Hulunni svipt af geðsjúkdómum
„Mig hryllti við tilhugsuninni um geðveiki!“ segir Irene. „Orð eins og ‚geðklofi‘ eða ‚þunglyndi‘ voru hreinlega ekki til í orðaforða mínum. Geðveiki var smánarblettur. Hún þýddi það að ‚brjálast‘ eða vera ‚komið fyrir‘ á geðveikrahæli! Sumir vina minna héldu meira að segja að ég væri haldin illum anda!“
VITFIRRING, brjálsemi, geggjun. Þessi orð vekja óhug og sumum detta í hug bólstraðir einangrunarklefar og spennitreyjur. En geðsjúklingar eru ekki allir bandóðir brjálæðingar. Ekki eru heldur allir truflaðir á geðsmunum sem eru undarlegir í háttum eða sérvitrir.
Sérhverri tegund geðveiki fylgja ákveðin sjúkdómseinkenni. Geðhvarfasýki lýsir sér til dæmis með sveiflum milli þunglyndis og oflyndis, ofsakæti og sjúklegrar depurðar. Sjúklegt þunglyndi lýsir sér oft með lamandi, látlausum dapurleika.a Kvíðni, til dæmis órökrænn, sjúklegur ótti eða hræðsla við eitthvað, nefnd fælni, getur hreinlega lamað fórnarlamb sitt.
Í þessari grein og þeirri sem á eftir fer munum við hins vegar beina athygli okkar að sjúkdómi sem kalla mætti geðveiki í sinni fyllstu mynd.
Kleifhugasýki — dekksta hlið geðsjúkdóma
Meðan Irene var á spítalanum endurtók það sig að hún héldi ókunnugt fólk vera löngu látna ættingja, og faðmaði stundum að sér lækna og hjúkrunarkonur. Hún ímyndaði sér að hún fyndi hina og þessa lykt sem enginn annar gat fundið. Hún varð sannfærð um að starfslið sjúkrahússins ætlaði sér að drepa hana! „Einu sinni þurfti að binda mig niður í rúmið,“ viðurkennir hún.
Sjúkdómsgreiningin hljóðaði upp á geðklofa eða kleifhugasýki, en það er sjúkdómur sem hrjáir að minnsta kosti einn mann af hverjum hundrað. Yfir 100.000 ný tilfelli eru greind á ári í Bandaríkjunum einum.b
Þótt ætla mætti af nafninu kleifhugasýki lýsir hún sér ekki með klofnum persónuleika í þeim skilningi að sjúklingurinn sé með tvískiptan eða margskiptan persónuleika (það er annar sjúkdómur og mun sjaldgæfari) heldur sködduðum persónuleika. Tökum sem dæmi ungan mann að nafni Jerry. Læknirinn hans lýsir honum sem ‚skólabókardæmi‘ um kleifhugasýki. Eina stundina eru augu hans sviplaus en aðra ógnvekjandi og skjóta gneistum af fjandskap. Mál hans er samhengislaus hrærigrautur ótta („menn hafa kallað mig hingað til að taka mig af lífi með raflosti“) og hugvillu („þessi mynd er með höfuðverk“). Raddir hið innra skelfa hann. Heilinn í honum gengur berserksgang.
Einkenni kleifhugasýki eru margbreytileg og undarleg: skynvillur, raddir hið innra, samhengislaust hugsanaferli, órökrænn ótti og tilfinningar sem virðast úr öllu samhengi við veruleikann. Hvað veldur þessum sjúkdómi? Fyrir aðeins einum áratug sökuðu læknar foreldra um að vera valda að geðveiki barna sinna. Nú telja sumir nær sanni að geðsjúk börn gangi nærri heilsu foreldra sinna, því að þeir sem eiga kleifhugasjúk börn þurfa að þola gífurlegt, andlegt álag.
Flestir læknar eru því þeirrar skoðunar núna að það hafi verið mistök að skella skuldinni á foreldrana. Að sjálfsögðu hvetur Biblían foreldra til að reita börn sín ekki til reiði eða angra stöðugt (Kólossubréfið 3:21), en jafnvel þótt þeir geri það er fremur ólíklegt að það eitt geti valdið kleifhugasýki hjá börnunum. Hún á rætur sínar að rekja til atvika sem foreldrar ráða engu um.
Erfðir
Njáll og Haukur (dulnefni) voru tvíburar, mjög líkir. Strax eftir fæðingu skildu leiðir; Njáll ólst upp hjá ástríkum fósturforeldrum en Haukur hjá sinnulausri ömmu. Á unga aldri tók að bera á geðveiki hjá þeim báðum. Njáll kveikti í og stal. Haukur var líka hrifinn af eldi — og því að kvelja hunda. Fullþroskuð kleifhugasýki fylgdi í kjölfarið og báðum var komið fyrir á geðveikrahæli.
Var þetta hrein tilviljun eða berst kleifhugasýki með erfðavísunum? Vitað er um níu dæmi þess að tvíburar hafi alist upp sitt í hvoru lagi og fram hafi komið kleifhugasýki hjá báðum þeirra, og fimm að auki þar sem sjúkdómurinn kom fram hjá öðrum tvíburanum. Öll rök hníga að því að erfðavísarnir eigi þátt í kleifhugasýki. Athyglisvert er þó að einungis 46% líkur eru á að börn tveggja kleifhugasjúklinga fái sjúkdóminn. „Ef ráðandi gen bæri með sér kleifhugasýki ættu 75 af hundraði barnanna að fá hana,“ segir í bókinni Schizophrenia: The Epigenetic Puzzle.
Meira en erfðavísarnir hljóta að eiga hlut að máli. Höfundar bókarinnar Mind, Mood, and Medicine koma með þessa tilgátu: „Alkunna er að sálræn reynsla — til dæmis bardagastreita — getur haft veruleg áhrif á efna-, hormóna- og lífeðlisfræðilega starfsemi líkamans. Oft er hægt að benda á að andleg reynsla hafi hleypt geðsjúkdómnum af stað hjá viðkvæmum einstaklingum.“ Og hvert er þá hlutverk arfberanna? Dr. Wender og dr. Klein halda áfram: „Við álítum að erfðaþættir geti gert einstakling viðkvæman fyrir tilfinningareynslu af ákveðnu tagi.“ Þótt kleifhugasýki sem slík sé kannski ekki arfgeng má vel vera að tilhneiging til að fá hana gangi í erfðir.
Afbrigðilegur heili
Í ritinu Schizophrenia Bulletin er vikið að annarri vísbendingu um orsakir þessa undarlega sjúkdóms: „Fyrirliggjandi gögn benda til að heili kleifhugasjúklinga sé oft afbrigðilegur.“
Dr. Arnold Scheibel heldur því fram að í kambi sem liggur eftir hvelholum heilans (hippocampus) sé taugafrumunum í heilbrigðu fólki raðað „næstum eins og örlitlum hermönnum,“ en að í heilum sumra kleifhugasjúklinga séu „taugafrumurnar og starf þeirra í algerri ringulreið.“ Hann álítur þetta geta skýrt skynvillur og hugvillur kleifhugasjúkra. Komið hefur í ljós að heilahol sumra kleifhugasjúklinga eru óvenjustór. Hvað forvitnilegust er sú uppgötvun að lífefnafræði heilans í geðsjúkum kunni að vera afbrigðileg! (Sjá greinina á eftir.)
Enn sem komið er hefur þó enginn einstakur afbrigðileiki eða lífefnafræðilegur galli fundist er sé sameiginlegur öllum kleifhugasjúklingum. Læknar álíta því að kleifhugasýki kunni að vera „margs kyns kvillar af fjölmörgum, ólíkum orsökum.“ (Schizophrenia: Is There an Answer?) Hægvirk veira, vítamínskortur, efnaskiptatruflanir og ofnæmi fyrir vissum fæðutegundum eru aðeins fáein dæmi um það sem álitið er geta átt þátt í kleifhugasýki.
En þrátt fyrir að nákvæm orsök og gangur sjúkdómsins sé enn hulinn læknavísindum segir dr. E. Fuller Torrey: „Kleifhugasýki er heilasjúkdómur; það er vitað með öruggri vissu. Hún er jafnraunverulegt vísinda- og líffræðilegt fyrirbæri eins og sykursýki, mænusigg og krabbamein.“ Margt bendir til að sinnisveiki, svo sem þunglyndi, eigi sér líka að einhverju leyti líffræðilegar orsakir.
Geðsjúkdómar eru ekki lengur hjúpaðir þeim dularblæ sem áður var — né smánarblæ. Möguleikinn á að meðhöndla þá er nú orðinn áþreifanlegur veruleiki.
[Neðanmáls]
a Sjá Vaknið! (enska útgáfu) þann 8. september 1981.
b Tíðni kleifhugasýki er há í Svíþjóð, Noregi, á vesturhluta Írlands, í norðurhluta Júgóslavíu og fjölmörgum þróunarlandanna.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Margt getur átt þátt í að geðsjúkdómar geri vart við sig.
Erfðir?
Umhverfi?
Afbrigðilegur heili?
Efnaskortur?
Matarræði?