Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g86 8.7. bls. 6-7
  • Ávaninn kæfir andspyrnuna

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ávaninn kæfir andspyrnuna
  • Vaknið! – 1986
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Ávaninn herðir tökin
  • Hinn voldugi tóbaksiðnaður
  • Hvernig heimurinn ánetjaðist
    Vaknið! – 1986
  • Horfst í augu við staðreyndirnar: Staða tóbaksmála núna
    Vaknið! – 1986
Vaknið! – 1986
g86 8.7. bls. 6-7

Ávaninn kæfir andspyrnuna

EINS og maður sem ekki vill hætta reykingum, hefur sígarettumarkaðurinn stundum dregið úr neyslu sinni af ótta við að reykingar gætu verið skaðlegar og vanabindandi, til þess eins að verða enn forhertari eftir á. Hvað er það sem bægir slíkum ótta frá? Auglýsingar og stríð! Þetta tvennt hefur verið „tvær þýðingarmestu aðferðirnar til að útbreiða notkun sígarettunnar,“ að því er sagnfræðingurinn Robert Sobel segir.

Sígarettureykingar jukust stórum þegar ‚þjóð reis gegn þjóð‘ í fyrri heimsstyrjöldinni. (Matteus 24:7) Hvað jók ársframleiðslu Bandaríkjanna úr 18 milljörðum sígarettna árið 1914 upp í 47 milljarða árið 1918? Krossferð fyrir ókeypis sígarettum handa hermönnum! Sljóvgandi og sefandi áhrif tóbaksins voru álitin vinna gegn einmanaleikanum á vígstöðvunum.

„Pakkaðu erfiðleikunum þínum í gamla hermannapokann þinn; kveiktu þér í sígarettu meðan þú átt til eldspýtu,“ segir í bresku söngljóði frá stríðsárunum. Ekki einu sinni baráttumenn gegn sígarettureykingum þorðu að láta í sér heyra þegar stjórnvöld og þjóðernishópar sáu hermönnum fyrir ókeypis sígarettum.

Ávaninn herðir tökin

Nýbakaðir reykingamenn urðu ágætis viðskiptavinir að stríðinu loknu. Árið 1925 reyktu Bandaríkjamenn að meðaltali 700 sígarettur á mann á ári. Eftir stríðið var Grikkland um hálfdrættingur á við Bandaríkin. Amerískar sígarettur urðu eftirsóttar víða um lönd, en önnur, svo sem Indland, Kína, Japan, Ítalía og Pólland, ræktuðu eigið tóbak til að fullnægja þörfum heimamanna.

Auglýsendur beindu nú athygli sinni að kvenþjóðinni til að auka hlut hins ameríska markaðar. „Tóbaksauglýsingum síðari hluta þriðja áratugsins er rétt lýst með orðinu ‚vitskertur,‘“ segir Jerome E. Brooks. En auglýsingar tryggðu það að Ameríkanar héldu áfram að kaupa sígarettur í og eftir kreppuna miklu árið 1929. Gífurlegu fé (um 75 milljónum bandaríkjadala árið 1931) var varið til að auglýsa sígarettuna sem hjálp til að halda sér grönnum og ágætis valkosti í stað sælgætis. Í kvikmyndum trónuðu stjörnur, svo sem Marlene Dietrich, með sígarettu á lofti og átti það sinn þátt í að skapa þá ímynd að hin veraldarvana heimskona reykti sígarettur. Árið 1939, við upphaf nýrrar heimsstyrjaldar, gengu því amerískar konur í lið með karlmönnum í að reykja 180 milljarða sígarettna.

Ný styrjöld! Enn á ný fengu hermenn ókeypis sígarettur, jafnvel með matarskammti sínum úti á vígvellinum. „Lucky Strike Green [vinsæl sígarettutegund] er farin í stríðið!“ sagði í auglýsingu sem færði sér í nyt ættjarðarhita stríðsáranna. Við lok síðari heimsstyrjaldarinnar var ársneysla Bandaríkjanna talin 400 milljarða sígarettna. Hver gat nú véfengt stöðu tóbaksins í heiminum?

Já, hver gat véfengt mikilvægi sígarettunnar í Evrópu eftirstríðsáranna þar sem sígarettur komu um tíma í stað gjaldmiðils á svörtum markaði? Bandarískir hermenn í Evrópu keyptu niðurgreiddar sígarettur fyrir allt niður í 5 sent pakkann og notuðu þær sem gjaldmiðil til að greiða fyrir hvaðeina — allt frá nýjum skóm til vinkvenna. Skattfrjáls sígarettusala til hermanna rauk úr 5400 sígarettum á mann árið 1945 upp í 21.250 á aðeins tveim árum.

Um áratuga skeið tókst með ágætum að halda öllum óæskilegum hliðum tóbaksreykinga utan almenns umræðuvettvangs — ekki svo að skilja að rök gegn reykingum hafi verið hrakin, heldur hurfu þau einfaldlega í skuggann af óstöðvandi vexti þessa vinsæla ávana. Á óopinberum vettvangi var sú spurning hins vegar áleitin hvort reykingar væru skaðlegar.

Árið 1952 kom spurningin um áhrif reykinga á heilsuna skyndilega upp á yfirborðið. Breskir læknar birtu þá niðurstöður nýrra rannsókna sem sýndu fram á að krabbameinssjúklingar voru oft miklir reykingamenn. Tímaritið Reader’s Digest lét málið til sín taka og kynnti það vel og rækilega. Árið 1953 virtist sem herför mikil gegn reykingum ætlaði að heppnast með ágætum. Myndi heimurinn hætta reykingum?

Hinn voldugi tóbaksiðnaður

Á opinberum vettvangi hélt sígarettuiðnaðurinn því ákveðið fram að ekki væri sannað að sígarettureykingar væru hættulegar; hér væri aðeins um tölfræðilega úttekt að ræða. En skyndilega — og kaldhæðnislega — afhjúpaði hann leynivopn sitt, sígarettu með litlu tjöruinnihaldi. Látið var líta svo út að nýja sígarettan væri hættulaus og heilbrigð. Það veitti fróun skelfdum reykingamönnum sem vildu ekki hætta. Enn á ný sannaði það sig að með auglýsingum var hægt að selja ákveðna ímynd.

Í reynd hafa sígarettur með litlu tjöruinnihaldi gert meira til að bæta samvisku reykingamannsins en heilsu hans. Vísindamenn komust síðar að því að reykingamenn bættu sér upp missinn með því að draga reykinn dýpra að sér og halda honum lengur niðri í sér, svo að þeir fengju síst minna níkótín en áður. En heill aldarfjórðungur átti eftir að líða áður en vísindamenn gátu sýnt fram á það. Á meðan sannaði sígarettuiðnaðurinn sig vera einhverja ábatasömustu iðngrein veraldar með ársveltu yfir 40 milljarða bandaríkjadala.

Tóbaksiðnaðurinn stendur nú traustari fótum efnahagslega en nokkru sinni fyrr. Fólk heldur áfram að kaupa sígarettur. Neyslan eykst um einn af hundraði ár hvert í iðnríkjum heims og yfir 3 af hundraði í þróunarlöndum þriðja heimsins. Í Pakistan er söluaukningin sexfalt meiri og í Brasilíu áttfalt meiri en í flestum vestrænum ríkjum. Thaílendingar nota um fimmtung launatekna til að kaupa sígarettur.

Fyrir margan hugsandi mann er heljartak þessa aldargamla ávana engan veginn endir málsins. Getur annað og meira en það sem sést á yfirborðinu legið að baki hinni ótrúlegu aukningu á notkun tóbaks, einkanlega eftir 1914, og hinu nánast blinda samþykki fjöldans? Hvað um þær spurningar sem sjaldan eru ræddar, svo sem siðfræði reykinga? Eru reykingar siðferðilega hlutlausar eða ámælisverðar? Í greininni á eftir er rætt um það.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Auglýsingar og stríð — tvær mikilvægustu aðferðirnar til að auka sígarettureykingar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila