaðarstefna Suður-Afríku og samband við grannríki.
7. Sjálfstæði Namibíu gagnvart Suður-Afríku.
8. Ísrael og Palestínudeilan.
9. Ólgan í Líbanon.
10. Stríð Írana og Íraka.
11. Suðaustur-Asía, herseta Víetnama í Kampútseu.
12. Mið-Ameríka, skæruhernaður í El Salvador og Nícaragua.
13. Afghanistan, íhlutun Sovétríkjanna.
14. Flóttamannavandamálið sem snertir yfir 10. milljónir manna.
15. Mannréttindabrot.
Þessi skrá er byggð á ræðum á 39. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1984 þar sem sátu 150 fulltúra, þeirra á meðal 16 þjóðhöfðingjar eða forsætisráðherrar. (Sjá UN Chronicle, XXI, 8. tölubl. 1984.)
[Rammagrein á blaðsíðu 11]
Fjölgun aðildaríkja S.Þ.
1945 51 ríki: Mið- og Suður-Ameríka 19; Evrópa 14; Asía 2; Miðausturlönd 7; Afríka 3; Kyrrahafsríki 3; Norður-Ameríka 3.
1950 60 ríki: Mið- og Suður-Ameríka 19; Evrópa 16; Asía 7; Miðausturlönd 9; Afríka 3; Kyrrahafslönd 3; Norður-Ameríka 3.
1960 100 ríki: Mið- og Suður-Ameríka 19; Evrópa 27; Asía 13; Miðausturlönd 10; Afríka 25; Kyrrahafslönd 3; Norður-Ameríka 3.
1970 127 ríki: Mið- og Suður-Ameríka 23; Evrópa 28; Asía 16; Miðausturlönd 12; Afríka 41; Kyrrahafslönd 4; Norður-Ameríka 3.
1980 154 ríki: Mið- og Suður-Ameríka 29; Evrópa 30; Asía 19; Miðausturlönd 16; Afríka 50; Kyrrahafslönd 7; Norður-Ameríka 3.
1985 159 ríki: Mið- og Suður-Ameríka 32; Evrópa 30; Asía 20; Miðausturlönd 16; Afríka 50; Kyrrahafslönd 8; Norður-Ameríka 3.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Fánar 159 aðildarríkja blakta við hún fyrir framan byggingu Sameinuðu þjóðanna.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Hverjir hafa nú þegar ‚smíðað plógjárn úr sverðum sínum‘?