Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g86 8.7. bls. 3-5
  • Hvernig heimurinn ánetjaðist

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvernig heimurinn ánetjaðist
  • Vaknið! – 1986
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Styrjaldirnar sem kveiktu eftirspurn
  • Ánetjaður!
  • Ávaninn kæfir andspyrnuna
    Vaknið! – 1986
  • Horfst í augu við staðreyndirnar: Staða tóbaksmála núna
    Vaknið! – 1986
  • Eru reykingar í alvöru svona slæmar?
    Vaknið! – 1991
  • Vertu viðbúinn hindrunum
    Vaknið!: Að hætta að reykja
Vaknið! – 1986
g86 8.7. bls. 3-5

Hvernig heimurinn ánetjaðist

BANDARÍSKI öldungadeildarþingmaðurinn reykir tvo pakka af sígarettum á dag. „Ég veit að það mun stytta líf mitt . . . það mun sennilega drepa mig,“ sagði hann starfsbræðrum sínum í umræðum um aðstoð við tóbaksbændur til að halda uppi tóbaksverði. „Ég harma þann dag er ég ánetjaðist þessum óþverra.“

Þingmaðurinn er ekki einn um það að harma slíkt. Sumir áætla að 90 af hundraði reykingamanna þar í landi hafi annaðhvort reynt að hætta eða vilji hætta reykingum. Og árið 1983 tókst tveim milljónum Japana að hætta reykingum. Heimildarmaður segir: „Nálega allir reykingamenn virðast harma það að þeir skyldu nokkurn tíma byrja að reykja, og vara börnin sín við að fylgja fordæmi sínu.“

En hvernig ánetjuðust allir þessir reykingamenn, sem eru núna fullir eftirsjár, tóbakinu? Robert Sobel orðar það svo að einhvern veginn, “hvað sem það kann að hafa í för með sér til góðs eða ills, virðist hinn siðmenntaði heimur harðgiftur þessum pappírshólkum með örlitlu söxuðu tóbaki innan í.“ Eitt hinna sex risafyrirtækja sígarettuiðnaðarins er með um fjórðung úr milljón starfsmanna. Árleg sala þess í 78 löndum á sex meginlöndum nemur tíu milljörðum bandaríkjadala eða yfir 400 milljörðum íslenskra króna. Hvernig gat svona ávani, sem enginn virðist óska eftir, skapað slíka eftirspurn að heilan risaiðnað þyrfti til að fullnægja henni?

Saga sígarettunnar er kannski eitt af því undarlegasta sem gerst hefur síðastliðin hundrað ár. Tvær styrjaldir 19. aldarinnar voru kveikjan að þessari ótrúlegu eftirspurn eftir tóbaki á okkar öld sem stundum hefur verið nefnd sígarettuöldin. Ný iðngrein ásamt auglýsingum blés í glæðurnar. Og nýtt afbrigði tóbaks — ljósgult, milt og með ólíka efnasamsetningu — hvatti menn til að soga reykinn ofan í sig. Þessi breyting á reykingavenjum, að anda að sé reyknum, tryggði að flestir reykingamenn yrðu þrælar reykinga það sem eftir væri ævinnar.

Styrjaldirnar sem kveiktu eftirspurn

Tóbak var rándýr munaðarvara fram til 1856 þegar sígarettur fundu sinn fyrsta fjöldamarkað. Það var þegar breskir og franskir hermenn sneru heim frá Krímstríðinu með „pappírsvindlana“ og ávanann sem þeir höfðu lært þar. Sígarettureykingar fóru eins og tískufaraldur um Evrópu þvera og endilanga og skapaði óvænta eftirspurn eftir tyrkneskum sígarettum eða enskum eftirlíkingum þeirra.

„Krímfaraldurinn“ gerði sígarettuna að ódýrum staðgengli pípunnar eða vindilsins á stríðstímum. En þessi tískufaraldur gekk yfir og dó. Auk þess, eins og Robert Sobel bendir á, „virtist engin leið á sjöunda áratug 19. aldar að fá millistéttarkarlmenn í Ameríku — sem var helsti markaður fyrir tóbak — til að taka upp sígarettureykingar.“ Reykurinn úr þessum sígarettum var ekki eins freistandi og úr sígarettum okkar daga. Eins og vindlareykur var hann ögn alkalískur og menn héldu honum í munninum. Ekki var með nokkrum þægilegum hætti hægt að draga reykinn ofan í sig eins og flestir sígarettureykingamenn gera nú á dögum. En nú var komið að næsta skrefi hinnar óvæntu þróunar.

Á tímum borgarastyrjaldarinnar í Bandaríkjunum (1861-65) kom til skjalanna tóbak með sterkari ávanaáhrif en áður höfðu þekkst. Sérfræðingur í tóbaksmálum, Jerome E. Brooks, líkti áhrifunum við „sprengikraft.“ Enn sem fyrr var það styrjöld sem færði hermönnum ódýrar sígarettur — fyrst hermönnum Suðurríkjanna, síðan Norðurríkjanna. En núna var ekki um neina stundartísku að ræða.

Í þessar sígarettur var notað amerískt tóbak og það var ólíkt því sem áður hafði verið notað. Amerískir tóbaksræktendur höfðu tekið til ræktunar nýtt afbrigði tóbaks sem óx vel í köfnunarefnissnauðum jarðvegi þeirra. Auk þess hafði, fyrir hreina tilviljun, uppgötvast verkunaraðferð á bújörð í Norður-Karólínu sem gerði tóbakslaufið skærgult, milt og sætt. Árið 1860 kallaði bandaríska manntalsskrifstofan þetta „einhverja óeðlilegustu þróun í akuryrkju sem heimurinn hefur kynnst.“ Eftir að hafa reykt fáeinar sígarettur með þessu nýstárlega tóbaki fundu nýir reykingamenn fyrir illviðráðanlegri löngun til að kveikja sér í nýrri sígarettu.

Ánetjaður!

Menn skildu ekki á þeim tíma að þessi litli markaður, sem jókst hægt og bítandi, var orðinn líkamlega háður eða ánetjaður mjög svo vanabindandi efni. „Sá sem reykir óreglulega fleiri en tvær eða þrjár sígarettur á unglingsárunum“ verður nánast ófrávíkjanlega „ávanareykingamaður,“ segir dr. Michael A. H. Russell sem fæst við rannsóknir á fíkniávana. „Ólíkt unglingi sem sprautar sig með heróíni einu sinni eða tvisvar í viku til að byrja með, er ungur reykingamaður búinn að fá um 200 ‚skammta‘ af níkótíni í röð þegar hann hefur lokið fyrsta sígarettupakkanum sínum.“

Já, leyndardómurinn var sá að menn önduðu að sér reyknum. Svo virðist sem níkótín síist í gegnum og erti slímhúðina aðeins í alkalísku umhverfi. Sígarettureykur er örlítið súr og því eini tóbaksreykurinn sem er nógu mildur fyrir munn og háls til að hægt sé að anda honum að sér með góðu móti. En í lungunum hlutleysist sýran og níkótínið streymir yfir í blóðrásina. Á aðeins 7 sekúndum berst níkótínið með blóðinu til heilans svo að hvert reyksog skilar nánast tafarlausum áhrifum. Að því er fram kemur í skýrslu breskra yfirvalda eru aðeins 15 prósent líkur á að unglingar, sem reykja fleiri en eina sígarettu, ánetjast ekki.

Á sama áratug og Krímstríðið var háð hafði sígarettuiðnaðurinn þannig búið til nýjan og illviðráðanlegan ávana. Innan 20 ára datt tóbakskaupmönnum það snjallræði í hug að nota grípandi dagblaðaauglýsingar og meðmæli til að laða að nýja viðskiptavini. Vél, sem fengið var einkaleyfi fyrir árið 1880, fjöldaframleiddi sígarettuna og hélt verðinu lágu, en myndir af íþróttahetjum og brosandi ungmeyjum seldi karlmönnum sígarettuímyndina. En hvað fékk þá til að koma sífellt aftur og kaupa meira? Níkótínánauð! Eins og læknirinn William Bennett, sem skrifar um heilbrigðismál, orðar það: „Vélvæðing, snjallar auglýsingar og markaðstækni hafði sitt að segja, en [án níkótíns] hefði þeim aldrei tekist að selja mikið af þurrkuðu káli.“

Um aldamótin 1900 var sígaretta nútímans, sem þá var orðin alþjóðlegt fyrirbæri, albúin að herða tök sín á heiminum.

[Innskot á blaðsíðu 5]

Nýr reykingamaður fær 200 níkótínskammta úr fyrsta sígarettupakkanum sínum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila