Er hægt að lækna geðsjúkdóma?
„Það var farið með mig á spítala,“ heldur Irene áfram. „Ég hafði gaman af að rabba við sálfræðingana, en það hjálpaði mér lítið. Síðan var ég látin í raflostmeðferð. Ég var dauðhrædd, en meðferðin kom að litlu gagni.
Maðurinn minn taldi mig þá á að setjast með sér út í bíl. Ég hélt að ég væri að fara heim en skyndilega staðnæmdumst við fyrir framan stóra samstæðu eldgamalla tígulsteinsbygginga. ‚Hvar erum við?‘ spurði ég manninn minn. ‚Ég vil að þú komir með mér þangað inn til að tala við mann,‘ sagði hann. Þá rann upp fyrir mér að þetta væri geðveikrahæli . . .“
VEIKINDI Irene gusu upp árið 1955 en þá var kominn fullur skriður á geðheilbrigðisbyltinguna. Verið var að þróa ný lyf og lyfjameðferðir til að draga úr skurðaðgerðum. Læknar uppgötvuðu að þegar geðsjúklingum voru gefin þessi lyf „var hægt að láta eftirlitslausa sjúklinga sem áður höfðu þurft að vera í einangrunarklefum eða spennitreyju. . . . Lyfin eyddu með öllu áhrifum sumra geðsjúkdóma.“ (The Brain eftir dr. Richard M. Restak) Kleifhugasýkin er sem fyrr gott dæmi til að lýsa þeirri byltingu sem þessi lyf ollu á sviði geðverndar.
Læknar Irene gáfu henni nýtt geðlyf. Með lyfjameðferð náðist sá árangur sem ekki hafði náðst með sálkönnun og raflostmeðferð. Irene og þúsundir hennar líkar gátu yfirgefið geðveikraspítalana og farið heim.
Haldið í skefjum með lyfjum
Læknar vissu ekki með hvaða hætti verkjan lyfjanna var. Þó virtist sem þau lokuðu móttökustöðvum heilans sem að jafnaði taka við efni er nefnist dópamín. Þegar dregið var úr starfsemi dópamíns með þessum hætti batnaði sumum sjúklinganna verulega. Þegar gefin voru lyf sem juku áhrif dópamíns í heilanum versnaði sjúklingum oft. Þar með hafði opnast smá innsýn í efnafræði geðsjúkdóma. (Sjá rammann til hliðar.)
Margt er enn á huldu um kleifhugasýki. Þó er fullreynt orðið að með ákveðnum geðlyfjum má ná góðum árangri í baráttunni gegn sjúkdómnum. Því miður segja læknar að hvorki lyf né nokkur önnur meðferð hrífi á um þriðjung kleifhugasjúkra. Og, þegar best lætur, hjálpa lyfin aðeins til við að halda kleifhugasýki í skefjun, ekki lækna hana — að draga úr eða eyða með öllu hinum tryllingslegu og bráðu einkennum sjúkdómsins. Samt sem áður eru þau mikil framför frá skurðaðgerð eða spennitreyju.
Engin ástæða er því til að líta á fólk, sem notar þessi lyf, sem veiklundað eða lyfþræla. Geðlyf þessi eru ekki vanabindandi, valda ekki vímuástandi og eru ekki tekin til skemmtunar. Dr. E. Fuller Torrey líkir þessum geðlyfjum við „insúlín handa sykursjúkum.“ Og dr. Jerrold S. Maxmen segir: „Þeir sem taka slík lyf eru ekki ‚að flýja vandamál sín‘ heldur horfast í augu við þau.“
En Irene komst fljótlega að raun um að lyfin höfðu ýmis aukaáhrif.
Aukaverkanir lyfja
„Mér leið eins og dauðyfli,“ segir Irene frá. „Ég gat ekki gegnt hlutverki mínu. Ég man að ég svaf stundum upp í 16 stundir á sólarhring.“ Það hallaði undan fæti hjá henni. Hún reyndi að hætta lyfjatökunni — til þess eins að lenda aftur á geðsjúkrahúsinu.a
Sumir finna til mjög slæmra hliðarverkana, allt frá eirðarleysi, svima og drunga upp í gulu, lost og offitu. Ein hinna óæskilegu aukaverkana, sem hrjáir á bilinu 10 til 20 af hundraði sjúklinga sem nota geðlyf til langs tíma, eru ósjálfráðir kippir í andliti eða munnviprur.
Með því að læknar geta ekki séð fyrir hvernig ákveðinn einstaklingur bregst við ákveðnu lyfi þarf oft að prófa nokkur lyf áður en hið rétta finnst. Sálfræðingur sagði fulltrúa Vaknið!: „Læknar þurfa oft að reyna þrjú til fjögur mismunandi lyf áður en þeir detta niður á lyf sem hrífur og hefur fæstar hliðarverkanir.“
Sem betur fer er hægt að ráða við flestar aukaverkanirnar. Hvað Irene varðaði þurfti ekki annað en að skipta um lyf. Slenið hvarf með öllu, svo og hugvillur hennar. Hún var útskrifuð af geðsjúkrahúsinu og tók að lifa eðlilegu lífi á nýjan leik! Í næstum 30 ár hélt hún sér á réttum kili — þangað til hún reyndi að hætta við lyfið. Hún segir: „Ég hélt að ég væri heilbrigð. En eftir eitt ár fór hugsunin aftur út á villigötur. Læknirinn sagði mér að fara að nota lyfið aftur.“ Það var óverulegt gjald fyrir að koma lífi hennar aftur á réttan kjöl.
Lyfjameðferð skilar ekki alltaf svona góðum áangri og oft er batinn mjög hægfara. Auk þess hafa sumir sjúklingar megnustu óbeit á lyfjunum. En þegar einkennin eru svo alvarleg að þau gera fólk ófært um að lifa eðlilegu lífi er oft ekki um annað að velja en að taka annaðhvort lyf eða vera á geðveikrahæli.
Annars konar meðferð
Athyglisvert er að sykur, hveiti, mjólk og blý, svo og vítamínskortur, hefur allt verið bendlað við geðtruflanir. Það hefur vakið þá spurningu hvort unnt sé að beita næringarefnafræði við meðferð á kleifhugasýki. Sú aðferð hefur þegar skilað nokkrum árangri við meðferð á þunglyndi. Og sumir vísindamenn — þeirra á meðal Nóbelsverðlaunahafinn Linus Pauling — halda því fram að stórir skammtar af vítamíni hafi dregið verulega úr kleifhugasýkieinkennum sumra sjúklinga.
Mörgum þykir þessi hugmynd sannfærandi. Þeir sem aðhyllast vítamínlækningar af þessu tagi benda á að sjúkdómur að nafni húðkröm, sem stafar af B-vítamínskorti, hefur í för með sér einkenni sem líkjast geðveiki. Til lækningar eru gefnir stórir skammtar níasíns sem er ein tegund B-vítamíns. En kemur þessi aðferð kleifhugasjúkum að gagni? Fram til þessa hefur fylgismönnum vítamínlækninga ekki tekist að sannfæra hina íhaldsamari starfsbræður sína um það.
Í skýrslu frá bandarísku geðheilbrigðisstofnuninni er að finna eftirfarandi varnaðarorð: „Þótt svo kunni að virðast sem kenningin um vítamíngjafir til geðlækninga sé verðugt rannsóknarefni, hafa rannsóknir litlum eða engum stoðum hleypt undir fullyrðingar manna um lækningaáhrif þeirra.“ Að sjálfsögðu er gott mataræði, þar sem séð er fyrir öllum nauðsynlegum næringarefnum í réttum hlutföllum, skynsamlegt. Líklegt er þó að læknir sé í bestri aðstöðu til að úrskurða um hvort um alvarlegan vítamínskort sé að ræða.
Dr. David Shore, við þá deild bandarísku geðheilbrigðisstofnunarinnar sem fæst við rannsóknir á kleifhugasýki, lýsti stöðu málsins svo í hnotskurn í viðtali við Vaknið!: „Allir myndu vilja finna auðvelda lækningu á kleifhugasýki — svo sem vítamíngjöf eða himnuskiljun.b En málið er bara ekki svona einfalt. Við vildum gjarnan að það væri það.“
Menn ættu samt sem áður að sýna tilhlýðilega varúð gagnvart hvers kyns meðferð og taka æsifengnar fullyrðingar með fyrirvara. „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ (Orðskviðirnir 14:15) Ekki gangast undir neina meðferð í blindni. Sé mælt með lyfjum skalt þú taka þér tíma til að kynna þér hugsanlegar aukaverkanir þeirra.
Hughreysting til geðsjúkra
Þar eð við lifum „örðugar tíðir“ þurfa menn að þola töluvert álag og streitu. (2. Tímóteusarbréf 3:1; Lúkas 21:26) Og þar eð við þurfum öll að þola hin veiklandi áhrif syndar og ófullkomleika er ekki að undra að jafnvel sumir, sem óttast Guð, hafa orðið fórnarlömb geðrænna sjúkdóma. — Rómverjabréfið 5:12.
En skilningur á því að geðveiki sé sjúkdómur hjálpar okkur að hafa öfgalaust viðhorf til hennar. Irene óttaðist til dæmis um tíma að sjúkleiki hennar stafaði af áhrifum illra anda. Þótt þeim áhrifum geti verið til að dreifa í sumum tilvikum kennir Biblían ekki að allir sjúkdómar stafi af áhrifum illra anda. (Efesusbréfið 6:12; samanber Matteus 4:24; Markús 1:32-34; Postulasöguna 5:16.) Oftar en ekki er um kleifhugasýki að ræða þegar einhver tekur að heyra raddir eða hegðar sér undarlega.
Irene var það mikill léttir að vita að sjúkleiki hennar stafaði ekki af áhrifum illra anda. Hún leitaði læknishjálpar og naut góðs af. Gott er þó að muna að Biblían segir frá veikri konu sem „hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni, en engan bata fengið, öllu heldur versnað.“ Aðeins Jesús Kristur gat læknað hana. (Markús 5:25-29) Læknavísindum nútímans eru líka takmörk sett. Að vísu er margt hægt að gera til að lina þjáningar sínar, en endalaus leit að lækningu sem er ekki til kemur að litlu gagni. Sumir þurfa einfaldlega að læra að lifa við vanheilsu sína og þola hana.
Sú vitneskja að Guð beri djúpa umhyggju fyrir okkur getur þó létt áhyggjur okkar verulega. (1. Pétursbréf 5:6, 7) „Jehóva hefur haldið mér uppi í gegnum þetta og marga aðra erfiðleika,“ segir Irene. Hún vonast líka eftir nýrri heimsskipan undir stjórn Jesús Krists þar sem „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24; 2. Pétursbréf 3:13) „Að hafa stöðugt fyrir augunum launin, eilíft líf í paradís, sem nú eru svo nálæg, hefur hjálpað mér að vera staðföst.“ Trú hennar hjálpar henni meira en nokkurt lyf sem læknar geta boðið.
[Neðanmáls]
a Allt að 80 af hundraði kleifhugasjúklinga, sem hætta lyfjatöku, lenda aftur á spítala.
b Hér er átt við aðferð, sem hlotið hefur mikla athygli, og felst í því að nota himnuskiljun til að sía úr blóðinu eiturefni sem sögð eru valda kleifhugasýki. Fram til þessa hefur aðferðin ekki staðist prófun vísindanna.
[Rammagrein á blaðsíðu 25]
Efnafræði kleifhugasýkinnar
Lýsa má heilanum sem gífurlega flóknu boðskiptaneti eða tengivirki sem tengir saman milljarða taugunga eða taugafrumna. Út frá taugungunum hríslast svonefndar griplur sem taugaboð ganga eftir. Griplur aðlægra taugunga snertast þó ekki heldur aðskilur þær bil sem nemur þrem hundraðþúsundustu úr millimetra (0,00003 mm). Til að taugaboð komist leiðar sinnar þurfa þau að stökkva þar á milli. Fruman gefur því frá sér efni, nefnd boðefni eða efnaboðberar, sem „synda“ til næstu frumu og krækja sér á sérstakar skynstöðvar sem hver um sig er gerð til að taka við ákveðnu efni.
Í heilbrigðum heila gengur þetta lipurlega fyrir sig, en hjá kleifhugasjúkum virðast taugaboðin oft stjórnlítil. Sumir halda að of mikið magn dópamíns auki virkni taugunganna um of svo að efnaboðin misfarist. Þannig verði til samhengislausar hugsanir. Þó er ekki að finna óeðlilegt dópamínmagn í heilum allra kleifhugasjúklinga. Getur hugsast að heilar sumra séu hreinlega of næmir fyrir dópamíni? Eru til mismunandi tegundir kleifhugasýki? Getur hugsast að einhver annar afbrigðileiki í efnafræði heilans sem hafi áhrif á dópamínið?
Í rauninni kann enginn svör við því. Enginn veit heldur með vissu hvort óeðlileg efnastarfsemi veldur kleifhugasýki eða öfugt. Efnastarfsemi er aðeins einn þáttur ráðgátunnar um kleifhugasýkina.
[Rammagrein á blaðsíðu 26]
Lostmeðferð umdeild
Lostmeðferð er líklega umdeildasta læknismeðferðin sem um getur. Ógnvekjandi lýsingar á meðferðinni í kvikmyndum, svo sem í myndinni One Flew Over the Cuckoo’s Nest, hafa gert fólk almennt óttaslegið við lostmeðferð. Þó er áætlað að í Bandaríkjunum einum fari hundrað þúsund sjúklingar í lostmeðferð ár hvert. Könnun meðal sálfræðinga leiddi í ljós að lostmeðferð er beitt „nánast aðeins þegar lyfjagjöf, oftast í stórum skömmtum og oft í tengslum við sálfræðimeðferð, hefur ekki skilað árangri.“
Lostmeðferð hefur tekið ýmsum breytingum svo að hún er ekki sú hræðilega pína sem flestir ímynda sér. Þegar rétt er að farið finnur sjúklingurinn ekkert til. Hann er svæfður og gefið vöðvaslökunarlyf (til að koma í veg fyrir sköddun á beinum). Rafskautum er komið fyrir á höfði hans og veikum rafstraum hleypt í gegnum heilann sem veldur skammvinnu flogi.
John Bonnage, upplýsingafulltrúi bandaríska geðlæknafélagsins, greinir frá því að starfshópur á vegum félagsins hafi komist að þeirri niðurstöðu, að lostmeðferð væri „einhver áhrifaríkasta leiðin til að meðhöndla þunglyndi.“ Bonnage sagði í viðtali við Vaknið!: „Lostmeðferð er nú sjaldan beitt til að meðhöndla kleifhugasýki nema alvarlegt þunglyndi sé henni samfara.“
Læknar vita í raun ekki hvernig eða hvers vegna lostmeðferð kemur stundum að gagni. Andstæðingar þessarar aðferðar hafa því líkt henni við það að „sparka í sjónvarpstækið þegar myndin verður óskýr.“ Ýmislegt bendir þó til að raflost hafi lík áhrif á taugaboð og geðlyf. Gagnrýnendur aðferðarinnar segja að hún sé hættuleg og geti valdið heilatjóni. Benda þeir í því sambandi á það að viss hætta sé á minnistapi og jafnvel dauða. Þeir sem aðhyllast þessa aðferð segja hins vegar að breyttar aðferðir hafi stórlega dregið úr þessari áhættu. Þeir halda því einnig fram að hin mikla sjálfsmorðshætta, sem fylgir alvarlegu þunglyndi, geri að verkum að kostir lostmeðferðar séu mun þyngri á metunum en áhættan.
[Rammagrein á blaðsíðu 28]
Meðferð að hætti Freuds — hjálp eða hindrun?
Dr. David Shore við þá deild bandarísku geðheilbrigðisstofnunarinnar, sem fæst við rannsóknir á kleifhugasýki, sagði í viðtali við Vaknið!: „Sálgreiningu er mun minna beitt við geðlækningar nú en áður.“ Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að allt þykir benda til að sálkönnun að hætti Freuds og aðrar aðferðir af svipuðu tagi hreinlega lækni ekki kleifhugasýki. Sálkönnun að hætti Freuds byggist á þeirri ósönnuðu forsendu að geðsjúkdómar séu viðbrögð við lífsreynslu, við sálrænu áfalli í bernsku sem geymt er í undirvitundinni. Sálkönnuður reynir að skoða undirmeðvitundina með spurningum og hugmyndatengslum þar sem ein hugmynd vaknar af annarri, til að hjálpa sjúklingnum að fá innsýn í orsök vandamálanna.
Kleifhugasjúklingar eiga hins vegar í erfiðleikum með að tjá sig. Dr. E. Fuller Torrey líkir því að láta slíka sjúklinga gangast undir sálkönnunarmeðferð við það að „beina flóði inn í borg sem fellibylur hefur gengið yfir.“
Þá er að nefna hættuna á svonefndri „gagnúð“ sem er yfirfærsla tilfinningatengsla hins sjúka til læknisins. Sumir fullyrða að sjúklingar hafi orðið „háðir“ sálkönnuðum sínum, ófærir um að binda enda á meðferðina. Mjög náin kynni við einhvern af hinu kyninu geta auk þess boðið upp á siðferðileg vandamál.
Geðlæknar hallast því flestir að líffræðilegri meðferð og líta á hefðbundna sálkönnun sem úrelta til lækningar á kleifhugasýki. Þó getur einhvers konar samtalsmeðferð komið að gagni í tengslum við lyfjameðferð, til að veita sjúklingi stuðning, hjálpa honum að skilja sjúkdóm sinn og innprenta honum nauðsyn þess að taka lyfin. Og stundum spyr læknir rannsakandi spurninga sem hjálp við að greina sjúkdóminn. Þetta er hins vegar ekki hið sama og sálkönnun.